Frá og með deginum í dag verður allt skólahald í Suður-Afríku án takmarkana í fyrsta sinn frá því að faraldurinn braust út fyrir tveimur árum. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að fólk sem greinist með veiruna en er einkennalaust þurfi ekki að sæta einangrun. Þá hefur einangrun þeirra sem finna einhver einkenni verið stytt úr tíu dögum í sjö.
Síðustu misseri hefur skólahald verið skert með ýmsum hætti í landinu og nemendur á öllum skólastigum ekki fengið fullan skóladag- eða viku eða þurft að vera í fjarnámi. Því tímabili er nú lokið.
„Grunnskólar, framhaldsskólar og sérskólar verða aftur í daglegu staðnámi,“ segir í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni. „Reglan um eins metra fjarlægð milli nemenda verður einnig afnumin.“
Ríkisstjórn Suður-Afríku hélt aukafund í gær þar sem ákvarðanir um miklar afléttingar í samfélaginu voru teknar. Fundurinn var haldinn í kjölfar samráðs við sérstaka nefnd sem hefur haft viðbrögð við faraldrinum á sinni könnu. Nokkrar rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarið á útbreiðslu faraldursins í landinu benda allar til að um 60-80 prósent Suður-Afríkumanna hafi fengið COVID-19 og ónæmi því orðið mjög útbreitt.
Viðbúnaður í landinu vegna faraldursins er því komið á lægsta stig.
Meira en 3,6 milljónir Suður-Afríkumanna hafa greinst með veiruna og yfir 9.000 hafa látist. Ómíkron afbrigðið, sem er ráðandi í heiminum í dag, uppgötvaðist fyrst í Suður-Afríku og nágrannaríkinu Botsvana í lok nóvember.
Heilabrot vegna undirafbrigðis
Undirafbrigði ómíkron sem nú hefur greinst í mörgum löndum og hefur fengið einkennisstafina BA.2, er enn að valda vísindamönnum heilabrotum. Í sumum ríkjum virðist það orðið ráðandi afbrigði en í öðrum alls ekki – og skýringin á því er enn á huldu. Ísraelskir vísindamenn tóku t.d. eftir því að stór hluti Nepala sem komið hefur til Ísrael síðustu daga hefur greinst með einmitt þetta undirafbrigði. Heilbrigðisráðuneytið í landinu segir í yfirlýsingu að vitað sé að BA.2 sé enn meira smitandi en ómíkron en að sama skapi valdi það ekki alvarlegri einkennum.
Undirafbrigðið hefur, að sögn ísraelskra vísindamanna, haft þau áhrif að ekki hefur hægt jafn mikið á ómíkron-bylgjunni í Evrópu og virtist vera að eiga sér stað. Í Danmörku viðist afbrigðið vera að valda nýrri smitbylgju en eins og fyrr segir þá fylgir henni ekki aukning í alvarlegum veikindum.
Anthony Fauci, sérfræðingur í smitsjúkdómum og helsti ráðgjafi bandarískra stjórnvalda í faraldrinum, sagði í viðtali í síðustu viku að enn væri ekki hægt að fullyrða að ómíkron-bylgjan yrðu endalok faraldursins. „Svarið er ekki enn komið á hreint og ég held að við verðum að vera hreinskilin hvað það varðar.“
Hann sagði að þegar veiruafbrigði á borð við ómíkron kæmi til sögunnar, afbrigði sem væri mjög smitandi en ekki eins hættulegt og þau fyrri, þá væri vissulega hægt að vona að faraldurinn væri að líða undir lok. „En það verður aðeins tilfellið ef við fáum ekki annað afbrigði sem kemst framhjá þeim vörnum líkamans sem fyrri afbrigði hafa vakið.“
Hann segir það „heppni“ að ómíkron hefði komið fram á sjónarsviðið miðað við alvarlegri eiginleika fyrri afbrigða. Hins vegar sé ekki á þessu stigi hægt að fullyrða að ómíkron verði til þess að útbreitt hjarðónæmi við nýju kórónuveirunni náist – allt standi það og falli með því hvort að annað afbrigði komi fram og hverjir eiginleikar þess verða.