Bankasýslan viðurkennir mistök – Umræðan sýni að almenningur hafi ekki skilið fyrirkomulagið
Bankasýsla ríkisins segir í minnisblaði til fjárlaganefndar að það hafi verið mikil vonbrigði að spurningar um mögulega bresti í framkvæmd lokaðs útboðs á hlutum í Íslandsbanka hafi vaknað strax í kjölfar þess. Þar eru sérstaklega nefndir hugsanlegir hagsmunaárekstrar hjá aðilum sem stóðu að framkvæmd sölunnar og mögulega ófullnægjandi athugun á hæfi fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.
Bankasýsla ríkisins telur að betur hafi mátt standa að kynningu til almennings á þeim söluaðferðum sem beitt var við að selja 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði og mismunandi markmiðum með sölunni. Sérstaklega hefði mátt kynna betur framkvæmd útboðs með tilboðsfyrirkomulagi og þar með talið hverjir gætu tekið þátt í slíku fyrirkomulagi. „Virðist ljóst af umræðum í kjölfar útboðsins að á meðal almennings ekki hafi ríkt skilningur á því hvernig útboð með tilboðsfyrirkomulagi kæmi til með að fara fram þ.á m. hverjir gætu tekið þátt.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Bankasýslan sendi fjárlaganefnd Alþingis í dag, 26. apríl. Í minnisblaðinu svarar stofnunin 30 spurningum í 44 liðum frá þeim sem sitja í nefndinni. Forsvarsmenn hennar mæta á opinn fund fjárlaganefndar í fyrramálið.
Í útboðinu fengu alls 207 fjárfestar að kaupa áðurnefndan hlut fyrir 52,65 milljarða króna, sem var 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði á þeim degi. Hörð gagnrýni hefur verið sett fram á ýmsa þætti þess, meðal annars að litlum fjárfestum hafi verið seldir hlutir fyrir lágar upphæðir, að kynning á útboðinu hafi ekki verið í samræmi við framkvæmdina, að aðilar tengdir söluráðgjöfum hafi sjálfir keypt og að erlendum skammtímafjárfestum hafi verið seldir hlutir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, sagði til að mynda í þinginu í gær að kynning Bankasýslunnar á sölunni hefði gengið út á að verið væri að leita að fjárfestum til lengri tíma sem gætu staðið með bankanum. Því hefði komið á óvart hversu margir litlir fjárfestar keyptu.
Þá hefur 702 milljóna króna söluþóknun sem greidd var til söluráðgjafa í útboðinu, sem stóð yfir frá 16:11 til 21:30 22. mars síðastliðinn, verið sögð allt of há.
Ríkisendurskoðun vinnur nú að gerð stjórnsýsluúttektar á söluferlinu og Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsakar einnig tiltekna þætti þess.
Mikil vonbrigði að spurningar um mögulega bresti hafi vaknað
Í inngangi minnisblaðsins, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að starfsfólk og stjórn Bankasýslunnar hafi unnið að undirbúningi og framkvæmd útboðsins af heilindum. „Það voru stofnuninni mikil vonbrigði að strax í kjölfar útboðsins hefðu vaknað spurningar um mögulega bresti í framkvæmd þess, m.a. hugsanlega hagsmunaárekstra hjá aðilum sem stóðu að framkvæmd sölunnar og mögulega ófullnægjandi athugun á hæfi fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu. Er það á forræði umræddra söluaðila, en ekki Bankasýslu ríkisins, að setja og framfylgja reglum sem koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.“
Eins séu sett ströng skilyrði í lögum varðandi flokkun fjárfesta sem fagfjárfesta, sem ættu að tryggja að þátttakendur í útboðinu yrðu aðeins hæfir og reynslumiklir fjárfestar. „Sú flokkun er á ábyrgð söluaðila sem lúta eftirliti fjármálaeftirlitsins. Með athugun Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins á sölunni vonast Bankasýsla ríkisins til þess að allir aðilar, sem komu að útboðinu, dragi viðeigandi lærdóm af því og að vinnubrögð vegna sölu á jafnmikilvægum eignum eins og hlutabréfum ríkisins í viðskiptabönkum verði bætt.“
Telja að heilt yfir hafi tekist vel til
Bankasýslan segir í minnisblaðinu að mikilvægt sé að gagnrýni á útboðið sé málefnaleg og sanngjörn. Heilt yfir telur hún að útboðið hafi tekist vel út frá fjárhagslegum markmiðum og að framkvæmd þess hafi verið í fullu samræmi við lýsingu stofnunarinnar um sölu með tilboðsfyrirkomulagi, eins og það birtist í minnisblaði stofnunarinnar með tillögu til ráðherra þann 20. janúar 2022. „Þá var það einnig í samræmi við þær upplýsingar sem stofnunin kynnti fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á fundum og greinargerð ráðherra. Engin efnisleg gagnrýni kom þar fram um fyrirhugaða framkvæmd tilboðsfyrirkomulags, t.d. um lágmarksfjárhæð, enda er líklegt að slíkar athugasemdir hefðu endurspeglast í ákvörðun ráðherra.“
Jafnframt sé það von Bankasýslu ríkisins að með því að veita nefndinni ítarleg svör við spurningum hennar geti umræða um útboðið í mars orðið upplýst, málefnaleg og byggð á staðreyndum málsins. „Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að um hér er að ræða félag sem er skráð á markað og er enn í 42,5 prósent eigu ríkisins.“
Lárus Blöndal er stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson er forstjóri stofnunarinnar. Formenn stjórnarflokkanna þriggja hafa þegar tilkynnt að til standi að leggja stofnunina niður í kjölfar þess sem gerðist í síðasta söluferli og finna nýja leið til að selja hluti í ríkisbönkum þar sem frekari aðkoma Alþingis sé tryggð.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana