Fyrirtækið GrabTaxi er svipað og Uber, fólk pantar sér leigubíl í gegnum app. Það er á nokkrum mánuðum orðið eitt vinsælasta leigubílafyrirtæki Suðaustur-Asíu og vext hratt víðar í Asíu. Í gær lauk það fjármögnun upp á 350 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 50 milljörðum króna, en í heild hefur það aflað 650 milljóna Bandaríkjadala, nálægt 90 milljörðum króna. Í dag eru 75 þúsund bílar á vegum fyrirtækisins í sex löndum Asíu, en mest vaxandi markaðirnir eru Indónesía og Indland.
GrabTaxi raises $350 million from investors http://t.co/p2i5KKz0MN pic.twitter.com/ex5cG6t1LF
— ABS-CBN News (@ABSCBNNews) August 19, 2015
Ekki er hægt að segja annað en að þetta séu risavaxnir leigubílamarkaðir enda íbúar Suðaustur-Asíu um 700 milljónir. Asía í heild er svo með 4,4 milljarða íbúa, eða um 62 prósent af öllu fólki á jörðinni. Sama hvernig á myndina er horft, þá er markaðurinn ógnarstór og veltan í leigubílaviðskiptum mikil á degi hverjum.
Á meðal þeirra fjárfesta sem lögðu fyrirtækinu til fé í hinni nýafstöðnu fjármögnun er kínverska fyrirtækið Didi Kuaidi. Það varð til við sameiningu tveggja kínverskra app-leigubílafyrirtækja og hefur þegar lokið fjármögnun upp á tvo milljarða Bandaríkjdala, eða sem nemur tæplega 270 milljörðum króna. „Það eru engin áform um það í augnablikinu,“ segir Cheryl Goh, varaforseti GrabTaxi, aðspurð um hvort félagið sé að sameinast kínverska risanum, en tæknivefurinn Tech Crunch beindi þessum spurningum til hennar.
Tæknibreyting á stöðnuðum markaði
Með tilkomu snjallsíma og app-leigubílafyrirtækja, sem Uber er þekktast fyrir, hefur gríðarlega mikil innri breyting orðið á leigubílamarkaði í heiminum. Tiltölulega stöðnuðu fyrirkomulagi leigubíla var svo gott sem snúið á hvolf, með tilkomu nýrrar og aðgengilegrar tækni, og hefur almenningur vítt og breitt um heiminn tekið þessar breytingu opnum örmum. Fólk getur einfaldlega hjálpað öðru fólki að komast leiðar sinnar og fengið greitt fyrir, án þess að þurfa að standa á götuhorni við misjafnar aðstæður. Og í ljósi þess hversu útbreiðslan hefur verið hröð, einkum hjá Uber, er þjónustustigið hátt og biðtími lítill. Snjólbolti er kominn af stað sem ekki verður stöðvaður.
Ekki fyrirséðar breytingar
Eins og margt annað sem tengist hraðri innkomu snjallsíma inn í líf fólksins þá sáu ekki margir fyrir að leigubílamarkaður heimsins færi í gegnum þessa endurnýjun sem nú er í gangi. Frá því árið 2012, þegar Uber hóf starfsemi, hefur virði félagsins hækkað upp í 50 milljarða Bandaríkjadala, um sjö þúsund milljarða króna, og notendur þjónustunnar eru yfir átta milljónir í 290 borgum. „Ég biðst afsökunar á því að við séum ekki í Reykjavík. Ég lofa því að Reykjavík verður einn af okkar mörkuðum,“ sagði Ryan Graves, yfirmaður alþjóðastarfsemi Uber, í viðtali við mbl.is á dögunum. Hann er fyrsti starfsmaður Uber og situr í stjórn fyrirtækisins, en hann hélt erindi um nýsköpunarmál í Háskólanum í Reykjavík á dögunum. Vafalítið mun ekki líða á löngu þar til Uber verður komið með starfsemina til Reykjavíkur, en mikill hraði hefur einkennt útbreiðsluna eins og áður segir. Það er heldur ekki útilokað að önnur svipuð fyrirtæki munu spretta upp og bjóða þjónustu sem þessa.
Allra augu á Asíu - Hver vinnur kapphlaupið?
En þrátt fyrir að Uber hafi náð mikilli fótfestu, einkum í borgum Bandaríkjanna og Evrópu, þá er mikilvægasta markaðssvæðið í Asíu. Þar er flest fólk og íbúaþróunin er einnig á þann veg að borgarsamfélög eru að stækka hratt, með tilheyrandi vaxtaráhrifum fyrir leigubílamarkaðinn. Allt helst því í hendur; miklar innri breytingar á markaðnum með nýrri tækni, gríðarlega fjölmenn samfélög og vaxandi markaðir að auki.
GrabTaxi var stofnað í Malaísu, í júní 2006, og er með starfsemi í 26 borgum Suðaustur-Asíu. Þrátt fyrir að Uber sé með starfsemi í þeim öllum, er GrabTaxi leiðandi í öllum borgunum. Samkvæmt fréttum TechCrunch er Alibaba sagt fylgjast náið með þróun mála þessa daga hjá GrabTaxi og þá einkum aðkomu Didi Kuaidi að fyrirtækinu. Kínverski risinn er með 90 prósent markaðshlutdeild í Kína, en samkeppni er sífellt að verða meiri.
Til marks um umfang starfseminnar hjá GrabTaxi í Asíu þá segir Anthony Tan, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Tech Crunch, að bókanir á hverjum degi séu um 110 þúsund. En líklegt er að þeim muni fjölga ört á næstu misserum. Miklir hagsmunir eru í húfi enda geta skapast mikil verðmæti hjá fyrirtækjum sem ná góðri fótfestu á mörkuðum sem eru að stækka ógnarhratt.
https://www.youtube.com/watch?v=7jSVnDEg0iY