Rúmt ár er liðið síðan eitt stærsta gámaflutningaskip heims, Ever Given, komst í heimsfréttirnar eftir að hafa strandað í Súesskurðinum og setið þar fast í sex sólarhringa.
Skipsstrandið var fyrsta stóra fréttin af flöskuhálsum í alþjóðlegum vöruviðskiptum í kjölfar faraldursins, en þeir hafa haft afdrifarík áhrif á heimshagkerfið síðan þá. Vegna þeirra hefur flutningakostnaður á milli landa margfaldast, sem er ein af ástæðum þess að verðbólga hefur aukist hratt um allan heim.
Þrátt fyrir að dregið hafi úr áhrifum þessara flöskuhálsa eftir að þau náðu hápunkti í fyrrahaust, gætir þeirra enn í gámaflutningum. Ekki er búist við að þessir hnökrar í vöruflutningum hætti í náinni framtíð, en útgöngubann í kínverskum hafnarborgum á síðustu vikum hafa haldið uppi flutningskostnaði vegna seinkunar á afgreiðslu í mikilvægum gámahöfnum.
Seinkanir leiða af sér aðrar seinkanir
Kjarninn greindi frá strandi Ever Given um páskana í fyrra. Skipið, sem hafði um 20 þúsund gáma um borð þegar það strandaði, lokaði á alla umferð um Súesskurðinn í Egyptalandi á seinni hluta marsmánaðar 2021 og olli því að um 400 gámaskip komust ekki leiðar sinnar.
Stuttu eftir að skipinu var komið úr skurðinum og umferð um hann sneri aftur í eðlilegt horf varaði forstjóri danska skipafyrirtækisins Mærsk, Lars Mikael Jensen, við þvi að áhrif þess á vöruflutninga yrðu skammlíf.
Samkvæmt Jensen tæki mánuði að vinda ofan af þeim truflunum sem skipsstrandið hafði á alþjóðlegt flutningakerfi, þar sem seinkanir skipa munu leiða af sér aðrar seinkanir og umferðartafir. „Við munum sjá afleidd áhrif af þessu fram í seinni hluta maímánaðar,“ sagði hann í viðtali við Financial Times.
Jensen bætti einnig við að þessi áhrif myndu smita út frá sér og að leiða til hökts í vöruframboði, þar sem evrópskir vöruframleiðendur þyrftu að bíða lengur eftir aðföngum vegna seinkunar gámaskipanna.
Meiri eftirspurn og færri starfsmenn
Skipsstrandið markaði upphaf aukinnar framboðsspennu í vöruflutningum, en líkt og sést á mynd hér að neðan hækkaði gámaflutningaverð hratt á seinni hluta ársins. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey greindi frá stöðunni í skýrslu í fyrra, en samkvæmt var spennan að mestu leyti tilkomin vegna aukinnar eftirspurnar eftir vörum og þjónustu í kjölfar þess að áhrif faraldursins fóru að fjara út.
Það hefur þó reynst höfnum og flutningafyrirtækjum erfitt að manna nægilega margar stöður til að geta tekið á móti þessari eftirspurnaraukningu hnökralaust. Annars vegar var hefur það verið vegna útbreiðslu smita af kórónuveirunni, en sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa leitt til takmörkunar á starfsemi ýmissa hafna í Asíu nokkrum sinnum á síðustu mánuðum.
Einnig vildu færri vinna í vöruflutningum á sömu kjörum á áður, þar sem álagið á starfsfólkið í greininni jókst samhliða aukinni eftirspurn og framboðshökti. Samkvæmt vefmiðlinum Vox var mikill skortur á starfsfólki í vörubílaflutningum í Bandaríkjunum og Evrópu vegna þessa. Því hækkaði kostnaðurinn við gámaflutninga á milli landa enn frekar.
Myndin hér að neðan sýnir Baltic Dry vísitöluna, sem er alþjóðlegur staðall á flutningakostnað gámaskipa. Eins og sést lækkaði flutningakostnaðurinn töluvert á fyrstu mánuðum faraldursins árið 2020, en fór svo aftur í sögulegt meðaltal þegar líða tók á árið.
Um mitt síðasta ár stórjókst hins vegar flutningskostnaðurinn. Hann náði hámarki í september í fyrra, en þá var hann orðinn fjórfaldur því sem hann var á tímabilinu 2017-2019. Á þessum tíma áttu gámaskip erfitt með að koma varningnum sínum á áfangastað á réttum tíma, en líkt og BBC greindi frá byrjuðu langar biðraðir af skipum að myndast fyrir utan helstu gámahafnir heims.
Vegna þessara vandræða fór að bera á skorti á ýmsum vörum sem eru fluttar á milli landa. Til að mynda átti húsgagnaframleiðandinn IKEA erfitt með að koma vörunum sínum á réttan stað á réttum tíma, hérlendis sem annars staðar. Vöruskorturinn leiddi einnig til verðhækkana á innfluttum vörum, en slíkar verðhækkanir hafa verið megindrifkrafturinn í aukinni verðbólgu á ýmsum Vesturlöndum síðustu mánuðina.
Smitbylgja í Kína veldur áhyggjum
Á síðustu vikum hafa svo áhyggjur vaknað af nýjum vandræðum í alþjóðlegum gámaflutningum. Líkt og Kjarninn fjallaði um í síðasta mánuði kom kínverska ríkisstjórnin á útgöngubanni í hafnarborginni Shenzhen vegna fjölgunar kórónuveirusmita þar, en borgin hefur að geyma fjórðu stærstu gámahöfn heims.
Stuttu seinna var útgöngubanni einnig komið á í Shanghai eftir að smitum byrjaði að fjölga þar einnig. Útgöngubannið í báðum borgunum hefur leitt til skorts á hafnarverkamönnum og því tekur nú lengri tíma að afgreiða gámaskipin sem fara um hafnirnar. Sömuleiðis hafa sóttvarnaraðgerðirnar valdið töfum á afgreiðslu vörubílstjóra í landinu, svo lengri tíma tekur að fylla skipin. Samkvæmt frétt Bloomberg biðu alls 477 gámaskip afgreiðslu fyrir utan kínverskar hafnir í vikunni og hefur þeim fjölgað töluvert frá því í síðasta mánuði.
Hins vegar gæti verið að það dragi úr þessum truflunum á næstunni, en yfirvöld í Shanghai hafa lýst því yfir að útgöngubanninu í borginni verði að hluta til aflétt á mánudaginn. Hins vegar gæti það tekið nokkurn tíma að vinda ofan af þeim, en líkt og kemur fram í frétt Quartz um málið gæti gámaskortur gert vart við sig um leið og framleiðsla og samgöngur komast í eðlilegt horf í Kína.