Kannski kannast ekki margir við nafnið Karl-Heinz Werner Toosbuy. Karl-Heinz var fæddur í Holte, norðan við Kaupmannahöfn árið 1928. Hann lærði skósmíði hjá Hertz sútunar- og skóverksmiðjunni í Kaupmannahöfn en meðfram náminu þar lærði hann hönnun í kvöldskóla. Eftir að náminu í skósmíðinni lauk réðst Karl-Heinz til fyrirtækisins Tretorn á Helsingjaeyri og þaðan lá leiðin til Nordsko fyrirtækisins í Ballerup.
Draumurinn var þó að verða sjálfstæður skóframleiðandi og árið 1963 flutti Karl-Heinz ásamt eiginkonunni Birte og dótturinni Hanne til Suður-Jótlands. Karl-Heinz hafði auglýst eftir húsnæði undir litla skóverksmiðju í nokkrum svæðisblöðum á Jótlandi og gat þess í auglýsingunni að hann hygðist fljótlega ráða 20-40 starfsmenn. Hann fékk nokkur svör við auglýsingunni en leist best á húsnæði í smábænum Bredebro, skammt frá landamærunum að Þýskalandi. Karl-Heinz, sem var bæði bjartsýnn og stórhuga, gerði sér grein fyrir að miklu skipti að skórnir sem hann ætlaði sér að framleiða bæru einfalt nafn. Eftir miklar vangaveltur ákvað Karl-Heinz að skórnir skyldi heita ECCO. Löngu síðar sagði hann í viðtali að sér þætti þetta ítalska orð ECCO (sem þýðir sjáðu, eða sko) auðskilið og alþjóðlegt.
Eins og áður var nefnt hafði Karl-Heinz lært hönnun meðfram skósmíðanáminu. Hönnun ECCO skónna fór í fyrstu fram við „eldhúsborðið heima“ eins og Karl-Heinz komst að orði.
Hann taldi sig vita að framleiðslukostnaðurinn yrði alltof mikill ef skórnir yrðu framleiddir í Danmörku. Hann leitaði þess vegna til Indónesíu og Tælands með framleiðsluna á yfirleðrinu en botnana lét hann framleiða í Portúgal, þar sem skórnir voru jafnframt settir saman.
Fyrst auglýstir sem ódýrir hversdagsskór
Þótt Karl-Heinz hafi frá upphafi ætlað sér að framleiða gæðaskótau vissi hann að ekki væri auðvelt að komast inn á markaðinn. Rétta leiðin væri að kynna skóna sem ódýra hversdagsskó, síðan myndu skórnir sjálfir sjá um að auglýsa sig og þá tækju ,„betri“ skóbúðir við sér.
Þetta reyndist rétt. ECCO skórnir náðu fljótt vinsældum og óhætt er að fullyrða að ECCO sé meðal þekktustu vörumerkja á sínu sviði og er nú í hópi stærstu skóframleiðenda heims, með um 22 þúsund starfsmenn í mörgum löndum. ECCO sérverslanir um víða veröld skipta þúsundum, en auk þess eru sérstakar ,„ECCO deildir“ í tugþúsundum verslana víða um heim. Framleiðslan fer fram í Slóvakíu, Portúgal, Tælandi, Indónesíu og Kína. Verksmiðjurnar eru nær allar í eigu ECCO sem á einnig sútunarverkstæði í Hollandi, Indónesíu, Tælandi og Kína.
Skór fyrir alla, við öll tækifæri
Karl-Heinz lagði frá upphafi áherslu á að framleiða skó sem væru í senn þægilegir og endingargóðir. Úrvalið jókst smám saman og óhætt er að segja að þar sé eitthvað fyrir alla, börn og fullorðna: spariskór, götuskór, gönguskór, íþróttaskór og inniskór svo eitthvað sé nefnt. Auk þess framleiðir ECCO ýmis konar vörur úr leðri, til dæmis belti og töskur.
Höfuðstöðvar ECCO eru enn í smábænum Bredebro (íbúarnir um 1.500) og þar er stærsta ECCO skóverslun í heimi. Íbúafjöldinn í Bredebro dugir ekki til að halda uppi viðskiptum í slíkri stórverslun en viðskiptavinirnir koma víða að, ekki síst frá Þýskalandi. Karl-Heinz lést árið 2004 en dóttirin Hanne (fædd 1957) tók þá við rekstri fyrirtækisins.
Kongelig hofleverandør
Um það bil eitthundrað dönsk fyrirtæki hafa leyfi til að merkja vörur sínar, bréfsefni o.fl með dönsku kórónunni og textanum ,„kongelig hofleverandør“, sem segir að viðkomandi fyrirtæki hafi annast tiltekin verkefni eða framleiði vöru sem fjölskyldan á Amalienborg kaupi.
Listinn er fjölbreyttur, matvælaframleiðendur, húsgagna-og skartgripafyrirtæki, brugghús svo fátt eitt sé nefnt. Fyrirtæki sem hafa, um árabil, átt viðskipti við konungsfjölskylduna geta sótt um útnefninguna, samþykki fjölskyldan beiðnina gildir útnefningin í fimm ár. ECCO er á þessum lista sem þýðir að í skóskápum Danadrottningar og fjölskyldunnar er að finna skó frá ECCO.
Karl-Heinz og ECCO fyrirtækinu hefur hlotnast ýmis konar annar heiður, og í tilefni af 50 ára afmæli ECCO árið 2013 var stóru torgi í miðbæ Bredebro gefið nafnið Toosbuys Torv. Skóbúðin sem áður var getið stendur við torgið.
Rússland
Á síðustu árum hefur ECCO lagt aukna áherslu á ný markaðssvæði. Þar á meðal Rússland. Árið 2020 lagði fyrirtækið mikla fjármuni í uppbyggingu eigin verslana þar í landi, en fram til þess tíma hafði rekstur ECCO búðanna verið í annarra höndum. Samtals eru verslanir ECCO í Rússlandi 250 talsins, sumar mjög stórar aðrar litlar. Fjölmörg fyrirtæki hafa hætt, í bili að minnsta kosti, öllum viðskiptum við Rússland. ECCO hefur ekki verið í hópi þeirra fyrirtækja sem snúið hafa baki við Rússum. Þetta hefur vakið hörð viðbrögð í Danmörku og víðar. Stór verslanafyrirtæki hafa hætt öllum viðskiptum við ECCO og tekið vörur fyrirtækisins úr hillum, önnur hafa ákveðið að stöðva frekari innkaup á vörum frá ECCO.
Forsvarsmenn ECCO hafa í viðtölum sagt að fyrirtækið ætli ekki að loka verslunum sínum í Rússlandi. ,,Við höfum skyldur gagnvart starfsfólki okkar í Rússlandi og við ætlum ekki að bregðast þeim,“ sagði talsmaður ECCO í viðtali við dagblaðið Berlingske.
Viðskiptaritstjóri Berlingske sagði í pistli í blaðinu að þrátt fyrir þessa yfirlýsingu gæti svo farið að stjórnendur ECCO snúi við blaðinu og loki í Rússlandi. ,,Ef sala á vörum fyrirtækisins dregst saman, kannski um tugi prósenta, er líklegt að stjórnendur ECCO breyti um kúrs. Viðskiptahagsmunirnir vegi þá þyngra en hagsmunir starfsfólksins í Rússlandi.“