Ráðvilltir stjórnmálamenn, diplómatar, hernaðarsérfræðingar og margir fleiri klóra sér þessa dagana í kollinum og velta fyrir sér hvað Vladimir Pútín forseta Rússlands gangi til. Að minnsta kosti 100 þúsund rússneskir hermenn, ásamt tækjum og tólum, eru nú við landamærin að Úkraínu. Ennfremur eru um 30 þúsund rússneskir hermenn í Hvíta-Rússlandi þar sem miklar heræfingar standa nú yfir. Í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að æfingarnar séu „viðbrögð við ögrunum utanfrá“.
Vilja aðild að NATO
Eftir hrun Sovétríkjanna 1991 og upplausn Austurblokkarinnar svonefndu ríkti óvissuástand. Rússar reyndu hvað þeir gátu til að halda ítökum sínum og áhrifum en sum þeirra landa sem áður höfðu tilheyrt Austurblokkinni hölluðu sér til vesturs. Rússar fengu lítið að gert, áttu nóg með eigin vandamál. Úkraína var meðal þeirra fyrrum Sovétríkja sem lýstu yfir sjálfstæði eftir upplausnina árið 1991, en lýsti jafnframt yfir hlutleysi í alþjóðamálum. Ríkið hefur, með hléum þó, aukið tengslin við ríki Evrópusambandsins.
Eftir átök í austurhluta Úkraínu árið 2014, þar sem Rússar hernámu hluta svæðisins og innlimuðu Krímskagann sama ár lýsti forsætisráðherra Úkraínu yfir að landið myndi sækjast eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu. Pútín Rússlandsforseti hefur margoft sagt, síðast í samtali við forseta Ungverjalands fyrir nokkrum dögum, að sá möguleiki að Úkraína fengi aðild að NATO myndi ógna öryggi Evrópu. Úkraína yrði „yfirfull af vopnum“ sagði Pútín.
Löngu fyrirséð hvar Rússar drægju mörkin
Hernaðarsérfræðingar hafa um árabil velt því fyrir sér hvernig Rússar myndu bregðast við ef svo færi að Úkraína fengi aðild að NATO. Einn þeirra sem fjallað hafa um þessi mál, í ræðu og riti, er Daninn Ole Wæver. Hann er prófessor í alþjóða stjórnmálum við Hafnarháskóla og þekktur víða um heim. Árið 2003 lýsti hann þeirri skoðun sinni að Rússar myndu ekki sætta sig við að Úkraína yrði aðildarríki NATO, þar drægju þeir mörkin. Hann færði ýmis rök fyrir þessari skoðun sinni og margir fleiri fræðimenn tóku síðan undir þessa skoðun hans.
Danska dagblaðið Information birti sl. miðvikudag (9.febrúar) langt viðtal við Ole Wæver og rifjaði upp ummæli hans um Úkraínu frá árinu 2003. Þar ítrekaði hann þá skoðun sína að Rússar muni gera allt til að koma í veg fyrir að Úkraína tengist NATO sterkari böndum, hvað þá að landið fái aðild að bandalaginu.
Neyðir Vesturveldin til að taka afstöðu
Ole Wæver segir að margir telji að Pútín vinni eftir fyrirfram gerðri áætlun (masterplan). Þetta sé misskilningur. Pútin fari fram eins og skákmaður, hann hafi ákveðið fyrsta leikinn, liðssafnaðinn við landamærin. „Nokkrir leikir styrkja stöðuna og geta jafnframt skapað sóknarfæri. Þetta er aðferð Pútíns. Með fjölmennu herliði við landamæri Úkraínu hefur hann sett Vesturveldin í stöðu, þar sem valið stendur um nokkra slæma kosti. Hann veit ekki endilega hvaða möguleiki, eða möguleikar verða fyrir valinu. Þess vegna veit Pútín ekki hvernig þetta endar. Hann veit aftur á móti að hernaðaraðgerðir af hálfu Vesturveldanna henta þeim ekki, kannski verði reynt að koma á fundum æðstu ráðamanna (ekki bara tveggja manna fundum) en slíkir fundir myndu gefa Rússlandi aukið pólitískt vægi“.
Vill að Rússland verði viðurkennt og virt sem stórveldi
Í viðtalinu við Ole Wæver fullyrðir hann að það sem vaki fyrir Pútín sé að Rússland verði viðurkennt sem stórveldi. Pútín vill gjarna verða aðalleikari í skipan öryggismála í Evrópu. Það yrði hinsvegar meira en að segja það, fyrir Bandaríkin og NATO að viðurkenna Rússland sem stórveldi, ekki síst í ljósi fordæmingar Vesturlanda á hernaðaraðgerðum Rússa í Georgíu árið 2008 og Úkraínu 2014.
Engar opnar dyr
Í skriflegu svari til stjórnarinnar í Moskvu í liðinni viku sögðu Bandaríkin og NATO að ekki verði hvikað frá því sem kallast „opnar dyr“ varðandi aðild að NATO. Þar er vísað til áhuga Georgíu og Úkraínu fyrir aðild að bandalaginu. Ole Wæver segist aldrei hafa tekið þetta með opnu dyrnar alvarlega. „Það versta sem NATO gæti lent í væri að ráðist yrði á aðildarríki og NATO ætti að komi til varnar. Þetta er ástæða þess að Georgía og Úkraína eru ekki aðilar að NATO, bandalagið gæti ekki varið þessi lönd. Það eru engar opnar dyr og aðild er ekki eitthvað sem hver sem er getur gert kröfu til.“
Tveir möguleikar
Að mati Ole Wæver eru tveir möguleikar í myndinni. Annar, og sá verri, er ef Rússar færu með her inn í austurhluta Úkraínu. Þá yrði gripið til efnahagsþvingana gegn Rússum. Þær kæmu sér illa fyrir Rússland og Evrópu en skiptu Bandaríkjamenn litlu. Hinn möguleikinn er að ekkert gerist og spennan sem nú er uppi gufi hægt og rólega upp. Þá geta allir sagst vera sigurvegarar, Rússar hreykja sér af því að hafa komið í veg fyrir að Úkraína gangi í NATO og sömuleiðis getur NATO gumað sig af því að ekkert hafi orðið af innrás Rússa.
Hvað getur Pútín gert?
Að mati rannsóknarstofnunarinnar Center for Strategic & International Studies (CSIS) hefur Pútín ýmsa möguleika í stöðunni sem nú er uppi:
Í fyrsta lagi: Aðstoð við aðskilnaðarsinna. Ef einhvers konar samningar nást milli Vesturlanda og Rússlands getur Pútín dregið hluta herliðs síns frá landamærunum en áfram stutt aðskilnaðarsinna sem hafa yfirráð yfir hluta Austur-Úkraínu og eru hlynntir Rússum.
Í öðru lagi: Friðarsveitir. Rússar myndu senda ,,friðarsveitir“ inn á þau svæði sem hafa lýst yfir sjálfstæði, Donetsk og Luhansk. Þær yrðu til staðar um óákveðinn tíma, það er að segja þangað til samningar um formlegt vopnahlé lægju fyrir.
Í þriðja lagi: Rússar myndu hertaka austurhluta Úkraínu allt að ánni Dnepr, það er fara fleiri hundruð kílómetra inn í landið. Tilgangurinn með þessu væri annað hvort að innlima hluta Úkraínu í Rússland eða nota svæðið sem lið í samningum. Þetta yrði meiriháttar hernaðaraðgerð og gæti kostað mikið mannfall.
Í fjórða lagi: Rússar legðu undir sig úkraínskt landsvæði allt að ánni Dnepr. En legðu sömuleiðis undir sig þann hluta Suður-Úkraínu sem liggur að Svartahafi. Þannig fengju þeir betri aðgang að Krímskaga. Þetta svæði yrði síðan innlimað í Rússland. Þetta myndi reynast Úkraínu mjög erfitt.
Í fimmta lagi: Í stað þess að leggja undir sig Austur-Úkraínu, sem gæti kostað harða bardaga myndi her Rússa sækja suður á bóginn og leggja undir sig landsvæði meðfram Svartahafi allt að landamærum Búlgaríu. Þá myndu Rússar loka fyrir aðgang Úkraínu að hafi.
Í sjötta lagi: Rússar myndu hersetja Úkraínu eins og hún leggur sig og sameina Rússlandi. Þeir myndu njóta aðstoðar Hvíta- Rússlands. Þetta yrði mjög umfangsmikil aðgerð og þótt rússneski herinn hafi á nær öllum sviðum yfirburði yfir her Úkraínu myndi þetta reynast mjög erfitt. Og hvernig yrði eftirleikurinn? Úkraína er 600 þúsund ferkílómetrar (Ísland er 104 þúsund) og íbúarnir rúmar 40 milljónir.
Tíminn vinnur gegn Rússum
Ef Pútín ætlar sér að ráðast inn í Úkraínu getur hann ekki beðið mjög lengi. Það er í mörg horn að líta varðandi 100 þúsund manna herlið, Úkraína fær með degi hverjum aukna aðstoð og svo er það veðrið. Skriðdrekar og farartæki Rússa eru engin léttavara og þeim hentar best að fara um frosna jörð. Í byrjun mars byrjar að hlýna á þessum slóðum og þá verður land sem þung farartæki ferðast um eitt forarsvað. Allt vinnur þetta gegn Rússum.