Bjarminn frá strókunum sex
Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Ljósmyndari Kjarnans var í námunda við það fyrr í kvöld.
Eldgos hófst fyrr í kvöld við Fagradalsfjall. Myndin hér að ofan, sem tekin er af Golla, sýnir hvernig gosið litar himininn fyrir ofan Grindavík. Fyrsta tilkynning um gosið barst Veðurstofunni klukkan 21.40.
Samkvæmt því sem Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, sagði við fréttastofu RÚV, er gosið fjarri almannaleið en stríður straumur fólks hefur legið í átt að gosinu í kvöld þrátt fyrir tilmæli almannavarna til fólks að halda sig fjarri.
Miðað við fyrstu upplýsingar er sprungan um 500 metra löng, samkvæmt stöðuuppfærslu Veðurstofunnar. Gosið er talið lítið en Veðurstofan segir að á sprungunni séu um sex strókar sem, allt að 100 metra háir. Páll Einarsson jarðfræðingur sagði við RÚV að hraunið væri að renna um krappan dal. „Þetta er besti staður á öllum Reykjanesskaga fyrir hraungos,“ sagði Páll.
Kristín Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur sagði á sama stað að miðað við þekkt gos, en það eru tæp 800 ár síðan gaus síðast á Reykjanesi, væri líklegast að þetta gos verði í einhverja daga eða vikur. Við gosið muni slakna á kerfinu og líklegt að næturnar verði rólegri hvað skjálftavirkni varðar.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240. Þeir atburðir eru kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum.
Reykjanesið allt er eldbrunnið, eins og sagt er, og ásýnd þess einkennist af hraunum, gígum, misgengjum og jarðhita. Um það liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna og gliðnun er að eiga sér stað með tilheyrandi jarðskjálftum oft og reglulega síðustu ár og áratugi.
Á Reykjanesi er að finna fimm eldstöðvakerfi og Fagradalsfjall og nágrenni er eitt þeirra. En þó að jarðeldar hafi orðið á skaganum frá upphafi Íslandsbyggðar hafa þeir ekki orðið í þessu tiltekna kerfi í yfir 6.000 ár í það minnsta. Og það er það eina af kerfunum fimm þar sem hvorki er að finna jarðhita né sprungusveima. Það er lítið, um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna og um 15 kílómetrar að lengd milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.
Sjálft Fagradalsfjall er skilgreint sem dyngja, eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi, og er gígurinn nyrst í því. Það er í raun stapi, hið neðra úr bólstrabergi, móbergsbrotabergi og túffi (ummyndaðri, samanlímdri gjósku) en með hettu úr grágrýti. Að mestu hefur það byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti.
Eldar á Reykjanesskaga geta staðið með hléum í nokkra áratugi eða lengur. Síðasta gostímabili lauk um miðja 13. öld. Vísbendingar eru um að það hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum. Eldstöðvakerfin hafa því ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með 30-150 ára löngum hléum á milli.
Lestu meira:
-
9. september 2022Ekki alveg svona einfalt...
-
22. ágúst 2022Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segist hafa horft til hagsmuna varnarlausra barna
-
11. ágúst 2022Umboðsmaður Alþingis vill fá skýringar frá lögreglustjóra á barnabanninu við eldgosið
-
5. ágúst 2022Vill skoða aðra kosti í skýrslu Rögnunefndar ef Hvassahraun þykir ófýsilegt
-
3. ágúst 2022Kvika streymir upp á yfirborðið við Fagradalsfjall – Eldgos hafið á ný
-
6. desember 2021Eldgos og jarðskjálftar
-
28. nóvember 2021Bresk myndlistarkona málaði eitt hundrað málverk af eldgosinu í Fagradalsfjalli
-
17. október 2021Búinn að eyða 500 til 600 klukkustundum samhliða fullri dagvinnu í eldgosið
-
3. október 2021Tröllefldir kraftar hrista hinn trygga Keili
-
24. júlí 2021Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína