Búið er að birta skrá yfir tilkynnta hagsmunaverði á sérstöku vefsvæði Stjórnarráðs Íslands. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var vefsvæðið sett í loftið seint á föstudag.
Á vefsvæðinu má sjá að hagsmunagæslusamtök hafa tekið verulega við sér eftir að svar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn þingmanns um fjölda skráðra hagsmunavarða var birt á fimmtudag. Í því svari kom fram að einn hagsmunavörður hafði verið tilkynntur á fyrstu tæpu tveimur mánuðum ársins, þrátt fyrir að lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrrasumar, hafi tekið gildi um liðin áramót. Samkvæmt lögunum áttu allir hagsmunaverðir, einnig kallaðir lobbíistar, sem reyna að hafa áhrif á ákvarðanatöku innan stjórnarráðsins og Alþingis með ýmsum hætti að skrá sig sem slíka.
Kjarninn greindi frá því í gær að eina skráningin sem barst í tíma hafi verið frá Hagsmunasamtökum heimilanna, grasrótarsamtök á neytendasviði sem og að þau hafi skráð þrjá einstaklinga.
Tilkynningum rignt inn síðustu daga
Lagasetningin gerði einnig ráð fyrir að skrá yfir tilkynningar um hagsmunaverði yrði birt á vef Stjórnarráðsins. Í svari forsætisráðherra sem birtist á fimmtudag sagði að vinna við gerð þess væri á lokastigi.
Vefsvæðið var sett í loftið í gærkvöldi og er nú aðgengilegt almenningi. Í svari forsætiráðherra kom einnig fram að ráðuneyti hennar hafi sent út ítrekun til stærstu hagsmunasamtaka landsins síðastliðin þriðjudag þar sem „áréttuð heimild þeirra til að senda tilkynningu um þá einstaklinga sem sinna hagsmunagæslu í umboði þeirra.“
„Gagnsæi þarf að ríkja um samskiptin“
Frumvarp um varnir gegn hagsmunaárekstrum innan Stjórnarráðsins, sem forsætisráðherra lagði fram, var samþykkt í fyrrasumar. Samkvæmt lögunum þurftu æðstu stjórnendum Stjórnarráðsins og aðstoðarmenn ráðherra að tilkynna um eignir sínar, skuldir og ábyrgðir hérlendis og erlendis, auk sömu upplýsinga um maka og ólögráða börn á framfæri þeirra frá og með síðustu áramótum, þegar lögin tóku gildi. Sama hópi er skylt að tilkynna til forsætisráðuneytisins gjafir og önnur hlunnindi og fríðindi í tengslum við starfið og ráðuneytið ætlar að birta almenningi þessar upplýsingar á vef Stjórnarráðs Íslands.
Í lögunum er líka að finna reglur um aukastörf æðstu stjórnenda í Stjórnarráðinu og aðstoðarmanna ráðherra þar sem kemur fram að störf þeirra teljist full störf og að meginreglu sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða þeim.
Í grein sem Katrín Jakobsdóttir skrifaði og birti á Kjarnanum í júní 2020 sagði að eitt af meginviðfangsefnum frumvarpsins væri að ná utan um samskipti handhafa framkvæmdarvalds við svokallaða hagsmunaverði. „Hugtakið hagsmunaverðir nær yfir þá sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni. Það ber að taka fram í þessu samhengi að almennt er sjálfsagt að stjórnvöld taki tillit til þarfa og væntinga þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem ákvarðanir stjórnvalda hafa áhrif á. Það er heldur ekki óeðlilegt að einkaaðilar feli hagsmunavörðum að gæta hagsmuna sinna gagnvart hinu opinbera, hvorki almennt né í einstökum málum. Gagnsæi þarf hins vegar að ríkja um samskiptin[...]Með nýjum reglum verður gagnsæi í kringum þessi samskipti aukið til muna. Upplýsingar um aðkomu hagsmunavarða og annarra einkaaðila að samningu stjórnarfrumvarpa skal tilgreina í greinargerð með frumvörpum. Það er mikilvægt til að alþingismenn og allur almenningur geti hæglega áttað sig á því þegar stjórnarfrumvarp er samið að tillögu utanaðkomandi aðila sem getur átt hagsmuna að gæta.“
Reynslan mun leiða í ljós hvort þörf sé fyrir strangari reglur
Lögin mæla einnig fyrir um bann við því að æðstu stjórnendur í Stjórnarráðinu og aðstoðarmenn ráðherra noti upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að í starfi sér eða öðrum til óeðlilegs ávinnings.
Æðstu stjórnendum verður auk þess óheimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði eftir að störfum fyrir Stjórnarráðið lýkur. Forsætisráðuneytið getur veitt undanþágu frá þessu banni ef lítil eða engin hætta er talin á hagsmunaárekstrum vegna nýja starfsins.
Í áðurnefndri grein Katrínar sagði hún að einhverjir kynnu að ætla að það að setja skýrari reglur um hagsmunaskráningu og aukið gagnsæi um æðstu stjórnendur í Stjórnarráðinu sýni að eitthvað tortryggilegt sé í gangi í stjórnsýslu ríkisins. Hún telur þvert á móti að það sýni vilja handhafa opinbers valds til að efla gagnsæi. „Ég tel að þessi lög feli í sér jákvætt skref í átt að opnari og vandaðri stjórnarháttum innan Stjórnarráðsins. Reynsla af framkvæmd þeirra mun enn fremur varpa ljósi á það hvort ástæða sé til að leiða í lög strangari reglur eða sambærilegar reglur um fleiri hópa opinberra starfsmanna, svo sem forstöðumenn ríkisstofnana.“