Eitt af því sem hefur mikið verið umræða á alþjóðavettvangi - ekki einungis á Íslandi - frá því að fjármálakerfi heimsins var á barmi hruns, fyrir sjö árum, er það kallað er skattaskjól. Í stuttu máli ganga þau út á það, að sérsniðið regluverk tiltekinna ríkja eða jafnvel svæða inna þeirra, gera alþjóðlegum fyrirtækjum og fjárfestum kleift, að geyma eignir án þess að þurfa greiða af þeim skatt í heimalandinu. Íslendingar áttu í lok árs í fyrra um 32 milljarða króna í skattaskjólinu Tortóla, en erlend fjármunaeign nam um þúsund milljörðum króna, séu eignir lífeyrissjóða og fyrirtækja teknar með í reikninginn, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands frá því í september.
Lög og reglur um þessa starfsemi eru víða í endurskoðun, meðal annars á bresku jómfrúareyjunum, Sviss, Lúxemborg og í Suður-Ameríku. En enginn ætti að gefa sér að hlutirnir muni ganga hratt fyrir sig enda gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heimsins og einstaka fjárfesta sömuleiðis.
Kastljósið beinist að Apple
Verðmætasta fyrirtæki heimsins, þegar horft er til markaðsvirðis, er hugbúnaðar- og fjarskiptarisinn Apple. Markaðsvirði þess er nú 624 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 80 þúsund milljörðum króna. Frá því um mitt ár hefur markaðsvirði þess lækkað töluvert, eða um tuttugu prósent. Ekkert fyrirtæki á meiri eignir utan skattalegs heimalands en Apple, en Bandaríkin er skattalegt heimaland þess. Eignir erlendis, sem meðal annars eru geymdar í skattaskjólum, hækkuðu um 70 milljarða Bandaríkjadala milli áranna 2013 og 2014, samkvæmt skýrslu fjármálaeftirlits Bandaríkjanna (SEC). Heildareignir utan skattalegs heimalands nema ríflega 180 milljörðum Bandaríkjadala, en næsta fyrirtækja sem kemur á eftir er General Electric með 119 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt gögnum sem Quartz hefur tekið saman.
Gríðarlegur vöxtur
En hvers vegna geymir Apple svona stóran hluta eigna sinna erlendis, og hvers vegna fá fyrirtæki að komast upp með að gefa gríðarlega miklar eignir sínar ekki upp til skatts? Apple hefur vaxið ógnarhratt á síðustu árum, og eru í reynd fá dæmi í sögunni um viðlíka vöxt. Sala á iPhone símum og iPad spjaldtölvum hefur verið gríðarleg, en um mitt þetta ár átti félagið 203 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri, eða sem nemur um 26 þúsund milljörðum króna. Stjórnendur félagsins, með stuðningi hluthafa, hafa farið í umfangsmiklar aðgerðir til þess að reyna að koma í veg fyrir að þurfa að greiða háar upphæðir í bandaríska ríkiskassann. Samkvæmt greiningu Tech Crunch ákvað Apple að fara út í umfangsmikla skuldabréfaútgáfu og lántöku, meðal annars vegna þessarar stöðu. Peningar eru ódýrir í Bandaríkjunum í augnablikinu og fá fyrirtæki hafa eins gott lánstraust og Apple, sem þarf varla að greiða neitt markaðsálag á lánum sem fyrirtækið tekur. Í stað þess að koma með fjármagnið og eignirnar til Bandaríkjanna, og greiða af þeim skatt, þá hefur fyrirtækið einfaldlega frekar kosið að stofna til skulda og greiða lága vexti. Það kemur betur út fyrir efnahaginn. Þá hafa lánin meðal annars verið notuð í að nýta svigrúm til kaupa á eigin bréfum, þar sem hámarkað er fimm prósent, og einnig í að kaupa einkaleyfi og smærri sprotafyrirtæki til að styrkja vöruþróun.
Þrýstingur á banka
Fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum hefur fyrst og fremst unnið að því að styrkja reglur sem snúa að skilum á skatti, í tengslum við starfsemi banka á fjármálafyrirtæki. Samtals hafa stærstu bankar heimsins greitt fyrir 22 milljarða Bandaríkjadala í sektir vegna aðstoðar við skattaundanskot viðskiptavina. Svissneski bankinn UBS hefur greitt hæstu sektina af öllum, vegna kerfisbundinnar starfsemi á sviði skattaundanskota fyrir viðskiptavina, samtals 1,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 170 milljörðum króna.
Gríðarlega hraður vöxtur hugbúnaðar-, fjarskipta og tæknifyrirtækja, og mikil fjármunamyndun erlendis, hefur leitt til umræðu um hvernig eigi að taka á þessum hlutum til framtíðar litið. Engar sértækar tillögur hafa birst, en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að skattaskjól, utan skattaleg heimalands, sé að skapa mikinn vanda fyrir margar þjóðir, meðal annars Bandaríkin. Ríkissjóður tapi fjármunum á þessu, sem svo skili sér í verri þjónustu við almenning og lakari lífskjörum. Stjórnendur Apple, með forstjórann Tim Cook í broddi fylkingar, segjast leggja áherslu á að hafa allt í starfsemi fyrirtækisins uppi á borðum og fara að lögum og reglum í einu og öllu. Fyrirtækið þurfi að gæta að því í sínum rekstri að haga seglum eftir vindi, vernda eignir og setja samkeppnishæfni þessi efst á forgangslistann.