Þróuninni á verðbréfamörkuðum heimsins í dag verður ekki lýst með öðru en hruni. Rauðar tölur lækkana hafa sést nánast hvert sem litið er, og það sem verra er; hræðslan við það sem er framundan virðist viðvarandi, að því er fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal og breska ríkisútvarpsins BBC.
Eins og sést á þessu grafi, sem fengið er frá Bloomberg, hefur mikið gengið á á kínverska verðbréfamarkaðnum á árinu. Fyrst mikill uppgangur, og svo algjört hrun. Mynd: Bloomberg.
Allra augu eru á Kína, þar sem markaðir lokuðu eftir 8,5 prósent dagslækkun hlutabréfa, samkvæmt SCI (Shanghai Composite Index). Strax við opnun markaða var ljóst í hvað stefndi, eins og Kjarninn greindi frá þá þegar. Sjö prósent verðfall og tóninn var gefinn fyrir aðra markaði. Öll ávöxtun ársins á kínverska markaðnum er nú farin, og gott betur.
„Löngu áður en markaðir opnuðu voru miðlarar mættir til vinnu, og aðstæður einkenndust af spennu. Það var ljóst að þetta yrði ekki venjulegur mánudagur í ágúst,“ segir Michelle Fleury, blaðamaður BBC í New York. Viðmælendur hennar segja að staðan á mörkuðum sé á mörkum þess að einkennast af glundroða (panic), en of snemmt sé þó að segja til um það. Óvissan sé það sem allir eru sammála um að sé yfirþyrmandi.
Rekja orsökina til Kína
Fjölmennasta ríki heimsins, Kína, með um tuttugu prósent af íbúum jarðar (1,4 milljarða af rúmlega sjö milljörðum), skelfur nú og óttast fjárfestar að staðan sé verri þar í landi heldur en hagtölur sem fyrir liggja gefa til kynna. Eins og Kjarninn greindi frá á dögunum, þá hefur Kína skapað sér mikilvægan sess fyrir heimsbúskapinn, með fordæmalausu tuttugu ára hagvaxtarskeiði. Margar þjóðir heimsins eru orðnar efnahagslega háðar eða nátengdar gangi mála í Kína og hröð niðursveifla þar getur því haft mikil áhrif, eins og nú er komið á daginn. Ákvörðun stjórnvalda í Kína um veikja gjaldmiðilinn, júan, um tvö prósent, er afdrifarík svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fjárfestar virðast margir hverjir, samkvæmt umfjöllunum fagfjölmiðla hér í Bandaríkjunum, líta á þetta sem merki um að stjórnvöld séu að missa tökin á atburðarásinni, fremur en að um rökrétta hagstjórnarákvörðun sé að ræða.
Þegar stjórnvöld í Kína eru að missa tökin, hver stjórnar þá?
Í Kína er ríkið alls staðar við borðið, og hefur ekki hikað við að beita þeim tækjum sem það hefur til þess að reyna að hafa áhrif á gang mála á mörkuðum. Þetta er það sem skilur Kína öðru fremur frá öðum þróuðum mörkuðum, sem eiga allt sitt undir frjálsri verðmyndum. Kína er með fjármagnshöft, ríkið á stærstu fjármálafyrirtækin sem lána peninga í landinu, og einnig langstærstu sjóðina sem fjárfesta á markaði, sé horft til markaðshlutdeildar. Ákvarðnir stjórnvalda hafa þannig afar mikil áhrif á alla keðjuna í hagkerfinu. Eins og bent var á í fréttaskýringu á vef Kjarnans í síðustu viku, þá hafa áhyggjuraddir um gang mála í Kína orðið æ háværari, ekki síst hér í Bandaríkjunum, á þessu ári. Robert Z. Aliber, hagfræðiprófessor og rithöfundur, er einn þeirra sem fullyrðir að fasteignabólan í Kína, sem sé sú langsamlega stærsta í sögunni, sé í reynd sprungin. Loftinu sé haldið í henni með stjórnvaldsákvörðunum en til lengdar gangi það ekki, en á síðustu mánuðum hefur fasteignaverðið lækkað um 3,9 prósent. Undirliggjandi er síðan spurningin um hvernig þróun mála verður, ef stjórnvöld í Kína missa tökin? Til þessa að hafa þræðirnir verið í höndum stjórnarherra risans í Asíu, en hvað gerist þegar þræðirnir slitna einn af öðrum er hulið óvissu.
Nú seinnipartinn bárust af því fréttir, að stjórnvöld í Kína hygðust bregðast við verðlækkun á mörkuðum með kunnuglegum hætti; dæla peningum út á markaði í gegnum bankakerfið, og vonast með því til þess að örva eftirspurn og tiltrú fjárfesta á kínverska hagkerfinu. Wall Street Journal segir að óttinn við að eitthvað verra sé handan við hornið, virðist vera að reka stjórnvöld í þær stellingar að grípa til örvandi aðgerða.
China to flood economy with cash, as global markets lose faith http://t.co/cD3YwpkbIz pic.twitter.com/408FEoC0Hc
— Wall Street Journal (@WSJ) August 24, 2015
Minnkandi eftirspurn
Einn af þeim sem hefur áhyggjur af minnkandi eftirspurn og kaupgetu almennings í Kína, er stærsti bílaframleiðandi í heimi, Toyota. Í uppgjörstilkynningu félagsins vegna starfseminnar á öðrum ársfjórðungi, segir að horfurnar „séu ekki góðar“ og að markaðurinn sé orðinn „mjög erfiður“. Stundum er sagt að bílasala sé góður mælikvarði á „púlsinn“ í hagkerfum, þó ekkert sé algilt í þeim efnum. En í ljósi umfangs starfseminnar hjá Toyota þá verður að teljast líklega að þetta sé raunsætt mat á það sem er að gerast í Kína, þessa dagana. Virði félagsins hefur líka lækkað mikið í dag, um 6,75 prósent, sem er í takt við mörg önnur stórfyrirtæki sem starfa þvert á landamæri.
https://www.youtube.com/watch?t=47&v=Zpzhh0y1RUo