Á þriðja tug flóttafólks frá Úkraínu sem var á vegum Útlendingastofnunar er þegar komið í svokallað millibilsúrræði á vegum sveitarfélaga, þaðan sem það fer svo í langtímaúrræði á vegum viðeigandi sveitarfélags eða í húsnæði á almennum leigumarkaði. Útlendingastofnun er með á sínum vegum 588 Úkraínumenn sem sótt hafa um hæli hérlendis vegna innrásar Rússlands í heimaland þeirra.
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttafólks frá Úkraínu, segir ómögulegt að segja til um hversu margir muni sækja hér um hæli vegna stríðsins. Þessa dagana sæki 20-30 manns um vernd frá Úkraínu á degi hverjum. Þá eigi eftir að koma í ljós hve margir sem komið hafi hingað á ferðamannavisa til 90 daga endi á því að sækja hér um hæli. Hingað fljúgi 50 flugvélar á viku frá Póllandi.
Þá sé einnig ómögulegt að segja til um það hversu lengi flóttafólkið muni halda hér til, en allt starf gangi þó út frá því að það verði hér til lengri tíma.
Alls höfðu 633 sótt um vernd frá Úkraínu í gær, fimmtudag, og eins og kom fram í máli Gylfa er stærstur hluti þeirra, eða 588, í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar. Þar af dvelja um 100 á einni hæð Hótel Sögu og aðrir í öðrum úrræðum sem Útlendingastofnun hefur á sínum vegum, en alls eru Útlendingastofnun með 1.500 hælisleitendur í sinni þjónustu.
200 störf en færri börn
Kveðið hefur verið á um að meðferð umsókna flóttafólks frá Úkraínu fái hraðmeðferð og tekur hún nú nokkrar vikur, en vonast er til þess að með opnun mótttökustöðvar í húsnæði Domus Medica verði úrvinnslutíminn enn styttri. Rúmlega mánuður er síðan fyrsta flóttafólkið kom hingað frá Úkraínu og er, eins og áður segir, á þriðja tug þegar komið úr úrræðum Útlendingastofnunar og í millibilsástandið sem Gylfi kallar „skjól“ í nokkrar vikur þar til þeim verður komið varanlega fyrir hjá sveitarfélögunum.
Sveitarfélögin segir Gylfi spila afar stórt hlutverk þegar kemur að málefnum flóttafólksins, bæði hvað varðar húsnæði og skólagöngu barna. Það hafi þó komið hans teymi á óvart hversu lítill hluti þeirra sem sótt hafi um hæli hér séu börn, eða einungis 27%. Þar af eru, það sem af er, 56 á leikskólaaldri, 106 á grunnskólaaldri og 36 á framhaldsskólaaldri. Álagið á skólakerfið virðist því, að svö stöddu, ekki ætla að verða jafn mikið og búast hefði mátt við, að því gefnu að börnin dreifist á milli sveitarfélaga. Að sögn Gylfa hafa alls 26 sveitarfélög sýnt því áhuga að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.
Hvað fullorðna fólkið varðar hafi Vinnumálastofnun auglýst eftir störfum fyrir flóttafólkið og hafa yfir 200 störf boðist þar í gegn. „Við erum bjartsýn á að atvinnurekendur séu til í að leggja fólki lið. Það er mikilvægt að þetta fólk komist inn í rútínu sem fyrst.“