Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur kynnt áform um lagasetningu í samráðsgátt stjórnvalda um að heimila vörslu takmarkaðs magns ávana- og fíkniefna. Með frumvarpinu er stigið skref í átt að frá refsistefnu í fíkniefnamálum. Í rökstuðningi fyrir áformunum segir að mikilvægt sé að leggja áherslu á skaðaminnkun og að draga úr neyslu- og fíknivanda. „Einn liður í því er að líta á neytendur ávana- og fíkniefna sem sjúklinga fremur en afbrotamenn.“
Samkvæmt gildandi löggjöf er varsla hvers kyns skammta af ávana- og fíkniefnum óheimil og refsiverð. Ekki er tilgreint í áformum ráðherra hvað mörkin verði dregin um hversu mikið magn ávana- og fíkniefna einstaklingur megi hafa undir höndum án þess að það sé refsivert, verði breytingarnar að veruleika.
Í fylgiskjali sem birt hefur verið í samráðsgátt segir að frumvarpið muni byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar, sem miði fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingu, notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna, án þess að meginmarkmiðið sé að draga úr vímuefnanotkun. „Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild. Með því að afnema mögulega refsingu vegna vörslu skammta ólöglegra vímuefna ætlaða til einkanota væri stigið stórt skref í átt að viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi gagnvart fólki sem notar vímuefni, lögleg sem ólögleg.“
Til stendur að leggja fram frumvarp um málið á yfirstandandi þingi.
Frumvarp fjögurra stjórnarandstöðuflokka fékk ekki brautargengi
Líklegt er að þverpólitísk sátt verði um að samþykkja frumvarp heilbrigðisráðherra, þótt átök geti orðið um hversu langt eigi að ganga. Haustið 2019 lagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, ásamt átta þingmönnum úr þingflokkum Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins fram frumvarp þess efnis að fellt verði úr lögum bann við vörslu, kaupum og móttöku ávana- og fíkniefna.
Frumvarp þingmannanna fól í sér að stað þess að fortakslaust bann væri við vörslu efna þá sé varsla efna einungis bönnuð þegar magn þeirra er umfram það sem getur talist til eigin nota. Þannig er tryggt að áfram verði hægt að refsa þegar augljóst er að efnin séu ekki ætluð til einkanota.
Áfram yrði hins vegar hægt að sakfella fyrir það sem kann að teljast alvarlegra brot á lögum um ávana og fíkniefni, þar á meðal innflutningur, útflutningur, sala, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efna.
Í greinargerð frumvarpsins sagði að „brotthvarf frá refsistefnu sem gengur út á að jaðarsetja neytandann víkur því nú um allan heim fyrir stefnu sem byggist á því að veita neytendum sem á þurfa viðeigandi þjónustu. Með samþykkt frumvarps þessa mundi Ísland skipa sér í fremstu röð hvað varðar heilbrigðisþjónustu og mannúðlega nálgun gagnvart þeim neytendum vímuefna.“
Frumvarp stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, sem var efnislega á nánast sömu slóðum og hugmyndir heilbrigðisráðherra, hlaut ekki brautargengi. Í fylgiskjali í samráðsgátt stjórnvalda segir þó að höfð verði hliðsjón af efni þingmannafrumvarpsins frá haustinu 2019 „og þeim athugasemdum sem bárust vegna þess við þinglega meðferð“ við gerð nýs frumvarps.
Sex af hverjum tíu föngum áttu við vímuefnavanda að stríða
Umræða um afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu hefur staðið yfir hérlendis árum saman. Árið 2014 gerði Kjarninn röð frétta um fangelsismál. Við gerð þeirra fékk hann aðgang að miklu magni af tölfræði hjá Fangelsismálastofnun. Á meðal þess sem fram kom var að 30 prósent þeirra sem sátu inni (42 af 139) í íslenskum fangelsum í nóvember 2014 sátu inni fyrir fíkniefnabrot. Það voru nánast jafn margir og sátu inni fyrir kynferðisbrot (25) og ofbeldisbrot (22) til samans. Þegar horft var til allra fanga í afplánun, líka þeirra sem voru að afplána utan fangelsa, voru 55 að afplána dóm vegna fíkniefnabrota.
Þann 22. júní 2015 svaraði Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, fyrirspurn á Alþingi um afplánun fanga í fangelsi. Í svari hennar kom fram að tæplega 60 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum eigi við vímuefnavanda að etja. Þar sagði einnig að rúmlega 70 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum ættu sér sögu um slíkan vanda. Svarið byggði á óbirtri rannsókn sérfræðinga.
Þegar umfjöllunin Kjarnans um fangelsismál var endurtekin 2018 kom í ljós að flestir þeirra sem þá afplánuðu dóma eða höfðu hlotið óskilorðsbundinn dóm gerðu það fyrir fíkniefnabrot, eða 28 prósent fanga. Alls afplánuðu 16 prósent fanga dóma vegna auðgunarbrota og sama hlutfall vegna umferðarlagabrota. Ellefu prósent fanga afplánuðu dóma vegna manndráps eða tilraunar til manndráps, 13 prósent vegna ofbeldisbrota og 14 prósent vegna kynferðisbrota.
Í skýrslu starfshóps sem dómsmálaráðherra fól að skila tillögum um leiðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsingar, sem birti niðurstöður sínar í fyrra, sagði meðal annars að „hlutfall fanga fyrir fíkniefnabrot hefur vaxið mjög í fangelsum landsins á síðustu árum. Árið 2019 var hlutfallið komið í 40 prósent allra fanga og vel á annað hundrað afplánaði dóm fyrir brot af því tagi. Í lok síðustu aldar sátu einungis innan við tíu prósent fanga í fangelsi fyrir fíkniefnabrot.“