Miðflokkurinn er sigurvegari finnsku þingkosninganna sem fóru fram í gær með rúmt 21 prósent atkvæða og 49 af 200 þingsætum. Flokkurinn bætir við sig miklu fylgi frá því í kosningunum 2011 og mun fá stjórnarmyndurnarumboð frá forsetanum sem stærsti flokkur landsins. Á hæla Miðflokksins fylgja svo þrír flokkar í hnapp sem mun flækja stjórnarmyndunarviðræður. Þjóðarbandalagið sem er mið-hægri flokkur tapaði miklu fylgi frá síðustu kosningum en fékk þó næstflest atkvæði með 18,2 prósent og 37 þingsæti. Ekki er víst að flokkurinn sækist eftir því að vera áfram í ríkisstjórn þótt að leiðtogi hans og forsætisráðherra, Alexander Stubb, hafi gefið það í skyn í kosningabaráttunni.
Sannir Finnar töpuðu nokkru fylgi frá því í metkosningunum fyrir fjórum árum en geta þó vel við unað með 17,6 prósent og 38 þingsæti. Jafnaðarmenn hljóta að vera ósáttir við árangurinn en þeir eru aðeins fjórði stærsti flokkur landsins með 16,5 prósent og 34 þingsæti sem sögulega séð er afar slakur árangur. Fyrir kosningarnar höfðu margir spáð því að Miðflokkurinn myndaði stjórn með Sönnum Finnum og Jafnaðarmönnum og hugsanlega taka inn fjórða flokkinn til að styrkja stjórnina. Það flækir þó óneitanlega stöðuna að hinn popúlistíski flokkur Sannra Finna hafi náð betri árangri en Jafnaðarmenn. Spurningin er hvaða kröfur þeir muni gera varðandi innflytjendastefnu og málefni Evrópusambandsins en ljóst er að þeir munu þurfa að gefa margt eftir til þess að hægt sé að mynda starfhæfa stjórn með þeim.
Formaður Miðflokksins, Juha Sipilä, sagði á kosningavöku finnska sjónvarpsins að hann myndi strax hefja viðræður við hina flokkana en hann hefði í raun engar fyrirframgefnar hugmyndir um það með hverjum hann vildi starfa. Mikið yllti á samvinnu og trúnaði milli flokkanna en töluvert skorti á þessa þætti hjá flokkunum sem mynduðu síðustu ríkisstjórn. Sipilä sagði jafnframt að málefnin ættu fremur að ráða því hvað flokkar mynduðu stjórn en stærð þeirra í kosningum.
Juha Sipilä formaður Miðflokksins ræðir við fréttamenn eftir finnsku þingkosningarnar. Mynd: EPA
Önnur úrslit sjá sænskumælandi Finnum
Úrslitin í þeim hluta landsins þar sem sænskumælandi Finnar eru í meirihluta voru talsvert öðruvísi en þegar landið allt er skoðað. Þar er Þjóðarbandalagið stærsti flokkurinn, Jafnaðarmenn í öðru sæti og þar á eftir kemur hinn frjálslyndi Sænski þjóðarflokkur. Sannir Finnar eru í fjórða sæti með 13,7 prósent, litlu meira en Græningjar, en Miðflokkurinn er aðeins í sjötta sæti með 8,5 prósent. Hér munar miklu um höfuðborgina Helsinki en þar hefur Þjóðarbandalagið mjög sterka stöðu.
Áhugavert verður að sjá hvort að hinn Sænski Þjóðarflokkur getur hugsað sér að vera í stjórn með Sönnum Finnum. Á meðan þeir fyrrnefndu vilja vernda sérstöðu hins sænskumælandi minnihluta og efla tengsl við Norðurlöndin, vilja Sannir Finnar meðal annars að sænska verði ekki lengur skyldufag í finnskum skólum. Þá er afstaða flokkanna tveggja til Evrópusambandsins gjörólík.
Hvernig ætla Sannir Finnar að leysa vandamál vinnumarkaðarins?
Ef marka má yfirlýsingar Sannra Finna mætti leysa flest vandamál Finnlands með því að draga úr fjölda innflytjenda. Þeir skilgreina finnska menningu afar þröngt og því er ekki aðeins hugtakið fjölmenningarsamfélag eitur í þeirra beinum heldur hafa þeir gagnrýnt fjárframlög til ýmissa listgreina. Jafnframt vilja þeir draga úr fjölda innflytjenda og takmarka möguleika þeirra á vinnumarkaði. Þessi stefna fer hins vegar illa saman við þá staðreynd að finnska þjóðin eldist hratt og því eru í raun aðeins tveir möguleika í stöðunni. Annað hvort þarf að fjölga innflytjendum til þess að halda vinnumarkaðinum uppi, eða gjörbreyta kerfinu þannig að fólk vinni lengur og þyggi því ekki lífeyri fyrr en mun síðar en það gerir í dag.
Það er ekki aðeins stefnuskrá Sannra Finna sem gæti fælt aðra flokka frá samstarfi við þá heldur er þingmannahópurinn nokkuð óútreiknanlegur. Miðflokkurinn mun því tryggja að hann hafi alltaf tryggan meirihluta til þess að ekki þurfi að grípa til kattasmölunar í hvert sinn sem greiða á atkvæði í þinginu.
Næstu dagar snúast um efnahagsmálin
Þrátt fyrir að efnahagsmálin séu langmikilvægasti þáttur komandi stjórnarmyndunarviðræðna er erfitt að ráða í áherslur flokkanna eftir kosningabaráttuna. Þeir forðuðust að ræða smáatriði eða segja nákvæmlega hvaða breytingar þeir muni ráðast í til að stoppa fjárlagagatið og stöðva skuldasöfnun. Hugsanlega má finna einhverja vísbendingu um framhaldið í orðum verðandi forsætisráðherra á kosningavöku flokksins í gær. Þar hvatti Juha Sipilä alla Finna til að setja hagsmuni landsins framar eigin hagsmunum, en útskýrði þó ekki nánar hvað hann átti við. Fáum dylst þó að hér er verðandi forsætisráðherra Finna að segja að framundan séu mögur ár með tilheyrandi vandamálum og mögulegum illdeilum.