Flestir kannast við Wow, Primera, Iceland Express og Arnarflug. Allt fyrrverandi íslensk flugfélög þar sem lagt var upp með fögur fyrirheit og bjartsýni að leiðarljósi. Félög þar sem bjartsýnin var kannski ekki í takt við raunveruleikann og tilvist þessara félaga heyrir sögunni til. En fyrrverandi flugfélög er ekki íslenskur einkaklúbbur, öðru nær. Félögin sem farið hafa í þrot á undanförnum árum og áratugum skipta tugum, líklega frekar hundruðum. Canadian Airlines, Air Italy, EuroLOT, Sterling, Pan Am, Ansett Australia, Monarch Airlines, Air Berlin, Germania eru aðeins örfá nöfn á löngum lista flugfélaga sem ekki eru lengur til.
Öld flugsins
20. öldin hefur stundum verið kölluð öld flugsins. Öldin sem hinn nýi ferðamáti festi sig í sessi. Tækniframfarirnar voru næsta ótrúlegar, flugvélarnar urðu sífellt fullkomnari og hraðfleygari, og jafnframt stærrri. Hér áður fyrr var eldsneytiseyðsla og útblástur ekki aðalatriði en nú er sparneytni, og minni kolefnislosun, eitt helsta leiðarljós framleiðenda. Og þróunin er sjálfsagt ekki á enda.
Þjóðarstolt
Framan af síðustu öld voru starfandi mörg flugfélög sem með réttu mætti kalla þjóðarflugfélög. Sumum þeirra hafði beinlínis verið komið á fót fyrir tilstilli ríkisins, eða með myndarlegri aðstoð hins opinbera í hverju landi.
Þótt við Íslendingar séum fámenn þjóð áttum við lengi vel tvö flugfélög sem með réttu mátti kalla þjóðarflugfélög, Loftleiðir og Flugfélag Íslands. Starfsemi þeirra byggðist á mikilli bjartsýni og dugnaði en þar kom að allir gerðu sér ljóst að ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir tvö millilandaflugfélög í landinu og árið 1973 voru félögin tvö sameinuð undir nafninu Flugleiðir en erlenda heitið var Icelandair. Bæði eldri nöfnin voru þó til áfram og innanlandsflugið bar lengi nafn Flugfélags Íslands. Þessi saga verður ekki frekar rakin hér að öðru leyti en því að nafnið Flugleiðir virðist algjörlega horfið, nema í minningunni, og fyrirtækið heitir nú Icelandair.
Mörg „þjóðarflugfélaganna“ nutu forréttinda í sínum heimalöndum, nutu forgangs og aðstöðumunar á flugvöllum og í flugstöðvum. Strangar reglur giltu um margt varðandi flugið, hverjir máttu fljúga, hvert þeir máttu fljúga o.s.frv.
Breytingar
Á tíunda áratug síðustu aldar urðu miklar breytingar í flugmálum. Evrópusambandið, og fyrirrennari þess Efnahagsbandalag Evrópu, hafði lengi unnið að breytingum í frjálsræðisátt á þessu sviði. Árið 1991 urðu miklar breytingar á reglum varðandi vöruflutninga og í ársbyrjun 1993 var síðustu takmörkunum í millilandaflugi með farþega rutt úr vegi. Jafnframt þessu breyttust reglur varðandi notkun flugstöðva og flugvalla, þar sem heimafélögin höfðu notið forréttinda.
Þessar breytingar höfðu mikil áhrif á „þjóðarflugfélögin“, og mörg þeirra lifðu ekki af. Hin svonefndu lággjaldafélög, Norwegian, EasyJet, Ryan Air og fleiri urðu æ fyrirferðarmeiri. Mörg Evrópuríki völdu að styrkja „þjóðarflugfélögin til að tryggja áframhaldandi tilvist þeirra. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur á undanförnum árum fjallað um ótal kærur vegna ólöglegra ríkisstyrkja til „þjóðarflugfélaganna“, ekki síst eftir að flug lagðist að verulegu leyti af vegna kórónaveirunnnar. Lággjaldafélögin hafa ekki siglt lygnan sjó, ef svo má segja, undanfarin ár. Minnstu munaði að Norwegian færi í þrot en á síðustu stundu tókst að forða því. Ryan Air lenti líka í miklum ólgusjó en nú eru lággjaldafélögin, að því er virðist, komin yfir mestu erfiðleikana, enda blússandi gangur í ferðaþjónustunni.
Eins og áður sagði hafa á síðustu áratugum orðið miklar sviptingar í flugbransanum, félög horfið eða sameinast öðrum. Flugrekstur er mjög sveiflukenndur, hagnaður fljótur að breytast í tap, og öfugt.
Eitt kemur þá annað fer
Hér verður greint frá örlögum nokkurra félaga en listinn er langt í frá tæmandi.
Fyrsta nóvember árið 2001 lenti flugvél frá belgíska flugfélaginu Sabena á Zaventem flugvellinum við Brussel. Vélin var að koma frá Cotonou í Benín, en lendingin táknaði endalok Sabena. Stjórn félagsins hafði gert allt sem hugsanlegt var til að bjarga því frá gjaldþroti en allt kom fyrir ekki. Sabena hafði starfað í 78 ár og var næstelsta flugfélag í Evrópu. Á rústum félagsins var til nýtt félag, SN Brussels Airlines. Nokkrum árum síðar sameinaðist nýja félagið breska flugfélaginu Virgin Express og fékk þá nafnið Brussels Airlines.
Swissair var stofnað árið 1931 og var lengi umtalað sem eitt traustasta flugfélag í heimi, jafnvel kallað „fljúgandi banki“. Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 stöðvaðist reksturinn um skeið en svissneska ríkisstjórnin hljóp þá tímabundið undir bagga. Sögu Swissair lauk í lok mars 2002, með gjaldþroti. Til varð félagið Swiss, sem síðar varð hluti Lufthansa félagsins þýska. Svissnesk stjórnvöld tryggðu Swiss félaginu nafnið Swissair, til að tryggja að það lenti ekki í annarra höndum.
Ókyrrð í lofti hjá Alitalia og Iberia í mótvindi
Þeir sem ferðast flugleiðis þekkja flestir tilkynningar um ókyrrð í lofti og ráðleggingar um öryggisbelti. Í rekstri ítalska flugfélagsins Alitalia hefur nánast frá stofnun árið 1946 ríkt annars konar ókyrrð. Ítalska ríkið yfirtók félagið árið 1961. Haft var á orði að vinnufatnaður áhafna og starfsfólks Alitalia væri sá flottasti í bransanum og þegar tískufrömuðurinn Georgio Armani fór að láta að sér kveða hannaði hann búninga flugáhafna Alitalia, og innréttingar flugvélanna. Bann Evrópusambandsins við ríkisstyrkjum, árið 2006, gerði Alitalia erfitt fyrir og á árunum 2007-2008 var reynt að selja félagið en samningaviðræður við Air France- KLM sigldu í strand á síðustu stundu. Útlitið var dökkt og ítalska ríkið hélt félaginu á floti með neyðarlánum, í trássi við reglur ESB. Árið 2009 urðu eigendaskipti á félaginu, Air France-KLM eignuðust 25 prósenta hlut í félaginu. Reksturinn var áfram erfiður og 2013 bjargaði ítalska ríkið félaginu fyrir horn. Árið 2015 keypti Etihad Airways 49 prósenta hlut í félaginu, og tilkynnt var um miklar sparnaðaragerðir. Í mars 2020 þjóðnýtti ítalska ríkið félagið en félagið fór í þrot í október í fyrra. Nýtt félag, ITA, var stofnað á rústum hins gamla, að fullu í eigu ítalska ríksins. Nýja félagið keypti Alitalia nafnið.
Spænska ríkisflugfélagið Iberia var stofnað árið 1927. Félagið hefur ekki alla tíð haft byr undir vængjum og gengið á ýmsu í rekstrinum. Árið 2010 samdi stjórn félagsins við British Airways um sameiningu, sem varð að veruleika í ársbyrjun 2011, móðurfélagið heitir International Airlines Group, IAG. Þrátt fyrir sameininguna fljúga bæði British Airways og Ibera áfram undir sínum gömlu nöfnum.
Air France-KLM
Árið 2003 gengu franska flugfélagið Air France og hollenska KLM félagið í eina sæng. KLM, stofnað 1919 er elsta starfandi flugfélag í heimi. Air France var stofnað 1933, við sameiningu nokkurra franskra félaga. Samruni Air France og KLM var staðfestur árið 2004 og þá flaug hið sameinaða félag, sem er meðal þeirra stærstu í Evrópu, til 225 áfangastaða víða um heim.
Eins og nefnt var hér framar er listinn yfir félög sem hafa lognast út af, skipt um nafn eða sameinast öðrum félögum, ekki tæmandi. Miklar sviptingar hafa á undanförnum árum orðið í bandarískum flugrekstri, sama gildir um Asíu og Suður-Ameríku, þar hafa ótal félög skotið upp kollinum og önnur horfið. Allt þetta væri efni í annan pistil.