21. september 2017 var þrítugur leigubílstjóri, kallaður Mehmet, handtekinn á heimili sínu í Brøndby vestan við Kaupmannahöfn, grunaður um að hafa tekið þátt í undirbúningi hryðjuverka. Lögreglan hafði um um langt skeið fylgst náið með Mehmet, meðal annars í samstarfi við tvo unga menn en Mehmet hafði keypt dróna í verslun þeirra á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.
Handtaka Mehmet, sem síðan hefur setið í gæsluvarðhaldi var upphaf þess máls sem nú er komið til kasta dómstóla, Drónamálsins svonefnda. Samtímis handtöku Mehmet var annar maður úrskurðaður i gæsluvarðhald að honum fjarstöddum (in absentia). Sá heitir Abdul Kadir Cesur (stundum kallaður bílaþvottamaðurinn), Tyrki sem bjó um árabil í Danmörku en er nú sagður búsettur í Tyrklandi og eftirlýstur af Alþjóðalögreglunni, Interpol. Hann er talinn hafa afhent liðsmönnum Íslamska ríksins (svonefnda) drónana sem Mehmet leigubílstjóri keypti í Kaupmannahöfn.
Í september í fyrra, ári eftir handtöku Mehmet, voru tveir menn handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, ásamt einum til viðbótar, sá var fjarstaddur. Sá sem ekki hafði tekist að handtaka var Basil Hassan. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem nafn hans komst í bækur lögreglunnar. Hann hefur lengi verið eftirlýstur á alþjóðavettvangi vegna tilraunar til að ráða af dögum danska rithöfundinn Lars Hedegaard árið 2013. Sú tilraun mistókst því ekki vildi betur til en svo að þótt færið væri aðeins um einn metri fór kúlan úr byssu Hassan framhjá höfði rithöfundarins. Þrátt fyrir mikla leit náðist tilræðismaðurinn ekki og lögreglan taldi sig vitað að hann hefði nær samstundis farið frá Danmörku. Basil Hassan er talinn hafa skipulagt drónahernað Íslamska ríkisins en sprengja sem dróni bar varð tveimur kúrdískum hermönnum að bana í Írak í október 2016. Danska leyniþjónustan, PET, taldi á sínum tíma að dróninn hafi verið keyptur í áðurnefndri verslun á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.
Basil Hassan er 32 ára, danskur ríkisborgari af líbönskum uppruna, og ólst upp í Danmörku. Hann lauk fyrrihluta verkfræðináms og hefur einnig lært flug.
Handtekinn og sleppt
Eftir að Basil Hassan tókst að flýja frá Danmörku, eftir hið misheppnaða tilræði árið 2013 fréttist næst af honum í Tyrklandi í byrjun apríl árið eftir. Þá var hann handtekinn á flugvelli þar í landi. Þegar Danir óskuðu eftir framsali hans kom í ljós að hann hafði verið látinn laus. Skýringar Tyrkja á þeirri ákvörðun voru loðnar en síðar kom i ljós að um var að ræða fangaskipti Tyrklands og Íslamska ríkisins. Að Basil Hassan skyldi látinn laus olli mikilli reiði Dana, síðar kom í ljós að hann hefði að líkindum farið strax til Sýrlands. Talið er að hann hafi skipulagt og undirbúið fjölmörg hryðjuverk Íslamska ríkisins og talinn einn helsti sérfræðingur samtakanna varðandi drónahernað.
Margoft hafa borist af því fréttir að Basil Hassan hafi verið felldur en slíkar fréttir hafa aldrei fengist staðfestar.
Auk þeirra Basil Hassan og Abdul Kadir Cesur og leigubílstjórans sem áður var getið eru tveir til viðbótar ákærðir í drónamálinu. Nöfn þeirra hafa ekki verið birt opinberlega en þeir ganga undir nöfnunum hjólakaupmaðurinn og kennarinn. Þeir eru báðir þrítugir að aldri og þekktir meðal múslima í Kaupmannahöfn. Hjólakaupmaðurinn hefur hlotið dóma fyrir skjalafals og svindl, reyndi meðal annars, fyrir nokkrum árum, að svíkja út bætur í nafni Basil Hassan. Kennarinn hefur starfað við nokkra skóla í Kaupmannahöfn, þar á meðal CBA viðskiptaháskólann. Um tíma vann kennarinn hjá tölvufyrirtæki á Frederiksberg, en það fyrirtæki telur lögreglan að hafi staðið að ýmiskonar svindli tengdum peningayfirfærslum frá Svíþjóð til Danmerkur. Kennarinn er sagður náinn vinur Basil Hassan.
Löng og flókin réttarhöld
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils hófust réttarhöldin yfir fimmmenningunum í síðustu viku, í Bæjarrétti Kaupmannahafnar. Búast má við að réttarhöldin verði löng og flókin en gert er ráð fyrir 19 dögum í réttarsalnum, fram í janúar á næsta ári. Málsskjölin fylla 18 þúsund blaðsíður og ræða saksóknara við upphaf réttarhaldanna tók þrjár klukkustundir. Annar og þriðji dagur réttarhaldanna fóru í yfirheyrslur yfir kennaranum. Lögreglan hafði lagt hald á minnislykil (USB) á heimili hans og kennarinn sagðist hafa fengið lykilinn í Tyrklandi, hann væri kominn frá Basil Hassan en Abdul Kadir Cesur hefði afhent sér hann, með kveðju frá Basil. Að sögn saksóknara er minnislykill þessi mjög mikilvægt gagn í réttarhöldunum.
Og svo er það skattasvikamálið
Í ræðu saksóknara við upphaf réttarhaldanna kom fram að auk ákærunnar um að taka þátt í hryðjuverkum tengdust, að minnsta kosti sumir hinna ákærðu, og hugsanlega fleiri, umfangsmiklu peningasvindli. Það mál teygir anga sína til Svíþjóðar og er flókin svikamylla en það verður ekki fyrr en á síðari stigum réttarhaldanna sem fjallað verður um þau mál. Fram hefur komið að upphæðir sem um er að ræða hlaupi á að minnsta kosti tveimur milljörðum danskra króna (37 milljarðar íslenskir).
Sænsk yfirvöld ákærðu danska konu, sem vann hjá sænsku fyrirtæki, fyrir að hafa átt þátt í að svíkja á aðra milljón sænskra króna undan skatti en fyrirtækið tengdist Íslamska ríkinu. Konan hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir bókhaldssvindl. Við réttarhöldin yfir henni kom fram að hún hafði mikil tengsl við mann sem átti og var forstjóri tölvufyrirtækis á Frederiksberg og talið var tengjast Íslamska ríkinu. Þessi forstjóri, sem síðar er talið að hafi fallið í Sýrlandi kallaði konuna ætíð ,,Skat“ ,en það orð hefur fleiri en eina merkingu á dönsku, hún kallaði hann hinsvegar ,,Moms“, sem sem er danska orðið yfir virðisaukaskatt.
Við upphaf réttarhaldanna sagði saksóknari þau marka tímamót í danskri réttarsögu. Þetta væri í fyrsta skipti sem danskir ríkisborgarar væru ákærðir fyrir að taka beinan þátt í hryðjuverkum á erlendri grund.