Ríkisstjórnin vinnur um þessar mundir að hagsmunamati Íslands á norðurslóðum. Þær eru grundvallarþáttur í utanríkisstefnu Íslands og í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að unnið verði að því að Ísland verði þar leiðandi afl. Slík yfirlýsing hljómar vægast sagt mjög óraunsæ, í besta falli djörf. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði gengur svo langt að kalla hana barnalega. Hvernig má það líka vera að Ísland eigi einhverja möguleika gagnvart stórveldum eins og Bandaríkjunum og Rússlandi, þegar kemur að því að vera leiðandi afl, er það ekki tómt mál að tala um?
Eða hvað?
Hafa ber í huga að bæði Bandaríkjamenn og Rússar hafa sýnt í verki að þeir vilji halda stjórnun á norðurslóðum hjá formlegum stofnunum: stuðla að eflingu Norðurskautsráðsins og leysa deilumál á vettvangi Hafréttarsáttmálans. Má í því samhengi benda á friðsamlegt norðurslóðasamstarf á undanförnum árartugum, meðal annars á sviði björgunarmála og umhverfisvísinda. Þetta samstarf ríkjanna virðist ekki raskast að ráði þrátt fyrir spennu vegna atburða á Krímskaga og jafnvel á dögum kalda stríðsins gekk samstarfið vel. Reynslan sýnir að þarna geti legið talsverð tækifæri fyrir Íslendinga til áhrifa og það styðja kenningar í alþjóðasamskiptum.
Ef Ísland á að verða leiðandi ríki á norðurslóðum þá gæti leiðin til þess verið að framfylgja vel ígrundaðri og faglegri stefnu sem gengi lengra en stefna annarra ríkja.
Til að útskýra þetta betur þá má segja að á norðurslóðum hafi valdastjórnmál (e. power politics) vikið fyrir náinni samvinnu ríkja. Það sé því eftirspurn eftir faglegri þekkingu þegar kemur að til dæmis umhverfismálum og borgaralegu öryggi. Ef Ísland á að verða leiðandi ríki á norðurslóðum þá gæti leiðin til þess verið að framfylgja vel ígrundaðri og faglegri stefnu sem gengi lengra en stefna annarra ríkja. Þannig legði Ísland línuna hvað varðar kröfur um umgengni um náttúru og auðlindir á svæðinu.
Íslendingar hafa stigið skref í þessa átt en Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra hitti John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington fyrr í vikunni. Þar voru samskipti Íslands og Bandaríkjanna til umræðu—meðal annars málefni norðurslóða en Bandaríkin tóku nýverið við forsæti í Norðurskautsráðinu. Utanríkisráðherra tilkynnti þar að Ísland bjóði fram krafta sína til að taka þátt í að leiða vinnu ráðsins um málefni hafsins á næstu misserum.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ræddi samskipti Íslands og Bandaríkjanna á fundi með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á dögunum. Mynd: EPA
Fer þetta saman við öfluga atvinnuuppbyggingu og nýtingu auðlinda?
En hvað þá með olíuna, umskipunarhafnirnar, skemmtiferðaskipin og ferðamennina, þarf þá ekki að takmarka nýtingu þessara auðlinda, þrengja að þessum þáttum? – Hvað með atvinnutækifærin á landsbyggðinni og hagvöxtinn? – Þetta eru meðal annars þær pólitísku spurningar sem vakna þegar teflt er saman kröfunni um að hjól atvinnulífsins þurfi að snúast og að gæta þurfi að sjálfbærni og umhverfisvernd.
Þetta tvennt getur farið saman og Ísland hefur margt fram að færa vegna breytinga á norðurslóðum. Til að mynda eru möguleikar á að starfrækja miðstöð þjónustu fyrir svæðið og þá sérstaklega fyrir Grænland vegna mikillar uppbyggingar þar. Ísland er mjög vel tengt hvað varðar flugsamgöngur, getur boðið upp á stöðuga vistvæna orku, vinnuafl og trausta innviði á borð við heilbrigðisþjónustu. Allt þetta er hægt að efla án þess að ganga í berhögg við ábyrga og stranga umhverfisstefnu.
Ætli Ísland að verða hið umrædda leiðandi afl er hins vegar áríðandi að vanda til verka.
Ætli Ísland að verða hið umrædda leiðandi afl er hins vegar áríðandi að vanda til verka. Mögulega þyrfti að fórna tímabundinni hagvaxtaraukningu eða viðskiptatækifærum vegna þess að með strangari umhverfislöggjöf verður fjárfesting hugsanlega ekki eins fýsileg. Það þyrfti jafnvel að vísa á dyr ríkjum eða fyrirtækjum sem hér bönkuðu uppá með freistandi tilboð um verksmiðjur eða olíuboranir.
Þetta kann að vera óhugsandi í huga margra og auðvitað þarf ekki að útiloka auðlindanýtingu eins og mögulegar olíuboranir. En þarna er mikilvægt að vega og meta kostina í stóru samhengi með langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Það má gera því skóna að slík stefna sem hér er rædd myndi hafa jákvæðar afleiðingar til lengri tíma litið, einnig efnahagslegar. Íslendingar myndu ekki einungis öðlast meiri trúverðugleika þegar kemur að formlegu aþjóðasamstarfi um norðurslóðir – og í umhverfismálum þar með – heldur mætti búast við því að ímynd landsins sem brautryðjenda á þessum sviðum myndi styrkjast. Það gæti síðan haft jákvæð áhrif á útflutningsgreinar og ferðamannaiðnað.
Norðurskautsráðið – mikilvægi trúverðugleika
Íslendingar ásamt Finnum og Svíum standa utan fimm ríkja-hópsins svokallaða, en hann skipa Bandaríkin, Danmörk (Grænland), Kanada, Noregur og Rússland. Ríkin fimm eru skilgreind sem strandríki að norðurskautssvæðinu og eiga þar beinna hagsmuna að gæta hvað varðar náttúruauðlindir.
Um leið og íslensk stjórnvöld hafa mótmælt þessu fimm-ríkja samstarfi harðlega hafa ýmsir bent á mögulega aðild að hópnum. Norðurslóðastefna Íslands kveður á um að tryggja skuli stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins – Ísland eigi með réttu kröfu til bæði land- og hafsvæða norðan heimskautsbaugs, sem m.a. byggist á þeirri staðreynd að efnahagslögsaga Íslands er innan norðurskautssvæðisins og nær til Grænlandshafs við Norður-Íshafið.
Á það ber að líta að Bandaríkjamenn hafa, þrátt fyrir að vera þar innanborðs, varað harðlega við því að fimm-ríkja hópurinn verði of fyrirferðarmikill í norðurslóðasamstarfinu því það gæti einmitt skaðað Norðurskautsráðið. Þarna er því mikilvægt fyrir Íslendinga að fara með gát. Því sækist Íslendingar eftir að komast í þennan fimm ríkja hóp gæti það grafið undan trúverðugleika gagnvart Norðurskautsráðinu og þar með möguleikum Íslands til að verða hið leiðandi afl sem stefnt er að.
Mikilvægt að skoða langtímahagsmuni
Þegar til lengri tíma er litið gætu hagsmunir Íslands því best verið tryggðir með ábyrgri stefnu í umhverfismálum og öflugu framlagi til norðurslóðasamstarfs. Mikilvægt er að kvika ekki frá því að gæta íslenskra hagsmuna, en hafa þá ábyrga umhverfisstefnu í forgrunni. Má nefna hvalveiðar Íslendinga í því samhengi. Það er vissulega óumdeildur réttur fullvalda ríkis að nýta auðlindir í sinni lögsögu en mikilvægt er að meta kosti og galli í stærra samhengi. Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt Íslendinga harðlega fyrir stefnuna í hvalveiðimálum, en Obama forseti hefur gefið út tilmæli til embættismanna um að lágmarka formleg samskipti ríkjanna vegna hvalveiðanna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA
Fyrir smáríki er trúverðugleiki sennilega mikilvægasti þátturinn í samskiptum við önnur ríki. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja alltaf þeirrar spurningar, hvaða áhrif stefna og gjörðir muni hafa á hann. Það er til lítils fyrir Íslendinga að bjóða Bandaríkjamönnum að verða leiðandi í starfi um málefni hafsins – á sama tíma og þrjóskast er við hvalveiðar vegna þjóðarstolts, sem skilar takmörkuðum ágóða og sniðgengur um leið þau viðmið sem ríki heims vilja setja um hvalveiðar og náttúruvernd.
Niðurstaðan er því sú að Ísland gæti orðið leiðandi afl á norðurslóðum. En þá er líka mikilvægt að haga sér sem slíkt afl og vera leiðandi, ekki farþegi á frímiða og undanþágum eins og hefur gjarnan verið hjá Íslendingum í gegnum tíðina.