Serbneski tennisspilarinn Novak Djokovic segist aldrei hafa verið á móti bólusetningum en að hann myndi frekar fórna mögulegum tennistitlum í framtíðinni heldur en að láta bólusetja sig gegn COVID-19.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Djokovic á BBC, sem er það fyrsta sem hann veitir eftir að landvistarleyfi hans í Ástralíu var afturkallað og hann þurfti að yfirgefa landið áður en opna ástralska meistaramótið í tennis hófst í janúar.
Bólusetning gegn COVID-19 var skilyrði fyrir þátttöku á mótinu. Djokovic er óbólusettur en sótti um undanþágu sem yfirvöld í Viktoríufylki veittu honum, af læknisfræðilegum ástæðum, en Djokovic greindist með COVID-19 í desember.
Þegar hann kom til landsins var honum hins vegar meinuð innganga af landamæravörðum. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, var í fyrstu hlynntur ákvörðun yfirvalda í Viktoríufylki um að veita Djokovic undanþágu en skipti síðar um skoðun þar sem hann sagði að enginn ætti að vera hafinn yfir gildandi reglur. Það var svo í höndum Alex Hawke, innflytjendaráðherra Ástralíu, að ógilda landvistarleyfið á þeim grundvelli að vera Djokovic gæti hvatt til uppþota meðal almennings og ýtt undir sjónarmið þeirra sem eru á móti bólusetningum.
Djokovic kærði ákvörðunina en dómstóll staðfesti ákvörðun yfirvalda um að ógilda landvistarleyfið. Djokovic, sem dvaldi á umdeildu flóttamannahóteli á meðan mál hans var til meðferðar, hélt því heim á leið og tók ekki þátt á opna ástralska meistaramótinu í tennis að þessu sinni. Hann sagðist virða niðurstöðuna sem væri engu að síður mikil vonbrigði.
Tilbúinn að fórna opna franska og Wimbledon
„Ég var aldrei á móti bólusetningnum,“ segir Djokovic í BBC-viðtalinu þar sem hann gerir upp dagana í Melbourne í síðasta mánuði. Hann segist ekki vilja að fólk tengi hann við þá sem eru alfarið á móti bólusetningum. „En ég hef alltaf stutt frelsi til að velja hvað þú setur í líkama þinn,“ segir Djokovic.
Fullyrðing Djokovic stangast þó á við það sem hann hefur áður sagt. „Persónulega er ég á móti bólusetningum og myndi ekki vilja láta einhvern neyða mig í bólusetningu til að geta ferðast,“ sagði Djokovic í opnu streymi á Facebook í apríl 2020. „En ef það verður gert að skyldu, hvað þá? Ég mun þurfa að taka ákvörðun. Ég hef mínar skoðanir á málinu og hvort þær skoðanir muni breytast á einhverjum tímapunkti á eftir að koma í ljós,“ sagði Djokovic jafnframt.
Fyrir opna ástralska mótið var Djokovic sigursælasti tennismaður á stórmótum ásamt Roger Federer og Rafael Nadal með 20 risatitla. Nadal sigraði opna ástralska og er því, sem stendur, sigursælasti tennismaður heims. Djokovic, sem er 34 ára, segist vona að bólusetningarkröfum á stórmótum verði breytt og vonast hann til að geta „spilað í mörg ár til viðbótar“.
Hann segist þó tilbúinn að fórna titlum og möguleikanum á að verða farsælasti tennismaður sögunnar ef til þess kæmi. Aðspurður hvort hann sé tilbúinn að fórna væntanlegum stórmótum á borð við opna franska meistaramótið og Wimbledon svarar Djokovic játandi. „Grundvallaratriði þegar kemur að ákvörðunum sem varða líkama minn eru mikilvægari en nokkur titill eða eitthvað annað. Ég er að reyna að vera í eins góðum tengslum við líkama minn eins og ég get,“ segir Djokovic.
Frelsi einstaklingsins eða hagur heildarinnar?
Óhefðbundnar aðferðir Djokovic til að ná árangri á ferlinum hafa vakið athygli. Hann hefur til að mynda beðið bænir í þeim tilgangi að hreinsa mengað vatn. Þá hefur hann setið inni í egglaga belg á stórmótum í til að auka blóðstreymi líkamans og auka framleiðslu rauðra blóðkorna. Hingað til hafa þessi uppátæki mest mefgnis vakið upp kátínu meðal stuðningsmanna hans og sjálfur segir Djokovic að ákvörðun hans um að afþakka bóluefni stafi meðal annars af því að hann er ánægður með þær ákvarðarnir sem hann hefur tekið sem varða eigin líkama. Í dag byrjar hann hvern dag á glasi af heitu vatni og tveimur skeiðum af manuka-hunangi.
Að vissu leyti er hægt að fullyrða að hvað Djokovic varðar vegur frelsi einstaklingsins þyngra en hagur heildarinnar. Sem afreksíþróttamaður telur hann að líkami hans komi aðeins honum við og því sé honum frjálst að taka þær ákvarðanir sem honum sýnist. Bólusetning gegn COVID-19 er þó ekki útilokuð í framtíðinni að hans mati. „Við erum öll að reyna að finna bestu mögulegu leiðina til að enda faraldurinn.“
En sem stendur er það ekki inni í myndinni að láta sprauta sig.
Viðtal Amol Rajan við Djokovic verður sýnt í heild sinni á BBC One klukkan 20:30 í kvöld, þriðjudagskvöld. Viðbrögð við brotunum sem birt hafa verið í dag láta þó ekki á sér standa.
Íþróttasálfræðingurinn Bradley Busch segir eitthvað vera við eðli afreksíþróttafólks sem gerir það líklegra til að aðhyllast „óhefðbundnar lækningar“. Hann segir afreksíþróttafólk á sínu sviði ávallt leitast eftir „þessu auka einu prósenti“. „Þau eru í góðu formi og heilbrigð og ákvarðanir sem þau hafa tekið hafa skilað sér á ferlinum. Það er því auðvelt fyrir þau að festast í þeirri „búbblu“ sem lætur þau trúa að þau viti betur en læknavísindin segja til um,“ segir Busch, sem veltir fyrir sér hvort þankagangur Djokovic verði hluti af „falli ferils hans á næstu árum“.