Stærsti bíla- og vélaframleiðandi heimsins, þýska fyrirtækið Volkswagen, glímir við mestu vandamál í sögu fyrirtækisins eftir að yfirvöld í Bandaríkjunum gerðu fyrirtækinu að innkalla 482 þúsund díselbíla sem komu á götuna á árunum 2009 til 2015. Ekki nóg með það heldur var sett á stjórnvaldssekti, sem umhverfismálaráðuneyti Bandaríkjanna ákvað, sem nemur 37.500 Bandaríkjadölum á hvert tilvik þar sem ófullnægjandi búnaður fannst. Í heildina er talið að Volkswagen þurfi að greiða átján milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 2.340 milljörðum króna.
Högg fyrir hluthafa í dag
Það er lítið brot við hliðina á högginu sem hluthafar félagsins hafa nú þegar þurft á taka á sig, en í dag hefur markaðsvirði félagsins lækkað næstum 17 milljarða dala, en markaðsvirði er í dag 65 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 8.500 milljarða króna.
Tárvotur á fundi
Martin Winterkorn, þýskur forstjóri Volkswagen, sendi frá sér yfirlýsingu í gær, og las hana upp tárvotur á blaðamannafundi. „Afsakið“ sagði hann, og horfði síðan út í sal. Hann sagði viðskiptavini og birgja fyrirtækisins eiga skilið að fá afsökunarbeiðni vegna þessa „galla" sem fundist hefði í hugbúnaði í bílum fyrirtækisins. Sá búnaður stýrir aflstýringu í vélinni, og reyndist ýta undir alltof mikla losun á nítrógen oxíði, eða um fjörtíufalt meiri losun en leyfilegt er. Auk þess eru uppi ásakanir um að fyrirtækið hafa vísvitandi svindlað á prófunum bandarískra yfirvalda, en engar ákærur hafa verið gefnar út ennþá. Samkvæmt umfjöllun Quartz og BBC er ekki útilokað að það verði gert og eru það þá æðstu stjórnendur fyrirtækisins sem þurfa að bera ábyrgð. Winterkorn fékk spurningar frá blaðamönnunum á fundinum, um hugsanlegt glæpsamlegt athæfi, en neitaði að tjá sig um þær.
Volkswagen shares are down 20%. Here’s what we know so far about the emissions scandal: http://t.co/Y2FlLLHRlh pic.twitter.com/WJw9C0vCDy
— Wall Street Journal (@WSJ) September 21, 2015
Margir Volkswagen bílar á Íslandi
Volkswagen hefur árum saman verið meðal stærstu söluaðila bíla hér á landi, en umboðið er hjá Heklu. Fyrirtækið hefur sagt í fréttatilkynningum að allir þeir sem eigi bíla sem settir voru á götuna í Bandaríkjunum á árunum 2009 til 2015 eigi að leita til umboðsaðila til þess að fá svör við því hvort innköllunin nái til bílsins þeirra, en annars eigi eigendur að fá skilaboð um innköllun frá fyrirtækinu. Langflestir bílarnir eru á Bandaríkjamarkaði, svo ólíklegt er að margir af þeim bílum sem um ræðir séu á götunni utan Bandaríkjanna.
Sögulegt hrun
Höggið sem Volkswagen fékk á sig á markaði var að miklu leyti fyrirsjáanlegt, enda átján milljarða Bandaríkjadala högg fyrir reksturinn gríðarlegt áfall. Raunar er þetta hrun þegar orðið sögulegt, þar sem markaðsvirði stórs bílaframleiðanda hefur ekki lækkað svo hratt og skarpt, frá því að fjármála- og hlutabréfamarkaði féllu saman haustið 2008 og fram á byrjun árs 2009.
Í umfjöllun BBC, segir Richard Wescott, sérfræðiblaðamaður um samgöngumál, að allt bendi til þess að Volkswagen hafi í reynd verið að svindla, svo háþróaður hafi búnaðurinn verið sem átti að virka þannig að bílarnir kæmust í gegnum ströng öryggispróf bandarískra yfirvalda. Erfitt væri að ímynda sér þetta sem galla eða óviljaverk, þó enginn lokadómur liggi fyrir enn.
Uppgvötunin nú hefur ýtt við evrópskum yfirvöldum sem vilja athuga hvort aðrir bílaframleiðendur eru að beita sömu aðferðum til að koma bílum í gegnum prófanir.