Hnotasteinn, Hrútmúli og Haukadalur. Mosfellsheiði, Mýrar og Meðalland. Breiðdalur, Búrfell og Butra. Sólheimar, Vindheimar og Alviðra.
Það er engu líkara en að skrúfað hafi verið frá krana, svo mikil er ákefðin í að reisa virkjanir á Íslandi skyndilega orðin. Umræða um að hraðar hendur þurfi að hafa í orkuskiptum vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum knýr framkvæmdagleðina en það er þó ekki vatn sem flestir vilja nú virkja heldur vindur.
Áhuginn varð bersýnilegur í vinnu fjórða áfanga rammaætlunar, áætlunar um vernd og nýtingu landsvæða sem ætlað er að flokka eftir margvíslegum þáttum hugmyndir framkvæmdaaðila um virkjanir.
34 hugmyndir um vindorkuver
Verkefnisstjórn 4. áfangans, sem starfaði á árunum 2017-2021, bárust 34 vindorkukostir til umfjöllunar. Síðan hafa einhverjar hugmyndir dottið upp fyrir, að minnsta kosti í bili, en aðrar að sama skapi bæst í staflann. Því á meðan enginn er ramminn frá stjórnvöldum um hvort og þá hvar skuli reisa vindorkuver er allt landið undir. Dalir, heiðar, fjöll og víðerni. Láglendi og hálendi. Blómlegar sveitir og öræfi. Bókstaflega alls staðar þar sem vindur blæs. Og við vitum að það gerir hann sannarlega víða.
Ísland er af þessum sökum orðið eins og spilaborð í Matador þar sem sá sem fyrstur lendir á svæðinu setur þar niður einhvers konar tákn um vindmyllu. Einhverjir hafa líkt þessu við villta vestrið en samlíking við landnámsöld er mun nærtækari. Að fyrirtæki séu að helga sér virkjunarsvæði. Vinna svo úr alls konar ágreiningsefnum, m.a. hvað skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum varðar. Tilbúin að fara af stað ef og þegar grænt ljós verður gefið.
En miðað við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem nýskipaður starfshópur á að vinna út frá, verða vindorkuver ekki reist um allar koppagrundir heldur á afmörkuðum svæðum, nærri tengivirkjum og flutningslínum, „svo unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif“. Mörgum árum eftir að virkjunaraðilar fóru af stað í sína vegferð er loks komið að þessari mikilvægu greiningu. Og henni á ekki að ljúka fyrr en í byrjun næsta árs. Þá mun taka við annar fasi: Pólitísk umræða. Sem enginn getur vitað á þessari stundu hvernig fer.
Rammaáætlun hefur í tvo áratugi verið það stjórntæki sem nýtt er til þess að komast að samkomulagi og sátt – svo langt sem hún nær – um hvar skuli reisa virkjanir. Verkefnisstjórn og nokkrir faghópar skipaðir fjölmörgum sérfræðingum á ýmsum sviðum, rýna í innsendar virkjanahugmyndir og leggja á þær mat út frá mögulegum áhrifum á náttúru, samfélag, efnahag og fleiri þætti. Þetta er tímafrekt ferli, ekki síst vegna margra ára tafa á afgreiðslu Alþingis, sem allar virkjanahugmyndir 10 MW að afli og yfir hafa þurft að fara í gegnum frá því að ráðist var í byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
Það hefur verið umdeilt hvort að vindorkukostir heyri undir lög um rammaáætlun. Orkustofnun var til dæmis lengi vel á þeirri skoðun að það gerðu þeir ekki en ráðuneyti umhverfismála taldi þvert á móti að svo væri.
En ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur það á stefnuskránni að setja sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði, líkt og fram kemur í stjórnarsáttmálanum, að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Þetta er annar þáttur sem nýja starfshópnum er gert að skoða ofan í kjölinn.
„Íslendingar standa á tímamótum varðandi nýtingu orkuauðlinda því virkjun vindorku er að hefjast af fullum krafti,“ skrifaði Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar, í drögum að lokaskýrslu fyrir rúmu ári. „Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli. Vindmyllur eru nú um 150 m háar og fara hækkandi. Þær eru því afar áberandi í landslagi og sjást víða að. Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið.“
Þeir 34 virkjunarkostir sem lagðir voru fyrir verkefnisstjórn Guðrúnar voru samtals 3.235 MW að afli. Til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, 690 MW. Búrfellsvirkjun, sú næststærsta, er 270 MW.
Sífellt hærri og aflmeiri
Vindmyllur hafa líkt og Guðrún bendir á tekið stórkostlegum breytingum á aðeins örfáum árum. Samtímis því að verða hærri hafa þær orðið kraftmeiri eftir því sem tækninni til að virkja vindinn hefur fleygt fram.
Rannsóknarvindmyllurnar tvær sem Landsvirkjun reisti á virkjunarsvæðinu ofan Búrfellsvirkjunar árið 2013 eru 77 metra háar, aðeins hærri en Hallgrímskirkjuturn (74,5 m). Myllurnar tvær sem reistar voru í Þykkvabæ um árið, og illa fór fyrir í eldsvoða árið 2017, voru 70 metra háar. Þær myllur sem notaðar eru í dag eru mun hærri, jafnvel 200 metrar. Og fara hækkandi. Til samanburðar er Eiffel-turninn í París 300 metra hár. Myllur framtíðarinnar slaga því orðið upp í hann.
Miðað við skýrslur sem vindorkufyrirtæki hafa lagt fram síðustu misseri er afl hverrar myllu á bilinu 3,7-5,6 MW. Það þýðir að vindorkuverin 34 sem gögn voru send inn til afgreiðslu í 4. áfanga rammaáætlunar myndu telja á bilinu 580-875 vindmyllur.
Margar saman eða út um allt?
Nokkuð víst er að þessi vindorkuver sem áformuð eru um landið munu ekki öll verða að veruleika. En ekki er fjarstæðukennt að áætla að gríðarlegur fjöldi vindmylla rísi ef fara á í þá umfangsmiklu orkuöflun sem stjórnvöld boða, m.a. með tilliti til niðurstöðu svokallaðrar grænbókar sem unnin var að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrr á árinu. Niðurstöðu sem skiptar skoðanir eru sannarlega um.
En hvar þær munu rísa, í miklum þyrpingum á nokkrum stöðum, jafnvel nokkur hundruð saman, eða hér og hvar og alls staðar er meðal þess sem starfshópurinn nýi á að skoða og gera tillögur um.
Verkefnisstjórninni sem Guðrún veitti forstöðu vannst ekki tími til að skila lokaskýrslu heldur aðeins drögum. Hún taldi aðeins nægjanleg gögn fylgja fimm vindorkukostum og flokkaði þrjá þeirra í nýtingarflokk en tvo í biðflokk.
Meðal þeirra sem höfnuðu í síðarnefnda flokknum er Búrfellslundur Landsvirkjunar.
Verkefnisstjórn 3. áfangans hafði komist að sömu niðurstöðu hvað þennan kost varðar. Rökin voru þau að 200 MW vindorkuver á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár, á sama svæði og tvær rannsóknarmyllur standa nú sem og sjö vatnsaflsvirkjanir, yrði á röskuðu svæði sem hafi lágt verndargildi en áhrif hans á ferðamennsku og útivist á mörgum verðmætum ferðasvæðum yrðu hins vegar mikil og neikvæð. Vindmyllurnar myndu sjást langt að. „Allir ferðamenn sem eru á leið um Sprengisandsleið eða Fjallabak munu sjá vindmyllurnar í Búrfellslundi og því hafa þær áhrif á mörg ferðasvæði sem tengjast Sprengisandsleið, svo og á mörg mjög verðmæt ferðasvæði á sunnanverðu hálendinu, svo sem Landmannalaugar, Heklu, Veiðivötn og Eldgjá,“ sagði í niðurstöðu verkefnisstjórnar 3. áfanga.
Lagt var hins vegar til að Blöndulundur, annar vindorkukostur Landsvirkjunar, færi í nýtingarflokk.
Er Alþingi afgreiddi loks þingsályktunartillögu um áfangann í byrjun sumars ákvað það að færa Búrfellslund úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Þetta var m.a. gert á þeim rökum að áformin hefðu breyst, virkjunarsvæðið yrði minna og vindmyllurnar færri. Þannig væri tekið tillit til athugasemda sem fram hefðu komið.
„Meirihlutinn bendir á að í umsögnum hafa komið fram ábendingar um að fyrirhugaður vindorkukostur kunni ekki að hafa þau víðtæku áhrif á ferðamennsku sem niðurstaða faghóps 2 byggði á,“ sagði m.a. í rökstuðningi í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndarinnar snemmsumars sem tók þannig fyllilega undir sjónarmið virkjunaraðilans, Landsvirkjunar. „Auk þess hafi það sýnt sig að viðkomandi svæði henti afar vel til vindorkuframleiðslu og að nýtni þeirra vindmylla sem reistar hafi verið til rannsókna á svæðinu sé eins og best gerist á heimsvísu.“
Í fyrsta sinn eru vindorkukostir komnir í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, báðir á vegum Landsvirkjunar. Umhverfismati Búrfellslundar lauk árið 2016 og ný útfærsla rúmast innan þess, segir Magnús Þór Gylfason, forstöðumaður samskipta upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, við Kjarnann. Gagnasöfnun vegna umhverfismats Blöndulundar stendur yfir. Breyta þyrfti aðalskipulagi sveitarfélaga sem virkjanirnar yrðu byggðar á og gefa út framkvæmdaleyfi og virkjunarleyfi. „Búrfellslundur er kominn mun lengra í undirbúningi og því líklegra að sá kostur komi fyrr til framkvæmdar,“ segir Magnús. Verið sé að vinna að fullnaðarhönnun hans og „ef tilskilin leyfi liggja fyrir væri hægt að hefja framkvæmdir á næstu árum“.
Líklegt er því að Búrfellslundur verði fyrsta vindorkuverið á Íslandi. Það stenst þau áform stjórnvalda að byggja slíkar virkjanir í nálægð við raforkuinnviði, það er þegar komið í orkunýtingarflokk rammaáætlunar og umhverfismati er lokið.
En hvað er Búrfellslundur?
Samkvæmt breyttri útfærslu á Búrfellslundi Landsvirkjunar yrðu reistar um 30 vindmyllur í stað 67 og gæti afl þeirra samanlagt orðið um 120 MW í stað 200. Vindmyllurnar yrðu rétt sunnan við Sultartangastíflu og því nær núverandi orkumannvirkjum en fyrri áform gerðu ráð fyrir og á um 18 ferkílómetra svæði í stað 33. Við endurhönnunina var lögð áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif versins og hefur ný útfærsla að sögn Landsvirkjunar í för með sér „talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum“.
Í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar var tekið undir þau sjónarmið að svæðið sem Búrfellslundur er fyrirhugaður á er þegar raskað af mörgum virkjunum, uppistöðulónum, raflínum og vegum. Hins vegar var bent á að sjónræn áhrif vindmylla væru önnur en vatnsaflsvirkjana þar sem vindmyllur eru mun sýnilegri í landslaginu og sjást langt að. „Því má búast við að vindorkuver hafi mikil áhrif á upplifun ferðamanna og að einhverju leyti annars konar áhrif en þau orkuver sem reist hafa verið hér á landi hingað til,“ sagði í skýrslunni. Búrfellslundur og Blöndulundur yrðu rétt við hálendisbrún landsins, sá fyrrnefndi rétt innan miðhálendislínunnar og sá síðarnefndi rétt utan hennar. „Aðalaðdráttarafl hálendisins fyrir ferðamenn felst í upplifun á víðernum og óspilltri náttúru og er hætta á að vindorkuverin hefðu neikvæð áhrif á þá upplifun.“
Landsvirkjun gerði á sínum tíma athugasemd við þessa niðurstöðu og sagði um ofmat á áhrifum Búrfellslundar á ferðamennsku að ræða. Fyrirtækið sagðist draga í efa að skilgreining faghópsins á áhrifasvæði virkjunarkostsins stæðist skoðun og fór fram á að áhrif hans á ferðaþjónustu yrðu metin „með faglegum hætti“. Rannsóknir hefðu sýnt að áhrifin yrðu ekki í samræmi við niðurstöður faghópsins og að vindorkuver geti „hæglega haft jákvæð áhrif á ferðamennsku“.
Þetta er gömul röksemdafærsla og ný. Að virkjanir geti haft jákvæð áhrif á ferðamennsku, m.a. vegna þess að vegir eru lagðir og þar með aðgengi fleiri að svæðinu bætt.
Faghópurinn sem gagnrýninni var beint að yfirfór mat sitt á virkjanakostinum en það leiddi ekki til marktækrar breytingar á einkunnagjöf.
Skipulagsstofnun vakti athygli á því í umsögn sinni um skýrslu verkefnisstjórnarinnar að í gögnum þeim sem send hefðu verið til mats í rammaáætlun kæmi fram að vindmyllurnar í Búrfellslundi yrðu 135 metrar á hæð. Í gögnum vegna umhverfismats Búrfellslundar sem þá stóð yfir væri miðað við allt að 150 metra. Enn í dag er óvíst hversu háar myllurnar kæmu til með að vera.
En svo sat tillaga að rammaáætlun föst í þinginu í tæplega sex ár. Landsvirkjun ákvað í millitíðinni að laga sig að athugasemdum og Búrfellslundur skrapp saman. Það er að segja þau áform sem nú eru á teikniborðinu sem gætu allt eins verið fyrsti áfangi að stærra vindorkuveri eða jafnvel verum á þessum slóðum.
Vindmyllur eru hindranir fyrir fugla
En það er fleira en sýnileikinn sem telst til helstu umhverfisáhrifa vindorkuvirkjana. Áflug fugla er einnig áhættuþáttur sem taka þarf tillit til. Landsvirkjun hefur látið rannsaka umferð fugla á hinu fyrirhugaða virkjanasvæði Búrfellslundar í tvígang, fyrst árið 2014 er til stóð að svæðið yrði stærra og vindmyllurnar fleiri og svo aftur árið 2019 er útfærslunni hafði verið breytt.
68-153 fuglar myndu fljúga á myllurnar
Síðari rannsóknin var unnin af Náttúrustofu Norðausturlands í samstarfi við Háskólann í Árósum með því að setja upp ratsjár frá byrjun apríl til loka nóvember. Gögnin, þ.e. myndirnar, voru svo notaðar til grundvallar í mati á áflugshættu samkvæmt ákveðnu reiknilíkani.
Niðurstaðan sýndi fram á að allt að 68 fuglar myndu fljúga á myllurnar í Búrfellslundi frá apríl til október miðað við að 99 prósent fugla nái að forða sér frá árekstri. Stærsti hlutinn væru heiðagæsir (41), næst mest heiðlóur (19) en minnst af álft (8). Ef gert er ráð fyrir forðun fugla upp á 97,75 prósent hækkar matið í 153 fugla fyrir þetta tímabil, 93 heiðagæsir, 43 heiðlóur og 17 álftir. Niðurstöðurnar benda til mun hærri affalla en gert var ráð fyrir í fyrri útfærslu að Búrfellslundi, byggt á rannsóknum árið 2014 – þeim rannsóknum sem lágu flokkun verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar til grundvallar.
Fuglíf á Íslandi er einstakt á margan máta. Heimaslóðir ránfuglsins stórfenglega, hafarnarins, eru t.d. í nágrenni nokkurra vindorkuvera sem áformuð eru á Vesturlandi. Og einhver þeirra yrðu beinlínis á helstu flugleiðum arnanna.
Tvö þessara vera, annað við Hróðnýjarstaði og hitt við Sólheima, bæði í Dalabyggð, urðu á dögunum fyrstu vindorkuverin sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi sveitarfélaga. Á flugleiðir hafarnanna var ítrekað bent í athugasemdum við aðalskipulagsbreytingarnar. Á það hefur einnig verið bent að áflugshætta hafarna er sérstaklega mikil. Þeir eru jú stórir en þeir horfa líka oft niður fyrir sig á flugi. Og þá kann að vera um seinan að sveigja frá ónáttúrulegri hindrun í veginum.
Fyrstu vindorkuáformin í aðalskipulagi
„Vindorkuver í Dalabyggð, að Hróðnýjarstöðum og í landi Sólheima, eru fyrstu stóru vindorkuverin sem heyra undir rammaáætlun og eru staðfest í aðalskipulagi,“ segir Egill Þórarinsson, sviðsstjóri á sviði umhverfismats hjá Skipulagsstofnun, við Kjarnann. „Þau eru skilgreind sem iðnaðarsvæði en jafnframt sem varúðarsvæði, sem er ákveðin takmörkun á landnotkun og þýðir að um þau gildir eins og þau væru í biðflokki rammaáætlunar þó svo að þau hafi ekki hlotið meðferð samkvæmt lögum um rammaáætlun og því ekki verið flokkuð sem slík.“
Báðir kostirnir voru sendir inn til meðferðar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Verkefnisstjórnin taldi ekki nægjanleg gögn fylgja virkjun að Hróðnýjarstöðum en lagði til í drögum sínum að Sólheimavirkjun yrði sett í biðflokk. Mat á umhverfisáhrifum beggja virkjanahugmynda er langt komið.
Sveitarstjórn Dalabyggðar er áfram um að fá vindorkuver líkt og skipulagsbreytingarnar bera með sér. En þeir sem fara með stjórn Hörgárbyggðar, svo dæmi sé tekið, hafa afþakkað þau pent.
Ein þeirra vindorkuhugmynda sem fékk grænt ljós í meðferð verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og rataði í nýtingarflokk í tillögudrögum hennar var Vindheimavirkjun í Hörgárdal. „Sveitarstjórn samþykkti að hafna öllum slíkum áformum um vindorkuver í Hörgársveit,“ sagði í fundargerð sveitarstjórnar á síðasta ári.
Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku sem stendur fyrir áformunum, sagði í skriflegum svörum til Kjarnans fyrr á þessu ári að vissulega hefði stjórnendum Fallorku þótt það mikill áfangi og sterk viðurkenning á verkefninu að verkefnisstjórnin legði til að það færi í orkunýtingarflokk. Að sveitarstjórnin skyldi hafna uppbyggingu vindorku með öllu kom honum þó ekki alveg á óvart. „Í ljósi þessarar ályktunar sveitarstjórnarinnar lagði Fallorka til hliðar í bili alla vinnu við Vindheimavirkjun, svo sem samninga við landeigendur og fjárfrekar vindrannsóknir,” sagði Andri. „Við ætlum að sjá til hvort umræða í þjóðfélaginu á landsvísu eða þá umræða til dæmis á vettvangi sveitarfélaganna við Eyjafjörð geti breytt viðhorfinu.“
Ákveðinn upptaktur er þegar hafinn í nafni orkuskipta og nú síðustu vikur vegna „yfirvofandi orkukrísu“ annars staðar í heiminum. Um að nýta þurfi náttúruna íslensku og krafta hennar til að bjarga henni. Bjarga okkur. Heiminum. Fyrirsagnir á borð við „Hröð þróun í virkjun vindorku“ og „Aukinn áhugi á að kaupa orku héðan“ blasa við nær daglega. „Vindorka innanlands er rækilega komin á dagskrá,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, til dæmis í Fréttablaðinu í vikunni. Í sömu frétt varaði forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, við því að „einkaaðilar fái að helga sér lönd í vindorkuskyni“.
En hvaða fyrirtæki eru þetta sem nú geysast fram á völlinn með kyndil í nafni grænnar, endurnýjanlegrar orku á lofti – upp í fjallshlíðar, inn á heiðar – og vilja virkja vindinn?
Og hvernig ríma framkomnar hugmyndir um vindorkuver, hvar svo sem þær eru framsettar á landinu, við þau áform ríkisstjórnarinnar að slíkar virkjanir verði byggðar upp á afmörkuðum svæðum?
Um þetta og fleira þessu tengt mun Kjarninn fjalla á næstunni.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Zephyr frestar kynningarfundi á vindorkuveri í Hvalfirði
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
8. desember 2022Áforma að reisa 70-100 vindmyllur í grennd við Stuðlagil
-
2. desember 2022Skrítið ef „enginn staður á Íslandi kæmi til greina fyrir vindorku“
-
30. nóvember 2022Vindorkuver um land allt yrðu mesta umhverfisslys Íslandssögunnar
-
27. nóvember 2022Hugmyndir um útbreidd vindorkuver „alls ekki raunhæfar”
-
26. október 2022Kínverjar áforma langstærsta vindorkuver heims
-
24. október 2022Vindurinn, rammaáætlun og orkuskipti
-
21. október 2022Vindmylluframleiðandi ekki lengur á dagskrá vettvangsferðar Grænvangs
-
29. september 2022Óeðlilegt að formaður starfshóps um stöðu orkumála tali fyrir öfgafyllstu sviðsmyndinni