Leikkonan Jessica Alba er snjöll í viðskiptum og nýsköpun. Því til sönnunar er fyrirtækið The Honest Company, sem sótt hefur meira en 122 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur meira en 16 milljörðum króna, til sex fjárfesta. Það er nú að sækja meira fé, samkvæmt fréttum frá því í gær, á grundvelli verðmiða upp á tæplega tvo milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 270 milljörðum króna.
Ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref þá hefur The Honest Company tekist að byggja upp traustar og hratt vaxandi tekjur, sem námu rúmlega 150 milljónum Bandaríkjadala í fyrra, og þykja framtíðarmöguleikarnir vera miklir.
Hvað gerir fyrirtækið?
Í stuttu mál vildu stofnendur fyrirtækisins, Jessica Alba og Christopher Gavigan, bjóða upp á vistvænar bleyjur og aðrar nauðsynjavörur fyrir börn. Í fyrstu var einblínt á bleyjur og klúta, en síðan hefur fyrirtækið breyst í að vera miðpunktur fyrir vistvænar vörur fyrir börn sem hægt er að kaupa í áskrift og beint í gegnum netið. Þar komu Sean Kane, formaður stjórnar félagsins, og Brian Lee, forstjóri, til sögunnar. Þeir hafa báðir mikla reynslu af stofnun fyrirtækja.
Meðal þess sem fyrirtækið selur eru lífræn og vistvæn krem og vökvar, en auk þess eru reknar rannsóknarstofur á vegum fyrirtækisins sem kanna gæði ákveðinna efna sem notuð eru í vörur fyrirtækisins. Tekjurnar koma einkum í gegnum hratt vaxandi áskriftarkerfi og samfélag sem orðið hefur til í kringum viðskiptavini fyrirtækisins og þjónustu þess, sem staðsettir eru fyrst og fremst í borgum, ekki síst í Kaliforníu, þar sem fyrirtækið er með höfuðstöðvar. En markmiðið er að byggja upp alþjóðlega starfsemi í meira mæli þegar fram í sækir. Starfsmenn eru nú um 400 talsins, og starfar stærstur hluti þeirra við símasvörun í höfuðstöðvunum í Santa Monica og fleira sem snýr að þjónustu við viðskiptavini (Customer Support), en forritarar og sérfræðingar í vöruþróun eru einnig fjölmennir í hópnum.
https://www.youtube.com/watch?v=j96ahWHIt7Q
Snjall vinnuþjarkur
Jessica Alba, sem er gift 34 ára gömul tveggja barna móðir, hefur orð á sér fyrir að vera eitursnjöll, yfirveguð og mikill dugnaðarforkur. Hún mætir í vinnu hjá The Honest Company alla virka daga, nema þegar tökudagar fyrir leik- eða fyrirsætustörf þurfa hennar tíma. Samkvæmt umfjöllun Forbes, þar sem hún var í ítarlegu viðtali 27. maí síðastliðinn, þá eru eignir hennar metnar á 200 milljónir Bandaríkjdala nú þegar, en ljóst má vera að ört hækkandi verðmiði á fyrirtækinu sem hún á stóran hluta í hækkar virði eigna hennar hratt. Í viðtalinu kemur fram að eignarhlutur hennar sé á milli 15 og 20 prósent.
Notar nafn sitt til góðs
Að baki hugmyndinni býr sú hugmynd að breyta til góðs neysluvenjum og lifnaðarháttum, svo að börn geti búið við öruggara líf, og þar með fjölskyldur þeirra. Þannig lýsir hún grunnvandamálinu sem hún vildi reyna að leysa. Hún segist heppin með meðstjórnendur og bjartsýn á að fyrirtækið verði farsælt þegar fram í sækir. Hún sé hins vegar rétt að byrja.
Í markaðssetningu á fyrirtækinu hefur hún notað frægð sína til að fá athygli, en um leið notað tækifærið til þess að breyta ímynd sinni sem sæta stelpan í frekar lélegum bíómyndum og kyntákn, en hún hefur oftar en einu sinni verið kosin kynþokkafyllsta kona heims, meðal annars af FHM tímaritinu árið 2006.
Eftir að hún lauk fjármögnun upp á 70 milljónir Bandaríkjadala, rúmlega 10 milljarða króna, í ágúst í fyrra, þar sem fjármagn var sótt til fjárfestingasjóða í Kaliforníu, þá gerðu flestir sér grein fyrir því að það væri greinilega mikið í hana spunnið sem frumkvöðul og meðstarfsmenn hennar sömuleiðis.
Brian Lee, forstjóri fyrirtækisins, sagðist í viðtalinu við Forbes hafa fengið 50 síðan glærupakka sendan frá Jessicu, áður en fyrirtækið varð til, þar sem farið var yfir hugmyndina að baki fyrirtækinu. Þá hafi hann áttað sig á því að þetta væri góð hugmynd sem hefði möguleika á því að verða að fyrirtæki, ef rétt væri haldið á spöðunum og heppnin væri með teyminu. Fyrstu hindranirnar hafa verið yfirstignar en þrátt fyrir að allt hafi gengið að óskum til þessa, og fyrirtækið leiti nú að enn meira fjármagni til vaxtar, þá er ekki þar með sagt að endalaus velgengni muni einkenna fyrirtækið til framtíðar. Samkeppnin er hörð og það getur hallað hratt undan fæti ef ekki er haldið rétt á spilunum, eins og Jessica segir raunar sjálf í viðtali við Forbes.
Vörurnar frá The Honest Company hafa sumar fengið á sig gagnrýni, meðal annars sólarvörn fyrir börn sem þykir ekki virka nægilega vel. Alba segir sjálf að þau reyni að hafa vörurnar alveg tilbúnar áður en þær fara á markað, en stundum takist það ekki nægilega vel. Það sé eitthvað sem rannsóknarstofa fyrirtækisins sé að reyna að ná betri tökum á.
RETWEET if you agree! #Honestly pic.twitter.com/jCGUtHM7nT
— The Honest Company (@Honest) August 9, 2015