Á meðan Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og nú sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, var að biðja Guð um að blessa Ísland, fyrir nákvæmlega sjö árum í dag, og undirbúa neyðarlagasetningu sem bjargaði íslenska hagkerfinu, sátu tveir menn í myrkum bakherbergjum í bandaríska þinginu og reyndu finna lausnir á yfirþyrmandi vanda sem bandaríska fjármálakerfið stóð frammi fyrir. Þetta voru Henry M. Paulson, þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Ben Bernanke, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Á meðan, langt, langt í burtu
Á nákvæmlega sama tíma og Geir hélt ræðu sína, var Bernanke æfur af reiði vegna upplýsinga sem hann fékk um bága stöðu tryggingarrisans AIG. Tveimur dögum síðar, 8. október, samþykkti bandaríska þingið heimild til fjárinnspýtingar og hlutafjárkaupa í AIG fyrir 38 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega fimm þúsund milljörðum íslenskra króna.
Í nýrri bók sem Bernanke var að senda frá sér, The Courage to Act: A Memoir of A Crisis and Its Aftermath, upplýsir hann að bæði hann og Paulson hafi vísvitandi haldið upplýsingum frá almenningi, þegar þeir svöruðu spurningum um stöðu mála í bandaríska þinginu, vegna áhrifanna sem framkölluðust við fall Lehman Brothers bankans. Þeir óttuðust að „viðkvæm“ staða yrði enn verri, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á mörkuðum. Þeir hafi auk þess verið báðir hálf niðurbrotnir yfir því að hafa ekki tekist að leysa vanda Lehman með því að þvinga fram sölu á honum til breska bankans Barclays. Paulson hefur viðurkennt í sinni ævisögu, On The Brink, að hafa gjörsamlega brotnað saman þegar ljóst var að Lehman yrði ekki bjargað og hringt skíthræddur, með tárin í augunum, í konu sína. Hún stappaði í hann stálinu og sagði honum að halda áfram að vinna.
Stórmerkileg játning
Andrew Ross Sorkin, blaðamaður New York Times og höfundur metsölubókarinnar Too Big to Fail, segir í pistli á vef New York Times að þessar upplýsingar sem Bernanke hefur nú greint frá, séu stórmerkilegar og sýni að ekki hafi verið allt sem sýndist þegar dýpstu lægðir fjármálakreppunnar gengu yfir. „Fyrri yfirlýsingar Bernanke segja allt aðra sögu,“ segir Ross Sorkin.
DealBook: In Ben Bernanke’s Memoir, a Candid Look at Lehman Brothers’ Collapse http://t.co/2RreTaXpsb
Auglýsing
— NYT Business (@nytimesbusiness) October 5, 2015
Bernanke heldur því fram í bók sinni að fjármálakreppan á árunum 2007 til 2009 hafi verið hættulegasta fjármálakreppa í sögu Bandaríkjanna og líklega heimsins alls. Aðeins fordæmalaus inngrip seðlabanka og ríkisstjórna, og þá ekki síst í Bandaríkjunum, hafi bjargað heiminum frá aðstæðum sem fólk eigi erfitt með að átta sig á. Á svipstundu hefðu hjólin geta stöðvast. Bernanke segist stoltur af störfum sínum, og bandaríska stjórnvalda, á þessum tímum. Sumt hafi mátt fara betur, og eftir á hyggja þá hefðu bæði hann og Paulson mátt tala skýrar og koma fram með upplýsingarnar og leggja þær á borðið. En óttinn við þá spennu sem var að myndast hafi gert stjórnun á aðstæðum erfiða.
Henry M. Paulson, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir að stjórnefndur bankanna á Wall Street valdið sér miklum vonbrigðum með afneitun sinni. Bernanke lofar störf Paulson í nýrri bók sinni, og segir hann meðal annars hafa glímt við alvarlegan leka á upplýsingum. Mynd: EPA:
Mistök að fara ekki á eftir bankamönnum
Í bók sinni segir Bernanke enn fremur að það hafi verið mistök hjá stjórnvöldum að höfða ekki mál gegn stjórnendum stærstu fjármálafyrirtækjanna í Bandaríkjunum, þar sem skýr gögn hafi bent til lögbrota. Þá hafi mörg þeirra fjölmörgu mála sem þegar hafa verið höfðuð, beinst að of miklu leyti gegn fólki á gólfinu, sem oft var að framkvæma hluti sem stjórnendur bankanna annað hvort lögðu til eða vissu af. Ábyrgðin á slíkum hlutum sé þeirra sem séu við stýrið.
Börðust við leka
Í bók Bernanke kemur ennfremur fram að pólitískir aðstoðarmenn á skrifstofu Paulson hafi skapað mikinn vanda með því að leka stanslaust upplýsingum í fjölmiðla, um að ekki stæði til að setja svo mikið sem einn Bandaríkjadal úr vasa skattgreiðenda inn í einkafyrirtæki til að bjarga málunum. Segir Bernanke að þetta hafi komið frá fólki sem hafi ekki haft hugmynd um alvarleika stöðunnar, og hafi viljað slá pólitískar keilur með villandi málflutningi. Paulson hafi fljótlega áttað sig á því að þetta gæti hann, eða hans helstu trúnaðarmenn, ekki ráðið við og því ákveðið að halda spilunum þétt að sér og setja mikla tímapressu á þingið þegar þess hafi þurft. Aðeins þannig hafi verið mögulegt að afstýra fullkomnum glundroða.
Póker andlitin
Líkt og á Íslandi, þá glímdu stjórnvöld og seðlabankinn í Bandaríkjunum, við algjöra afneitun bankamanna þegar kom að stöðunni. Enginn hafi verið heiðarlegur gagnvart seðlabankanum og stjórnvöldum, og sagt að allt gæti hrunið ef ekki kæmi til fjárinnspýtingar ríkisins. Samt segir Bernanke, að það sé alveg öruggt, að allir hafi gert sér grein fyrir því að þannig hafi staðan verið. Póker andlit bankamanna hafi ekki gert neitt annað en að gera ákvarðanir erfiðari. Paulson hefur sjálfur sagt, að það hafi verið mikil vonbrigði, ekki síst í ljósi þess að hann var sjálfur bankastjóri Goldman Sachs bankans í um fimmtán ár, að stjórnendur bankanna hafi ekki verið traustsins verðir. Blessunarlega hafi hann og Bernanke, metið málin þannig að aðeins umfangsmikið inngrip með sjóðum skattgreiðenda, gæti bjargað Bandaríkjunum og raunar heiminum meira og minna öllum. Í ljós þess hvað þetta voru mikil inngrip, þá muni taka efnahaginn mörg ár til viðbótar við þau sjö sem þegar eru liðin frá þessum atburðum, að jafna sig.