Danir þekkja vel það tjón sem stormflóð og úrkoma geta valdið. Til eru aldagamlar frásagnir af stormflóðum en á síðustu áratugum hafa slíkir atburðir orðið æ algengari. Danmörk er eitt þeirra landa sem liggja mjög lágt (flad som en pandekage) og þar hafa stormflóð valdið miklu tjóni. Mestu flóðin verða þegar saman fara stórstreymi, lágur loftþrýstingur og rok. Í byrjun desember árið 1999 gerði mikinn storm sunnarlega við vesturströnd Jótlands. Þá hækkað sjávarborð á þessu svæði um rúma fimm metra og olli miklu tjóni. Þegar þetta gerðist var lágsjávað en í stórstreymi er talið að sjávarborðið hefði hækkað um að minnsta kosti sex metra.
Í byrjun nóvember 2006 olli slíkt flóð miklu tjóni, um það bil fjögur þúsund hús skemmdust mikið, og mörg hundruð til viðbótar skemmdust minna. Þegar þetta gerðist hafði verið hvöss vestanátt dögum saman, hún þrýsti sjónum suður Kaattegat og alla leið í Eystrasalt. Þegar storminn loks lægði gekk sjórinn til baka og olli flóði á svæðum fyrr sunnan Litla- og Stórabelti (badekarseffekt).
Stíf norðanátt hefur sömuleiðis iðulega orðið til að þrýsta sjó inn í Hróarskeldufjörðinn á Sjálandi. Fjörðurinn er tæplega 42 kílómetra langur og fyrir botni hans er danska víkingaskipasafnið sem nær í sjó fram. Þar hefur margoft orðið tjón af völdum sjávar og eftir miklar skemmdir á safninu árið 2014 (stormurinn Bodil) voru uppi hugmyndir um að flytja víkingaskipin af safninu og koma þeim fyrir á öruggari stað.
Flóðavarnir kosta mikið fé
Mikið flóð á Kaupmannahafnarsvæðinu og við Kögeflóa í byrjun árs 2017 olli tjóni sem metið var á jafngildi 2,8 milljarða íslenskra króna. Verkfræðifyrirtækið Cowi var fengið til að meta þörf og kostnað við flóðavarnir í dönsku höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum. Slíkt mat hafði ekki áður verið gert í Danmörku. Sérfræðingar Cowi skiluðu skýrslu sinni, sem var mjög ítarleg, í júlí 2019. Í skýrslunni var gert ráð fyrir að varnargarðar sem þegar voru til staðar, á Amager og sunnan við Kaupmannahöfn, yrðu styrktir jafnframt því sem nýir yrðu gerðir. Jeppe Sikker Jensen einn sérfræðinga Cowi sagði, þegar skýrslan var kynnt, að ef miðað væri við hundrað ára reiknilíkanið (stórflóð einu sinni á öld) mætti gera ráð fyrir að kostnaður við gerð varnargarða yrði, varlega áætlað, um 22 milljarðar danskra króna, um það bil 416 milljarðar íslenskir. Jeppe Sikker Jensen nefndi líka hvað myndi gerast ef miðað væri við stærsta flóð á þúsund árum. Þá færi suðurhluti Kaupmannahafnar á kaf, flugvöllurinn á Kastrup myndi lokast og sömuleiðis Eyrarsundsbrúin. Lestakerfið, þar með talið metrokerfið, myndi lamast. „Ef þetta gerist nemur erum við að tala um tjón sem nemur stjarnfræðilegum upphæðum“ sagði Jeppe Sikker Jensen. Viðstaddir litu með undrunarsvip hver á annan. „Er þetta ekki algjör svartsýnisspá?“ spurði loks einn. „Ég er smeykur um ekki“ var svarið.
Sjávarborð gæti hækkað um 170-180 sentimetra
Síðastliðinn miðvikudag, 5. október, boðaði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur til þingkosninga sem fram fara 1. nóvember. Danskir fjölmiðlar fjölluðu það sem eftir lifði dags nánast ekki um neitt nema kosningarnar.
Þennan sama dag birti danska rannsóknarstofnunin GEUS (Nationale Geologiske Undersøgelser for Danmark og Grønland) skýrslu sem hvarf að mestu leyti í skuggann af kosningaumfjölluninni. Það sem fram kemur í skýrslunni á þó líklega eftir að hafa mun meiri og víðtækari áhrif en hver verður næsti forsætisráðherra Danmerkur. Hafi ýmsum þótt skýrslan frá árinu 2019 draga upp dökka mynd af framtíð Danmerkur er sú skýrsla þó rósrauð miðað við GEUS skýrsluna sem kynnt var í síðustu viku. GEUS byggi niðurstöður sínar að hluta á skýrslu (AR6) loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPPC, sem birt var á síðasta ári. „Því meira sem sérfræðingarnir vita, því dekkri verður myndin varðandi hækkun sjávarborðs“ sagði William Colgan sérfræðingur hjá GEUS. Samkvæmt skýrslunni getur sjávarborð við strendur Danmerkur stigið um 170-180 sentimetra miðað við árið 1990. Spáin miðast við að ekki takist að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er mikil breyting frá fyrri spám sem gerður ráð fyrir 106 sentimetrum sem hámarkshækkun. Áðurnefndur William Colgan sagði, þegar skýrslan var kynnt, að þótt mörgum þætti svartsýni gæta í spánni væru sérfræðingar sammála ef svo færi fram sem horfir gæti sjávarborðshækkunin orðið enn meiri.
Gjörbreytt Danmörk árið 2150
Gangi spáin sem sett var fram í skýrslu GEUS eftir hefur hún miklar afleiðingar í Danmörku. Fjölmargir smábæir við ströndina munu hverfa og margar eyjar úti fyrir ströndum landsins verða óbyggilegar eða hreinlega hverfa.
Danska strandlengjan er um það bil 7 þúsund kílómetra löng. Áðurnefndur William Colgan sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að útilokað væri að tryggja alla strandlengju landsins með varnargörðum. „Slíkt kostar svo mikið að þessi valkostur er algjörlega óraunhæfur. Danir hafa til þessa að mestu sneitt hjá því að ræða hvaða svæði landsins eigi að verja og hver ekki, nú verður ekki hjá því komist að taka ákvarðanir. Danir hafa hummað þetta fram af sér allt of lengi“ sagði William Colgan.
Margir stjórnmálamenn eru á sama máli og sumir úr þeirra hópi saka stjórn Mette Frederiksen um að hafa ekki aðhafst neitt sem heitið geti þrátt fyrir fögur fyrirheit í aðdraganda kosninganna 2019.
Ef marka má yfirlýsingar þingmanna úr öllum flokkum á danska þinginu, Folketinget, eru þeir sammála um að nú verði að láta verkin tala. Viljayfirlýsingar, og að vona hið besta, dugi ekki.