Frá árinu 2000 hefur Seðlabanki Íslands aðeins einu sinni spáð því kórréttu hver hagvöxtur yrði á árinu, sé litið til fyrstu þjóðhagsspár bankans ár hvert til hliðsjónar við endanlegan hagvöxt sama ár. Hagstofu Íslands hefur einnig gengið erfiðlega að spá fyrir um hagvöxt. Á fjórtán árum hefur spá Hagstofunnar, birt að sumri til, þrisvar sinnum verið rétt fyrir sama ár. Spá stofnunarinnar fyrir árið á eftir, sem jafnframt er notað við gerð fjárlagafrumvarpsins, hefur einu sinni verið rétt og er hagvöxtur næsta árs oftast ofmetin í spánni.
Algengara er þó að spár Seðlabankans og Hagstofunnar um vöxt landsframleiðslu vanmeti hagvöxt. Meðfylgjandi tafla sýnir hvernig spárnar hafa oftast vanmetið hagvöxt, það er hagvöxtur reyndist á endanum vera meiri en stofnanirnar spáðu til um. Skekkjan hefur að meðaltali verið 2,2 prósentustig hjá Seðlabankanum og 1,8 prósent hjá Hagstofunni.
Spá | Of há | Of lág | Rétt | Röng |
Seðlabankans | 4 | 9 | 1 | 13 |
Hagstofunnar (sama ár) | 3 | 8 | 3 | 11 |
Hagstofunnar (fyrir næsta ár) | 7 | 6 | 1 | 12 |
Spá | Frávik að meðaltali (prósentustig) | frávik að meðaltali án 2007 (prósentustig) |
Seðlabankans | 2,2 | 1,7 |
Hagstofunnar (sama ár) | 1,8 | 1,2 |
Hagstofunnar (fyrir næsta ár) | 2,9 | 2,4 |
Þrjár spár - oftast rangar
Til nánari útskýringa þá er í þessari grein litið til þriggja mismunandi þjóðhagsspáa. Í fyrsta lagi birtir Seðlabankinn spá um vöxt landsframleiðslu (hagvöxt) í ritinu Peningamál. Ritið kemur út ársfjórðungslega og er hér litið til hvers bankinn spáði í fyrsta hefti hvers árs.
Dæmi: Í febrúar 2011 var því spáð í Peningamálum að hagvöxtur á árinu 2011 yrði 2,8 prósent. Raunin varð 2,1 prósent hagvöxtur.
Í öðru lagi eru hér skoðaðar spár Hagstofunnar sem birtast í sumarhefti Þjóðhagsspár.
Dæmi: Í júlí 2004 spáði Hagstofan að hagvöxtur á árinu 2004 yrði 5,5 prósent. Raunin varð 8,2 prósenta hagvöxtur.
Í þriðja lagi, og þessi spá skiptir mestu máli fyrir stjórnvöld, er litið til þess hverju Hagstofan spáði fyrir komandi ár.
Dæmi: Í júlí 2004 spáði Hagstofan því að hagvöxtur á árinu 2005 yrði fimm prósent. Raunin varð 6 prósenta hagvöxtur.
Síðastnefnda spáin, sú fyrir komandi ár, er notuð við gerð fjárlaga. Fyrir stjórnvöld þá er betra að spáin vanmeti hagvöxt. Þá er líklegra að sú áætlun sem lögð er fram í fjárlögum, einkum tekjuhlið hins opinbera, standi undir því sem spáð var. Ef hið öfuga gerist, og hagvöxtur á árinu verður minni en spáð var, þá er líklegra að tekjur ríkisins verði minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
Spár Seðlabankans
Grafið hér að neðan sýnir hvernig spár Seðlabankans í ársbyrjun hafa rímað við endanlegan hagvöxt á ári hverju. Spá bankans er á lóðrétta ásnum og hagvöxtur á lárétta ásnum.
Dæmi: Í febrúar 2010 spáði bankinn því að hagvöxtur yrði neikvæður á árinu 2010 um 3,4 prósent. Raunin varð samdráttur landsframleiðslu um 2,9 prósent. Frávikið var því 0,5 prósentustig.
Árið 2007 reyndist bæði sérfræðingum Seðlabankans og Hagstofunnar afar snúið. Ef til vill var það vonin um „mjúka lendingu“ sem gerði að verkum að spár voru langt undir raunverulegum hagvexti það ár. Í ársbyrjun 2007 spáði Seðlabankinn því að hagvöxtur ársins yrði 0,8 prósent. Hann endaði á að vera nærri 10 prósent.
Spár Hagstofunnar
Hagstofan birtir þjóðhagsspá þrisvar sinnum á ári. Sú mikilvægasta kemur út um mitt sumar ár hvert, og er notuð til grundvallar fjárlögum. Frávik á spám Hagstofunnar hefur verið um 1,8 prósent fyrir sama ár en heil 2,9 prósent fyrir árið á eftir.
Fyrsta grafið sýnir hvernig Hagstofunni hefur gengið að spá fyrir um vöxt landsframleiðslu sama ár. Þegar spáin kemur út er árið sem spáð er um hálfnað.
Seinna grafið sýnir hvernig Hagstofunni hefur gengið að spá fyrir um hagvöxt næsta árs. Sjö sinnum hefur hagvöxtur verið ofmetinn í spánum.
Mikil skekkja í fyrra?
Tölur um vöxt landsframleiðslu eru til endurskoðunar í tvö til þrjú ár á eftir og eru hagvaxtartölur fyrir árin 2012 og 2013 enn bráðabirgðatölur. Fyrstu tölur um hagvöxt síðasta árs liggja enn ekki fyrir en margt bendir til að hann hafi verið ofmetinn í spám Seðlabankans og Hagstofunnar. Í ársbyrjun spáði Seðlabankinn að hagvöxtur á árinu yrði 2,6 prósent. Hagstofan spáði því árið 2013 að hagvöxtur árið 2014 yrði 2,7 prósent og um síðastliðið sumar hafði sú spá hækkað, talið var að vöxtur landsframleiðslu yrði 3,1 prósent.
Erfitt að spá
Sérfræðingar Seðlabankans og Hagstofunnar vita vel að spár þeirra eru líklegast ekki hár-réttar. Þær taka mið af fjölda þátta, spám um innlenda eftirspurn, fjárfestingu, innflutning, virði útflutnings svo eitthvað sé nefnt. Árið 2008 fjallaði Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, um spágerð og hvernig bankanum hefði tekist til þessa. Niðurstaða hans var sú að oftast væri hagvöxtur vanmetinn í spám bankans. Hann skrifaði:
„Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. En samt verðum við að spá um framtíðina ef við ætlum að bregðast tímanlega við og hafa áhrif á þróunina.“
Tengt efni:
Sigríður Benediktsdóttir útskýrir hagvöxt og landsframleiðslu.