Bankasýslan þáði hádegis- og kvöldverði, vínflöskur, konfekt, kokteilasett og einn flugeld
Minnisblað um þær gjafir sem forstjóri og starfsmenn Bankasýslu ríkisins hafa þegið af fjármálafyrirtækjum hefur verið skilað til nefndar Alþingis, næstum sex mánuðum eftir að það var boðað. Í því er útlistað það sem hópurinn þáði að gjöf frá fjármálafyrirtækjum sem mörg hver fengu svo arðbær hlutverk í ferlinu við að selja Íslandsbanka.
„Við fengum þarna einhverjar vínflöskur og flugelda og konfektkassa. Svo náttúruleg eigum við einhverja hádegisverði og kvöldverði með ráðgjöfum og svo framvegis. En ekkert annað.“ Þetta sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, spurði hann á opnum fundi fjárlaganefndar þann 27. apríl hvort hann hefði þegið boð, gjafir, risnu eða annað slíkt í kjölfar eða í aðdraganda beggja útboða sem fram hafa farið með hluti ríkisins í Íslandsbanka.
Nefndarmenn fóru í kjölfarið fram á frekari svör um málið og Jón Gunnar sagðist ætla að taka saman minnisblað um þessar gjafir og greiddu hádegisverði. Lárus Blöndal, stjórnarformaður stofnunarinnar, sagði við sama tilefni að hann hefði ekki þegið neinar gjafir.
Það minnisblað liggur nú fyrir næstum hálfu ári eftir að fjárlaganefndarfundurinn fór fram. Minnisblaðið, sem er dagsett 7. október og er tvær blaðsíður, var sent á alla sem sitja í fjárlaganefnd. Kjarninn hefur það undir höndum.
Fundurinn í nefndinni kom til vegna mikillar gagnrýni á sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn á 52,65 milljarða króna. Alls 207 fjárfestar fengu þá að kaupa hluti á verði sem var samanlagt 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði bankans í lokuðu útboði sem fór fram samkvæmt tilboðsleið.
20 hádegisverðir en ekki tilgreint hvað þeir kostuðu
Í minnisblaðinu kemur fram að frá 23. apríl 2021 og til 13. apríl 2022 átti Bankasýsla ríkisins 20 vinnufundi þar sem veitingar voru í boði með ýmsum fjármálafyrirtækjum. Þessa fundi átti stofnunin með eftirtöldum fjármálafyrirtækjum: ABN AMRO, Arctica Finance, Barclays, Fossar markaðir, Íslandsbanki, Íslensk verðbréf, Íslenskir fjárfestar (nú ACRO verðbréf), Kvika banki og Landsbankinn. Í minnisblaðinu segir að þessir vinnufundir hafi yfirleitt átt sér stað í hádeginu. Þeir hafi aldrei verið kvöldverðarfundir og „var um að ræða hóflegar veitingar í samræmi við það“.
Í minnisblaðinu er ekki tilgreint hver kostnaðurinn við þessa fundi var en sagt að hann hafi verið „óverulegur“. Þar segir að efni fundanna hafi meðal annars verið „kynning á starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis, framkvæmd frumútboðs, fyrirætlanir ríkissjóðs sem hluthafa um frekari sölu (eftir að þær höfðu verið kunngjörðar með framlagningu fjárlagafrumvarps), áhugi og bolmagn fjárfesta, þróun á hlutabréfaverði og afkomu Íslandsbanka, staða og horfur á íslenskum fjármálamarkaði og í íslensku efnahagslífi.“
Tveir kvöldverðir á sem kostuðu samtals 82 þúsund á mann
Jón Gunnar, forstjóri Bankasýslunnar, og starfsmenn hennar þáðu boð í tvo kvöldverði í tengslum við frumútboð á hlutum í Íslandsbanka sumarið 2021, þegar íslenska ríkið seldu 35 prósent hlut og skráði bankann í kjölfarið á markað.
Sá fyrri var haldinn 24. september 2021 til að fagna frumútboðinu. Hann var með fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka. Kostnaður á hvern þátttakanda var 34 þúsund krónur og reikningurinn var greiddur af Íslandsbanka.
Rúmum tveimur mánuðum síðar, nánar tiltekið 30. nóvember 2021, fóru forstjóri og starfsmenn Bankasýslu ríkisins aftur út að borða, nú í boði umsjónaraðila frumútboðsins, tveggja fjármálaráðgjafa og þriggja lögfræðilegra ráðgjafa. Kostnaður á hvern þátttakanda í kvöldverðinum var 48 þúsund krónur. Reikningurinn var greiddur af þremur umsjónaraðilum útboðsins. Þar er um að ræða Íslandsbanka, Citibank og JP Morgan.
Þennan sama dag, 30. nóvember, hafði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022, þar sem meðal annars voru boðuð áform um að selja eftirstandandi 65 prósenta hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka á árunum 2022 og 2023.
Rauðvín, kokteilasett og flugeldur
Starfsmenn Bankasýslu ríkisins fengu einnig nokkrar tækifærisgjafir um jól og áramót 2021 til að þakka fyrir gott samstarf í tengslum við frumútboðið fyrr á árinu.
ACRO verðbréf gaf starfsmönnum stofnunarinnar eina vínflösku sem metinn er á fjögur þúsund krónur og Íslensk verðbréf, sem var valið til að vera einn söluráðgjafa Bankasýslunnar við lokaða útboðið á hlutum í Íslandsbanka í mars 2022, gaf þeim tvær rauðvínsflöskur sem metnar voru samtals á átta þúsund krónur.
Landsbankinn gaf þeim konfektkassa sem kostaði 4.067 krónur og lögmannsstofan BBA/Fjeldco gaf starfsmönnunum kokteilasett í jólagjöf en kostnaður við hverja gjöf var um 20 þúsund krónur.
Þá gaf verðbréfmiðlun og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka það sem Bankasýslan kallar staðlaða jólagjöf bankans til stærri viðskiptavina þessara deilda, en um er að ræða eina léttvínsflösku og smárétti þar sem kostaði um 14 þúsund krónur hver.
Flugeldurinn sem fengin var að gjöf kostaði svo 2.500 krónur. Hann var, samkvæmt minnisblaðinu, gjöf frá vini Jóns Gunnars sem starfar hjá fjármálafyrirtæki. Ekki er tilgreint í minnisblaðinu hjá hvaða fjármálafyrirtæki maðurinn starfar né hver hann er en sagt að þessi gjöf hafi „verið staðfest sem vinagjöf af viðkomandi einstaklingi.“
Í vinnslu í marga mánuði
Kjarninn hefur lengi leitað eftir upplýsingum um það hvort stjórnar- eða starfsmenn Bankasýslu ríkisins hafi þegið gjafir eða boðsferðir. Fyrsta fyrirspurn þess efnis var send 10. apríl síðastliðinn eða fyrir hálfu ári síðan. Í henni var spurt: „Hafa stjórnarmenn eða starfsmenn þegið einhverjar gjafir eða boðsferðir frá einhverjum þeirra ráðgjafa sem ráðnir voru til að sinna sölumeðferð á hlut í Íslandsbanka í síðasta mánuði?“
Þegar ekkert svar hafði borist níu dögum síðar var fyrirspurnin ítrekuð. Þegar ekkert svar hafði enn borist í lok aprílmánaðar og í ljósi þess að stofnunin svaraði ekki fyrirspurn frá fjölmiðli með neinum hætti var ákveðið að vísa henni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem Bankasýsla ríkisins heyrir undir, þann 22. apríl síðastliðinn. Ekkert svar hefur heldur borist þaðan.
Í byrjun júlí var fyrirspurnin aftur ítrekuð og þá fékkst eftirfarandi svar frá Jóni Gunnari: „Þetta er í vinnslu.“ Nú, þremur mánuðum síðar, hefur Bankasýslan skilað af sér umræddu minnisblaði.
Hagsmunarárekstrar til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er að skoða háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu og viðskipti sem áttu sér stað með hlutabréf í aðdraganda útboðsins.
Þegar listi yfir kaupendur á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka var birtur kom í ljós að alls átta starfsmenn Íslandsbanka tóku þátt í útboðinu og stærsti eigandi Íslenskra Verðbréfa, sem er einnig eiginkona forstjóra fyrirtækisins, keypti auk þess hlut.
Aðrir innlendir söluráðgjafar voru Fossar markaðir, sem var aðal innlendi söluráðgjafi Bankasýslunnar, ACRO verðbréf og Landsbankinn.
Í minnisblaði Bankasýslunnar til fjárlaganefndar, sem birt var seint í apríl 2022, kom fram að það væri stofnuninni „mikil vonbrigði að strax í kjölfar útboðsins hefðu vaknað spurningar um mögulega bresti í framkvæmd þess, m.a. hugsanlega hagsmunaárekstra hjá aðilum sem stóðu að framkvæmd sölunnar og mögulega ófullnægjandi athugun á hæfi fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.“
Athugasemd ritstjórnar: Í upprunalegri útgáfu stóð að kvöldverðirnir sem starfsmenn Bankasýslunnar þáðu hefðu verið með sex daga millibili. Það er ekki rétt og hefur verið uppfært. Þeir áttu sér stað 24. september 2021 og 30. nóvember 2021.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana