Allt sem þú þarft að vita um nýjan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar
Stefnt er að því að lækka skatta, selja banka og láta fjármagnseigendur greiða útsvar. Auðvelda á fyrirtækjum að virkja vind og endurskoða lög um rammaáætlun. Hærri endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eru festar í sessi en Miðhálendisþjóðgarður heyrir sögunni til og heildarendurskoðun stjórnarskrár í þverpólitísku samstarfi líka. Opnað verður á fjárfestingar lífeyrissjóða í innviðum, stjórn verður sett yfir Landspítalann og frítekjumark ellilífeyrisþega tvöfaldað. Þetta er á meðal þess sem nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fjallar um.
„Samstarf þessara þriggja flokka, sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapar jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.“ Þetta segir í upphafi nýs stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsætis Katrínar Jakobsdóttur.
Sáttmálinn, sem er nokkuð lengri en sá síðasta sem ríkisstjórn sömu flokka gerði fyrir fjórum árum (9.645 orð nú en 6.212 þá) ber þess merki að vera umgjörð utan um samstarf flokka sem hafa mismunandi pólitískar áherslur.
Í inngangstexta segir að markmið síðasta kjörtímabils hjá þessari óvenjulega samsettu ríkisstjórn frá hægri, yfir miðju og til vinstri, hafi verið að „byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.“
Nú sé staðan hins vegar önnur og ná samstarfi snúist um að horfa til framtíðar.
Sáttmálinn sé leiðarstef stjórnarinnar um „efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða“.
Líkt og svo oft vill verða í sáttmálum er stefnt að mörgu, loforð gefin um að hlutir verði greindir með það að markmiði að breyta þeim og nefndir stofnaðar. Minna er þó um fastsettar áætlanir um hvernig eigi að útfæra flest þeirra stefnumála eða markmiða sem sett eru fram.
Skattalækkanir, bankasala og fjármagnseigendum gert að greiða útsvar
Engin áform eru uppi um skattahækkanir eða frekari upptöku þrepaskipts skattkerfis, líkt og bæði Vinstri græn og Framsóknarflokkur boðuðu í aðdraganda kosninga. Þess í stað er stefnt að skattalækkunum á kjörtímabilinu en regluverk í kringum tekjutilflutning verður tekið til endurskoðunar þannig að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur „reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“ Þá verða skattmatsreglur endurskoðaðar og „komið í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“.
Eignarhlutir í bönkum verða seldir, löggjöf um meðferð kauprétta og hlutabréfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum til starfsmanna í nýsköpunarfyrirtækjum verður endurskoðun „þannig að þeim verði gert kleift að keppa um starfsfólk, stjórnendur og ráðgjafa með því að bjóða hlutdeild í framtíðarávinningi með hagkvæmum hætti.“ Samkeppniseftirlitið verður sameinað Neytendastofu og mögulega fleiri stofnunum.
Fyrirkomulag gjaldtöku í ferðaþjónustu tekið til skoðunar með það fyrir augum að „breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði“. Það mun meðal annars fela í sér breytingu á fyrirkomulagi gistináttagjalds.
Hærri endurgreiðslur festar í sessi
Þá ætlar ríkisstjórnin sem lagði niður embætti skattrannsóknarstjóra á síðasta kjörtímabili að efla skattrannsóknir og beitt sér með virkum hætti gegn skattaundanskotum og skattaskjólum ásamt því að styðja alþjóðlegan 15 prósent lágmarksskatt sem OECD hefur fyrirætlanir um.
Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verða framlengdar og farið yfir framkvæmd þeirra og eftirlit. Tímabundin hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun verður gerð varanleg og umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verður einfaldað.
Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar voru alls 10.431 milljónir króna í ár vegna þessarar hækkunar. Það er rúmlega tvöfalt meira en endurgreiðslurnar í fyrra, sem námu samtals 5.186 milljónum króna.
Embætti Ríkissáttasemjara eflt, en eina aðgerðin sem er nefnd í því samhengi er að komið verður á fót standandi gerðardómi.
Fiskveiðistjórnunarkerfið sett í nefnd
Svandís Svavarsdóttir fær það vandasama verkefni að reyna að mynda sátt um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og kerfið utan um þá nýtingu. Kannanir hafa sýnt að afgerandi meirihluti þjóðarinnar er ósáttur með fyrirkomulagið og umfang gjaldtöku fyrir nýtinguna og telur kerfið beinlínis vera ógn við lýðræði á Íslandi.
Í sáttmálanum segir að skipuð verði nefnd til að „kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“ Þá á nefndin að fjalla um hvernig hægt sé að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.
Svandís mun einnig fara með landbúnaðarmál og þar ber helst til tíðinda að aukinni framleiðslu á grænmeti á að ná með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga.
Meira virkjað en Miðhálendisþjóðgarður sleginn af
Loftslags- og orkumálum er slegið saman í nýtt ráðuneyti sem stýrt verður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Engar breytingar verða á markmiðum Íslands í loftslagsmálum þótt lögfesta eigi landsmarkmiðið. Áfram er stefnt að 55 prósent samdrátt á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005 og að kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Þá er skjalfest í sáttmálanum að ekki verði gefin út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.
Töluvert er fjallað um virkjanir og hvernig ákvarðanir verða teknar um hvað verði virkjað.
Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verða endurskoðuð frá grunni og sérstök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Það verður stefna mörkuð um vindorkuver á hafi. Lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar og kostum í biðflokki verður fjölgað.
Í stjórnarsáttmála sömu flokka sem var gerður fyrir fjórum árum sagði að stofnaður yrði „þjóðgarður á miðhálendinu“. Hann varð ekki að veruleika á síðasta kjörtímabili vegna andstöðu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við málið. Og í nýja stjórnarsáttmálanum er búið að blása Miðhálendisþjóðgarðinn af. Þess í stað verður stofnaður „þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð“.
Heildarendurskoðun stjórnarskrár ekki lengur á dagskrá
Í síðasta stjórnarsáttmála stóð að ríkisstjórnin vildi halda áfram „heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar“. Forsætisráðherra reyndi að koma takmörkuðum stjórnarskrárbreytingum í gegn undir lok kjörtímabilsins en það reyndist árangurslaus vegferð.
Í nýja sáttmálanum er búið að leggja hugmyndinni um heildarendurskoðun og þess í stað á að setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. „Efnt verður til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar“.
Utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar er ekki flókin, og hverfist um þá stefnu sem allir flokkar hennar eru að fullu sammála um: að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Þess utan er eftirtektarverðast í þeim málaflokki að lagareglur um rýni á tilteknum fjárfestingum erlendra aðila með hliðsjón af þjóðaröryggi og allsherjarreglu verða endurskoðaðar og styrktar.
Stjórn yfir Landspítalann og frítekjumark tvöfaldað
Í heilbrigðismálum, sem Willum Þór Þórsson mun stýra, ber helst til tíðinda að fagleg stjórn verður skipuð yfir Landspítalann. Þá verður ný tækni og stafrænar lausnir „nýttar í auknum mæli í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og þannig stuðlað að bættri þjónustu, gæðum og aukinni hagkvæmni í rekstri. Sjúkratryggingar Íslands verða „efldar sem kaupandi og kostnaðargreinandi heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.“
Til stendur að endurmeta almannatryggingakerfi eldri borgara og að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna þeirra um komandi áramót.
Til stendur að gera örorkulifeyriskerfið einfaldara og draga úr tekjutengingum, en ekki tilgreint með hvaða hætti. Breytingarnar verða innleiddar í áföngum og þau sem eru með fullt örorkumat við upptöku á nýju kerfi hafa val um hvort þau færast yfir í nýja kerfið.
Þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkað verður auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þeirra sé ógnað.
Segðu Borgarlína án þess að segja Borgarlína
Í samgöngumálum verður mótuð stefna um jarðgöng og stefnt að því að Sundabraut opni fyrir umferð árið 2031, eða eftir tíu ár. Þá verður unnið að „áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“ Það þýðir að Borgarlína, sem greitt verður fyrir af ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, er áfram á dagskrá án þess að hún sé nefnd sérstaklega á nafn. Framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta verður mótað og innleitt á kjörtímabilinu og stuðlað verður að „almenningssamgöngum með endurnýjanlegum orkugjöfum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar“.
Þá verður ráðist í skilgreindar þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir í samgöngum „á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila“.
Fjárhagslegir hvatar til að þrýsta á sameiningu sveitarfélaga
Húsnæðismál og skipulagsmál verða færð í nýtt innviðaráðuneyti undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar „til að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði“. Áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verða samþættar og lagðar fram samhliða. Ráðist verður í sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldra fólk innan almenna íbúðakerfisins.
Athygli vekur að það á að beita fjárhagslegum hvötum til að þrýsta á frekari sameiningu sveitarfélaga með það fyrir augum að slíkt hafi burði til að standa undir þeirri þjónustu sem íbúar eiga rétt á.
Opnað á fjárfestingar í innviðum
Lífeyriskerfið og lífeyrissjóðir eru töluvert til umfjöllunar í sáttmálanum. Þar segir til að mynda að útfærðar verði leiðir til að auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði og að lögfest verði 15,5 prósent skylduiðgjald til lífeyrissjóðs.
Grænbók um lífeyrismál verður unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði á fyrri hluta kjörtímabilsins í því skyni að „skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti“. Meðal annars verður horft til einföldunar kerfisins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfisins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fjárfestingarheimildir, starfsumhverfi og eftirlit.
Sérstaklega er tiltekið að horfa þurfi til þess hvernig megi auka þátttöku sjóðanna í innviðafjárfestingum. Kjarninn greindi frá því í gær að sjóðstýringafyrirtækið Summa sé þegar byrjað á vinnu við uppsetningu á slíkum sjóði sem ætli að bjóða lífeyrissjóðum upp á að fjárfesta í hagrænum og félagslegum innviðum á Íslandi.
Þá verða tímabundnar heimildir lífeyrissjóða til aukinnar fjárfestingar í nýsköpunar- og vaxtarsjóðum gerðar varanlegar.
Rýmkað ákvæði um dvalarleyfi fyrir þá sem vinna
Endurskoða á lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku. Þá verði þeim sem hér fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið veitt undanþága frá kröfu um atvinnuleyfi.
Sérstaklega er tiltekið að efla þurfi „traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda“ en ekkert sagt um hvernig það eigi að fara fram.
Unnið verður að útgáfu fullgildra opinberra rafrænna persónuskilríkja.
Fjölmiðlar, kvikmyndir og þjóðarleikvangar
Umfjöllun um stöðu fjölmiðla á Íslandi í sáttmálanum er loðin. Þar segir að frjálsir fjölmiðlar séu forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veiti stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ríkisstjórnin leggi áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum.
Engar aðgerðir eru hins vegar tilteknar til að ná þessum markmiðum, heldur einungis sagt að staða einkarekinna fjölmiðla verði metin áður en núverandi stuðningskerfi rennur út í lok næsta árs. Í kjölfarið verði ákveðnar aðgerðir til að „tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp“.
Eitt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins var að auka endurgreiðsluhlutfall vegna þess kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð hér á landi úr 25 í 35 prósent. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi þessi áform í aðdraganda kosninga. Þessi áform rata samt sem áður inn í sáttmálann, en með útvötnuðum hætti. Þar segir að stutt verði við kvikmyndagerð með hærri endurgreiðslum „á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“ Ekki er tilgreint hvaða skýrt afmörkuðu þættir það eru.
Mikið hefur verið rætt um uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga og margir með væntingar til þess að ráðist verði í slíka uppbyggingu sem fyrst. Engar skýrar ákvarðanir virðast liggja fyrir í þeim málum. Í sáttmálunum segir einfaldlega: Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.
Uppfært 16:18:
Upprunalega sagði í fréttaskýringunni að í eflingu Sjúkratrygginga Íslands sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins fælist að sú þjónusta yrði keypt af einkaaðilum. Eftir ábendingu frá starfsmanni Vinstri grænna um að svo væri ekki var því breytt.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars