Evrópuþingið og aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) komust í vikunni að samkomulagi um innleiðingu reglugerðar sem skyldar framleiðendur síma, spjaldtölva og myndavéla að nota sams konar hleðslusnúrur. Reglugerðin nær yfir tæki sem seld eru í aðildarríkjum ESB og tekur gildi í skrefum frá haustinu 2024.
Reglugerðin nær einnig til tölvuleikjafjarstýringa, heyrnartóla, handfrjáls búnaðs, ferðahátalara, lestölva, lyklaborða og ölvumúsa, auk annarra smærri snjalltækja. Áætlað er að innleiðing sameiginlegrar hleðslusnúru muni spara neytendur um 250 milljónir evra árlega, eða sem nemur tæplega 35 milljörðum króna.
Tilgangurinn er að auka sjálfbærni vara innan ESB, minnka rafrænan úrgang og auðvelda líf neytenda, að því er segir í tilkynningu frá Evrópuþinginu.
Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, er himinlifandi með að reglugerðin sé í höfn. „Afsakið, rangt hleðslutæki.“ Breton bendir á í færslu á Twitter að þessi setning heyri brátt sögunni til og muni aðeins vekja upp slæmar minningar.
“Sorry, wrong charger" 🔌
— Thierry Breton (@ThierryBreton) September 23, 2021
This sentence will soon only evoke bad memories!
Smartphones, tablets, portable gaming consoles, headphones... will all be equipped with the same USB port.
A #CommonCharger means :
💸 Savings for the consumer
🗑Waste & CO2 reduction pic.twitter.com/LmnIQUtp8W
USB-C snúran það sem koma skal
Samkvæmt reglugerðinni verður skylda í lok árs 2024 að hlaða síma, spjaldtölvur og myndavélar með USB-C snúru. Snúrur af eldri gerð, svo sem micro-USB snúrur og Lightning-snúrur frá Apple verða því ekki heimilaðar lengur. Þá verða allar fartölvur að vera með eins hleðslusnúrur árið 2026. Framkvæmdastjórnin mun endurmeta reglugerðina reglulega og því geta fleiri tæki bæst í hópinn.
Reglugerðin tryggir einnig að neytendur þurfa ekki að kaupa nýja hleðslusnúru við kaup á nýjum raftækjum. Þannig megi fækka óþarfa hleðslusnúrum sem engin not eru fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá ESB eyddu neytendur innan sambandsins um það bil 2,4 milljörðum evra, andvirði um 334 milljarða króna, í auka hleðslusnúrur árið 2020. Með reglugerðinni er vonast til að koma í veg fyrir slík kaup og minnka rafrænan úrgang. Árið 2020 var rafrænn úrgangur í formi hleðslusnúra í ríkjum Evrópusambandsins alls ellefu þúsund tonn.
Skiptar skoðanir um áhrif reglugerðarinnar á nýsköpun
Framkvæmdastjórn ESB hefur talað fyrir sameiginlegri hleðslusnúru fyrir raftæki í meira en áratug. Framkvæmdastjórnin fagnar því reglugerðinni en tilgangur hennar er meðal annars að draga úr hversu mörg hleðslutæki og hleðslusnúrur enda í ruslinu. Í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar segir að með því að nýta mátt innri markaðarins hafi tekist að koma þessari langþráðu reglugerð í framkvæmd. Reglugerð sem mun minnka kolefnissporið og skapa tækifæri til nýsköpunar.
„Engar fleiri hrúgur af mismunandi hleðslusnúrum í skúffunum okkar. Ein sameiginleg hleðslusnúra bætir hag okkar sem neytenda og mun einnig koma sér vel fyrir umhverfið,“ segir Margarethe Vestager, varaframkvæmdastjóri undirnefndar framkvæmdastjórnarinnar sem vinnur að því að gera Evrópu tilbúna fyrir stafrænu öldina (e. Europe fit for the Digital Age).
Raftækjaframleiðendur eru flestir á öðru máli og það ætti ekki að koma á óvart að Apple hefur lýst yfir andúð á reglugerðinni. Fyrirtækið segir hana bitna á neytendum þar sem hún dragi úr tækifærum til nýsköpunar, þvert á það sem segir í tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB.
Högg fyrir Apple
Reglugerðin mun reynast mikil áskorun fyrir Apple, sem mun þurfa að aðlaga hleðslusnúrur sínar að öðrum snjallsímaframleiðendum sem hafa margir hverjir notast við USB-C snúrur, til að mynda Samsung. Nýjasta tegund i-Pad og nokkrar gerðir MacBook fartölva hafa USB-C tengi en helsta hleðslusnúra Apple, svokölluð „Lighting-snúra“, sem hleður i-Phone og þráðlaus heyrnartól Apple, verður ekki gjaldgeng innan ESB-ríkja haustið 2024.
Markaðshlutdeild Apple er gríðarstór í Þýskalandi, stærsta hagkerfi innan ESB, þar sem þrír vinsælustu snjallsímarnir eru iPhone. Þar á eftir kemur Samsung, sem hefur nú þegar USB-C tengi. Í Frakklandi er staðan svipuð þar sem fjórar tegundir iPhone verma fjögur efstu sætin, samkvæmt samantekt rannsóknarfyrirtækisins Counterpoint.
Síðasta haust kynnti ESB áform sín um eina sameiginlega hleðslusnúru og hefur tæknirisinn verið að undirbúa sig undir reglugerð líkt og þessa. Bloomberg-fréttastofan greindi frá því í síðast mánuði að Apple sé að gera tilraunir með USB-C hleðslusnúrur fyrir iPhone.
Bretland ætlar ekki að fylgja fordæmi ESB
Gagnrýnendur í tæknigeiranum hafa í áraraðir lýst óánægju sinni yfir sérvisku þegar kemur að hleðslusnúrum á meðan önnur tæknifyrirtæki virðast hafa tekið USB-C snúruna í sátt. Á sama tíma hefur Apple fjölgað snúrum sem þó eiga aðeins við tæki frá fyrirtækinu. Það virðist nú vera að líða undir lok, að minnsta kosti í stórum hluta Evrópu.
Bretar, sem sögðu skilið við Evrópusambandið fyrir rúmum tveimur árum eftir nærri fjögurra ára samningaviðræður við sambandið um útgönguna, ætla ekki að fara að fordæmi ESB og innleiða sameiginlega hleðslusnúru. Reglugerðin mun hins vegar ná til Norður-Írlands.