Ójöfnuður, mældur sem hlutfallslegur munur á tekjum og eignum ríkasta fimmtungs þjóðarinnar og þess efnaminnsta, minnkaði í fyrra frá árinu 2019. Hins vegar hefur ójöfnuðurinn í krónutölum aukist á sama tíma. Einnig gæti ójöfnuður aukist í framtíðinni vegna fjölda fólks sem nýtti sér séreignarúrræði stjórnvalda í fyrra. Þetta kemur fram þegar tölur Hagstofu um tekju- og eignadreifingu eru skoðaðar.
Hlutfallslegur ójöfnuður minni
Í síðustu viku greindi Viðskiptaráð frá því að litlar sem engar vísbendingar væru um vaxandi ójöfnuð vegna yfirstandandi kreppu, þar sem tekjujöfnuður virðist hafa nokkurn veginn staðið í stað á síðasta ári, miðað við árið á undan. Máli sínu til stuðnings vísaði ráðið í tölur Hagstofu, en samkvæmt þeim var hlutfallsleg aukning tekna tiltölulega jöfn á milli tekjutíunda í fyrra.
Ein leið til að mæla ójöfnuð er með svokölluðu 20/20 hlutfalli, þar sem tekjur efnamesta fimmtungs þjóðarinnar eru bornar saman við tekjur efnaminnsta fimmtungsins. Þetta hlutfall lækkaði í fyrra, sem gefur til kynna að hlutfallslegur tekjuójöfnuður hafi minnkað.
Sömu sögu er að segja um eignadreifingu, en samkvæmt tölum Hagstofu lækkaði 20/20 hlutfallið í eignum skarpt í fyrra, eftir að hafa hækkað í fimm ár í röð. Samkvæmt þessum mælikvarða hefur hlutfallslegur eignaójöfnuður ekki verið minni hér á landi í tíu ár.
Ójöfnuður í krónutölum jókst
Þessir mælikvarðar sýna hins vegar einungis hlutfallslegan mun á milli tekju- og eignatíunda. Ef krónutöluhækkanir eru skoðaðar blasir önnur mynd við, en samkvæmt þeim jókst ójöfnuður í fyrra.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær voru þau þrjú störf sem hækkuðu mest í mánaðarlaunum í fyrra öll hátekjustörf. Þetta voru sérfræðingar við lækningar, ásamt yfirmannastöðum í byggingariðnaði og störfum sem tengjast ráðgjöf og sölu á verðbréfum. Ef dreifing heildartekna fyrir síðasta ár er skoðuð sést einnig að forskot efnaðra á aðra jókst. Samkvæmt henni jukust tekjur efnamesta fimmtungsins að meðaltali um milljón á síðasta ári, á meðan tekjur efnaminnsta fimmtungsins jukust að meðaltali um 172 þúsund. Munurinn er því rúmlega fjórfaldur.
Ef litið er á eignadreifingu landsmanna fæst sama niðurstaða, efnaðir högnuðust mun meira heldur en efnalitlir. Á þetta benti Kristrún Frostadóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Twitter-þræði í gær, en samkvæmt henni rann tæpur helmingur af aukningu eigna Íslendinga án fasteigna og lífeyrissjóðsskuldbindinga til 10 prósent þjóðarinnar sem átti mestu eignirnar fyrir. Sama mun má sjá í aukningu eigin fjár Íslendinga, sem sýnir eignir þeirra að frádregnum skuldum. Þráðinn má sjá hér að neðan.
Það eru margar leiðir til að horfa á heiminn. Hér er ein.
— Kristrún Frostadóttir (@KristrunFrosta) July 12, 2021
Eignir Íslendinga án fasteigna (og lífeyrissj.) jukust um 215 milljarða króna í fyrra. Nærri 46% af þeirri upphæð fór til 10% þjóðarinnar sem átti mestu eignirnar fyrir. 1/4 pic.twitter.com/uzYIZ5wERA
Ójöfnuði slegið á frest
Ýmsir sérfræðingar hafa spáð auknum ójöfnuði í kjölfar kórónukreppunnar, þar sem ljóst var að hún kæmi verst niður á illa launuð störf í veitinga- og ferðaþjónustu. Samkvæmt tölum Hagstofu um tekjudreifingu virðist þó sem úrræði stjórnvalda, til viðbótar við atvinnuleysisbætur og aðrar félagslegar greiðslur, hafi komið í veg fyrir að aukningin hafi verið mikil.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um breyttist samsetning tekna töluvert í fyrra. Atvinnu- og fjármagnstekjur landsmanna drógust saman, en gríðarlega mikil aukning var í „öðrum tekjum“ sem inniheldur allar þær tekjur sem falla ekki inn í hina tvo flokkana.
Um helmingur þessara greiðslna, eða um 50 milljarðar króna, voru atvinnuleysisbætur, en rúmur þriðjungur þeirra voru auknar lífeyrisgreiðslur landsmanna. Þar af jukust lífeyrisgreiðslur til 16-64 ára um tæpa 23 milljarða, en það er sama upphæð og var greidd út í séreignarúrræði stjórnvalda í fyrra, sem fól í sér heimild til að taka út séreignarsparnaðinn sinn til að mæta tekjufalli.
Því má rekja tæpan fjórðung af tekjuaukningu landsmanna í gegnum greiðslur sem ekki ná til atvinnu- eða fjármagnstekna til séreignarúrræðisins. Þar sem einstaklingar sem nýttu sér þetta úrræði fá minni lífeyri greiddan út seinna gæti því ójöfnuður aukist í framtíðinni vegna úrræðisins.