Fyrrverandi starfsmaður GAMMA fór í mál til að fá bónusinn sinn ... og vann
Fjármálafyrirtækið GAMMA fór með himinskautunum um tíma, en féll með látum á árinu 2019 og er ekki til í sömu mynd lengur. Starfsmenn þess áttu þá inni kaupauka sem stjórn félagsins ákvað að borga ekki, enda fjarað undan tekjum GAMMA og umtalsvert tap á rekstrinum síðustu árin. Einn starfsmaðurinn sætti sig ekki við þetta og fór í mál. Héraðsdómur úrskurðaði honum í hag fyrr í þessum mánuði.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi starfsmaður fjármálafyrirtækisins GAMMA eigi að fá greiddar kaupaukagreiðslur sem samþykktar voru seint á árinu 2018 og snemma árs 2019 og voru grundvallaðar á afkomu fyrirtækisins á árunum 2017 og 2018.
Stjórn GAMMA ákvað fyrir einu og hálfu ári að afturkalla greiðslurnar í ljósi þess að úttekt hafði sýnt að greiðslurnar höfðu verið ákvarðaðar á röngum forsendum. Staða GAMMA hefði einfaldlega verið verri en látið var uppi. Þessi rök héldu hins vegar ekki fyrir dómi.
GAMMA skilaði umtalsverðum hagnaði á fyrra árinu sem kaupaukarnir voru grundvallaðir á, 2017, en hann var samtals 626 milljónir króna á því ári. Þóknanagreiðslurnar sem höfðu verið innheimtar voru áfram rúmlega tveir milljarðar króna og alls voru heilir 137 milljarðar króna í stýringu. Á grundvelli þessa árangurs voru ekki bara greiddir út bónusar til starfsmanna, heldur 300 milljóna króna arðgreiðsla til eigenda, sem sumir hverjir voru líka starfsmenn.
Strax á árinu 2018 fóru að birtast merki um erfiðleika hjá GAMMA. Gísli Hauksson, sem hafði veitt fyrirtækinu forystu frá upphafi og var stærsti hluthafi þess, steig alfarið til hliðar og fokdýrri erlendri starfsemi var lokað í skrefum.
Tekjur drógust hratt saman en kostnaður að sama skapi ekki eins mikið og þurft hefði. Samtals tapaði GAMMA 584 milljónum króna á árunum 2018 og 2019.
Upphaf varð upphafið að endalokunum
Þegar ársreikningurinn fyrir 2018 var birtur sást betur glitta í hina breyttu stöðu. Þóknannagreiðslur höfðu dregist verulega saman, úr rúmlega tveimur milljörðum króna í 1,3 milljarð króna. Tekjur GAMMA í heild minnkuðu um rúmlega 800 milljónir króna, eða um rúmlega þriðjung. Rekstrarkostnaður hafði hins vegar aukist.
Staðan var enn verri í árslok 2019. Kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda var alls um 90 prósent af hreinum rekstrartekjum GAMMA á því ári og öll rekstrargjöld voru um 380 milljónum krónum hærri en hreinar rekstrartekjur.
Í augum almennings var upphafið að endalokum GAMMA þegar greint var frá miklum brotalömum í rekstri fasteignafélagsins Upphafs, sem var í eigu sjóðs í stýringu GAMMA sem kallaðist GAMMA Novus. Við endurmat eigna sjóðsins var eigið fé hans fært úr 4,4 milljörðum króna niður í nánast ekki neitt. Úttekt á starfsemi hans leiddi til þess að greiðslur til fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs voru kærðar til embættis héraðssaksóknara á árinu 2020. Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar töpuðu háum fjárhæðum á því að fjárfesta í GAMMA Novus.
GAMMA er ekki lengur til í þeirri mynd sem það var á þessum árum. Kvika banki keypti fyrirtækið og sameinaði það inn í sína sjóðstýringu. Upphaflega ætlaði Kvika að greiða 3,8 milljarða króna fyrir GAMMA. Í byrjun árs 2020 var verðmiðinn fyrir GAMMA kominn niður í 2,1 milljarð króna vegna þess að yfirlega hafði sýnt að eignirnar sem verið var að kaupa voru mun súrari en áður talið var.
Ný stjórn afturkallaði kaupaukagreiðslurnar
Stjórn GAMMA tók breytingum sumarið 2020. Kvika banki setti inn sitt fólk. Hún ákvað í september það ár að afturkalla kaupaukagreiðslur upp á tugi milljóna króna til ellefu fyrrverandi starfsmanna fjármálafyrirtækisins. Samningarnir voru samþykktir seint á árinu 2018 og snemma árs 2019 og voru grundvallaðir á góðri afkomu GAMMA á árunum 2017 og 2018. Auk þess krafðist stjórnin þess að tveir starfsmannanna, Ingvi Hrafn Óskarsson og Valdimar Ármann, myndu endurgreiða kaupauka sem þeir höfðu þegar fengið greidda út.
Í frétt Markaðarins um málið, sem birt var 20. september 2020, kom fram að á meðal þeirra fyrrverandi starfsmanna GAMMA sem áttu ekki að fá kaupauka sína greidda væru lykilstarfsmenn innan GAMMA, þeir Agnar Tómas Möller og Jónmundur Guðmarsson.
Einn þeirra sem fékk ekki kaupaukann sinn greiddan út hafði hætt störfum hjá GAMMA snemma árs 2019. Hann fékk, líkt og aðrir, bréf þann 17. september 2020 þar sem þiggjendum kaupaukanna var tilkynnt um að þeir væru afturkallaðir. Í bréfinu kom fram að ákvörðun um kaupaukagreiðslur hefðu verið „tekin á grundvelli rekstrarárangurs félagsins á árunum 2017 og 2018“.
Gæti haft fordæmisgildi
Síðar í bréfinu sagði að óháð úttekt á starfsemi GAMMA hefði m.a. leitt í ljós að „aðferðafræði við mat á afkomu félagsins hafi ekki verið forsvaranleg og mati á virði eigna sjóða var ábótavant“. Þá sagði að vegna þessa og annarra atvika hefði ákvörðun um kaupauka árin 2018 og 2019 verið byggð á röngum forsendum. Fjárhagsstaða og afkoma félagsins á tímabilinu sem kaupaukar hefðu verið veittir fyrir hefði einfaldlega verið mun verri en fyrirliggjandi upplýsingar hefðu gefið til kynna.
Umræddur maður mótmælti þessu og fór fram á að GAMMA, sem þá hafði runnið inn í Kviku, myndi greiða sér kaupaukann. Og fór í mál þegar því var neitað á ný.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 11. mars síðastliðinn að GAMMA ætti að greiða manninum kaupaukann, alls 1,2 milljónir króna, auk dráttarvaxta. Í niðurstöðunni segir meðal annars: „Stefndi hefur í málinu ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að tilskilinni frammistöðu stefnanda eða viðskiptaeiningar hans hafi ekki verið náð þannig að rétt hafi verið að hafna greiðslu eftirstöðva kaupaukans. Stefndi hefur raunar ekki upplýst á neinn hátt hver þau viðmið voru og hvernig þeim var, að hans mati, ekki náð. Af þessu verður stefndi að bera hallann.“
Maðurinn sem stefndi er ekki nefndur í dómnum en miðað við umfang kaupaukagreiðslurnar er ljóst að hann hefur verið á meðal þeirra úr hóp starfsmanna GAMMA sem hafði áunnið sér einna lægstu greiðslurnar.
Viðmælendur Kjarnans segja að dómurinn sé talinn hafa fordæmisgildi og á grundvelli hans gætu að minnsta kosti einhverjir aðrir fyrrverandi starfsmenn GAMMA, sem áttu að fá stærri kaupauka, sótt hann. GAMMA er, líkt og áður sagði vart til lengur, nema að nafninu til. Fyrirtækið var flutt úr höfuðstöðvum sínum í nóvember 2019 og þeir sjóðir þess sem enn eru í rekstri hafa verið innlimaðir í rekstur Kviku banka.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi