Það er ekki skortur á fjármagni sem tefur rannsókn héraðssaksóknara á meintum brotum Samherjasamstæðunnar. Heimildir Kjarnans herma þvert á móti að rannsókn málsins sé vel á veg komin og að nýlegir fundir með rannsakendum og öðrum yfirvöldum í Namibíu hafi skilað umtalsverðum árangri við að skilgreina hvað hvor aðili fyrir sig muni halda áfram að rannsaka og eftir atvikum leggja til að ákært verði fyrir. Slíkir fundir hafa staðið til lengi en hafa ítrekað frestast, meðal annars vegna kórónuveirufaraldursins. Þeir fóru svo fram í maí í höfuðstöðvum Europol í Hollandi og hérlendis í byrjun júní þegar namibísk sendinefnd, sem innihélt meðal annars aðstoðarforsætisráðherrann Netumbo Nandi-Ndaitwah, heimsótti Ísland.
Íslenskir rannsakendur hafa, samhliða eigin rannsóknum á málinu, leikið stórt hlutverk við að aðstoða yfirvöld í Namibíu, meðal annars með ýmis konar gagnaöflun og sinnt réttarbeiðnum þaðan.
Helsta hindrun þess að hægt sé að ljúka rannsókn á þeim anga Samherjamálsins sem er til rannsóknar hjá íslenskum rannsóknarembættum er sú að enn vantar á að fá ýmiskonar gögn í hina áttina, þ.e. frá Namibíu til Íslands. Réttarbeiðni vegna þessa er enn útistandandi og ekki liggur fyrir hvenær hún verður þjónustuð. Fundir með bæði þarlendum rannsóknaryfirvöldum, og síðar háttsettum stjórnmálamönnum, hafa liðkað fyrir því að það gangi hraðar fyrir sig.
Hörð gagnrýni OECD sem óskar eftir svörum
Drago Kos, yfirmaður vinnuhóps OECD gegn mútum, sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í síðustu viku að ótrúlegt væri að horfa á íslensk stjórnvöld draga lappirnar í tengslum við rannsókn á mútugreiðslum Samherja í Namibíu. Stjórnvöld í Namibíu dragi vagninn í málinu og það væri nánast vandræðalegt fyrir Ísland.
Vegna þessa, sem og vegna þess að tvö og hálft ár eru liðin frá afhjúpun Samherjaskjalanna án þess að nokkuð hafi komið fram af hálfu íslenskra yfirvalda um framgang rannsóknarinnar, hyggst vinnuhópurinn óska eftir svörum frá íslenskum yfirvöldum. Kos sagði það einnig ótrúlegt að embætti saksóknara í velmegunarlandi eins og Íslandi væri vanfjármagnað. „Stjórnvöld verða að finna fjármagn og veita embættinu allt sem það þarf til að klára málið eins fljótt og hægt er.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru fulltrúar héraðssaksóknara á fundum með starfsfólki vinnuhóps OECD gegn mútum fyrr á þessu ári, án þess að nokkrar athugasemdir á borð við þær sem hér að ofan eru raktar hafi verið settar fram.
Átta manns hið minnsta hafa réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara frá því að fyrsta lota þeirra hófst í sumarið 2020. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Aðrir sem kallaðir hafa verið inn til yfirheyrslu og fengið stöðu sakbornings við hana eru Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu,Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Mútur, peningaþvætti og skattasniðganga
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár.
Stórfelld skattarannsókn
Til viðbótar var ráðist í rannsókn á meintum stórfelldum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Ríkisstjórnin lagði það embætti niður og gerði að deild innan Skattsins í fyrra.
Kjarninn greindi frá því í ágúst 2021 að tilfærsla stærri skattrannsókna hafi setið föst, og ekki komist yfir til héraðssaksóknara frá því að lög um niðurlagningu skattrannsóknarstjóra tóku gildi. Ástæðan var sú að innan embættanna var ótti við að rannsókn mála gæti skemmst á tæknilegum forsendum ef formlegar verklagsreglur lægju ekki fyrir.
Í kjölfar umfjöllunar Kjarnans um málið voru formlegar verklagsreglur settar og við það losnaði sá tappi sem myndast hafði milli embættanna og mál sem höfðu verið á bið mánuðum saman gátu færst í áframhaldandi rannsókn hjá héraðssaksóknara. Á meðal þeirra er skattahluti Samherjamálsins sem færðist yfir í september 2021.
Heimildir Kjarnans herma að meðal þess sem þar hafi verið til skoðunar sé hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga. Þar er um að ræða möguleg brot á svokallaðri CFC löggjöf sem verið hefur í gildi hérlendis frá árinu 2010.
CFC stendur fyrir Controlled Foreign Corporation, erlend fyrirtæki, félög eða sjóði í lágskattaríkjum í eigu, eða undir stjórn íslensks eiganda, hvort sem sá eigandi er félag eða einstaklingur. Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Hagnaður af Namibíuútgerð Samherja var fluttur til félags á eyjunni Máritíus og þaðan til lágskattríkisins Kýpur, þar sem Samherji átti fjölmörg félög en var með nánast enga eiginlega starfsemi. Þaðan fóru þeir síðan inn á bankareikninga samstæðunnar, samkvæmt því sem fram kom í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og fleiri miðla sem birt var í nóvember 2019