Þingmenn úr þremur flokkum sem vildu fyrr á árinu breyta lögum um dýravelferð og banna blóðtöku úr fylfullum merum hér á landi voru harðlega gagnrýndir af hálfu ýmissa umsagnaraðila og sagðir fara með rangindi um það hvernig blóðtökunni og eftirliti með henni væri háttað hér á landi.
Í umsögnum sem bárust um frumvarp Ingu Sæland var eftirlit með blóðtökunni meðal annars sagt strangt, lög og reglur um dýravelferð með þeim ströngustu í heimi og það sérstaklega tekið fram í engri annarri búgrein hérlendis væru sérstakir dýravelferðarsamningar í gildi.
Sláandi myndskeið
Um helgina birtu dýraverndunarsamtökin Animal Welfare Foundation í Þýskalandi og Tierschutzbund Zürich í Sviss hins vegar tuttugu mínútna mynd á YouTube sem sýnir sláandi meðferð íslenskra hryssa við blóðtöku, sem vakið hefur hneykslan og jafnvel sorg fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Matvælastofnun segist líta málið alvarlegum augum og Félag hrossabænda segir að þá hafi verið forsvarsmönnum félagsins áfall að verða vitni að þeirri meðferð sem sést í myndbandinu.
„Hvorki aðbúnaður, umgjörð og hvað þá heldur sú illa meðferð sem hryssurnar eru beittar er á nokkurn hátt réttlætanleg. Það er skýlaus krafa Félags hrossabænda að rannsakað verði það sem fram kemur í myndbandinu og upplýst af hálfu Mast hvernig eftirliti með þessari starfsemi sé og hafi verið háttað og hver beri ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er," segir í yfirlýsingu frá stjórn Félags hrossabænda.
Einu dýravelferðarsamningarnir á Íslandi
Þegar þetta frumvarp Ingu Sæland var til meðferðar á Alþingi fyrr á árinu setti Arnþór Guðlaugsson framkvæmdastjóri Ísteka fram umsögn þar sem sagði meðal annars að greinargerð sem fylgdi frumvarpi þingmannana fjögurra væri „gerð af svo mikilli vanþekkingu“ að því miður væri ekki hægt að svara henni efnislega af neinu viti.
Þess í stað gerði framkvæmdastjórinn, sem er í myndskeiði evrópsku náttúruverndarsamtakanna tveggja sagður hafa reynt að koma í veg fyrir að myndir væru teknar af blóðtöku, grein fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Hann sagði unnið eftir „ítarlegri gæðahandbók“ fyrir blóðgjafir og að gerður hefði verið sérstakur dýravelferðarsamningur við hvern og einn bónda sem seldi afurðir sínar Ísteka, sem væri einstakt á Íslandi. Þá kom fram að hjá fyrirtækinu starfaði sérstakur dýravelferðar- og gæðafulltrúi sem hefði aðgengi að hrossum og aðstöðu hjá bændum til ráðgjafar og eftirlits.
Dýravelferðarsamningarnir voru í umsögn Ísteka sagðir byggðir á skilyrðum Matvælastofnunar og Fagráðs um dýravelferð, sem sett væru í samræmi við nýjustu lög og reglugerðir. Þar væri meðal annars að finna sérstök ákvæði um nærgætni í umgengni við hryssurnar.
Í annarri umsögn frá Svavari Halldórssyni, sem auk annars verið hefur ráðgjafi í landbúnaðarmálum, var Ísteka sagt vera til „mikillar fyrirmyndar þegar kemur að dýravelferð“ – enda væri blóðtakan öll undir eftirliti dýralækna og Matvælastofnunar og áhersla lögð á að fyrirtækið væri það eina hér á landi sem hefði það að reglu að gera sérstaka dýravelferðarsamninga við bændur.
Dýralæknar ósáttir við framsetninguna
Dýralæknafélag Íslands útlistaði leiðbeinandi reglur Matvælastofnunar í umsögn sinni um þingmálið og reifaði svo að Ísteka væri sjálft með „virkt innra eftirlit með starfseminni“ – og að það eftirlit ásamt eftirliti Matvælastofnunar miðaði að því að tryggja velferð bæði hryssnanna og folaldanna.
„Fyrirtækið Ísteka er með á sínum snærum dýralækni sem sinnir gæða- og velferðareftirliti með blóðsöfnuninni. Heimsækir hann megin þorra blóðgjafastarfsstöðva/bæja á blóðgjafatímabilinu. Gerir hann úttekt á aðstæðum á blóðtökustað svo sem að meta slysahættu, að blóðtökubásar séu traustir og rétt hannaðir, vinnubrögð séu fumlaus og nærgætin og rétt staðið að sjálfri blóðtökunni,“ sagði í umsögn Dýralæknafélagsins.
Einnig sagði þar að Dýralæknafélagið teldi að skilyrðin sem Matvælastofnun setti um starfsemina og það eftirlit sem haft væri með starfseminni tryggði velferð dýranna. Umsagnir frá allnokkrum dýralæknum bárust við málið og sumir sökuðu flutningsmenn frumvarpsins um aðför að starfsheiðri stéttarinnar.
Dýralæknir sem sagðist hafa starfað við blóðsöfnun allt frá árinu 2013 sagði að henni þætti „afar leiðinlegt“ að þurfa að færa rök fyrir því að vinna sín snerist um að virða dýravelferð og sagði eftirlitið með þessari vaxandi landbúnaðargrein mikið.
Í umsögninni kom fram að dýralæknir sem tæki blóð hefði vikulegt eftirlit með hrossunum og aðstöðu, innra eftirlit Ísteka væri „mjög virkt“ og þar væri starfandi dýralæknir sem hefði eftirlit með dýralæknum, bændum, hrossum, aðstöðu og fleiru.
„Síðast en ekki síst er eftirlit MAST sem er mjög virkt og hefur eftirlit með dýralæknum, bændum, hrossum, aðstöðu ofl.. Tekin eru blóðsýni og blóðprófill metinn reglulega, auk þess undirrita allir bændur sem halda hryssur til blóðsöfnunar þar til gerðan dýravelferðarsamning,“ sagði í umsögn dýralæknisins.
Hrossabændur á Norðurlandi sem halda hryssur til blóðtöku sögðu síðan, í sameiginlegri umsögn sinni, að eftirlitið væri mikið og það gripi inn í ef þörf væri á, en slíkt væri afar fátítt.
„Bændum, sem halda hryssur til blóðframleiðslu, er að fullu treystandi til að gera það á þann hátt að velferð þeirra sé tryggð og ef svo ólíklega vildi til að einhverju væri ábótavant þá er[u] dýralæknar sem annast blóðtöku meira en vel hæfir til að óska úrbóta eða annarra aðgerða ef þörf er á. Matvælastofnun er síðan með sitt eftirlit og þar með er umgjörð þessarar búgreinar í góðu horfi,“ sagði í umsögn hrossabændanna.
Fimm starfsstöðvum lokað frá 2014
Þrátt fyrir þessar glimrandi umsagnir um eftirlit með blóðmerahaldi á Íslandi virðist einhversstaðar pottur hafa mölbrotnað. Ísteka hefur sagt vinnubrögðin og aðferðir sem sumstaðar sjást í mynd evrópsku dýraverndunarsamtakanna bæði óviðeigandi og ólíðandi.
„Stjórnendum og starfsfólki Ísteka mislíkar verulega þessi vinnubrögð við framleiðslu á vöru fyrir okkur. Þau uppfylla ekki ströng skilyrði okkar til dýravelferðar. Við höfum nú þegar hafið innri rannsókn á birgjunum og atvikunum,“ segir í yfirlýsingu sem Ísteka birti um helgina.
Í tilkynningu Matvælastofnunar vegna þessa máls kemur fram að reglubundið eftirlit stofnunarinnar felist í því að heimsækja um 20 prósent starfsstöðva árlega á meðan á blóðtöku standi og að önnur 20 prósent starfsstöðva fái heimsóknir eftirlitsmanna yfir vetrartímann. Alls séu því um 40 prósent af starfsstöðunum, voru 119 talsins í ár, heimsóttar árlega.
Frá árinu 2014 hefur starfsemi á fimm starfsstöðvum verið stöðvuð vegna alvarlega frávika sem komu í ljós við eftirlit. Matvælastofnun segir að rannsóknir á blóðbúskap hryssnanna sýni fram á að blóðtakan, eins og hún er framkvæmd hér á landi, sé „innan ásættanlegra marka fyrir heilsu þeirra og velferð“ og hryssurnar eigi auðvelt með að vega upp blóðtapið.
Mat Matvælastofnunar er að blóðtaka úr fylfullum hryssu, sem framkvæmd er samkvæmt skilyrðum stofnunarinnar, samræmist lögum um dýravelferð.