Heildaraflaverðmæti íslenskra útgerða var 162 milljarðar í fyrra og hefur aldrei verið meira
Árin sem kórónuveirufaraldurinn herjaði á heiminn hafa verið tvö af þeim best í sögu íslensks sjávarútvegs. Virði þess afla sem útgerðir hafa veitt hefur vaxið ár frá ári og aukinn loðnukvóti mun nær örugglega gera 2022 að mjög góðu ári líka. Íslenskur sjávarútvegur borgaði minna í opinber gjöld á árinu 2020 en hann gerði í arðgreiðslur til eigenda sinna.
Heildaraflaverðmæti þess fisks sem skip íslenskra útgerða veiddu í fyrra var 162,2 milljarðar króna miðað við fyrstu sölu. Aflaverðmætið jókst alls um níu prósent milli ára, en það var 148,3 milljarða króna árið 2020. Þegar litið er aftur í tímann var besta ár íslenskra útgerða árið 2012 þegar stórauknar makrílveiðar og lágt gengi krónu sköpuðu mikið góðæri fyrir íslenskra útgerðir. Það ár var heildaraflaverðmætið, á föstu verðlagi, 159,3 milljarðar króna.
Því var síðasta ár besta ár íslenskra útgerða frá upphafi er miðað er við heildaraflaverðmæti. Þetta má lesa úr tölum sem Hagstofa Íslands birti í byrjun mánaðar.
Stóra breytingin milli ára var í síld og loðnu. Aflaverðmæti útgerða vegna fyrstu sölu á síld sem þær veiddu jókst um 49 prósent milli ára, eða um 3,3 milljarða króna. Loðnukvóta var úthlutað í fyrsta sinn í nokkur ár á árinu 2021. Var um að ræða stærstu úthlutun í loðnu í tæp 20 ár. Aflaverðmæti þeirrar loðnu sem búið var að veiða, landa og selja um síðustu áramót var 10,8 milljarðar króna á síðasta ári en þorri þeirra verðmæta varð til í desember. Væntingar eru til þess að loðnuvertíðin skili yfir 50 milljörðum króna í nýjar tekjur.
Aukið verðmæti í heimsfaraldri
Kórónuveirufaraldurinn hefur því ekki haft neikvæð áhrif á sjávarútveginn. Heildaraflaverðmæti hans vegna fyrstu sölu jókst milli áranna 2019 og 2020 og svo aftur í fyrra, með áðurnefndum afleiðingum að það hefur aldrei verið meira innan árs.
Árið 2020 var samt sem áður ekkert slor í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Bókfært eigið fé íslensks sjávarútvegs var 325 milljarðar króna í lok þess árs og hafði aldrei verið meira. Þar er um að ræða hreinar eignir þegar búið er að greiða arð út úr geiranum og gera upp öll opinber gjöld. Alls jókst bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 28 milljarða króna milli áranna 2019 og 2020 og um 104 milljarða króna frá árinu 2014. Búast má við því að það hafi enn aukist umtalsvert í fyrra.
Vert er að taka fram að eigið fé útgerðarfyrirtækja er stórlega vanmetið, en í flestum tilfellum eru aflaheimildir bókfærðar á nafnvirði, ekki upplausnarvirði. Heildarvirði kvóta í lok árs 2020 var 1.200 milljarða króna miða við síðustu gerðu viðskipti með hann. Við á tölu má bæta þeim aflaheimildum sem úthlutað var endurgjaldslaust í loðnu í fyrra, en þær eru metnar á 65 til 110 milljarða króna. Aflaheimildirnar fóru að mestu endurgjaldslaust til stórútgerða.
Mikill hagnaður á fáum árum
Í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2021 sem fór fram í nóvember í fyrra kom fram að hagnaður fyrirtækja í sjávarútvegi hafi verið 181 milljarður króna frá byrjun árs 2016 og út árið 2020.
Bókfært eigið fé íslensks sjávarútvegs hafði aldrei verið meira en það var í lok árs 2020, þegar það var 325 milljarðar króna. Þar er um að ræða hreinar eignir þegar búið er að greiða arð út úr geiranum og gera upp öll opinber gjöld. Alls jókst bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 28 milljarða króna milli áranna 2019 og 2020 og um 104 milljarða króna frá árinu 2014 til loka árs 2020.
Í ljósi þess að aflaverðmæti var meira árið 2020 en það var 2019, og enn meira árið 2021 en það var 2020, þá má ætla að hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafi vænkast enn meira á síðustu tveimur árum. Vísbendingar um það sáust til að mynda í ársuppgjöri Brim, eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins sem skráð er á markað. Það hagnaðist um 11,3 milljarða króna í fyrra sem er mikil aukning frá þeim 4,7 milljarða króna hagnaði sem félagið sýndi á árinu 2020. Efnahagur þess styrktist mikið milli ára, tekjur voru 58,3 milljarðar króna og eigið fé félagsins var 58,8 milljarðar króna í lok árs. Eiginfjárhlutfallið jókst úr 44 í 50 prósent milli ára. Brim greiddi alls um átta prósent af hagnaði sínum í veiðigjöld, eða rúmlega 900 milljónir króna.
Meira í arð en opinber gjöld
Sjávarútvegsfyrirtæki landsins greiddu sér 21,5 milljarða króna í arð á árinu 2020. Á sama tíma greiddu félögin 17,4 milljarða króna í bein opinber gjöld. Inni í þeirri tölu eru veiðigjöld (4,8 milljarðar króna), tekjuskattur (7,3 milljarðar króna) og áætlað tryggingagjald (5,3 milljarðar króna).
Þetta er í eina skiptið á tímabilinu 2016 til 2020 sem sjávarútvegurinn greiddi minna í opinber gjöld en hann tók út í arðgreiðslur. Raunar hefur geirinn einungis einu sinni greitt jafn lítið í bein opinber gjöld innan árs á því tímabili og hann gerði 2020, en það var árið 2017 þegar heildargreiðslur hans í opinber gjöld voru 15,8 milljarðar króna.
Sjávarútvegurinn hefur að sama skapi aldrei greitt sér jafn háa upphæð út í arð og hann gerði á árinu 2020, vegna frammistöðu ársins 2019. Inni í þeirri tölu, 21,5 milljarðar króna, eru um tíu milljarða króna arðgreiðslur dótturfélaga Samherja til móðurfélagsins en það greiddi sjálft ekki út arð.
Heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá byrjun árs 2016 og út árið 2020 námu 70,5 milljörðum króna. Á sama tíma greiddi geirinn 35,9 milljarða króna í veiðigjöld, eða rétt rúmlega 50 prósent af þeirri upphæð sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja fengu í arð.
Samþjöppun aukist hratt
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember að það hlutfall væri þá komið upp í rúmlega 67 prósent.
Samanlagt halda fjórar blokkir: Þær sem kenndar eru við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári