„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
Tveimur tímum fyrir brunann á Bræðraborgarstíg kom Marek Moszczynski „trítilóður“ og „ör“ til vinnuveitanda síns sem hafði aldrei áður séð hann í því ástandi. Hann hafi einmitt ávallt verið vinnusamur og áreiðanlegur rólyndismaður, segir hjartalæknirinn Gísli Jónsson sem var meðal þeirra fjölmörgu vitna sem komu fyrir fjölskipaðan héraðsdóm á fyrsta degi réttarhalda stærsta manndrápsmáls sögunnar.
Algjör heiðríkja. Götusóparar suða eins og ryksugur yfir götum miðborgarinnar. Vorhreinsun er hafin. Það eru enn fáir á ferli. Nokkrir morgunhanar fara geispandi um á hlaupahjólum, reiðhjólum eða fótgangandi. Bílar bíða í röðum við umferðarljósin á gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis. Rautt. Gult. Grænt. Bruna af stað. Hægja á sér á næstu ljósum.
Þetta endurtekur sig í sífellu. Einskonar vélrænn taktur borgarinnar sem lætur ekkert trufla sig.
Um leið og klukkan slær 8.30 eru dyr Héraðsdóms Reykjavíkur, dómshússins við Lækjartorg með sínum marmaralögðu göngum og fiskibeinsmunstraða parketi, opnaðar. Hópur fréttamanna er mættur nokkrum mínútum síðar. Bíður fyrir utan dómsal 101, þess stærsta sem er að finna í Héraðsdómi Reykjavíkur. Starfsmaður dómsins minnir á fjarlægðarreglur og fjöldatakmarkanir. Það mega aðeins sextán vera inni í salnum. Úti dansa geislar sólar og reyna að stinga sér inn í gegnum rimlana á gluggunum. Það er blíður vordagur í uppsiglingu.
Samtímis, í sal 101, eru að hefjast réttarhöld í stærsta manndrápsmáli sögunnar. Réttarhöld yfir Marek Moszczynski sem ákærður er fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Hann er maðurinn sem er grunaður um að hafa kveikt eld í húsinu að Bræðraborgarstíg 1 í lok júní í fyrra sem leiddi til þess að fólk á rishæð hússins varð innlyksa í eldhafinu og þrjár ungar manneskjur, sem voru pólskar líkt og Marek, létust. Þrír geðlæknar hafa lagt mat á geðheilsu Mareks og komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Það er hins vegar dómaranna að kveða endanlega upp úr með það, verði Marek fundinn sekur.
Það er snúið að halda réttarhöld í faraldri kórónuveirunnar þar sem tugir vitna þurfa að mæta fyrir fjölskipaðan dóminn. Að ógleymdum öllum túlkunum.
Að Bræðraborgarstíg 1, í stóra húsinu á horninu við Vesturgötu, bjó fjöldi manna er eldurinn kviknaði. Flestir leigðu þar lítil herbergi, sumir tveir eða tvö saman. Og flestir voru erlendir ríkisborgarar. Úr þessum hópi eru vitni dagsins og því þarf að túlka vitnisburði af pólsku, rúmensku og darí, móðurmáli tveggja ungra manna frá Afganistan. Málin flækjast svo enn frekar því ekki fannst túlkur sem gat túlkað af darí yfir á íslensku. Það sem ungu mennirnir segja á darí er því túlkað yfir á ensku og þaðan yfir á íslensku. Allt er svo túlkað á pólsku fyrir sakborninginn.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sækir málið fyrir ákæruvaldið. Hún er með þeim fyrstu sem koma inn í dómsalinn eftir að dyrum hans er lokið upp, klædd bláum kjól og með brúnt hárband í hrokknu hárinu. Einnig er mættur Guðbrandur Jóhannesson, réttargæslumaður íbúanna sem voru heima er eldurinn kviknaði. Hann er með dökkt hárið greitt aftur og flettir í gegnum blaðabunka fyrir framan sig er hann hefur, líkt og Kolbrún, sveipað sig skikkjunni sem verjendur og sækjendur klæðast við réttarhöld.
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks, er einnig mættur. Hann segist þurfa að tala við Marek áður en hann kemur inn í dómsalinn. Kolbrún og pólski túlkurinn Sandra Polanska ræða sín á milli um eitt vitnið, þann íbúa hússins sem slasaðist hvað mest í eldsvoðanum. Hlaut alvarleg brunasár á stórum hluta líkamans. Hann er í sóttkví vegna smits í fjölskyldunni og á ekki að fara í sýnatöku fyrr en í dag eða á morgun. Það mun þó ekki setja stórt strik í reikninginn, nægur tími er til stefnu því réttarhöldin munu standa til föstudags, þó með hléi á fimmtudag.
Lögreglumaður kemur inn í dómsalinn og tilkynnir að Marek sé kominn í dómshúsið. Skömmu síðar gengur hann inn, grannvaxinn, gráhærður með dökkar augabrúnir. Hann er klæddur dökkum jakkafötum og rúllukragabol. Hann er ekki með handjárn en í salnum sest lögreglumaður með brúnt belti, fjötra, í höndunum.
Ljósmyndarar og myndatökumenn sjónvarpsstöðvanna hópast að borðinu sem Marek fær sér sæti við ásamt túlknum. Hann er með grímu fyrir andlitinu, eins og flestir aðrir í dómsalnum, og tekur hana ekki niður fyrr en ljósmyndararnir eru farnir úr salnum.
Dómararnir koma inn og ganga til sæta sinna. Barbara Björnsdóttir er formaður þessa fjölskipaða dóms en í honum situr einnig geðlæknir.
Kolbrún stendur upp frá borði sínu og leggur fram lögregluskýrslur tveggja einstaklinga sem Stefán Karl verjandi Mareks hafði beðið um í fyrirtöku málsins í mars.
„Það eru að fæðast hugmyndir á nóttunni,” segir Stefán Karl svo. „Mig langar að fá afrit af útkallsbeiðnum á lögreglustöð, segjum tveimur vikum á undan [brunanum]. Hvort að það tengist einhverjum sérstökum aðilum.”
Það átti svo eftir að koma í ljós við hvaða aðila hann átti við þegar í upphafi skýrslutaka dagsins. Þá hina sömu og fjallað er um í lögregluskýrslunum tveimur. Íslenskt par, karl og konu, sem bjó á jarðhæð hússins er eldurinn kom upp og var handtekið á vettvangi fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.
Stefán Karl á ítrekað eftir að spyrja hvert vitnið á fætur öðru út parið og fátt annað. Hvort að það hafi mögulega komið inn á aðrar hæðir hússins, hvort að því hafi fylgt ólæti, lögregluheimsóknir og fleira í þeim dúr. Hann gerir þó ekki grein fyrir því þennan fyrsta dag réttarhaldanna hvernig og með hvaða hætti hann telur parið hafa komið að því sem gerðist hinn örlagaríka júnídag.
Áherslur Kolbrúnar eru allt aðrar. Hún biður vitni að lýsa því hvar það var er eldurinn kviknaði, hvernig það komst út og hvaða afleiðingar atburðurinn hefur haft á líf þeirra og heilsu. Hún spyr einnig nokkra út í kynni sín af Marek og hvort að hegðun hans hafi breyst stuttu áður en eldsvoðinn varð.
„Við byrjum með skýrslu af ákærða,“ segir Barbara dómsformaður. Marek rís þegar í stað á fætur en þá segir Stefán Karl: „Marek ætlar ekki að gefa skýrslu en ætlar kannski að segja örfá orð til réttarins.“
Marek sest í vitnastúkuna ásamt túlknum.
„Sæll Marek,“ segir Barbara og minnir hann á að honum sé ekki skylt að svara spurningum en ef hann geri það þurfi hann að segja rétt og satt frá. „Viltu svara spurningum?“
Stefán Karl svarar fyrir hann að bragði. „Sem sagt, hann ætlar upplýsa það að hann hafi nú þegar gefið skýrslu hjá lögreglu í hljóð og mynd.“
Barbara heldur áfram að beina orðum sínum til Mareks. Hún horfir beint framan í hann, talar varfærnislega og kurteislega líkt og hún á eftir að gera við öll þau vitni sem mæta fyrir dóminn. „Þú gafst skýrslu hjá lögreglu í málinu?“ spyr hún. „Þú manst eftir því? Var allt satt og rétt sem þar kom fram?“
Marek talar lágt. „Já, ég staðfesti það,“ segir hann og bætir svo strax við: „Hvað get ég sagt, ég er saklaus. Þetta var mikill harmleikur.“
Barbara spyr hann hvort hann muni eitthvað frá þessum degi. „Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur.“
Barbara: „Viltu segja okkur frá þessu?“
Marek: „Nei, ég staðfesti fyrri framburð.“
Barbara: „Viltu segja okkur frá aðstæðum þínum?“
Marek: „Hvernig þá?“
Barbara: „Þú segist hafa verið veikur, viltu greina nánar frá því?“
Marek: „Það gerðist í fyrsta skipti á ævinni eitthvað svoleiðis.“
Barbara: „Þennan dag?“
Marek: „Já.“
Barbara: „Veistu hvað það var sem gerðist?“
Marek: „Veit það ekki. Mikið stress. Ég var á spítala.“
Hann segist svo búinn að segja allt sem hann vilji segja. Hann hafi áður farið yfir þetta hjá lögreglu. „Ekkert sem þú vilt bæta við?“ spyr dómarinn. Hann hristir hausinn.
Þegar hann er að standa upp spyr Barbara áfram: „Ekkert frekar sem þú vilt segja?“ Aftur hristir Marek höfuðið og gengur til sætis.
Næsta vitni gefur skýrslu í lokuðu þinghaldi. Það finnst Stefáni Karli „ákveðin íronía“ þar sem ákæruvaldið hafi barist gegn lokun þinghaldsins er hann óskaði eftir því í haust. „En þegar vitni fer fram á það þá er stokkið til og það gert.“ Hann segir þetta í „hrópandi mótsögn“ en taki þó ekki afstöðu til þess. Sú sem ber vitni fyrir luktum dyrum er kona sem bjó í húsinu og var heima er eldurinn kom upp. Hún er enn í miklu áfalli eftir atburðina.
Hvað gekk á áður en eldurinn var kveiktur og hafði svo mikil áhrif á hana kemur í ljós í næsta vitnisburði. Það er eiginmaður hennar sem sest í vitnastúkuna. Hann var í vinnunni þennan dag en fékk símtal frá eiginkonunni. „Hún sagði mér að nágranni okkar væri að haga sér illa,“ segir hann. „Að hann væri agressífur. Sá sem býr við hliðina á okkur. Það er Marek.“
Hann heldur áfram. „Hvernig á ég að orða þetta? Þetta voru nokkur símtöl. Fyrsta símtalið þá sagði hún að Marek hefði verið að angra hana og kalla hana illum nöfnum.“ Hún hafði hitt hann á ganginum. Í næsta símtali heyrðust högg og öskur. „Hún sagði mér að Marek hefði viljað ryðjast inn í herbergið.“
Fann að eitthvað var að brenna
Í þriðja símtalinu var hún orðin hrædd. Búin að loka sig inn í herbergi þeirra hjóna á annarri hæð Bræðraborgarstígsins. „Hún fann að eitthvað var að brenna. Fyrst, þá sagði ég henni að vera lokuð inni í herbergi og ekki fara út. Útaf nágrannanum. Svo hann myndi ekki skaða hana. En svo þegar hún fann að það var eldur þá sagði ég henni að flýja úr herberginu.“
Hún opnaði herbergishurðina í smá stund og sagði að það væri „mjög dimmt á ganginum,“ lýsir eiginmaðurinn. „Ég sagði henni að flýja.“ Hann talaði næst við hana þegar hún var komin út úr húsinu.
„ Var þetta skrítna ástand Mareks þín upplifun af honum áður?“ spyr Kolbrún. „Nei,“ svarar hann, „það voru engin vandamál okkar á milli.“
Hann líkt og fleiri lýsti því hins vegar að stundum hefði lögreglan komið á staðinn vegna óláta. En þau hefðu verið bundin við jarðhæð hússins.
Stefán Karl heldur áfram að spyrja um ónæðið af neðstu hæðinni og átök sem þar hafi átt sér stað. „Tengir þú það við sérstaka aðila?“ spyr Stefán Karl. Því svarar maðurinn neitandi.
„Manstu eftir íslensku pari sem bjó þarna?“ spyr þá Stefán. Því neitar maðurinn einnig.
Næsta vitni er pólskt líkt og það fyrra. Það mæðir mikið á túlkinum Söndru. Vitnið, karlmaður um sextugt, klæddur buxum með felulitamynstri og í svartri hettupeysu, svarar spurningu dómarans um daginn sem eldurinn kom upp. Hann segist hafa verið heima, inni í herbergi sínu og með heyrnartól. Allt í einu sá hann reyk koma inn meðfram hurðinni. „Ég opnaði hana og þá kom reykur inn í herbergið. Þetta var svartur þykkur reykur. Þannig að ég lokaði hurðinni. Og ég fór út um gluggann út á þak á viðbyggingu. Ég var svona heppinn.“
Hann bjó á sömu hæð og Marek en segist ekki hafa þekkt hann að ráði. Þegar Kolbrún spyr hann hvort hann hafi heyrt eitthvað, þrátt fyrir heyrnartólin, „einhver öskur eða læti“ hugsar hann sig um andartak. „Ekki öskur en eins og raddir.“
Eftir að hafa brotið sér leið út á þak viðbyggingarinnar með aðstoð vinar síns og nágranna beið hann þar um hríð eftir aðstoð. Nágranni hafi komið með stiga og svo björgunarfólk sem mætt var á staðinn.
Stefán Karl spyr þetta vitni einnig út í íbúa fyrstu hæðar hússins. „Kannast þú við að þar hafi verið íslenskt par?“ Maðurinn er ekki viss.
Kolbrún er með fleiri spurningar. Hún rifjar upp að í skýrslu hjá lögreglu fimm dögum eftir brunann hafi maðurinn sagst hafa hitt Marek þennan dag. „Þú sagðir að Marek hefði virkað reiður, væri kominn með nóg af öllu, vildi fara af landinu, til Kaupmannahafnar.“ Maðurinn segir að kannski hafi það verið þannig, „ég man það í alvörunni ekki“ en hafi hann sagt þetta við lögregluna svona skömmu eftir eldsvoðann hafi hann verið að segja sannleikann.
„Í lokin, hvaða áhrif hafði þetta á þig?“ spyr Kolbrún. „Upplifðir þú þig í hættu?“
Maðurinn svarar því strax játandi. „Hafði þetta áhrif á þitt líf og gerir enn í dag?“ heldur Kolbrún áfram að spyrja. „Ég er búinn að upplifa ýmislegt í lífinu. Og maður þarf svona að bjarga sér með það. Lífið heldur áfram. Ég er ekki stressaður eða þunglyndur. Það varð sem að varð.“
Vasile Tibor Andor sem hafði búið á Bræðraborgarstígnum í sex ár, er næstur í vitnastúkuna. Morguninn hefur gengið hratt fyrir sig og Tibor er beðinn að mæta fyrr. Hann hlýðir kallinu eins og skot og kemur hlaupandi úr vinnunni á Kaffibrennslunni á Laugavegi. Blæs þó ekki úr nös, klæddur appelsínugulum strigaskóm og bláum sportlegum jakka.
Hann er frá Rúmeníu og við hlið hann sest kona sem túlkar af rúmensku yfir á íslensku. Sandra heldur áfram að túlka allt sem fram fer fyrir Marek.
Tibor segir frá því þegar hann kom heim úr vinnunni, sá unga nágrannakonu sína í eldhúsinu á rishæðinni þar sem þau bæði bjuggu og að þar hafi hún enn verið er hann sneri aftur úr stuttri búðarferð. Á meðan hann er að hita súpu inni í herberginu sínu heyrir hann öskrað á pólsku. Hann vissi ekki nákvæmlega hvað væri í gangi en hrópin verða hærri og hærri. Og hærri. „Þá taldi eg tilefni til að fara fram og sjá hvað væri að gerast,“ segir Tibor sem hefur áður lýst þessari erfiðu reynslu sinni í ítarlegu viðtali við Kjarnann. „Þegar ég opna hurðina fram sá ég ekki annað en reyk.“ Hann sá reyk, eld og nágrannakonu sína að reyna að komast niður stigann. „En hún kom svo til baka því það var ekki hægt,“ segir Tibor. „Ég sá hana logandi,“ bætir hann við.
Tibor hörfaði aftur inn í herbergið og hringdi á neyðarlínuna. Þar beið hann í yfir þrettán mínútur eftir aðstoð. Hann heyrði nágranna sinn brjóta gluggann og reyndi að fá hann ofan af því að stökkva út. „En hann stökk niður.“ Sjálfur braut hann lítið gat á gluggann. Beið eftir hjálp. Honum fannst tíminn vera lengi að líða og „ég hélt að ég væri að deyja“.
Nágrannakona Tibors var rétt rúmlega tvítug. Hún er ein þeirra þriggja sem lést í eldsvoðanum.
Hann er enn að vinna úr áfallinu. Vaknar ennþá á nóttunni, dreymir illa og finnst eins og hann finni reykjarlykt. „Vakna og finnst eins og húsið sé logandi sem ég bý í. Og mér líður mjög illa endalaust við að hugsa að ég hefði getað gert eitthvað.“
Tibor segir að stundum hafi verið partístand og hávaði á 2. hæðinni. Stefán Karl vill vita hvort að fólk af jarðhæðinni hafi komið upp á efri hæðirnar. Þess minnist Tibor ekki.
Fyrsta vitni eftir hádegishlé er ungur maður sem bjó á rishæðinni í herbergi við hliðina á Tibor. Það er hann sem stökk. Hann var sofandi en vaknaði við öskur. „Ég bara stóð upp af dýnunni sem ég svaf á og hljóp að hurðinni og opnaði fram á ganginn. Þá var bara svartur reykur á ganginum. Ekki hægt að sjá neitt. Ég hélt að það hefði kviknað í við endann á ganginum. Ég lokaði hurðinni. Svo sá ég reykinn koma frá gólfinu inn í herbergið. Ég tók stól og braut gluggann. Og ég halla mér fram og ætlaði að bíða eftir slökkviliðinu. En það var svo mikill kraftur á reyknum að ég gat ekki andað. Þannig að ég ákvað að stökkva.“
Hann missti meðvitund við fallið og komst ekki aftur til hennar fyrr en á gjörgæsludeild Landspítalans.
„Getur þú sagt okkur frá afleiðingunum?“ spyr Barbara dómari. „Ertu þá að tala um heilsufarslegar eða fjárhagslegar?“ spyr ungi maðurinn á móti. Hvort tveggja, segir dómarinn. „Ég missti eiginlega allt sem ég átti í eldinum. Heilsufarslega, þá var ég viku á spítala og hef smám saman verið að jafna mig.“ Hann beri enn ör eftir skurði sem hann hlaut við að brjóta rúðuna og við fallið.
Hann segist annars hafa náð að jafna sig líkamlega. Aðra sögu er að segja um andlegu hliðina. Spurður um það hikar hann í fyrstu. „Það var ekki þannig áður að ég vaknaði sveittur á nóttunni. En það gerist núna.“
Hann hafi svo lent í atviki nýlega í húsinu sem hann leigir í núna. Nágranni hans hafi gleymt pönnu á hellu. „Og þá kviknaði á brunakerfinu og það var reykur á ganginum. Það voru mjög stressandi aðstæður fyrir mig. Ég fékk alveg mikinn hjartslátt.“
Öskrin sem Patrik vaknaði við komu frá enda gangsins. Hann þekkti röddina. Þetta var önnur nágrannakona hans. Hún greip til sama örþrifaráðs og hann – að stökkva út. En hún lifði það ekki af.
Líkt og fleiri vitni greindi hann frá því að ólæti og hávaði hafi stundum átt sér stað á jarðhæð hússins. Lögregla hafi verið kölluð út. „Já, þetta voru Íslendingar, að öskra þarna eitthvað á nóttunni,“ sagði hann um eina slíka uppákomu.
„Undarleg spurning kannski,“ segir verjandinn Stefán Karl þegar komið er að honum að yfirheyra vitnið, „en manstu hvort að þau hafi verið mikið hár, lítið hár, sköllóttur ...“
Það segist hann ekki muna.
„Þú sást aldrei Marek kveikja neinn eld í húsinu?“ spyr Stefán svo. Nei, hann var sofandi en segist hafa verið „mjög hissa að þetta væri hann. Af því að eftir því sem ég þekkti af honum hefði mig ekki grunað að hann væri með andleg veikindi. Ég hef aldrei séð hann ofnota áfengi, veit ekki um önnur efni, en ég hef aldrei séð hann haga sér furðulega eða vera agressífur.“
Enn einn íbúi hússins, eldri maður einnig frá Póllandi, kemur í vitnastúkuna og er spurður um kynni sín af Marek. „Hann bjó á móti okkur. Hann var yfirleitt hlédrægur.“ Hann man eftir að hafa hitt hann daginn fyrir eldsvoðann og að þá hafi hann séð breytingu á honum. „Hann hagaði sér furðulega,“ segir hann. „Fyrir brunann var hann á spítala og svo kom hann til baka og var einhvern veginn, hvað ég á að segja, taugaspenntari.
Stefán Karl spyr þetta vitni líka um lögregluútköll og hvort hann hafi tekið eftir íslensku pari sem bjó í húsinu. Spyr hvort hann muni eftir sköllóttum manni. Einnig spyr hann hvort að hann kannist við að rafmagnið í húsinu hafi verið lélegt og því oft slegið út. Vitnið segir það hafa gerst nokkrum sinnum.
Annar eldri Pólverji sem bjó í húsinu en var þó ekki heima er eldurinn kom upp var á leiðinni heim eftir meðferð á sjúkrahúsi er hann fékk símtal frá annarri ungu pólsku konunni sem bjó í risinu. „Hún öskraði „bjargaðu þér“ og svo slitnaði samtalið,“ segir hann. „Þær voru tvær,“ segir hann spurður um þessar nágrannakonur sínar. „Þær dóu báðar.“
Hann hafði ekki kynnst Marek vel þó að þeir hafi búið á sömu hæð Bræðraborgarstígs 1. „Hann var skrítinn eftir spítaladvölina,“ sagði hann. „Það var eitthvað skrítið. Hann var hræddur. Hann var öðruvísi áður.“
Hann segist eiga erfitt með að útskýra það nánar.
„Varðst þú einhvern tímann var við fólk sem bjó á fyrstu hæðinni?“
Það er Stefán Karl sem spyr. „Sástu einhvern tímann íslenskt par…“ heldur hann áfram að spyrja. Maðurinn segir margt fólk hafa búið á jarðhæðinni. Þar hafi verið mörg herbergi.
Símtal við tvíburabróður
Það er hringt í næsta vitni.
Don't leave me this way
I can't survive I can't stay alive
Áður en það svarar óma þessar laglínur um dómsalinn. Hátt og skýrt.
„Halló?“
Barbara: „Er það Ryazard? Við erum að hringja í þig úr dómssal. Þess hefur verið óskað að þú gefir skýrslu í sakamáli.“
Hún heldur áfram: „Ryazard, það er bróðir þinn sem er ákærður í máli hérna hjá okkur. Af því að þú ert svona tengdur honum þá hefur þú rétt á að skorast undan því að gefa skýrslu. Viltu gefa skýrslu eða viltu skorast undan?“
Ryazard velur síðari kostinn.
„Röddin í þeim er meira að segja eins,“ segir túlkurinn Sandra og snýr sér brosandi að Marek.
„Tvíburar,“ segir hann þá og brosir á móti.
Það er komið að tæknilega flóknustu skýrslutöku dagsins. Tveir ungir afganskir menn bjuggu í viðbyggingu hornhússins á Bræðraborgarstíg og Vesturgötu. Þeir hafa báðir lagt sig fram við íslenskunám frá því þeir flúðu hingað til lands árið 2018. En þeirra móðurmál er darí. Og enginn túlkur sem getur túlkað það yfir á íslensku fannst. Það þarf því tvo túlka til að koma vitnisburði þeirra yfir á íslensku.
„Sumarið er að koma,“ segir lögreglumaður sem fylgir öðrum þeirra inn. Hann er á stuttbuxum enda er langt liðið á daginn og sólardagurinn mikli að ná hámarki. „Góðan daginn,“ segir ungi maðurinn hátt og skýrt á íslensku.
Þeir vinirnir sluppu út úr húsinu sem þá var að fyllast af reyk. Annar þeirra hjálpaði nágrönnum sínum að komast út. „Ég varð fyrir miklu áfalli en ég vissi ekki í rauninni frá hverju ég hafði sloppið,“ sagði annar þeirra.
Stefán Karl vill vita um nágrannana á jarðhæðinni. Hvort þeir hafi átt í samskiptum við þá. Hvort það hafi verið Íslendingar. Annar þeirra segir að þar hafi búið par frá Íslandi en einnig annað fólk. „Getur þú lýst þessum Íslendingum?“ spyr Stefán. Maðurinn segist ekki treysta sér til þess en að hann myndi þekkja þá í sjón. Hann bætir því svo við að lögreglan hafi þurft að færa konuna úr húsinu. Hún hafi ekki viljað fara út.
„Þrátt fyrir að kviknað væri í húsinu þá hafi konan ekki viljað fara úr því?“ heldur Stefán áfram að spyrja. Maðurinn segist ekki vera viss um alla atburðarásina en að hann hafi séð lögregluna draga hana út úr íbúðinni.
„Já, það hefur ýmislegt komið fram,“ segir Stefán Karl þá.
Síðasta vitni dagsins er Gísli Jónsson hjartalæknir. Hans vitnisburður er tekinn í gegnum fjarfundarbúnað. Ákveðnir tæknilegir örðugleikar einkenna fyrstu mínútur þess samtals. Hann er á „mute“ eins og oft vill gerast. Þegar hljóðið er komið á vill dómarinn sjá meira af andlitinu á honum. „Við sjáum reyndar bara ennið á þér,“ segir Barbara og Gísli lagar það hið snarasta.
Gísli er ekki kominn fyrir dóminn vegna menntunar sinnar eða starfa. Hann er þangað kominn vegna þess að hann þekkir Marek. „Hann byrjaði að vinna fyrir mig ári fyrir brunann,“ segir hann. „Í garðinum hjá mér.“ Þar hafi hann unnið í 4-5 mánuði og allan tímann staðið sig „afburða vel“.
Hann hafi verið mjög vinnusamur og dagfarsprúður. En svo sá hann Marek allt í einu ekki í nokkra daga. Hann spurði vin hans og samstarfsfélaga um hann og fékk þau svör að hann hefði verið með mikla kviðverki. Gísli greip þegar í stað inn í og pantaði tíma fyrir hann í magaspeglun og gerði gott betur því hann talaði líka við bróðurdóttur hans og túlkaþjónustu til að létta honum lífið.
En svo hafi bróðurdóttirin, aðstandandi Mareks, hringt í Gísla og sagt: „This is cancer – að hann væri með krabbamein í maganum. Þetta er í júnímánuði í fyrra. Þá var hann að kasta upp blóði og lá á Landspítalanum í tíu daga.“
Gísli segir Marek hafa haldið að hann væri með krabbamein en svo hafi ekki reynst vera heldur um alvarlegt magasár að ræða. Gísli heimsótti Marek nokkrum sinnum á meltingadeild Landspítalans þar sem hann lá. Hann segir hann hafa verið fölan en í góðu jafnvægi.
En svo breyttist allt. Gísli hitti hann svo 24. júní, daginn fyrir eldsvoðann og einnig þann 25. Daginn sem bruninn varð. „Þá var hann bara... hann var rólegheitamaður en hann talaði þarna gífurlega hratt og mikið. Var ofboðslega hávær. Hann kom til mín og ég tók utan um hann og sagði að hann gæti ekki unnið hjá mér fyrr en hann myndi jafna sig.“
Stuttu síðar heyrði hann hávaða úti í garði og þá er Marek að „hnakkrífast“ við vinnufélaga sinn. Hann kemur svo á gluggann hjá Gísla og var greinilega í mjög slæmu jafnvægi. „Hann var bara mjög veikur.“
Hann segist hafa farið út til hans og þá hafi hann verið að tala í símann og réttir Gísla símann. „En það var enginn í símanum,“ segir Gísli. „Hann var mjög manískur og ég held að hann hafi verið þjakaður af [áfallastreitu] en ég er ekki geðlæknir.“
Þetta var tveimur tímum fyrir brunann. Gísli segir Marek hafa verið alveg „trítilóðan“. Hann hafi verið „reiður og ofboðslega ör“.
Hann komst svo að því að það var Marek sem var handtekinn grunaður um íkveikjuna. Þá hafi hann heimsótt hann á geðdeild. „Þá var hann í þokkalegu jafnvægi og orðinn gamli góði Marek aftur.“
Fyrsta degi réttarhaldanna yfir Marek Moszczynski er lokið.
Lesa
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð