Í síðustu viku var frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lífeyrisgreiðslur og tilgreinda séreign dreift á þingi. Frumvarpið er að uppistöðu til þess gert að efna loforð sem stjórnvöld gáfu í tengslum við gerð lífskjarasamninganna vorið 2019, en hafa enn ekki efnt. Í þeim samningi skuldbundu stjórnvöld sig meðal annars að hækka lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða úr 12 í 15,5 prósent og að ráðstafa mætti séreignarsparnaði til húsnæðiskaupa eða til lækkunar húsnæðislána.
Bjarni lagði frumvarpið fyrst fram fyrir rúmu ári síðan. Í því voru mun fleiri breytingar en þær sem minnst er á hér að ofan og fyrir vikið sætti það umtalsverðri gagnrýni, meðal annars fyrir ónægt samráð við hagaðila. Fyrir vikið náði frumvarpið ekki fram að ganga. Því var vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari umfjöllunar og undirbúnings.
Efnislega gagnrýnin var margskonar. Sú sem hæst fór snerist um að samkvæmt frumvarpinu áttu verðlagsuppfærslur lífeyrisgreiðslna að eiga sér stað einu sinni á ári í stað mánaðarlega eins og nú er. Þetta kölluðu reynslumikið fólk úr lífeyrissjóðaheiminum atlögu að kjörum lífeyrisþega sem myndi skerða kaupþátt lífeyrisþegar umtalsvert. Þótt fjármála- og efnahagsráðherra segist í greinargerð ekki geta tekið undir allar athugasemdir um þetta atriði sem settar hafa verið fram „var talið rétt að svo stöddu að leggja ekki til breytingar á útreikningnum.“
Annað atriði sem hefur verið gagnrýnt er að heimilt verður að nota svokallaða tilgreina séreign skattfrjálst upp í fyrstu fasteignakaupin sín. Það er þensluhvetjandi aðgerð, sem er ekki það sem uppseldur húsnæðismarkaður þar sem framboð er langt frá því að svara eftirspurn þarf á að halda.
Varhugaverðar breytingar með stuttum fyrirvara
Upphaflega frumvarpið var lagt fram fyrir rúmu ári. Á meðal þeirra sem gagnrýndu það harkalega var Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hún sagði í samtali við Kjarnann að stjórnvöld væru að reyna að „smygla“ óræddum breytingum inn í frumvarpið og gerði aðallega athugasemdir við þrennt. Í fyrsta lagi með að það ætti að hækka þann aldur þegar réttindaávinnsla til ellilífeyris hefst frá 16 ára aldri og upp í 18 ára aldur. Það myndi þýða að 16 og 17 ára ungmenni greiði ekki í lífeyrissjóð eins og í dag og atvinnurekendur greiði þar af leiðandi heldur ekki mótframlag í lífeyrissjóði þeirra vegna.
Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar sagði meðal annars að gagnrýnin sem sett hafði verið fram við umfjöllun nefndarinnar um málið hafi til að mynda snúist um að ónægt samráð hefði verið haft við lífeyrissjóði og aðra hagsmunaaðila við undirbúning þess. Þá sagði þar að „varhugavert væri að viðamiklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu væru lagðar fram með svo stuttum fyrirvara.“
Nefndin lagði því til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar, það yrði rýnt með tillit til ábendinga í umsögnum og samráð haft við hagaðila um breytingar. Að því loknu væri hægt að leggja frumvarpið fram að nýju á yfirstandandi þingi.
Breytt frumvarp en margt gamalt inni í því
Drög að nýju frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á þessu ári. Hluti af því sem áður hafði verið gagnrýnt var farið út og nú áttu að felast fimm meginbreytingar í frumvarpinu. Í fyrsta lagi átti að lögbinda hækkun mótframlags launagreiðenda á almennum vinnumarkaði til lífeyrissjóðs úr átta prósentum í 11,5 prósent, en 77-100 prósent atvinnurekenda greiða nú þegar 11,5 prósent í lífeyrissjóð með hverjum starfsmanni samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningum lífeyrissjóðanna. Þar með myndi lágmarksiðgjald hækka upp í 15,5 prósent.
Í öðru lagi var lagt til að sjóðfélagar gætu ráðstafað hækkun mótframlagsins til þess er mun kallast tilgreind séreign, í stað þess að ráðstafa hækkuninni í samtryggingardeildir lífeyrissjóða. Í þriðja lagi voru settar fram tillögur að auknum heimildum til þess að nýta úrræði lífeyrissparnaðar til fyrstu kaupa á fasteign.
Í fjórða lagi var lagt til að tilgreindur yrði á skýran hátt sá hluti lífeyrissparnaðar sem kemur ekki til lækkunar við ákvörðun um ellilífeyri, tekjutryggingu og ráðstöfunarfé samkvæmt lögum um almannatrygginga.
Í fimmta lagi var svo, áfram sem áður, lagt til að verðlagsuppfærslur lífeyrisgreiðslna ættu sér stað einu sinni á ári í stað mánaðarlega eins og nú er.
Þensluhvetjandi aðgerð
Fjölmargt í nýjum frumvarpsdrögum Bjarna var gagnrýnt. Þar er til að mynda lögfest heimild sjóðsfélaga lífeyrissjóða til að geta ráðstafað hluta af því framlagi sem þeir greiða til lífeyrissjóða í svokallaða tilgreinda séreign. Þessa tilgreindu séreign munu sjóðfélagar svo geta nýtt sér skattfrjálst upp í fyrstu fasteignakaupin sín.
Þessi aðgerð yrði án efa þensluhvetjandi á húsnæðismarkaði þar sem verð er þegar búið að hækka mun hraðar en ráðstöfunartekjur á skömmum tíma og framboð er langt frá því að anna eftirspurn. Segja má að íslenskum húsnæðismarkaður sé í raun uppseldur.
Í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika sagði Seðlabankinn að margir þættir hafi ýtt undir eftirspurn eftir að kórónuveirufarsóttin náði til landsins snemma árs 2020, t.a.m. aukinn sparnaður vegna takmarkaðra neyslumöguleika, mikil kaupmáttaraukning heimila og vaxtalækkanir Seðlabankans.
Bankinn sagði að ójafnvægið sem ríkir á húsnæðismarkaðnum bendi til þess að áhætta á bólumyndun sé að aukast töluvert þessi misserin. Hins vegar vonaðist hann til þess að vaxtahækkanir undanfarinna mánaða og þrengri skilyrði fyrir lántöku myndi minnka þetta ójafnvægi með því að draga úr eftirspurn.
Auknar heimildir til skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði í fyrstu fasteign, líkt og lagt er til í frumvarpi Bjarna, hefðu þveröfug áhrif og auka eftirspurn á húsnæðismarkaði, þar sem þær auka aðgengi heimila að fjármagni til húsnæðiskaupa. Ef slíkum eftirspurnarkippi er ekki mætt með samsvarandi aukningu framboðs mun húsnæðisverð hækka enn frekar. Því er um þensluaðgerð að ræða.
Áhrif aðgerðarinnar á eftirspurn á fasteignamarkaðnum eru ekki metin í frumvarpsdrögunum.
Kölluðu frumvarpið atlögu að kjörum lífeyrisþega
Önnur skörp gagnrýni á drögin kom frá Hrafni Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða til 36 ára, og Þorgeiri Eyjólfssyni, sem var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í aldarfjórðung. Þeir eru tveir af reynslumestu stjórnendum íslenska lífeyrissjóðakerfisins frá því að það var sett á fót.
Í grein sem Hrafn og Þorgeir skrifuðu saman í Morgunblaðið og birtist 4. apríl sagði m.a.: „Í farvatninu er aðför að kjörum lífeyrisþega lífeyrissjóðanna. Atlagan að kjörum lífeyrisþega er hluti fyrirhugaðra breytinga á ýmsum lögum vegna lögfestingar hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða. Skerðingin á kjörum lífeyrisþeganna er með öllu óskyld og óviðkomandi lögfestingu lágmarksiðgjaldsins.“
Atlagan sem þeir töldu vera í farvatninu snéri að því að frumvarpsdrögin gerðu áfram ráð fyrir að verðlagsuppfærslur lífeyrisgreiðslna ættu sér stað einu sinni á ári í stað mánaðarlega eins og nú er. Þetta sögðu Hrafn og Þorgeir að myndi skerða lífskjör lífeyrisþega. Neikvæðar afleiðingar hinna fyrirhuguðu breytinga mættu sjá með því að horfa á hver áhrifin yrðu á yfirstandandi ári ef lagabreytingin hefði tekið gildi í upphafi árs 2022. Miðað við þá 6,7 prósent verðbólgu sem mældist þegar greinin var skrifuð myndi kaupmáttarskerðing lífeyrisþega verða um það bil þrjú prósent ef breytingin hefði þegar tekið gildi. Hún yrði meiri í dag þar sem verðbólgan er komin upp í 7,6 prósent og spár greiningaraðila gera ráð fyrir að hún fari yfir átta prósent fyrir sumarlok.
Hrafn og Þorgeir sögðu í lok greinarinnar að ólíklegt sé að lífeyrisþegar telji fyrirhugaða breytingu á verðtryggingu lífeyris sér til hagsbóta þegar hún uppsöfnuð yfir fimm ára tímabil samsvarar samanlagt allt frá einni til tveggja mánaða lífeyrisgreiðslna yfir tímabilið sem þá vantar til að standa straum af brýnustu nauðsynjum. „Ekki eins og lífeyrisþegar landsins hafi verið ofaldir af stjórnvöldum. En það er efni í aðra og mun sorglegri grein.“
Felldi út breytt fyrirkomulag við útreikning á verðbótum
Gagnrýnin sem sett hefur verið fram á frumvarpið á síðustu tveimur árum hefur skilað umtalsverðum árangri, þótt fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki tekið tillit til hennar allrar.
Í frumvarpinu sem dreift var mánudag í síðustu viku, og til stóð að taka til fyrstu umræðu á þinginu í gær, eru lagðar til fjórar meginbreytingar. Sú stærsta er áfram sem áður að hækka lágmarksiðgjald úr 12 í 15,5 prósent. Felld hefur verið á brott tillaga um að skylda lífeyrissjóði til að bjóða sjóðfélögum ráðstöfun á hluta iðgjaldsstofns til tilgreindrar séreignar. Í stað þess er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að kveða á um slíkra ráðstöfun í samþykktum sínum.
Tillögur að auknum heimildum til þess að nýta úrræði lífeyrissparnaðar til fyrstu kaupa á fasteign eru áfram inni, með tilheyrandi þensluáhrifum.
Loks er lagt til að tilgreindur verði skýrlega sá hluti lífeyrissparnaðar sem kemur ekki til lækkunar við ákvörðun um ellilífeyri, tekjutryggingu og ráðstöfunarfé samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Ýmislegt hefur verið fellt á brott. Þar ber hæst það sem Hrafn og Þorgeir gagnrýndu harðlega í grein sinni í Morgunblaðinu í apríl, breytt fyrirkomulag við útreikning á verðbótum lífeyrisgreiðslna. Í greinargerð sem fylgir frumvarpi Bjarna segir að þrátt fyrir að „ekki sé unnt að taka undir allar athugasemdir um þetta atriði sem fram komu í umsögnum var talið rétt að svo stöddu að leggja ekki til breytingar á útreikningnum.“