Í heimshlutanum þar sem gamma-afbrigðið skæða átti upptök sín er nú barist við nýjasta afbrigðið sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur undir smásjánni: Lambda. Afbrigði þetta hefur verið nokkurs konar kafbátur í faraldrinum og sennilega vangreint, m.a. vegna líkinda sinna við gamma- og beta-afbrigði kórónuveirunnar. Lambda er talið eldsneytið sem m.a. hefur knúið aukningu COVID-19 smita í Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og á eyjum Karabíska hafsins síðustu vikur og þá sérstaklega í fátækustu löndunum þar sem bólusetningarhlutfall er lágt.
Kjarninn ætlar á næstu dögum að birta fréttaskýringar um stöðu faraldursins í hverri heimsálfu fyrir sig. Sú fyrsta fjallaði um Norður-Ameríku og hér verður fjallað um Suður-Ameríku, eða öllu heldur rómönsku Ameríku, svæði sem nær bæði yfir Suður- og Mið-Ameríku.
Þó að aðeins átta prósent jarðarbúa búi í Rómönsku Ameríku hafa þar greinst yfir 20 prósent allra smita í heimsfaraldrinum og 32 prósent allra dauðsfalla orðið þar. Þrátt fyrir þessar nöturlegu staðreyndir hefur aðeins einn af hverjum tíu íbúum svæðisins verið bólusettur og í nokkrum löndum, t.d. í Hondúras og Gvatemala í Mið-Ameríku, er hlutfallið innan við eitt prósent.
Dauðsföllum og innlögnum á sjúkrahús fór fækkandi í sumarbyrjun. Í júní hófst ný bylgja. Dregið hefur úr henni í nokkrum löndum álfunnar er smitum er hins vegar að fjölga í öðrum. Óttast er að samhliða því eigi fleiri eftir að veikjast alvarlega sérstaklega í ljósi þess að fleiri sýkingar eru farnar að greinast í löndum þar sem hlutfall bólusetninga er sérlega lágt.
Lambda-afbrigðið greindist fyrst í Perú snemma í ágúst á síðasta ári en í desember var það búið að breytast enn frekar og fá sína einkennisstafi innan vísindanna, C.37. Það hefur síðan þá greinst í um þrjátíu löndum, þar af sjö í Suður-Ameríku, og er það nýjasta sem WHO flokkar sem „athyglisvert” (e. variant of interest). Veiruafbrigði fá aðeins þann stimpil þegar stökkbreytingar eru miklar og þau þegar valdið hópsýkingum eða samfélagssmiti.
Afgerandi afbrigði í Perú
Lambda fór á varúðarlista WHO um miðjan júní eftir að það tók að greinast í auknum mæli á mörgum stöðum samtímis. Í Perú eru rúmlega 90 prósent nýrra smita af völdum þess. Sömuleiðis þriðja hvert smit í Chile. Það er svo einnig að breiðast út í Argentínu, Brasilíu, Kólumbíu, Ekvador og Mexíkó.
Enn er ekki hægt að segja með vissu hversu smitandi lambda-afbrigðið er miðað við þau sem hingað til hafa greinst en veirufræðingar eru þó á því að delta-afbrigðið, sem er að breiðast hraðast út í heiminum þessa stundina, hafi vinninginn. „Það er mögulegt að [lambda-afbrigðið] sé meira smitandi en flest önnur en við höfum ekki enn nægilegar upplýsingar til að bera það saman við gamma- og delta-afbrigðin,“ segir Jairo Mendez-Rico, smitsjúkdómasérfræðingur hjá WHO.
„Ég er sannfærður um að við eigum eftir að sjá alvarlegt ástand blossa aftur upp í Suður-Ameríku á næstu vikum,“ segir Alfonso Rodriguez-Morales, faraldsfræðingur og varaforseti smitsjúkdómastofnunar Kólumbíu.
Vangreint
Lambda-afbrigðið var ekki ofarlega á varúðarlistum sérfræðinga framan af þar sem það var vangreint vegna skyldleika síns við gamma-afbrigðið – afbrigði sem fyrst greindist í Brasilíu í fyrra og olli skæðri bylgju þar í landi og víðar. Í Perú, svo dæmi sé tekið, er almennt beitt aðferðum sem ekki geta greint á milli beta-, gamma- og lambda-afbrigðanna. Dýr tækjabúnaður til ítarlegra raðgreininga er einfaldlega ekki til staðar.
Lambda er ekki „nándar nærri“ jafn varhugavert og delta-afbrigðið, að mati bandaríska smitsjúkdómasérfræðingsins S. Wesley Long. Á sjúkrahúsinu sem hann starfar í Houston greindist fyrsti sjúklingurinn með lambda-afbrigðið í síðustu viku. „Sama hvaða stafur í gríska stafrófinu er næstur, bóluefni eru enn okkar besta vörn,“ segir Long.
Bylgjur rísa og hníga
Þegar horft er á heildarfjölda greindra smita í Suður- og Mið-Ameríku hefur þeim fækkað síðan í júní er þau voru í hæstu hæðum frá upphafi faraldursins.
Þessi þriðja bylgja faraldursins reis hæst í Kólumbíu í síðustu viku júnímánaðar. Þrátt fyrir að dregið hafi úr greindum tilfellum er fjöldi smita enn mjög mikill samanborið við önnur lönd. Brugðist var við með því að efla skimun og dreifingu bóluefna. Í síðustu viku voru smitin um 38 prósent færri en í vikunni áður. Engu að síður er enn að greinast yfir 16 þúsund tilfelli á dag.
Brasilía er það land Suður-Ameríku sem orðið hefur hvað verst úti í faraldrinum til þessa. Þar hafa um 19,4 milljónir smita greinst. „Allt sem þú ættir ekki að gera – það hefur Brasilía gert,“ segir Pedro Hallal, faraldsfræðingurinn sem rannsakað hefur COVID-19 í Brasilíu. Hann segir í viðtali á BBC að ný afbrigði, lágt bólusetningarhlutfall og falsfréttir hafa orðið til þess að faraldurinn hefur nær hvergi í heiminum orðið jafn skæður og þar. Í síðustu viku voru 25 prósent færri tilfelli greind í landinu en í vikunni á undan. Enn eru þó að greinast yfir 30 þúsund tilfelli á dag.
Líkt og í Kólumbíu og Brasilíu er loks tekið að draga úr smitum í Argentínu eftir júní-bylgjuna miklu. Í síðustu viku voru yfir 13 þúsund ný tilfelli á degi hverjum. Yfir 100 þúsund Argentínumenn hafa látist vegna COVID-19.
Uppsveifla eftir afléttingar
Í Mexíkó er delta-afbrigðið að ná yfirhöndinni og þar hefur smitum fjölgað hratt síðustu daga. Á milli vikna fjölgaði tilfellum um 96 prósent og fyrirhuguð aflétting takmarkana á ferðalögum yfir landamærin að Bandaríkjunum er í uppnámi. Yfir 15 þúsund smit voru skráð í Mexíkó á miðvikudag og 400 dauðsföll.
Á Kúbu er svipað uppi á teningnum og þar má segja að fyrsta eiginlega bylgjan standi yfir. Mánuðum saman hafði með hörðum aðgerðum tekist að halda veirunni í skefjum. Eftir að þeim var aflétt nýverið hóf delta-afbrigðið að dreifast þar um og álag á heilbrigðiskerfið, sem var veikt fyrir, er orðið mikið. Tilfellum fjölgaði um 88 prósent á milli vikna, samkvæmt gögnum New York Times. Í heild hafa um 300 þúsund greinst með veiruna á Kúbu og um þriðjungur þeirra nú í júlí.
Hvergi í heiminum hafa hlutfallslega jafnmargir dáið úr COVID-19 en í Perú. Talið er að veiran hafi fellt um 0,54 prósent þjóðarinnar. Líklegt er talið að lambda-afbrigðið hafi valdið annarri bylgju faraldursins sem varð í landinu í mars og apríl. Um 12,5 prósent íbúanna eru fullbólusett.
Í nágrannaríkinu Chile hafa um 58 prósent þjóðarinnar verið bólusett, flestir með hinu kínverska bóluefni CoronaVac. Ljóst þykir að vörnin sem það veitir er langt undir væntingum. Samkomutakmörkunum var aflétt þegar bólusetningar voru vel á veg komnar. Það var gert of snemma í ljósi þess að ný og meira smitandi afbrigði eru á kreiki, að mati perúska veirusérfræðingsins Pablo Tsukayama, sem fyrstur greindi lambda-afbrigðið.
Ólga eykur hættuna
Fleira en hægagangur í bólusetningum vekur ugg hvað faraldurinn í Suður-Ameríku snertir. Í Kólumbíu og Brasilíu sem og á eyjunum Kúbu og Haítí er mikil pólitísk ólga og mótmæli og óeirðir hafa átt sér stað. Það hefur gert heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir að sinna störfum sínum, m.a. bólusetningum.
„Vaxandi ofbeldi, óstöðugleiki og yfirfull skýli [heimilislausra] gætu orðið næstu suðupottar COVID-smita,“ sagði Carissa Etienne, yfirmaður Suður-Ameríkudeildar WHO við sjónvarpsstöðina CNBC nýverið. „Takmörkuð aðföng og ofbeldi eru líka að hindra heilbrigðisstarfsmenn í að sinna sjúklingum af öryggi. Í sumum tilfellum gætu svo sjúklingar verið að forðast að leita sér aðstoðar af öryggisástæðum.“
Fjölmargir vísindamenn hafa sagt að faraldri kórónuveirunnar ljúki ekki fyrr en að minnsta kosti 80 prósent jarðarbúa hafi verið bólusett. Þangað til munu stökkbreytt afbrigði á borð við gamma, delta og lambda halda áfram að koma fram á sjónarsviðið.