Arnar Þór

Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld

Framkvæmdastjóri Betri samgangna segir að mestur árangur í slagnum við umferðartafir náist með því að leggja á veggjöld sem séu hærri á háannatímum. Í samtali við Kjarnann ræðir Davíð Þorláksson væntanleg veggjöld, reynslu af þeim erlendis, skipulagningu Keldnalandsins og önnur verkefni samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Ég held að það geri sér allir grein fyrir því að þetta geti verið mjög umdeilt,“ segir Davíð Þor­láks­son, fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna, sem sett­ist niður með blaða­manni Kjarn­ans á aðvent­unni, til þess að ræða um verk­efni félags­ins og þá ekki síst það sem hann segir að geti orðið umdeilt; hin nýju gjöld sem áformað er að leggja á umferð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, en einnig verk­efni sam­göngusátt­mál­ans og ráð­stöfun Keldna­lands­ins, sem er á hendi Betri sam­gangna.

Dav­íð, sem er rúm­lega fer­tugur lög­fræð­ingur með MBA-gráðu að auki, segir Betri sam­göngur í sam­starfi við fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­ið, inn­við­a­ráðu­neytið og Sam­tök sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (SSH) hafa verið að skoða ýmsar útfærslur flýti- og umferð­ar­gjalda frá því í fyrra.

Kjarn­inn sagði frá því í febr­ú­ar­mán­uði að hug­myndir í þessa veru væru á teikni­borð­inu í sam­skiptum Betri sam­gangna og ráðu­neyta. Davíð segir að í reynd hafi ekki þurft að vinna mikla vinnu frá grunni vegna þessa verk­efn­is, heldur hafi verið horft til þess hvernig þetta hefur verið útfært í nágranna­löndum okk­ar, Nor­egi og Sví­þjóð, þar sem sam­bæri­leg gjöld hafa verið lögð á bíla­um­ferð og það „gengið mjög vel“, að sögn Dav­íðs.

Bolt­inn hjá ráðu­neyt­inu

„Bolt­inn er kannski núna svo­lítið hjá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­in­u,“ segir Davíð um veggjöld­in, en sam­kvæmt þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­innar er fyr­ir­hugað að frum­varp um heim­ild til þess að leggja þessi gjöld á komi frá Bjarna Bene­dikts­syni fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra á vor­þingi.

„Sam­kvæmt sam­göngusátt­mál­anum eigum við að sjá um að inn­heimta þetta en auð­vitað verður Alþingi að taka ákvörðun um hvernig þetta verður skipu­lagt og ráð­herra þarf þá að koma með til­lögur um það fyrir þau,“ segir fram­kvæmda­stjór­inn og nefnir að nýlega hafi fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið aug­lýst eftir sér­fræð­ingum til starfa í tíma­bundna verk­efna­stofu um gjald­töku af bíla­um­ferð.

Davíð seg­ist vænta þess að hjá þess­ari verk­efna­stofu verði einnig snert á fleiru en veggjöld­unum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, eins og þeirri gjald­töku af umferð í jarð­göngum á lands­byggð­inni sem Sig­urður Ingi Jóhanns­son inn­við­a­ráð­herra boð­aði í sum­ar, mögu­legu kíló­metra­gjaldi sem Bjarni Bene­dikts­son hefur rætt um að leggja á til að leysa af hólmi bens­ín- og olíu­gjöld á tímum raf­væð­ingar bíla­flot­ans og mögu­lega þau sam­göngu­verk­efni sem til stendur að vinna í sam­starfi við einka­að­ila, eins og til dæmis Sunda­braut.

„Það verður spenn­andi að sjá hvernig þess­ari verk­efna­stofu mun ganga að vinna úr þessu en við teljum að flýti- og umferð­ar­gjöldin séu ansi vel þróað mál. Það er alls ekk­ert á byrj­un­ar­reit, það er búið að liggja vel yfir því þó að það hafi engar útfærslur verið kynnt­ar, enda er það Alþingis að ákveða end­an­legar útfærsl­ur, en ráðu­neyt­is­ins að leggja það upp fyrir þing­ið,“ segir Dav­íð.

Það hefur ef til vill ekki farið mikið fyrir opinni umræðu um veggjöld­in, en Davíð segir þau ekki eiga að koma neinum á óvart, spurður hvort hann vænti þess að þau verði póli­tískt óvin­sæl.

„Það eru nú orðin þrjú ár og þrír mán­uðir síðan sam­göngusátt­mál­inn var und­ir­rit­aður og þar er gert ráð fyrir þess­ari gjald­töku og þetta hefur öðru hverju verið í umræð­unn­i,“ segir Davíð og bætir því við af honum þyki „sér­stakt,“ sem merkja megi af umræðu um veggjöld hér á landi og raunar í Nor­egi og Sví­þjóð líka, að það séu helst hægri­menn sem séu and­snúnir álagn­ingu slíkra gjalda.

Davíð Þorláksson hefur verið framkvæmdastjóri Betri samgangna frá árinu 2020.
Arnar Þór

„Sem ég í raun­inni, sem yfir­lýstur hægri­mað­ur, átta mig ekki alveg á,“ segir Davíð og lætur þess getið að Betri sam­göngur hafi verið að skoða veggjöldin ásamt International Tran­sport Forum hjá Efna­hags- og fram­fara­stofnun Evr­ópu, OECD. Sú stofnun sé mjög áfram um álagn­ingu veggjalda, og seint verði annað sagt en að OECD sé „mjög hægri­s­innað fyr­ir­bæri“.

„Þetta snýst ann­ars vegar um það að fjár­magna sam­göngu­fram­kvæmd­irn­ar, en líka það að átta sig á því að umferð­ar­tafir valda mjög miklum sam­fé­lags­legum kostn­aði, fyrir ein­stak­linga, fyrir fyr­ir­tæki, sveit­ar­fé­lögin og rík­ið. Svona gjald­taka er líka hugsuð til þess að láta þann sem veldur kostn­að­inum borga fyrir hann. Í mínum huga er þetta hægri­s­innað fyr­ir­bæri, því það er verið að láta þann sem veldur kostn­að­inum borga fyrir hann, bæði tafa­kostnað og kostnað við það að byggja upp fleiri mann­virki við sam­göngu­mát­ana. Þannig að þetta hefur komið á óvart,“ segir Dav­íð, um and­stöð­una við áformin sem hann merki frá þeim sem eru hægra megin í líf­inu rétt eins og hann sjálf­ur.

Stuðn­ingur við gjald­töku auk­ist þegar árangur kemur í ljós

Hann segir að þró­unin í þessum efnum á Norð­ur­lönd­um, ef kann­anir þar eru skoð­að­ar, séu á þann veg að yfir­leitt sé „svona þokka­legur stuðn­ingur við málin fyrst þegar menn byrja að ræða þetta“, en segja mætti að Íslend­ingar séu á því stigi núna.

„En þegar útfærsl­urnar koma fram og fólk sér hvað það þarf sjálft að borga í krónum og aur­um, þá magn­ast and­stað­an. En svo þegar gjald­takan er komin á og menn sjá hvernig hún virkar, og menn sjá að þetta dregur úr umferð­artöfum og menn sjá umferð­ar­mann­virki rísa sem eru byggð með tekj­unum af þessu, þá eykst stuðn­ing­ur­inn,“ segir Davíð og nefnir að í Ósló og víðar hafi verið stuðn­ingur við að hækka gjöldin reglu­lega „því að menn sjá að það skilar meiri árangri“.

„Menn gera sér grein fyrir því að þetta verði umdeilt – en þetta er auð­vitað eitt­hvað sem er bara alveg nýtt fyrir okk­ur,“ segir Davíð og segir hið sama gilda um fyr­ir­hug­aða upp­bygg­ingu Borg­ar­línu, hágæða­al­menn­ings­samöngu­kerfis á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

„Við erum auð­vitað árum ef ekki ára­tugum á eftir hinum Norð­ur­lönd­unum þegar kemur að þessum mála­flokkum og sam­göngu­málum almennt og getum lært af reynsl­unni þar. Hlut­irnir verða umdeildir en við höfum sann­fær­ingu fyrir því að þetta sé það eina rétta fyrir höf­uð­borg­ar­svæðið og þess vegna höldum við áfram að vinna í þessu eins og stjórn­málin eru búin að setja okkur fyrir í raun og veru, með sam­göngusátt­mál­an­um. En ef menn hafa metnað fyrir því að draga úr umferð­artöf­um, þá er þetta, flýti- og umferð­ar­gjöld, ein­faldasta og fljót­leg­asta leiðin til þess. Það er eina leiðin sem skilar hagn­aði, því aðrar fram­kvæmdir sem við förum í til að stuðla að minnk­andi töfum þær auð­vitað skila engum ágóða, heldur bara kosta sitt,“ segir Dav­íð.

Hærra gjald á háanna­tíma hefur mest áhrif á umferð­ina

Í minn­is­blöðum Betri sam­gangna til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins og inn­við­a­ráðu­neyt­is­ins voru settar fram sviðs­myndir um það hvernig hægt væri að útfæra gjöld­in, t.d. að rukka mætti lágt flatt gjald á allan akstur í gegnum toll­hlið eða hærri gjöld á háanna­tím­um. Spurður með hverju Betri sam­göngur myndu mæla í þessum efnum ítrekar Davíð að það sé Alþingis að ákveða útfærsl­urn­ar.

„En út frá þess­ari for­sendu að þarna sé verið að láta þau sem valda töfum borga fyrir þær, þá er rök­rétt­ast að gjaldið sé hærra á háanna­tíma. Þannig er þetta held ég víð­ast hvar útfært í Nor­egi og Sví­þjóð, það er best til þess fallið að stuðla að minnk­andi umferð­artöf­um,“ segir Dav­íð.

Hann segir að í sam­an­burði við aðrar borgir, sem meðal ann­ars megi glöggva sig á vefnum TomTom, séu ekki telj­andi umferð­ar­tafir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, nema þá á háanna­tím­an­um, þegar þær séu tals­verð­ar.

Hér má sjá yfirlit frá vefsíðunni TomTom yfir umferðartafir í Reykjavík. Þær eru mestar síðdegis, þegar fólk er að jafnaði yfir 40 prósentum lengur að ferðast um borgina á bíl en þegar hægt er að bruna á milli staða án þess aðrir bílar séu fyrir. Reykjavík er í 144. sæti á lista yfir borgir með færri en 800 þúsund íbúa er kemur að umferðartöfum.
Mynd: EPA

„Því þyrfti gjaldið að vera hærra þá til að skila árangri í því. Ef við myndum ráða myndum við leggja það þannig upp, en eins og ég segi þá er það algjör­lega í höndum Alþingis að taka end­an­legar ákvarð­anir um þetta,“ segir Dav­íð.

Einnig segir hann að rétt væri að hans mati að byrja með eins ein­faldar útfærslur og hægt er, fá gjald­hlið, á eins fáum stöðum og hægt er, og eins fáar und­an­tekn­ingar frá gjald­skyld­unni og hægt er.

„Það er alltaf hægt að flækja hlut­ina eftir á en það erf­ið­ara að fara að ein­falda hlut­ina eftir á, þannig að við myndum leggja til að þetta yrði eins ein­falt og hægt er í upp­hafi, þó þannig að gjaldið sé hærra á háanna­tíma. En við höfum úr ýmsu að spila þarna, við höfum skoðað hvernig þetta er gert í Nor­egi og Sví­þjóð og svo sem víðar um heim, bæði hvaða tækni er notuð og svo fram­vegis og svo erum við líka með aðgang að umferð­ar­lík­ani höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, sem er ansi öfl­ugt og erlendir sér­fræð­ingar segja okkur að séu með því betra sem þeir hafi séð á Norð­ur­lönd­un­um. Þar höfum við ferða­venjukann­an­irnar sem eru mataðar inn í líkan­ið, þannig að það getur metið fyrir okkur hverju mis­mun­andi útfærslur geta skilað í breyttum ferða­venjum og minni umferð­artöfum og svo fram­veg­is, þannig að við höfum úr ýmsum tólum og tækjum að spila. Þegar að útfærsl­urnar verða ákveðnar þá þurfa menn ekk­ert að renna algjör­lega blint í sjó­inn, auð­vitað eru engin líkön full­komin en við höfum nokkuð mikla vissu fyrir því hvaða tekjum útfærslur muni skila og hvaða árangri þær muni skila í breyttum ferða­venj­u­m,“ segir Dav­íð.

Höf­uð­verk­efnið „að hámarka virði“ Keldna­lands­ins

Nokkrum dögum eftir að Davíð ræddi við blaða­mann Kjarn­ans á skrif­stofum Betri sam­gangna á Grand­anum und­ir­rit­aði hann samn­ing við ríkið um ráð­stöfun Keldna­lands­ins, en ríkið hefur nú form­lega lagt Keldna­landið og raunar Keldna­holtið líka inn í Betri sam­göngur og mun það verða í höndum Dav­íðs og félaga hjá Betri sam­göngum að halda utan um þróun svæð­is­ins og koma því í verð.

Davíð segir að frá því vorið 2021 hafi félagið verið í ágætis sam­starfi við Reykja­vík­ur­borg um und­ir­bún­ing þess verk­efn­is. Hlut­irnir eru komnir á hreyf­ingu og nú stendur fyrir dyrum skipu­lags­sam­keppni um svæð­ið.

Við erum að leggja loka­hönd á skipun dóm­nefndar og von­andi verður hægt að kynna hana núna bara í annarri viku næsta árs og setja keppn­ina af stað og aug­lýsa hana og þá hægt að kom­ast að nið­ur­stöðu næsta sumar eða næsta haust,“ segir Davíð um fyrstu skrefin í þessu ferli.

Þegar er búið að vinna nokkrar und­ir­bún­ings­rann­sóknir um svæð­ið, sem tengj­ast meðal ann­ars vatnaf­ari, seiða­gengd og jarð­lög­um. „Við erum búin að vera að reyna að vinna eins mikið í und­ir­bún­ings­rann­sóknum og við get­um, svo við getum fækkað óvissu­þáttum í því starfi sem er framund­an,“ segir Dav­íð.

En hvað telja Betri sam­göngur sig geta fengið marga millj­arða fyrir land­ið? Því vill Davíð ekki svara.

„Við höfum skoðað þetta eitt­hvað okkar meg­in, við viljum ekki fara með neitt út því við viljum ekki binda hendur fólks­ins sem eru að fara taka þátt í skipu­lags­sam­keppn­inni, við viljum bara að þau fari inn í þetta með opnum huga, en okkar höf­uð­verk­efni er að hámarka verð­mæti lands­ins,“ segir Dav­íð.

Ríkið kemur með land­svæðið til Betri sam­gangna á 15 millj­arða króna og segir Davíð allt umfram þá upp­hæð eiga að skila sér til verk­efna sam­göngusátt­mál­ans og að það sé „allra hag­ur, sveit­ar­fé­laga, rík­is­ins, og okkar og íbú­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, að þetta skili sem mest­u.“

„Það mun allt skila sér inn í þessar sam­göngu­fram­kvæmd­ir, þetta er kannski ólíkt öðrum upp­bygg­ing­ar­svæðum sem eru í eigu einka­að­ila að því leyti að það er eng­inn að fara að taka hagnað út úr þessu, þetta mun allt renna til sam­fé­lags­legra verk­efna,“ segir Davíð og bætir því við að það sé allra hagur að „þarna verði búin til mikil verð­mæt­i“.

Hann segir það þó ekki það sama, mikil verð­mæti og mikla þéttni byggð­ar. „En auð­vitað verður þarna byggt þétt, þetta er hverfi sem verður byggt í kringum fjöl­breytta sam­göngu­máta, fyrsta hverfið sinnar teg­undar á Íslandi sem verður byggt þannig og það er spenn­andi að taka þátt í því og slíkt hverfi verður óhjá­kvæmi­lega þétt. En það er mik­ill land­halli þarna og þetta þarf auð­vitað að passa vel inn í borg­ar­mynd­ina að öðru leyti og hverfin í kring, svo þetta verður aldrei ein­hver háhýsa­byggð í anda Dúbaí, aug­ljós­lega ekki, verð­mæti og þétt­leiki þurfa ekki að vera það sama,“ segir Dav­íð.

Hann segir mikil verð­mæti geta falist í því að hafa inn á milli græn svæði og segir að á land­inu séu til staðar nátt­úru­leg græn svæði, skóg­rækt­ar­lund, lækir og göngu­stígaa, græn svæði sem Davíð seg­ist telja að mik­ill áhugi sé á að haldi sér.

Ljóst að tíma­á­ætl­anir voru of bjart­sýnar

Verk­efni sam­göngusátt­mál­ans sem eiga að vinn­ast á næsta rúma ára­tug eru æði mörg. Þremur stofn­vega­verk­efnum sátt­mál­ans er þegar lok­ið, breikk­unum á Suð­ur­lands­vegi, Reykja­nes­braut og Vest­ur­lands­vegi í Mos­fells­bæ, en ýmsum öðrum verk­efnum sátt­mál­ans hefur frestað.

Sem dæmi má nefna að þegar upp­haf­leg fram­kvæmda­á­ætlun sátt­mál­ans var sett niður árið 2019 var gengið út frá því að Arn­ar­nes­vegur gæti orðið klár 2021, rétt eins og gatna­mót Bústaða­vegs og Reykja­nes­brautar og að Sæbraut­ar­stokk­ur­inn yrði tek­inn í notkun á þessu ári, Miklu­braut­ar­stokk­ur­inn á því næsta og fyrsti áfangi Borg­ar­línu sömu­leið­is.

Davíð segir aðspurður að það sé alveg ljóst að sumar tíma­á­ætl­anir í sátt­mál­anum hafi verið „mjög bjart­sýnar og of bjart­sýn­ar“ og segir það ekki eiga sér­stak­lega við um Borg­ar­línu, en tíma­lína fyrsta áfang­ans í því verk­efni var í sumar færð aftur til áranna 2026 og 2027.

„Tíma- og kostn­að­ar­á­ætl­anir munu upp­fær­ast eftir því sem þessu vindur fram og því lengra sem við komumst í hönn­un­inni, því áreið­an­legri fara þær að verða,“ segir Dav­íð. Hann bætir því við að Betri sam­göngur horfi á það sem sitt lyk­il­verk­efni að „áætl­anir hald­ist að svo miklu leyti sem það er hægt bæði varð­andi tíma og kostn­að“ og hafi á sínum snærum doktor í verk­efna­stjórnun og geri kröfu um beit­ingu alþjóð­lega við­ur­kenndrar aðferða­fræði, AACE, við utan­um­hald verk­efn­anna.

„En við gerum okkur grein fyrir því að það mun lík­lega margt fara fram úr áætl­unum og hefur þegar gert það í ein­hverjum af minni fram­kvæmd­un­um. Þetta er það sem á það til að ger­ast of oft með stórar opin­berar fram­kvæmd­ir, en hvað eigum við að gera? Það er oft spurt um þetta, og aðal­lega í tengslum við Borg­ar­lín­una, en maður hefur kannski meiri áhyggjur af stofn­vega­fram­kvæmd­un­um, því að maður sér að varð­andi Borg­ar­lín­una hefur verið lögð miklu meiri vinna í áætl­ana­gerð­ina því þar er fjöl­þjóð­legt hönn­un­arteymi með mörgum aðilum og miklu stærri fram­kvæmd og meira púður lagt í það á meðan að það hefur minni vinna verið lögð í áætl­ana­gerð stofn­veg­anna. En það er kannski helst að and­stæð­ingar Borg­ar­lín­unnar séu að spyrja út í áætl­ana­gerð­ina varð­andi Borg­ar­lín­una en hafa minni áhuga varð­andi áætl­ana­gerð­ina í kringum stofn­veg­ina, sem er nokkuð sér­stakt. Við höfum bara áhyggjur af þessu öllu sam­an, ekki af því að það þurfi að hafa meiri áhyggjur af þessu en öðru, en þetta eins og aðrar opin­berar fram­kvæmdir hefur til­hneig­ingu til að fara fram úr áætlun og við ætlum að reyna að passa upp á þetta eins og hægt er með þessum hlutum sem ég nefnd­i,“ segir Dav­íð.

Hann bætir því við að þrátt fyrir að opin­berar fram­kvæmdir og stórar inn­viða­fram­kvæmdir eigi það til að fara fram úr áætl­unum geri hann ekki ráð fyrir fólk vilji hætta að byggja upp sam­eig­in­lega inn­viði.

„Við viljum varla hætta að byggja upp sam­göngu­kerfin okk­ar, eða dreifi­kerfi raf­orku eða nýjan spít­ala þó að við vitum að það sé hætta að eitt­hvað af þessu fari fram úr áætl­un­um. Það sem við getum gert er að gera áætl­an­irnar betri og fylgja þeim betur eftir og það er það sem við erum að gera meðal ann­ars með því að gera kröfu um að það sé notuð alþjóð­lega við­ur­kennd aðferða­fræð­i,“ segir Dav­íð.

Sveit­ar­fé­lögin þurfa að greiða fyrir að stokkar verði dýr­ari

Með sam­göngusátt­mál­anum voru sett fram áform um þrjá veg­stokka; Sæbraut­ar­stokk, Miklu­braut­ar­stokk og Garða­bæj­ar­stokk, sem eiga að verða að veru­leika á næsta rúma ára­tug. Veg­stokkar eru dýr­ir, sér­stak­lega ef það á að byggja ofan á þá og ljóst að þær kostn­að­ar­tölur sem settar voru inn í sam­göngusátt­mál­ann munu ekki stand­ast.

Blaða­maður spurði Davíð hvort Betri sam­göngur myndu hafa eitt­hvað hlut­verk í því að þróa nýtt bygg­ing­ar­land umhverfis stokk­ana, eða ofan á þeim, eins og félagið hefur nú tekið að sér þróun Keldna­lands­ins. Svo er ekki, segir Dav­íð.

„Það verður á hendi sveit­ar­fé­lag­anna á hverjum stað. Við fjár­mögnum umferð­ar­mann­virkið sjálft, en það er alveg ljóst að stokkur sem er bara stokkur og ekk­ert byggt ofan á honum er miklu ódýr­ari en stokkur sem verður byggt ofan á. Ég held að það sé alveg ljóst að ef það verður til bygg­ing­ar­land í tengslum við stokk­ana sem menn ætla sér að nýta þá sé ljóst að þeir sem ætla að nýta það bygg­ing­ar­land verði að greiða fyrir allan auka­kostnað sem veldur því að stokk­arnir verða dýr­ari,“ segir Dav­íð.

Nánar verður rætt við fram­kvæmda­stjóra Betri sam­gangna í Kjarn­anum á næstu dögum

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal