Boris Johnson segir af sér í dag – Skipan klíparans í háttsett embætti það sem felldi hann
Yfir 50 einstaklingar hafa sagt af sér embætti í Bretlandi á síðustu dögum vegna þess að þeir treysta ekki lengur Boris Johnson til að leiða landið, þar með talið margir ráðherrar. Hann mun gefa út yfirlýsingu síðar í dag um afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Johnson ætlar að reyna að sitja áfram sem forsætisráðherra fram á haust. Það gæti orðið erfitt, sérstaklega vegna þess að hann er ekki með starfhæfa ríkisstjórn.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins síðar í dag. Flestir stærstu fjölmiðlar Bretlands fullyrða að hann sé búinn að komast að þessari niðurstöðu og að Johnson muni formlega tilkynna um afsögn sína með yfirlýsingu síðar í dag.
Johnson ætlar sér hins vegar að sitja áfram sem forsætisráðherra fram á haust, en næsti landsfundur Íhaldsflokksins fer fram í október og þar verður nýr leiðtogi kosinn.
Miklar bollaleggingar eru þegar byrjaðar um hver verði eftirmaður Johnson í stóli forsætisráðherra. Sú atburðarás sem leiddi til yfirvofandi afsagnar Johnson hófst með því að heilbrigðisráðherrann Sajid Javid og fjármálaráðherrann Rishi Sunak sögðu af sér. Javid gagnrýndi svo Johnson í ræðu sem hann hélt í þinginu en áður hafði Sunak sagt að hann og Johnson væru í grundvallaratriðum ósammála um stefnu í efnahagsmálum.
Nadhim Zahawi var skipaður sem eftirmaður Sunak en hann snerist gegn Johnson í morgun, tveimur dögum eftir að hafa verið skipaður og sagði að forsætisráðherrann yrði að víkja. Allir þessir þrír eru taldir líklegir til að sækjast eftir því að verða næstu formenn Íhaldsflokksins. Önnur nöfn sem nefnd hafa verið eru Suella Braverman, sem hefur þegar lýst yfir áhuga, Penny Mordaunt, Tom Tugendhat og Jeremy Hunt.
Hneykslismál, eftir hneykslismál eftir hneykslismál
Afsögn Borisar Johnson á sér langan aðdraganda. Hann hefur verið ótrúlega duglegur við að skapa sér sjálfur ýmiskonar vandræði sem hann hefur svo þurft að biðjast afsökunar á. Nærtækast er að nefna hneykslismál í kringum umfangsmiklar og kostnaðarsamar endurbætur á íbúðarinnar sem hann býr í við Downingstræti 11 í fyrra eftir að Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnson, greindi frá því að endurbæturnar hefðu verið fjármagnaðar með leynilegum fjárframlögum sem hefðu ekki verið tilkynnt sem stór fjárframlög til stjórnmálamanna.
Hið svokallaða Partygate-hneyksli, þar sem Johnson og starfsmenn hans í forsætisráðuneytinu urðu ítrekað uppvísir að því að brjóta reglur um samkomutakmarkanir sem ríkisstjórnin hafði gert bresku þjóðinni að fylgja til að halda drykkjusamkvæmi, fór langt með að ýta Johnson út af sviðinu. Johnson var meðal annars sektaður fyrir að vera viðstaddur eina veisluna, eigin afmælisveislu, og varð með því fyrsti forsætisráðherra Bretlands frá upphafi til að verða sektaður fyrir lögbrot.
Í kjölfar þess var boðað til atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á hendur Johnson eftir að Graham Brady, formaður 1922-nefndar Íhaldsflokksins, sem sér um helstu forystumál Íhaldsflokksins, greindi Johnson frá því að nefndinni hefði borist bréf frá yfir 15 prósent þingmanna flokksins sem lýstu yfir vantrausti á Johnson. 54 bréf þurfa að berast til að ná 15 prósent lágmarkinu.
Johnson stóð þá vantrauststillögu af sér 6. júní síðastliðinn, en einungis með naumindum. Alls 148 þingmenn breska Íhaldsflokkinn studdu tillöguna en 211 greiddu atkvæði á móti henni. Það þýddi að einungis um 60 prósent þingmanna studdu ráðherrann, þar með talið þeir sem áttu allt vald sitt innan ríkisstjórnar undir honum.
Johnson var þó vígreifur eftir þetta og sagðist ætla að „leiða flokkinn aftur til sigurs“.
Klíparinn fyllti mælinn
Það tók þó ekki langan tíma þangað til að enn eitt hneykslismálið féll til. Það nýjasta snýr að skipun Chris Pincher í embætti varaformanns þingflokks Íhaldsflokksins. Johnson á að hafa vitað af því að Pincher hafi áreitt menn kynferðislega þegar hann tók þá ákvörðun að skipa hann í embættið. Breskir fjölmiðlar, sem þekktir eru fyrir mikla orðaleiki, hafa ekki látið það tækifæri framhjá sér fara í umfjöllun um málið að tengja það saman að Pincher, sem þýðir á íslensku klípari, hafi verið orðið uppvís af því að vera „pincher“.
Eftir að þetta varð opinbert hófst hrina afsagna á meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar og aðstoðarmanna innan hennar.
Í fjörugum fyrirspurnartíma í neðri deild breska þingsins sem hófst á hádegi á miðvikudag sagði Johnson að hann væri staðráðinn í að sitja áfram sem forsætisráðherra, það væri skylda sem lögð hefði verið á herðar hans í kjölfar síðustu kosninga árið 2019.
Í fyrirspurnatímanum mætti Johnson gagnrýni frá þingmönnum úr röðum ólíkra flokka þar á meðal þingmönnum síns eigin flokks, Íhaldsflokksins.
Segja má að stemningin í neðri deildinni hafi sveiflast nokkuð í fyrirspurnatímanum. Töluvert var um frammíköll, hlátur og baul í þingsal á meðan forsætisráðherra og þingmenn skiptust á orðum. Andrúmsloftið var aftur á móti alvöruþrungið þegar Keir Starmer las upp lýsingu manns á meintri kynferðislegri áreitni sem hann varð fyrir af hálfu Chris Pincher.
Johnson skipaði Pincher varaformann þingflokks Íhaldsflokksins í febrúar á þessu ári. Fyrr í þessari vikunni kom það í ljós að forsætisráðherrann vissi af háttsemi Pincher þegar hann skipaði hann í embætti, líkt og áður segir.
Pincher sagði af sér sem varaformaður 30. júní síðastliðinn eftir að hafa þuklað á tveimur mönnum á samkomu vinafélags íhaldsmanna og Kýpur. Eftir að í ljós kom að Johnson hafi vitað af sambærilegum eldri málum þar sem Pincher átti í hlut hófu stjórnmálamenn Íhaldsflokksins að segja sig af sér í stórum stíl.
Yfir 50 sagt af sér
Í morgun var svo ljóst að tími Johnson sem leiðtogi íhaldsmanna væri á enda runninn. Atburðarásin hófst með því að Brandon Lewis, ráðherra málefna Norður-Írlands sagði af sér. Alls sjö aðrir ráðherrar fylgdu í kjölfarið og stærsta höggið var áðurnefnd ákvörðun hins nýja fjármálaráðherra Zahawi, sem hefur einungis gengt embættinu í tvo daga, að snúast gegn Johnson og segja honum að hann verði að fara. Alls hafa yfir 50 einstaklingar sagt af sér embættum á síðustu dögum vegna þess að þeir hafa misst trú á Johnson sem leiðtoga. Einn ráðherra var rekinn, Michael Gove, en hann og Johnson hafa lengi eldað grátt silfur saman.
Enn sem komið er virðist Johnson ætla að reyna að sitja áfram sem forsætisráðherra fram á haust. Það eru þó margir innan breskra stjórnmála sem telja það ómögulegt. Hann er fyrir það fyrsta ekki með starfhæfa ríkisstjórn eftir allar uppsagnirnar og röð þeirra sem eru tilbúnir til að setjast í tímabundna ríkisstjórn forsætisráðherra á útleið, sem er auk þess rúinn öllu trausti, er ekki löng. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins er á meðal þeirra sem á þetta hafa bent.
Aðrir helstu pólitísku andstæðingar Johnson og Íhaldsflokksins munu heldur ekki taka það í mál að hann sitji áfram. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði í yfirlýsingu í morgun að það þyrfti ekki að skipta um Íhaldsmann á toppnum, heldur að skipta um ríkisstjórn. „Við Þurfum nýtt upphaf fyrir Bretland“. Með því er hann að kalla eftir nýjum kosningum en síðast var kosið 2019 í Bretlandi.
Ef Johnson verður gert að hætta sem forsætisráðherra má búast við því að dómsmálaráðherrann Dominic Raab, sem er líka aðstoðarforsætisáðherra, taki við taumunum tímabundið.
Það er ef ekki verður boðað til nýrra kosninga.
Þessu tengt:
-
6. september 2022Hvað verður um Boris Johnson?
-
7. júlí 2022Boris Johnson segir af sér í dag – Skipan klíparans í háttsett embætti það sem felldi hann
-
6. júní 2022Johnson stóð af sér vantrauststillögu
-
25. maí 2022Drykkjumenning í Downingstræti afhjúpuð í lokaskýrslunni um Partygate
-
24. maí 2022Partygate hvergi nærri lokið – Myndum af Johnson í enn einu samkvæminu lekið
-
11. maí 2022Ætla að tryggja að „Beergate“ endi ekki eins og „Partygate“
-
22. apríl 2022Til rannsóknar hvort Johnson hafi afvegaleitt þingmenn vegna partýstands
-
19. apríl 2022Boris biðst afsökunar – Enn á ný
-
15. apríl 2022Fyrsti ráðherrann segir af sér vegna Partygate
-
13. apríl 2022Johnson telur sektina ekki ástæðu til afsagnar