Fjármálaeftirlitið segir lífeyrissjóðum að skýra hvort, hvernig og við hvaða aðstæður megi sparka stjórnarmönnum
Ætluð skuggastjórnun á lífeyrissjóðum hefur verið mikið til umræðu á síðustu árum. Verkalýðshreyfingin hefur ásakað atvinnulífið um hana og öfugt. Nú hefur Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að það skorti skýrleika í samþykktum 13 af 15 lífeyrissjóða sem skoðaðir voru um hvenær sé hægt afturkalla umboð stjórnarmanna sem eiga að heita sjálfstæðir í störfum sínum.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýrleika skorti í samþykktum 13 af 15 lífeyrissjóða sem það tók til athugunar um hvort mögulegt væri að afturkalla umboð stjórnarmanna og hvernig staðið skyldi að slíkri afturköllun. Af þeim sökum telur Fjármálaeftirlitið að ekki sé „fyllilega tryggt að starfsemi þeirra gæti talist eðlileg, heilbrigð og traust[...]ef til ágreinings kæmi vegna túlkunar á ákvæðum samþykkta lífeyrissjóðanna.“
Í ljósi niðurstöðunnar hefur Fjármálaeftirlitið farið fram á að umræddir 13 lífeyrissjóðir taki samþykktir sínar til endurskoðunar á næsta skipulagða ársfundi, þannig að skýrt verði með óyggjandi hætti hvort, hvernig og við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna yrði afturkallað.
Í framhaldinu mun Fjármálaeftirlitið taka breyttar samþykktir lífeyrissjóðanna til skoðunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á vef Seðlabanka Íslands í dag. Þar er ekki tilgreint hvaða lífeyrissjóðir það eru sem þurfa að endurskoða samþykktir sínar.
Ásakanir um skuggastjórnun
Forsaga málsins er sú að Fjármálaeftirlitið hefur haft til skoðunar hvort samþykktir lífeyrissjóða tryggi nægilega vel sjálfstæði þeirra sem skipaðir eru í stjórn lífeyrissjóðanna. Sú skoðun er til komin vegna ákvörðunar stéttarfélagsins VR, stærsta stéttarfélags landsins, að skipa nýja stjórnarmenn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna sumarið 2019. Það var gert eftir að stjórn VR hafði lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána. Sú hækkun reyndist síðar hafa verið óheimil samkvæmt ákvörðun Neytendastofu.
Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi varaformaður stjórnar og núverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, sagði við mbl.is í kjölfarið að hún sæi ekki hvernig Fjármálaeftirlitið ætlaði að sitja hjá í málinu „því að þarna er utanaðkomandi aðili farinn að vasast í ákvörðunum stjórnar sem að hann hefur ekkert vald til að gera. Hann hefur ekki boðvald gagnvart stjórnarmönnum sem að hann skipar í þessa stjórn, það er alveg á hreinu.“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, setti stöðuuppfærslu á Facebook 21. júní 2019 þar sem hann svaraði þessum aðfinnslum og sagði að lengi hafi verið rökstuddur grunur um skuggastjórnun af hálfu fyrrverandi stjórnarmanna úr röðum Samtaka atvinnulífsins og því væri broslegt að slíkar ásakanir kæmu úr röðum þeirra sem lífeyrissjóðirnir hafi raunverulega þjónað. „Þessi hörðu viðbrögð koma ekki á óvart í ljósi þess að krafa okkar í verkalýðshreyfingunni er að sjóðirnir starfi með siðferðislegri sjónarmið að leiðarljósi og taki hag almennings (allra sjóðfélaga) framyfir taumlausa græðgi og þjónkun við fjármálakerfið.“
Fjármálaeftirlitið sendir dreifibréf
Fjármálaeftirlitið brást við og sendi frá sér dreifibréf 3. júlí 2019 til allra lífeyrissjóða þar sem fram kom að afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða vega að sjálfstæði stjórna þeirra og að afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða, sem byggi á ósætti tilnefningaraðila við einstakar ákvarðanir stjórnar, geti talist tilraun til beinnar íhlutunar í stjórnun lífeyrissjóða, sem með óbeinum hætti færir ákvörðunarvaldið frá stjórn lífeyrissjóða. „Slíkt vegur að sjálfstæði stjórnar og gengur í berhögg við almenn sjónarmið um góða stjórnarhætti,“ sagði í dreifibréfinu.
Ragnar Þór brást við bréfinu með því að segja að innihald þess staðfesti að það væri ekkert sem banni þeim að skipta út fulltrúum í stjórn lífeyrissjóða.
Þar lá málið um tíma, eða þangað til að hlutafjárútboð var haldið í Icelandair Group í september í fyrra.
Samtök atvinnulífsins senda erindi
Þann 1. júlí 2020 sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu þar sem hún beindi þeim tilmælum til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í yfirvofandi hlutafjárútboði Icelandair. Það var meðal annars gert á grundvelli þess að Icelandair Group hafði sama dag ákveðið að hætta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita eftir samningum við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu. Öllum flugfreyjum og flugþjónum yrði sagt upp og þess í stað áttu flugmenn að taka að sér störf öryggisliða um borð tímabundið. Samtök atvinnulífsins lýstu yfir stuðningi við ákvörðun Icelandair.
Þessi ákvörðun var síðar afturkölluð og samningar náðust milli deiluaðila.
Samtök atvinnulífsins ákváðu hins vegar að senda erindi til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem þess var óskað að það myndi grípa „til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga og þannig tryggja að faglega verði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við hlutafjárútboð Icelandair.“
Skortur á skýrleika
Í september fór hlutafjárútboð Icelandair Group svo fram og félagið náði markmiði sínu, að safna allt að 23 milljörðum krónum í nýtt hlutafé. Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók ekki þátt í útboðinu. Ákvörðun um það féll á jöfnum atkvæðum.
Í sama mánuði brást Fjármálaeftirlitið við beiðni Samtaka atvinnulífsins og óskaði eftir upplýsingum frá öllum lífeyrissjóðum um hvort þeir hefðu lagt mat á samþykktir sínar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Í kjölfar yfirferðar á þeim upplýsingum og samþykktum lífeyrissjóða hóf Fjármálaeftirlitið athugun á samþykktum 15 lífeyrissjóða.
Þeirri athugun er nú lokið með þeirri niðurstöðu að það skorti á skýrleika í samþykktum 13 lífeyrissjóða um hvort mögulegt sé að afturkalla umboð stjórnarmanna og hvernig staðið skyldi að slíkri afturköllun.
Það virðist því vera að ekkert í samþykktum sjóðanna 13 stæði í vegi fyrir því að skipt væri um stjórnarmenn, og þess vegna fer Fjármálaeftirlitið fram á að sjóðirnir endurskoði samþykktir sínar til að skýra það með óyggjandi hætti „hvort, hvernig og við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna yrði afturkallað“.
Í framhaldinu mun Fjármálaeftirlitið taka breyttar samþykktir lífeyrissjóðanna til skoðunar.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði