Greint var frá því í lok síðustu viku að Arion banki hefði selt fimm prósent hlut í Símanum til hóps fjárfesta sem settur hafði verið saman af Orra Haukssyni, forstjóra Símans, á rúmlega 1,3 milljarða króna. Á meðal þeirra sem eru í kaupendahópnum eru nokkrir lykilstjórnendur innan Símasamstæðunnar, erlendir fjárfestar með reynslu af fjarskiptageiranum, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi, gamall starfsmaður Kaupþings og fjárfestir sem farið hefur mikinn í því að hagnast á íslenskum hlutabréfamarkaði eftir hrun.
Það er ýmislegt við söluna sem hefur vakið athygli.
Frumkvæðið kom frá Orra
Í fyrsta lagi voru kaupin ekki auglýst. Kjarninn beindi spurningum til Arion banka, sem seldi hópnum hlutinn, um hvernig viðskiptin hefðu komið til. Samkvæmt svörum hans kom frumkvæðið að viðskiptunum frá Orra Haukssyni, forstjóra Símans, sem sjálfur keypti 0,4 prósent hlut.
Í svörum bankans segir einnig að hann hafi séð ýmiskonar hag í þesum viðskiptum. Í fjárfestahópnum séu aðilar sem alla jafna fjárfesti ekki á Íslandi sem hafi auk þess mikla reynslu úr fjarskiptaheiminum. „Sú þekking sem þeir koma með að rekstri Símans var einn af þeim þáttum sem bankinn leit til við ákvörðun um söluna. Félagið stendur sterkara eftir með bæði lykilstjórnendur og einstaklinga með alþjóðlega reynslu úr fjarskiptaheiminum í hlutahafahópnum,“ segir í svari bankans.
Kaupverðið talið lágt
Í öðru lagi hefur verðið sem hópurinn greiddi fyrir hlutinn vakið athygli. Hópurinn keypti fimm prósent hlutinn á 1.330 milljónir króna, eða 2,5 krónur á hlut. Samkvæmt síðasta birta uppgjöri Símans var eigið fé hans 29,9 milljarðar króna. Miðað við kaupverðið sem fjárfestarnir greiddu fyrir fimm prósent hlut er markaðsvirði félagsins 26,6 milljarðar króna, eða 0,89 sinnum eigið fé Símans. Það þýðir í raun að ef Siminn hætti starfsemi í dag, seldi allar eignir sínar á raunvirði og greiddi hluthöfum út reiðufé þá myndi hópurinn innleysa hagnað up á um 165 milljónir króna.
Margir virðast telja að kaupverðið, miðað við hefðbundna mælikvarða, sé nokkuð lágt. Aðspurður hvernig það hafi verið ákveðið segir í svari Arion banka: „Kaupverðið byggði á samningaviðræðum milli aðila þar sem m.a. var horft til verðlagningar sambærilegra félaga út frá ýmsum mælikvörðum sem og annarra skilmála sölunnar, s.s. söluhömlur til 1. janúar 2017“.
Hærri margfaldari en í Vodafone
Til á ákveða hvert markaðsverð félaga er nota fjárfestar oft ákveðna margfaldara, t.d. á hagnað fyrir afskriftir, skatta og fjármagnskostnað (EBITDA). Eitt fjarskiptafélag er skráð í íslensku kauphöllina, Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi. Markaðsvirði Vodafone er 14 milljarðar króna, eða 4,5 sinnum EBITDA-hagnaður félagsins á árinu 2014. Þegar langtímaskuldum er bætt við kemur út að EBITDA-margfaldari félagsins er um 5,9. Þá er markaðsvirði Fjarskipta 1,6 sinnum eigið fé félagsins. Til viðbótar eru ýmsir markaðsaðilar á því að virði Fjarskipta sé vanmetið. IFS greining telur til að mynda að það ætti að vera 13 prósent hærra.
Síminn er félag með rúmlega tvisvar sinnum meiri veltu og víðfermari starfsemi en Vodafone. Það er því ekki að öllu leyti sambærilegt við Vodafone. Félagið skuldar til að mynda 24 milljarða króna í vaxtraberandi skuldir, sem er mun meira en Vodafone. Að teknu tilliti til langtímaskulda hans er virði hlutafjár Símans 50,6 milljarðar króna og EBITDA-margfaldarinn 6.1, sem er hærra en margfaldari Vodafone.
Segir hlutinn hafa verið til sölu fyrir áhugasama
En af hverju var hluturinn ekki bara boðinn hæstbjóðanda til sölu? Á það ekki að vera hlutverk banka að fá sem best verð fyrir eignir sem þeir sitja uppi með eftir að hafa endurskipulagt fyrirtæki sem lentu í fjárhagserfiðleikum?
Arion banki segir að það hafi lengi legið fyrir að hlutur bankans í Símanum hafi verið til sölu. Því til stuðnings bendir bankinn á undirsíðu á vef sínum þar sem eignir eru auglýstar til sölu. Á meðal þeirra hluta sem eru þar auglýstir er allur hlutur Arion banka í Símanum. Því hafi ekkert verið til fyrirstöðu fyrir áhugasama kaupendur að setja sig í samband við bankann og bjóða í eignina. Í þessu tilfelli hafi frumkvæðið komið frá fjárfestahópnum og það hafi verið mat bankans að um „áhugaverða aðila væri að ræða Símann sem myndi styrkja félagið og voru skilmálar ásættanlegir bankanum.
Hópur fékk að kaupa í Högum í aðdraganda skráningar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnendur og valin hópur fjárfesta fær að kaupa í félagi í aðdraganda skráningar þess á markað á Íslandi eftir hrun. Og ekki í fyrsta sinn sem það gerist hjá Arion banka.
Í nóvember 2010 rann út óskuldbindandi frestur til að skila tilboðum í kjölfestuhlut í smásölurisanum Högum, sem Arion banki sat með í fanginu eftir að undið hafði verið ofan af fjárfestingaævintýrum Baugs-fjölskyldunnar, fyrrum eigenda fyrirtækisins. Tíu aðilar, innlendir og erlendir, gerðu tilboð. Einn þessarra aðila var Stefnir, sjóðstýringarfyrirtæki í eigu Arion banka. Yfirmenn Stefnis buðu í kjölfarið fjárestunum Árna Haukssyni og Hallbirni Karlssyni, að vera með í kaupunum. Þeir buðu vini sínum til áratuga, Sigurbirni Þorkelssyni, og Tryggingamiðstöðinni að vera með sér og saman mynduðu þessir aðilar félagið Hagamel.
Vogabakki, fjárfestingafélag þeirra Árna og Hallbjörns,hafði fjárfest erlendis og gengið vel. Allar eignir þess voru utan hafta. Þeir vildu ekki þurfa að flytja neina peninga inn í gjaldeyrishöftin á þessum tíma og fengu því lánað fyrir kaupunum hjá viðskiptabanka sínum.
Hagamelur leiddi hóp sem kallaðist Búvellir sem fékk að kaupa 34 prósent hlut í Högum á 10 krónur á hlut áður en félagið var sett á markað. Aðrir í Búvöllum voru lífeyrissjóðir og sjóðir í stýringu hjá Stefni. Inni í samkomulaginu var líka forkaupsréttur á 10 prósentum til viðbótar á genginu 11 krónur á hlut áður en restin af hlutafé Haga var skráð á markað í desember 2011. Þann forkaupsrétt nýttu Búvellir sér. Félagið var síðast leyst upp og hver eining hélt eftir það á sínum hlut. TM fór auk þess út úr Hagamelssamstarfinu og eftir sátu þar þeir Árni, Hallbjörn og Sigurbjörn.
Hlutur þeirra var 8,2 prósent. Upprunalega greiddi félagið fyrir hann 982 milljónir króna. Þegar Hagar voru skráðir á markað var byrjunargengi bréfanna 13,5 krónur á hlut. Áður en viðskipti hófust hafði því Hagamelshópurinn hagnast um 314 milljónir króna. Sá hagnaður átti eftir að aukast mikið.
Til viðbótar fengu fimm lykilstjórnendur Haga gefins 1,4 prósent hlut í félaginu frá Arion banka. Tveir þeirra, þeir Finnur Árnason forstjóri og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, voru á meðal þriggja stjórnenda sem höfðu áður selt hluti í Högum til félagsins sjálfs á rúmlega einn milljarð króna. Þetta átti sér stað á árunum 2008 og 2009. Flestir stjórnendanna fimm hafa selt að minnsta kosti hluta þeirra bréfa sem þeir fengu gefins frá bankanum.
Seldu með 2,3 milljarða króna hreinum hagnaði
Í byrjun árs 2014 fór Hagamelahópurinn að kanna þann möguleika á að selja hlut sinn í Högum. Af varð að félagið seldi um 6,6 prósent á genginu 42 krónur á hlut. Fyrir það fengust rúmlega 3,2 milljarðar króna.
Með sölunni innleystu þeir um 2,3 milljarða króna hreinan hagnað á fjárfestingu sinni í félaginu, en tæp þrjú ár voru þá frá því að þeir lögðu út í hana. Hagamelur hefur síðan minnkað stöðu sína hægt og rólega og á í dag 1,07 prósent hlut í Högum. Félagið er enn stærsti einkafjárfestirinn í félaginu og markaðsvirði hlutar þess er um 492 milljónir króna miðað við gengi bréfa í Högum í dag, eða rúmlega helmingur þeirrar upphæðar sem þeir fjárfestu upprunalega í Högum.
Borgun seld á lágu verði
En það er ekki bara í viðskiptum með félög sem eru á leið á markað sem upp hafa komið aðdrottnanir um rausnarlegt gjafmildi banka. Í lok árs 2014 greindi Kjarninn frá því í röð fréttaskýringar að Landsbankinn, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkið, hafi selt 31,2 prósent hlut sinn í greiðslukortafyrirtækinu Borgun til félagsins Eignarhaldsfélagið Borgun slf.
Aðdragandi þeirra var þannig að kaupendurnir, fjárfestahópur leiddur af manni sem heitir Magnús Magnússon og stjórnendur Borgunar, hafi átt hugmyndina að kaupunum, hafi viðrað hana við stjórnendur Landsbankans sem leiddi til þess að hópurinn fékk í kjölfarið að kaupa hlutinn í Borgun. Þessi eign ríkisbankans var ekki auglýst og öðrum áhugasömum kaupendum var ekki gefið tækifæri til að bjóða.
Verðið sem kaupendurnir greiddu fyrir hlutinn þótti lágt bæði í innlendum og erlendum samanburði. Félagið greiddi um 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en hagnaður Borgunar í fyrra var um einn milljarður króna.
Þegar kaupverðið á hlutnum í Borgum er mátað við mælikvarða sem fjárfestar styðjast oft við þegar þeir meta fjárfestingakosti virðist það vera lágt, bæði í samanburði við virði erlendra greiðslukortafyrirtækja, virði annarra fjármálafyrirtækja og félaga sem skráð eru á markað á Íslandi.
Hluthafar Borgunar greiddu sér svo út 800 milljónir króna í arð í febrúar vegna reksturs fyrirtækisins á árinu 2014. Nýju hluthafarnir höfðu þá átt í Borgun í rúma þrjá mánuði. Þetta var í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem Borgun greiddi arð.
Sigurbjörn með aftur
Athygli vekur að Sigurbjörn Þorkelsson, sem var í Hagamelshópnum sem hagnaðist svo gríðarlega vel á viðskiptum sínum með bréf í Högum, er lika í hópnum sem keypti hlut í Símanum í lok síðustu viku. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvernig hlutirnir skiptast á milli þeirra aðila sem eru í hópnum að öðru leyti en að Orri Hauksson keypti 0,4 prósent hlut fyrir um 106 milljónir króna. Hann keypti mest allra stjórnenda.
Aðrir í hópnum, sem eru bæði innlendir og erlendir aðilar, keyptu því uppistöðuna af því sem Arion banki seldi. Það eru fimm erlendir fjárfestar (Bertrand Kan, Joe Ravitch, Adam Samuelsson, Troels Askerud og Kaj Juul-Pedersen) og þrír Íslendingar. Auk Sigurbjörns eru það þeir Stefán Ákason, sem var forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings ( sem síðar varð Arion banki) fyrir hrun, og Ómar Svavarsson, fyrrum forstjóri Fjarskipta, Vodafone á Íslandi, og núverandi framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafasviðs Sjóvá.
Kjarninn spurði Arion banka hvort það kæmi til greina að selja þessum hópi stærri hlut áður en að útboðinu í haust kæmi. Í svari bankans segir að ekkert slíkt liggi fyrir. „En bankinn skoðar alla ákjósanlega möguleika sem honum bjóðast við ráðstöfun eigna sinna.“