Formenn stjórnmálaflokka leggja til bann við nafnlausum áróðri í aðdraganda kosninga
Áróðursefni þar sem reynt er að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga án þess að nokkur gangist við ábyrgð á efninu eða að hafa borgað fyrir það, var áberandi í síðustu þingkosningum. Miklum fjármunum var kostað til við gerð þess og dreifingu. Nú á að reyna að banna það.
Allir formenn eða formannsígildi þeirra átta stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lagt fram sameiginlega frumvarp um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Á meðal þess sem frumvarpið leggur til er bann við nafnlausum áróðri í aðdraganda kosninga, en slíkur áróður var áberandi í aðdraganda þingkosninga 2016 og 2017. Verði frumvarpið að lögum verður stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
Auk þess eiga allar auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, að vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni frá þeim degi kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, sveitastjórna eða til embættis forseta Íslands.
Facebook, stærsti samfélagsmiðill heims, hefur þegar tekið upp kerfi þar sem keyptur aukinn sýnileiki fyrir efni þar sem umfjöllunarefnið er að einhverjum leyti pólitískt er bundinn því að fram komi hver greiði fyrir.
Næst verður kosið til Alþingis hérlendis 25. september næstkomandi.
Áberandi í síðustu kosningum
Í alþingiskosningum árin 2016 og 2017 var nafnlaus áróður gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum áberandi á samfélagsmiðlum. Sömu sögu er að segja af forsetakosningum sem fram fóru sumarið 2016 og síðustu borgarstjórnarkosningum, sem fram fóru 2018.
Það varð meðal annars til þess að þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka lögðu snemma árs 2018 fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Þeir vildu meðal annars að komist yrði að því hverjir stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.
Í greinargerð með beiðninni sagði meðal annars að um hafi verið að ræða rætnar og andlýðræðislegar herferðir sem enginn vildi gangast við. „Á skömmum tíma höfðu tugþúsundir einstaklinga séð og dreift umræddum myndböndum og áróðri á samfélagsmiðlum (einkum á Facebook og YouTube) þar sem veist var að pólitískum andstæðingum í skjóli nafnleyndar og ráðist að þeim persónulega með ósannindum og skrumskælingum án þess að kjósendum væri ljóst hverjir stæðu á bak við áróðurinn. Þær síður sem mest voru áberandi voru annars vegar Facebook-síðurnar Kosningar 2016 og Kosningar 2017, sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna, og hins vegar Facebook-síðan Kosningavaktin, sem beindi spjótum sínum að hægri væng stjórnmálanna.“
Skýrslunni var skilað til Alþingis í júní 2018. Niðurstaða hennar var að ekkert lægi fyrir um það hvaða hulduaðilar stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og að ekkert væri vitað um hvort stjórnmálasamtök sem lúta eftirliti Ríkisendurskoðunar hafi „staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.“ Þá væri vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast fyrir um hverjir standi á bak við þær.
Í apríl 2019 skipaði forsætisráðherra svo nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, til að leggja drög að frumvarpi til heildarlaga um starfsemi stjórnmálasamtaka. Vinna þeirra nefndar er undirstaða þess frumvarps sem kynnt var til leiks í gærkvöldi, og á að banna nafnlausan áróður.
Segir áróðurinn hafa virkað
Í síðustu kosningum, árið 2017, var eftirtektarverðasti áróðurinn gegn Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna. Birtingarmyndin var meðal annars myndbönd, frá nafnlausri áróðurssíðu sem bar nafnið Kosningar 2017, með „Skattaglöðu Skatta-Kötu“ sem klifaði á skattahækkunum og hótaði „eignaupptöku að sósíalískri fyrirmynd“.
Myndböndunum var dreift með ærnum tilkostnaði á Facebook og YouTube. Áhorfið mældist í tugum þúsunda hið minnsta.
Í bókinni Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem kom út í desember 2019 í tilefni af 20 ára afmæli Vinstri grænna var meðal annars fjallað um síðustu tvær þingkosningar.
Þar segir meðal annars um þennan nafnlausa áróður: „Í lok eins myndbandsins runnu samklippur úr ræðum Katrínar á Alþingi inn í níð frá búsáhaldarbyltingu og myndum af upplausnarástandi með brennandi íslenska krónu í miðpunkti.“
Katrín er spurð að því í bókinni hvort þessi áróður hafi haft áhrif’? Hún segir að hún sé nokkuð viss um að svo hafi verið. „Tillögur VG í skattamálum voru gerðar tortryggilegar og það hafði heilmikil áhrif. Fylgið féll jafnt og þétt og að lenda í slíkri vörn strax í upphafi er þrælerfitt í kosningabaráttu.“
Fylgi Vinstri grænna, sem hafði mælst í kringum 25 prósent í lok september 2017, fór að falla. Á endanum fékk flokkurinn 16,9 prósent, sem gerði hann að næst stærsta flokki landsins.
Skilyrði fyrir fjárframlögum
Auk bannsins við nafnlausa áróðrinum í aðdraganda kosninga er frumvarpinu sem formenn stjórnmálaflokkanna átta birtu á vef Alþingis í gær ætlað að heimila að ríkisskattstjóra verði falið að starfrækja sérstaka stjórnmálasamtakaskrá og að skráin verði birt almenningi á vef Stjórnarráðs Íslands ásamt upplýsingum sem fylgja umsókn um skráningu. Þá er lagt til að það verði gert að skilyrði fyrir fjárframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum, til viðbótar við þau skilyrði sem þegar eru í lögunum, að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi fengið skráningu þá í stjórnmálasamtakaskrá.
Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að skýrt verði kveðið á um heimildir stjórnmálasamtaka til að halda félagaskrá og um heimila meðferð þeirra persónuupplýsinga sem í hana eru skráðar auk þess sem mælt er fyrir um heimildir stjórnmálasamtaka til að vinna með persónuupplýsingar um almenning. Í því sambandi er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að stjórnmálasamtökum sé óheimilt að nýta persónusnið til að beina að einstaklingum efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu sem fela í sér hvatningu um að nýta ekki kosningarréttinn.
Að endingu á ákvæði kosningalaga um listabókstafi stjórnmálasamtaka að verða tekið upp í lögunum og kveða á um að skráð stjórnmálasamtök skuli halda skráðum listabókstaf á meðan þau uppfylla skilyrði skráningar samkvæmt lögunum.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð