Nýlega kom út skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins, Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands, sem er ýtarlegt yfirlit um viðskiptastefnuna og alþjóðlega viðskiptasamninga. Ljóst er að mikið hagræði hefur skapast af slíkum samningum og þeir verið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga, bæði fyrirtæki og almenning. Spurningin er hins vegar hvort og hvernig íslenskt samfélag sé í stakk búið til að mæta þeim kröfum sem alþjóðleg viðskipti gera, m.a. með nógu víðtækri og samræmdri stefnu í mennta- og atvinnumálum.
WTO – Regluverk sem gætir hinna smærri
Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) byggir á alþjóðasamstarfi sem hefur verið í stöðugri þróun allt frá Bretton Woods-samkomulaginu árið 1949. Í skýrslu ráðuneytisins er áréttað hve stofnunin hefur aukið gagnsæi og auðveldað eftirlit með alþjóðlegum viðskiptum, en auk þess er hún vettvangur fyrir aðildarríkin til að taka upp og leysa úr ágreiningi um aðgerðir sem hamla viðskiptum. Regluverkið takmarkar einnig möguleika öflugri aðildarríkja til að neyta aflsmunar og hefur Ísland því, ásamt öðrum smáríkjum, beitt sér fyrir því að samningarnir séu virtir og alþjóðlega viðskiptakerfið styrkt í sessi.
Í skýrslunni er fjallað um stöðu utanríkisviðskipta og gang mála innan WTO, en undir regluverki hennar hefur byggst upp umfangsmikið net fríverslunarsamninga sem stuðla að enn frekara frelsi í milliríkjaviðskiptum. Þannig eru fríverslunarsamningar Íslands og EFTA lykillinn að mörkuðum og bættum markaðsskilyrðum fyrir íslensk fyrirtæki í þeim ríkjum sem samið hefur verið við. Auk þess má finna í skýrslunni ítarlegt yfirlit yfir alla helstu viðskiptasamninga Íslands og vikið er að áhrifum yfirstandandi heimsfaraldurs á íslenskan útflutning.
Í skýrslunni segir að afstaða íslenskra stjórnvalda hafi grundvallast á samheldni Vesturlanda um fríverslun og frelsi sem byggst hefur upp allt frá síðari heimsstyrjöld og þeim ávinningi sem það skilar þjóðarbúinu. Ísland hafi því verið í þeim hópi ríkja sem vilja vinna að endurbótum innan WTO en standa jafnframt vörð um þann árangur sem hefur náðst frá síðari heimsstyrjöld.
Samtök iðnaðarins – Mikilvægi skýrrar atvinnustefnu og samhæfingar
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) hrósar skýrslunni og segir hana vera einskonar handbók um það sem hefur verið að gerast í málaflokknum. Hann sér jafnframt ástæðu til að hrósa utanríkisráðherra fyrir áhuga á viðskiptamálum, sem hann hafi sýnt í verki, m.a með ýmsum samningum um utanríkisviðskipti. Nefndi hann einnig áherslu á viðskiptaþjónustu Utanríkisráðuneytisins í tengslum við COVID-19 þar sem t.d. landamæralokanir hafa valdið fyrirtækjum vandræðum.
Sigurður minnir á það grundvallaratriði að aukinn útflutningur sé forsenda fyrir bættum lífskjörum, en um leið og útflutningur verði fjölbreyttari verði hagsmunirnir sem eru undir þ.a.l. miklu flóknari og kalli á annað hagsmunamat.
Jafnframt því að innlend og erlend fjárfesting sé nauðsynleg til að auka útflutning sé mikilvægt að auka fjárfestingu í nýsköpun, menntun og innviðum og gott dæmi sé öflug gagnatenging Íslands við útlönd. Það sé því grundvallaratriði að umgjörðin um þessa þætti sé í lagi og hafa samtökin kallað eftir skýrari atvinnustefnu sem snýst um samhæfingu þessara grunnþátta.
Eins og staðan er ber ekkert eitt ráðuneyti ábyrgð á því að hvetja til erlendrar fjárfestingar og getur falist í því ákveðin hindrun. Þegar hlutirnir eru á höndum margra aðila verður uppbygging ekki eins markviss og hún gæti orðið. Þó stórstígar framfarir hafi vissulega orðið á undanförnum árum þyrfti að huga betur að áherslum í menntakerfinu, að þær styðji við atvinnuþróun, að hugsa allt í stærra samhengi með breiðari heildarhugsun og stefnu.
Sigurður segir hvata eins og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar, og vegna fjárfestinga í sprotum hafa skilað miklu. Fjárfesting í rannsóknum og þróun hafi aldrei verið meiri en 2019 og farið úr 55 í 70 milljarða, eða um 2,35% af landsframleiðslu. Sigurður spáir því að hlutfallið fari yfir 3% á þessu ári sem er markmið vísinda- og tækniráðs og stjórnvalda en jafnframt viðmið margra ríkja. Svo virðist sem þarna séu hlutirnir að þokast í rétta átt því þetta er í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að skapa fleiri störf í þekkingargreinum.
Sigurður nefnir þátt Íslandsstofu sem hefur verið endurskipulögð og hann segir vera gott innlegg til að efla markaðssetningu erlendis. Má velta því upp hvort Íslandsstofa, hvers hlutverk er m.a. að hvetja til aukinnar erlendrar fjárfestingar, þurfi ekki aukinn stuðning stjórnvalda á þeirri vegferð, sér í lagi varðandi umbætur til að greiða götu fjárfestinga. Skýrsla ráðuneytisins fjallar hins vegar ekkert um erlendar fjárfestingar og hvernig megi stuðla að þeim með markvissari hætti að öðru leyti en því að einn kafli fjallar um fjárfestingasamninga. Slíkir samningar eru vissulega mikilvægir, en hér virðist vera tækifæri til að vinna að frekari stefnumörkun og skarpari framtíðarsýn.
„Eitthvað annað“ er að verða aðal
Þegar tekist hefur verið á um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi er gjarnan deilt á andstæðinga slíkrar uppbyggingar, sagt að þeir hafi engar hugmyndir um hvað ætti þá að koma í staðinn – nema þá bara „eitthvað annað“. Allt sé það óljóst, huglægt og þar með bara einhverjir draumórar, sem er skiljanlegt viðhorf þegar hinn kosturinn er stóriðja með öllum þeim áþreifanlegu umsvifum sem henni fylgir.
Það vekur því athygli að SI telja mestu tækifærin framundan einmitt vera falin í hugverkaiðnaði – sem nefndur hefur verið fjórða stoðin i íslensku efnahagslífi – hinar þrjár eru: sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkusækinn iðnaður. Einkennandi greinar hugverkaiðnaðar eru líf- og heilbrigðistækni, upplýsingatækni, tölvuleikjaiðnaður, hátækniiðnaður og skapandi greinar eins kvikmyndagerð og tónlist.
Sigurður leggur áherslu á að nú sé rétti tíminn til að styðja við hugverkaiðnaðinn, stoðin byggir á mörgum greinum og í því felst styrkurinn þegar næsta niðursveifla verður.
Þvert á það sem margir kynnu að halda er fjórða stoðin ekki á byrjunarreit því hún er þegar orðin til með þróun sem hófst fyrir 20–30 árum. Sigurður segir hugverkaiðnað því hafa alla burði til að verða öflugasta stoðin þegar fram í sækir. Hefur því verið spáð að framundan sé áratugur nýsköpunar, ekki bara á Íslandi heldur einnig á heimsvísu, þar hefur COVID-19 mikið að segja því marga hluti hefur þurft að hugsa upp á nýtt.
Félag atvinnurekenda – tvískinnungur í tollamálum
Ólafur Stephensen hjá Félagi atvinnurekenda (FA) segir félagið fagna sérstaklega skýrri stefnumörkun utanríkisráðherra, að halda áfram á þeirri braut að auka fríverslun og ryðja úr vegi hindrunum í milliríkjaviðskiptum Íslands. Það komi skýrt fram í skýrslunni að Ísland sé lítið og opið hagkerfi, sem á gífurlega mikið undir útflutningi og ekki síður innflutningi, enda sé innlend framleiðsla á neytendavörum tiltölulega fábreytt. Ísland eigi því meira en flest önnur ríki undir frjálsum alþjóðaviðskiptum.
Á þeim bæ er fólk jafnframt ánægt með skýra stefnu nú þegar talsvert sé sótt að stjórnvöldum um að vinda ofan af skrefum sem hafa verið tekin í átt til frjálsari viðskipta með búvörur á síðustu árum. Þó bendir Ólafur á að í skýrslunni komi enn fram sá tvískinnungur, sem lengi hafi verið ákveðinn ljóður á utanríkisviðskiptastefnu Íslands, að tala eindregið fyrir afnámi ríkisstyrkja og niðurfellingu tolla í sjávarútvegi en verja um leið ríkisstyrki og tolla í landbúnaði, sem yfirleitt eru settir á með sömu rökum og slíkar viðskiptahindranir í sjávarútveginum.
Að sögn Ólafs er einnig skautað heldur létt yfir tollvernd íslensks landbúnaðar, en samkvæmt nýlegri skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins er hún margföld á við það sem er í Evrópusambandinu eða að meðaltali í OECD-ríkjunum.
Hann bendir einnig á að skýrsluhöfundar taki með í reikninginn þróunina í heimshlutum sem teljast ekki til hefðbundinna markaðssvæða Íslands, til dæmis gífurlegan vöxt efnaðrar millistéttar í Asíu. Í því samengi sé afar mikilvægt að tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að þessum ört vaxandi mörkuðum.
FA lýsir þó almennri ánægju með þá meginstefnu sem er í átt til aukins frjálsræðis og samvinnu í alþjóðaviðskiptum. Jafnframt að Ísland skipi sér í sveit með ríkjum sem vilja efla regluverk WTO og tryggja að farið sé eftir því ef deilur koma upp í alþjóðlegum viðskiptum í stað þess að fara í tollastríð eins og gerst hefur undanfarin ár. Þau taka heilshugar undir með utanríkisráðherra þegar hann talar um mikilvægi þess að sporna við einangrunarstefnu og standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið.
Orð Ólafs um tvískinnung íslenskra stjórnvalda, hvað varðar tollvernd og ríkisstyrki landbúnaðar, er rétt að hafa í huga þegar lagt er mat á metnað núverandi utanríkisráðherra og stjórnvalda hvað varðar annars vegar gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin og nýs viðskiptasamnings við Bretland. Fríverslun við Bandaríkin er alltaf og án undantekninga háð því að samningar náist um fríverslun með landbúnaðarvörur. Það eitt og sér ætti að slá mjög á væntingar um slíkan samning.
Það sama á við um samninga við Bretland. Í ljósi mikilvægis bresks landbúnaðar, og sterkari stöðu hans innan breska stjórnkerfisins eftir Brexit, má ekki gera ráð fyrir öðru en að hagsmunagæsla breskra bænda í viðskiptasamningum við Ísland og hin EFTA-ríkin verði síst minni en starfsfélaga þeirra innan EFTA.
Litið til austurs – fylgir hugur máli?
Þrátt fyrir að Evrópa sé okkar helsta markaðssvæði hefur lengi verið horft til Asíu og víðar með það fyrir augum að auka fjölbreytni og möguleika í utanríkisviðskiptum. Umrædd skýrsla tiltekur þá þróun sem er að verða með miklum vexti efnaðrar millistéttar í Asíuríkjum, í heimshluta sem vissulega telst ekki til hefðbundinna markaðssvæða Íslands. Eins og bent var á að framan og fram kemur í skýrslunni, er mikilvægt að tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að þessum ört vaxandi mörkuðum.
Ljóst er að sókn inn á þá markaði er kostnaðarsöm og kostar vinnu og undirbúning opinberra aðila og má spyrja hvort þarna fylgi hugur máli. Ísland rekur sendiráð í Indlandi, Japan og Kína, en þau eru tiltölulega fáliðuð. Sendiráð Íslands á Indlandi hefur auk þess verið án sendiherra í meira en hálft ár, og þrátt fyrir að mikilvægi aukinna viðskipta við Indland hafi oft verið haldið á lofti, m.a. vegna væntra aukinna viðskiptatækifæra, var staða staðgengils sendiherra þar lögð niður fyrir u.þ.b. 4 árum. Sama er uppi á teningnum í Japan, en sendiherra okkar þar er eini útsendi starfsmaðurinn. Mjög er treyst á staðarráðna starfsmenn, sem er vissulega skynsamlegt, en má spyrja sig hvort slíkt geti talist fullnægjandi.
Þarna endurspeglast kannski ákveðin togstreita í utanríkisstefnunni og framkvæmd hennar. Utanríkisráðherra er mjög umhugað um utanríkisviðskipti, eins og sjá má á þeim skýrslum sem hann hefur látið vinna að undanförnu. Auk þessarar skýrslu er nú nýkomin út skýrsla um samskiptin við Grænland þar sem viðskiptamál skipa stóran sess. Síðasta sumar kom út skýrslan Saman á útivelli: Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar Covid-19 og hverfðist hún fyrst og fremst um mikilvægi utanríkisviðskipta og hlutverk utanríkisþjónustunnar í þeim efnum.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins síðastliðinn fimmtudag um hvernig útgjöld flestra ráðuneyta hafa blásið út er hins vegar eitt ráðuneyti sem sker sig úr, í fréttinni segir: „Framlög til utanríkisráðuneytisins hafa dregist saman um 2 prósent þrátt fyrir að framlög til varnarmála hafi aukist um 25 prósent og til þróunarsamvinnu um 53. Á tímabilinu hefur sendiráðum verið í heildina fækkað um fjögur.” Í ljósi almenns samdráttar á sama tíma og tveir málaflokkar – þróunarsamvinna og varnarmál – hafa hlotið verulega aukningu, hlýtur eitthvað annað undan að láta. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að það sé á kostnað hefðbundinnar utanríkisþjónustu og starfa hennar á vettvangi, þar með talið þjónustu við íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf.
Mis sterkt pólitískt bakland – Áskorun fyrir stjórnmálin
Íslendingar hafa löngum vanist vertíðarstemningu og uppgripum þegar atvinnumál eru annars vegar og litaði það stefnumörkun lengi vel. Sem betur fer hefur orðið breyting þar á og stjórnvöld jafnt sem atvinnulíf og almenningur hafa séð hag af meiri fjölbreytni. Ekki er lengur litið svo á að besta leiðin til að tryggja atvinnu og þar með lífskjör sé með stórkarlalegum framkvæmdum í byggðarlaginu, skuttogara eða verksmiðju. Nú er „eitthvað annað“ – hugverkaiðnaðnaður þar sem menntun, þekking og skapandi hugsun eru lykilatriðið – orðin fullgild stoð í atvinnu- og verðmætasköpun Íslendinga.
Í máli hagsmunaaðila kemur fram mikilvægi þess að horfa vítt á málin, forðast að gera einstökum atvinnugreinum og stoðum hærra undir höfði en öðrum. Sá tími er liðinn þegar eitthvað eitt átti að bjarga íslensku atvinnulífi. Stoðirnar fjórar; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, stóriðja og þekkingariðnaður, auk landbúnaðar hafa hins vegar mjög mis-öflugt pólitískt og samfélagslegt bakland. Það verður því verkefni stjórnmálanna að leysa þann ágreining farsællega og forðast að þar verði meiri klofningur en verið hefur.