Andrew prins og Virginia Giuffre gerðu samkomulag utan dómstóla í gær. Giuffre steig fram fyrir rúmum tveimur árum þar sem hún sagði barnaníðinginn og auðjöfurinn Jeffrey Epstein hafi gert hana út til Bretlands árið 2001 þar sem hún hafi meðal annars verið þvinguð af Epstein til að hafa kynmök við Andrew prins.
Málaferli hafa staðið yfir gegn Andrew í New York þar sem hann er sakaður um að hafa nauðgað Giuffre þrisvar sinnum þegar hún var 17 ára gömul. Með samkomulaginu er málið látið niður falla. Andrés féllst á greiða ákveðna upphæð og viðurkennir að Giuffre sé fórnarlamb misnotkunar. Þá felur samkomulagið einnig í sér að Andrés greiði ákveðna upphæð til góðgerðasamtaka Giuffre sem standa vörð um fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Lisa Bloom, lögfræðingur Giuffre, segir niðurstöðuna stórsigur. „Þetta er gríðarstór sigur fyrir Virginiu,“ segir Bloom, sem hefur einnig tekið að sér mál nokkurra fórnarlamba Epstein. Bloom segir niðurstöðuna ekki síst sigur „venjulegs fólk gegn hinum ríku og valdamiklu“. Staðreyndin er þó sú að prinsinn sver af sér alla ábyrgð og neitar enn öllum ásökunum.
„Viðbjóðslegasti dansari sem ég hef séð á ævinni“
Giuffre, sem er bandarísk, er í hópi kvenna sem saka Epstein um mansal. Í viðtali við Panorama, fréttaskýringaþátt BBC, í desember 2019, greindi hún frá fyrstu kynnum hennar af Andrew, sem voru í gegnum Ghislaine Maxwell, þáverandi kærustu Epstein.
Maxwell fór með Giuffre á næturklúbbinn Tramp í London þar sem prinsinn bauð henni upp í dans. „Hann er viðbjóðslegasti dansari sem ég hef séð á ævinni,“ sagði Giuffre í viðtalinu þar sem hún lýsir því hvernig svitadropar spýttust í allar áttir frá prinsinum. Þegar þau yfirgáfu næturklúbbinn sagði Maxwell henni að gera það sama og hún gerði fyrir Epstein. „Mér varð óglatt,“ sagði Giuffre. Seinna sama kvöld þvingaði hann hana til kynmaka, að sögn Giuffre, á heimili Maxwell. Andrew hefur ávallt neitað að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Giuffre og brást við frásögn hennar meðal annars með því að segja að hann gæti ekki svitnað sökum áfalls sem hann varð fyrir í Falklandseyja-stríðinu.
Tveir milljarðar í sáttagreiðslu?
Nánari útskýringar á hvað felst í raun og veru í samkomulaginu hafa ekki verið gerðar opinberar. Telegraph segist hafa heimildir fyrir því að um 12 milljóna punda greiðslu sé að ræða, eða sem nemur rúmum tveimur milljörðum króna, og að hluti greiðslunnar muni koma frá bresku konungsfjölskyldunni.
Í upphafi árs, þegar málaferlin stóðu sem hæst, afsalaði Andrew sér titlum sínum innan konungsfjölskyldunnar og breska hersins. Í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni kom fram að Andrew myndi verja sig sem almennur borgari. Hann ber ekki lengur titilinn hertoginn af York og þá skal ekki ávarpa hann sem yðar hátign. Í tilkynningunni segir jafnframt að ákvörðunin hafi verið tekin með samþykki Elísabetar Englandsdrottningar, móður Andrews.
A statement from Buckingham Palace regarding The Duke of York: pic.twitter.com/OCeSqzCP38
— The Royal Family (@RoyalFamily) January 13, 2022
Andrew fær lífeyri frá konungslega sjóhernum auk reglulegra greiðslna frá sjóði drottningar, Duchy of Lancester. Lögmaðurinn Kate Macnab segir það eðlilega kröfu að vita hvort greiðslan muni koma úr opinberum sjóðum eða einkasjóðum. Þá bendi talsmaður samtakanna Republic, sem eru mótfallin breska konungsveldinu, að skattgreiðendur eigi rétt á að vita hvaðan peningar sem nýttir verða í greiðsluna koma.
Krafta Andrews ekki óskað í konungshöllinni
Þó svo að einkamáli Giuffre gegn Andrew sé lokið með dómsáttinni en Giuffre mun mögulega geta borið vitni í öðrum málum. Gloria Allred, bandarískur lögmaður sem hefur varið fórnarlömb Epstein, segir samkomulagið ekki útiloka aðkomu Giuffre að öðrum dómsmálum. „Saksóknari gæti ákveðið að leggja fram kæru um glæpsamlegt athæfi og þá gæti Virginia borið vitni, verði óskað eftir því,“ segir Allred.
Framtíð Andrews innan konungsfjölskyldunnar er enn óljós. Hann hefur ekki komið opinberlega fram svo mánuðum skiptir og eftir að hann afsalaði sér titlum sínum er hann ekki lengur „yðar hátign“. Í umfjöllun Telegraph segir að honum hafi verið ráðlagt af ráðgjöfum konungshallarinnar að hafa hljótt um sig að minnsta kosti út árið. Krafta hans innan konungsfjölskyldunnar sé ekki óskað.