Hvað varð til þess að streymisveita, sem hefur fyrst og fremst lagt áherslu á tónlist, þurfti að grípa til ráðstafana vegna ásakana um að ýta undir dreifingu falsfrétta og upplýsingaóreiðu?
Svarið, í mjög stuttu máli, er Joe Rogan.
Rogan heldur úti einu vinsælasta hlaðvarpi í heimi, The Joe Rogan Experience. Þættirnir eru á samtalsformi og segir Rogan að markmið hans sé að halda uppi fjölbreyttri umræðu og leyfa ólíkum röddum að heyrast.
Í bréfinu er meðal annars vísað í viðtal Rogan við lækninn Robert Malone sem lýsir yfir efasemdum um bólusetningu gegn COVID-19. Malone kom meðal annars að þróun mRNA-tækninnar sem notuð var við framleiðslu bólefna gegn COVID-19. Sjálfur hefur hann talað um sig sem „uppfinningamann mRNA-bóluefnanna“ en talar á sama tíma gegn bólusetningum og hefur varað við bólusetningu barna. Aðgangi Malone á Twitter var eytt eftir að hann setti fram misvísandi upplýsingar um bólusetningar gegn COVID-19. Malone nýtur mikils fylgis hjá þeim sem eru á móti bólusetningum og hefur hann komið fram á fjölmennum mótmælum þeirra sem eru á móti bólusetningu.
Neil Young setti Spotify afarkosti
Stjórnendur Spotify brugðust ekki sérstaklega við bréfinu fyrr en tónlistarmaðurinn Neil Young krafðist þess í síðustu viku að tónlist hans yrði fjarlægð af Spotify sökum falskra upplýsinga um bóluefni sem Rogan dreifði í hlaðvarpi sínu. Young sagði valið standa á milli hans eða Rogan. Spotify valdi Rogan og tónlist Young hefur verið fjarlægð af Spotify. Í yfirlýsingu frá veitunni segir að Young sé hins vegar alltaf velkominn aftur. Fleiri tónlistarmenn hafa fylgt fordæmi Young, þar á meðal Joni Mitchell. Auk þess hafa þó nokkrir stjórnendur hlaðvarpa ákveðið að leita á önnur mið.
Spotify kom inn á markaðinn fyrst og fremst sem streymisveita fyrir tónlist en hefur undanfarið einnig einbeitt sér að hlaðvörpum. Þannig jókst hlutdeild Spotify sem hlaðvarpsveita í Bandaríkjunum úr 19 prósentum í 25 prósent milli áranna 2019 og 2020 og tók þar með fram úr Apple sem vinsælasta hlaðvarpsveitan og er orðin leiðandi bæði sem tónlistar- og hlaðvarpsveita á heimsvísu, með 31 prósent hlutdeild.
Daniel Ek, framkvæmdastjóri Spotify, hefur lofað bót og betrun og ætlar fyrirtækið að vinna að því að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu í tengslum við umfjöllun á COVID-19 á miðlinum. Hann segir ótímabært að meta áhrif atburða síðustu daga. Hvað sem því líður hefur dregið úr fjölgun notenda Spotify síðasta ársfjórðung. Þá tóku hlutabréf Spotify dýfu í síðustu viku eftir samskipti Young og stjórnenda fyrirtækisins.
„Venjulega þegar ágreiningsmál hafa komið upp eru áhrif þess mæld í mánuðum, ekki dögum,“ segir Ek, sem er tiltölulega rólegur yfir öllu saman. Umræðan hefur þó leitt til þess að tónlistar- og hlaðvarpsnotendur íhugi hvaða kostir eru í boði. Apple Music er næst stærsta hlaðvarpsveitan á eftir Spotify en aðrir möguleikar líkt og YouTube Music, Amazon Music og Tidal hafa verið nefndar sem ákjósanlegir kostir.+
Uppistand, Fear Factor, UFC og hlaðvarp
En aftur að Joe Rogan. Hver er þessi maður og af hverju er hann svona vinsæll?
Joe Rogan er 55 ára Bandaríkjamaður, fæddur og uppalinn í New Jersey.. Hann reyndi fyrir sér sem uppistandari og leikari á 9. og 10. áratugnum og fljótlega eftir aldamótin bauðst honum staða sem íþróttaskýrandi hjá bardagasamtökunum UFC.
Rogan fór meðal annars með hlutverk í gamanþáttunum NewsRadio en hann er líklega þekktari fyrir þáttastjórn í Fear Factor, raunveruleikaþátt þar sem keppendur tókust á við mis ógeðfelldar þrautir og horfðust margir hverjir í augu við sinn mesta ótta. Þættirnir voru sýndir á árunum 2001 til 2006 og nutu mikilla vinsælda, ekki síst hér á landi. Eftir að Fear Factor-ævintýrinu lauk sneri Rogan sér aftur að uppistandinu.
Upphaf hlaðvarpsins má að hluta til rekja til tilkomu iPod-sins sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2001. Nafnið, „podcast“ er einmitt samsuða af orðunum „ipod“ og „broadcast“. Fyrsta hlaðvarpsveitan, Libsyn.com, tók til starfa í lok október 2004. Vinsældir hlaðvarpsþátta jukust jafn og þétt og ákvað Rogan að hoppa á vagninn í ágúst 2010. „The Joe Rogan Experience“ nutu strax strax mikilla vinsælda og í október 2015 var þáttunum halað niður yfir 16 milljónum sinnum í mánuði. Í dag hlusta að meðaltali 11 milljónir á hvern þátt.
Spotify keypti réttinn af hlaðvarpi Rogan árið 2020 og eru þættir hans því aðeins aðgengilegir þar. Kaupverðið var 100 milljónir dollarar, eða um 13 milljarðar króna. Í dag eru þættirnir um 1.770 talsins, auk ýmis konar aukaefnis.
Segist ekki reyna að vera umdeildur en vill leyfa ólíkum sjónarmiðum að heyrast
Í þáttunum ræðir Rogan við alls konar fólk sem er með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Hlaðvarpsformið gerir Rogan kleift að stýra lengd hvers þáttar að vild. Flestir eru um klukkustund að lengd en dæmi eru um allt að þriggja klukkustunda langa þætti, til að mynda við Elon Musk, forstjóra Tesla, þar sem Rogan rétti Musk jónu sem hann þáði með þökkum. Rogan var gagnrýndur af fjölmiðlum fyrir framkomuna, sem og fyrir að spyrja ekki gagnrýninna spurninga og leyfa Musk að gaspra um það sem hann vildi.
En það er einmitt á því sem vinsældir Rogan byggja á: Að leyfa viðmælendum sínum að tjá sig nær hömlulaust. „Ég er bara manneskja sem sest niður og talar við fólk,“ segir Rogan í yfirlýsingu vegna atburða síðustu vikna sem hann birti á Instagramí vikunni. Rogan telur að viðtalsformið, það er samtal milli tveggja einstaklinga, sé einmitt það sem er heillandi við þætti hans. Þættirnir byrjuðu sem saklaust spjall milli vina sem vildu bara hafa gaman að sögn Rogan, sem bjóst ekki við vinsældunum.
Eftir umræðuna Rogan hafi gefið Malone kost á að dreifa samsæriskenningum um COVID-19 lofaði Rogan að endurskoða hvernig hann ber sig að við vinnslu þáttanna. Meðal þess sem hyggst breyta er að ræða við fleiri sérfræðingu á ýmsum sviðum, sérstaklega eftir að hann ræðir við fólk sem hefur umdeildar skoðanir.
„Geri ég einhvern tímann eitthvað rangt? Klárlega, en þegar ég geri mistök reyni ég að leiðrétta þau því ég hef áhuga á að komast að sannleikanum,“ segir Rogan í yfirlýsingu sinni á Instagram. „Ég hef ekki áhuga á að tala við fólk með einsleit sjónarmið.“
Rogan segist ætla að gera sitt besta til að bæta heimildaöflun sína, sérstaklega þegar kemur að umdeildum viðfangsefnum. „Ég er ekki að reyna að dreifa falsfréttum, ég er ekki að reyna að vera umdeildur,“ segir Rogan í yfirlýsingu sinni á Instagram. „Ef ég móðgaði ykkur biðst ég afsökunar, en ef þið eruð hrifin af hlaðvarpinu vil ég þakka ykkur.“