Meirihluti íbúa fátækustu ríkja heims þarf að bíða í tvö ár til viðbótar eftir að fá bólusetningu gegn COVID-19. Þannig er staðan jafnvel þótt að átak hafi verið gert til að dreifa bóluefnum um alla heimsbyggðina.
Nokkur ríki skáru sig frá upphafi úr þegar kom að bólusetningum, m.a. Ísrael, vegna einstaks samnings við lyfjafyrirtækið Pfizer, og olíuríkin á Arabíuskaga; Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Í þessu kapphlaupi skipti ekki aðeins máli að ná góðum samningum, með peninga að vopni fljótt og vel, heldur einnig hvaða bóluefni samið var um. Þannig hafa bóluefni frá Kína m.a. verið notuð í bólusetningu í Mið-Austurlöndum, efni sem ekki hafa hlotið náð fyrir lyfjastofnunum alls staðar í heiminum. Lyfjastofnun Bretlands gaf t.d. út markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer-BioNTech þremur vikum áður en lyfjastofnun Evrópu gerði slíkt hið sama.
Í sumum tilvikum var veðjað á rangt bóluefni ef svo má segja. Samningarnir voru flestir gerðir áður en framleiðsla efnanna hófst og hjá sumum framleiðendum hefur hún tafist, jafnvel verulega, sem sett hefur strik í áætlanir.
En í grunninn er ljóst að peningar og völd eru stærsta ástæða þess að sum ríki hafa náð hjarðónæmi á meðan önnur hafa setið eftir. Það verður augljóst þegar heimskortið er skoðað með tilliti til stöðu bólusetninga.
Til að bólusetja um 70 prósent jarðarbúa þarf í kringum 11 milljarða skammta af bóluefni. Um helgina hafði einungis 3,2 milljörðum verið dreift og með sama áframhaldi verða um sex milljarðar skammta komnir í dreifingu í lok ársins.
Yfir 80 prósent af þeim skömmtum sem hefur verið dreift hafa farið til ríkja þar sem meðaltekjur íbúanna eru háar. Í heild hefur tæplega fjórðungur mannkyns fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Enn hefur aðeins um 1 prósent íbúa fátækari ríkja verið bólusett með einum skammti eða tveimur. Sem dæmi eru yfir 75 prósent fullorðinna á Íslandi fullbólusett á meðan um tvö prósent íbúa Úganda hafa fengið annan skammtinn eða báða. Á Íslandi hafa yfir 435 þúsund skammtar verið gefnir en í Úganda, þar sem um 45 milljónir manna búa, um 990 þúsund skammtar.
Fulltrúar sjö fremstu iðnríkja heims (G7-ríkjanna) hétu því nýverið að gefa fleiri skammta til fátækari ríkja en þeir höfðu áður skuldbundið sig til. Það mun þó ekki breyta því að meirihluti heimsbyggðarinnar verður ekki bólusettur gegn COVID-19 fyrr en árið 2023.
Ljón í vegi bóluefna á leið til Afríku
Hið alþjóðlega COVAX-samstarf, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin kom á, hefur orðið fyrir ýmsum skakkaföllum frá upphafi faraldursins. Önnur bylgja faraldursins á Indlandi varð m.a. til þess að Indverjar hættu öllum útflutningi bóluefna tímabundið en þar í landi eru um sex af hverjum tíu skömmtum bóluefna heimsins framleiddir. Indverjar sömdu við AstraZeneca um framleiðslu á bóluefni fyrirtækisins og til stóð að um 400 milljónir skammta færu inn í COVAX-samstarfið. Þær áætlanir hafa engan veginn staðist og aðeins um 28 milljónir skammta af AstraZeneca hafa endað í fátækari ríkjum samkvæmt þessu samkomulagi.
Fleira hefur sett strik í reikning COVAX, m.a. útflutningshömlur í bæði Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins. Ekki aðeins hafa ríkin sett framleiðslu á bóluefnum fyrir íbúa innan sinna landa í algjöran forgang heldur hafa einnig verið settar á takmarkanir á útflutning ýmissa nauðsynlegra hráefna til bóluefnaframleiðslu.
Samkvæmt COVAX-samkomulaginu var stefnt að því að dreifa um tveimur milljörðum bóluefnaskammta til fátækari ríkja fyrir árslok. Í mars var samið um kaup á 1,1 milljarði skammta og nú hljóða samningar upp á 2,4 milljarða. Í byrjun júlí var þó aðeins búið að dreifa 95 milljónum skammta í gegnum COVAX.
Óttast er að bylgja faraldursins sé nú í uppsiglingu í Afríku en þar eru mörg af fátækustu ríkjum heims. Í flestum þeirra er ekki hægt að slá nokkru föstu um útbreiðsluna út frá opinberum tölum um t.d. sýnatökur eða dánartíðni líkt og á Vesturlöndum. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir að mörg Afríkulönd glími nú við þriðju bylgju faraldursins og segir að í Austur-Kongó hafi smitum líklega fjölgað um 40 prósent á einni viku í júní. Sameinuðu þjóðirnar segja að á þremur vikum hafi smitfjöldinn tvöfaldast í álfunni.
Ein vísbending sem stuðst er við í þessari greiningu er sú að sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru víða skyndilega orðnar yfirfullar af sjúklingum. Í upphafi faraldursins voru ýmsar vangaveltur um af hverju svo fáir virtust smitast af veirunni – og deyja – í mörgum Afríkuríkjum. Burt séð frá veikbyggðum heilbrigðiskerfum voru kenningar á lofti um að flestar þjóðanna væru hlutfallslega ungar. Önnur kenning var sú að Afríkubúar væru margir hverjir mikið undir berum himni lungann úr deginum. Sú þriðja var sú að mögulega hefðu aðrar pestir, sem aðallega eru bundnar við hitabeltið, skapað ónæmi.
Skiptir alla jarðarbúa máli
Aðrir voru á því að veiran myndi stinga sér þar niður og það af krafti síðar. Nú, þegar hið nýja og bráðsmitandi Delta-afbrigði er að verða ofan á, er það einmitt að verða raunin. Afbrigðið hefur nú greinst í að minnsta kosti sextán Afríkuríkjum. Það er talið um 60 prósent meira smitandi en fyrri afbrigði og leggjast á unga jafnt sem aldna. Þótt ungir veikist síður alvarlega er alltaf hætta á slíku þegar hlutfallslega margir hafa smitast.
Sérfræðingar, bæði íslenskir og erlendir, hafa margsinnis bent á að nauðsynlegt sé að ná hjarðónæmi um allan heim til að kveða faraldurinn í kútinn. Á meðan mikill meirihluti mannkyns er enn útsettur fyrir veirunni er mikil – og raunveruleg – hætta á því að hættulegri ný afbrigði komi fram á sjónarsviðið. Það gæti valdið skæðum faraldri í viðkomandi löndum með alvarlegum veikindum margra og dauða. Slík afbrigði geta svo einnig ógnað heilsu bólusettra þar sem vörn bóluefna kann að verða minni gegn nýjum veiruafbrigðum.