„Þá er komið að þessu,“ sagði Boris Johnson í upphafi lokaræðu sinnar sem forsætisráðherra við Downingstræti 10 í morgun, áður en hann hélt til skosku hálandanna þar sem Elísabet II Englandsdrottning tók við afsagnarbréfi Johnson. 1.139 daga stjórnartíð hans á forsætisráðherrastóli er því formlega lokið.
Í ræðu sinni hvatti hann bresku þjóðina til að styðja Liz Truss, nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra. Hennar bíða stór verkefni en hún hefur heitið því að kynna áætlun síðar í vikunni um hvernig bregðast eigi við hækkandi orðuverði og búist er við að hún muni grípa til þess ráðs að frysta orkureikninga í allt að 18 mánuði.
Í ræðunni líkti Johnson sjálfum sér við eldflaug sem hefur „uppfyllt hlutverk sitt“ og væri nú „mjúklega að hefja sig til brotlendingar á afskekktum stað á Kyrrahafinu“. Johnson uppskar hlátur fyrir þessi orð sín.
Spurningin er einmitt hvað verður um Johnson?
Hann er ekki lengur forsætisráðherra, svo nokkuð er víst, en hann er enn þingmaður fyrir Uxbridge og South Ruislip. Ekki liggur hins vegar fyrir hversu lengi hann hyggst halda þingmennskunni áfram. Yfirstandandi kjörtímabil mun standa yfir út árið 2024 en næstu kosningarnar verða í síðasta lagi í janúar 2025. Truss getur óskað eftir því við drottningu að boða fyrr til kosninga, en ber ekki skylda til þess.
Allur gangur á því hvort forsætisráðherrar sitji áfram á þingi
Framtíð Johnson á þinginu gæti einnig ráðist af eftirmálum Partygate-hneykslisins svokallaða þar sem rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins mun nú rannsaka hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haflin voru á tímum strangra sóttvarnareglna. Þegar nefndin hefur komist að niðurstöðu mun hún leggja fram tillögur sem þingmenn greiða atkvæði um, sem gætu meðal annars falist í einhvers konar refsiaðgerðum gegn forsætisráðherra.
Theresa May, forveri hans sem forsætisráðherra, hélt þingmennsku áfram eftir að hún lét af embætti 2019 og situr enn á þingi. Þegar David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra, lét af störfum 2016 sagði af sér þingmennsku nokkrum mánuðum eftir að hann lét af embætti forsætisráðherra.
Hneykslin minnistæðust
Hvað arfleifð Johnson sem forsætisráðherra varðar verður hans líklega frekar minnst fyrir ýmis vandræði sem honum tókst sjálfum að koma sér í og svo þurft að biðjast afsökunar á frekar en að hafa farið fyrir stærsta sigri Íhaldsflokksins í 30 ár í kosningunum í desember 2019, þegar flokkurinn tryggði sér 364 af 650 sætum á breska þinginu, og að hafa klárað að leiða Breta úr Evrópusambandinu.
Gælunafnið „Teflon“ festist fljótt við Johnson þar sem hann byrjaði snemma eftir að hann tók við embætti að sverja af sér hvert hneykslismálið á eftir öðru. Nærtækast er að nefna hneykslismál í kringum umfangsmiklar og kostnaðarsamar endurbætur á íbúðarinnar sem hann býr í við Downingstræti 11 í fyrra eftir að Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnson, greindi frá því að endurbæturnar hefðu verið fjármagnaðar með leynilegum fjárframlögum sem hefðu ekki verið tilkynnt sem stór fjárframlög til stjórnmálamanna.
Partygate-hneykslið, þar sem Johnson og starfsmenn hans í forsætisráðuneytinu urðu ítrekað uppvísir að því að brjóta reglur um samkomutakmarkanir sem ríkisstjórnin hafði gert bresku þjóðinni að fylgja til að halda drykkjusamkvæmi, fór langt með að ýta Johnson út af sviðinu. Johnson var meðal annars sektaður fyrir að vera viðstaddur eina veisluna, eigin afmælisveislu, og varð með því fyrsti forsætisráðherra Bretlands frá upphafi til að verða sektaður fyrir lögbrot.
Í kjölfar þess var boðað til atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á hendur Johnson eftir að Graham Brady, formaður 1922-nefndar Íhaldsflokksins, sem sér um helstu forystumál Íhaldsflokksins, greindi Johnson frá því að nefndinni hefði borist bréf frá yfir 15 prósent þingmanna flokksins sem lýstu yfir vantrausti á Johnson. 54 bréf þurfa að berast til að ná 15 prósent lágmarkinu.
Johnson hugðist halda ótrauður áfram en kornið sem fyllti hneykslismælinn var skipun Chris Pincher í embætti varaformanns þingflokks Íhaldsflokksins. Johnson á að hafa vitað af því að Pincher hafi áreitt menn kynferðislega þegar hann tók þá ákvörðun að skipa hann í embættið.
Johnson greindi frá afsögn sinni í byrjun júlí en sat áfram sem forsætisráðherra þar til kjöri um nýjan leiðtoga flokksins lauk í síðustu viku. Úrslitin voru kynnt í gær og voru nokkuð óvænt, að minnsta kosti ef litið er til upphaf kosningabaráttu leiðtogakjörsins þegar átta gáfu kost á sér til að leiða flokkinn. Fáir bjuggust við því að Liz Truss myndi standa uppi sem sigurvegari. Á endanum hafði hún betur gegn Rishi Sunak fjármálaráðherra.
Vantraust á Truss til að koma Johnson aftur að?
Raunar hefur það borist í tal að hópur þingmanna Íhaldsflokksins ætli að beita sér fyrir því að leggja fram vantraust á Truss í þeim tilgangi að koma Johnson aftur að, helst fyrir jól.
Eins og fyrr segir þarf formanni 1922-nefndarinnar að berast bréf frá 54 þingmönnum flokksins svo greidd séu atkvæði um vantraust á leiðtoga flokksins en formaður nefndarinnar hefur haft þann háttinn að greina ekki frá fjölda bréfa fyrr en tilskyldum fjölda er náð.
„Dramatískt“ að segja skilið við starfið og heimilið samtímis
Það eru ýmsar aðrar breytingar sem Johnson þarf að takast á við á næstunni, svo sem að finna sér nýtt heimili.
„Það er frekar dramatískt,“ sagði Gordon Brown þegar hann lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands 2010, um það að hætta sem forsætisráðherra og missa heimilið sitt samtímis.
Johnson hefur nú flutt út úr íbúð sinni við Downingstræti þar sem hann hefur búið síðastliðin þrjú ár og tekið á móti ýmsum þjóðarleiðtogum, meðal annars Justin Trudeau að ógleymdum Donald Trump. Johnson og eiginkona hans, Carrie Johnson, verða þó ekki í vandræðum með að finna sér nýtt heimili, Johnson á nokkrar eignir en London's Evening Standard fullyrðir að hjónin hafi fest kaup á húsi í Herne Hill í suðausturhluta Lundúna þar sem þau munu koma sér fyrir ásamt börnum sínum tveimur, Wilf sem er tveggja ára og Romy, átta mánaða.
Breskir fjölmiðlar velta því fyrir sér hvað Johnson ætli að taka sér fyrir hendur næstu daga þar sem við blasir frítími sem hann hefur ekki búið við síðustu ár. Forverar hans í starfi tóku hvíldinni ýmist fagnandi eða einbeittu sér að áhugamálum sínum.
„Þú ert mjög þreyttur þannig þú sefur um stund,“ sagði Gordon Brown í hlaðvarpsviðtali þar sem hann gerir upp forsætisráðherraferilinn. John Major fór aðra leið þar sem hann sagði að nú væri tími fyrir hádegismat og krikket.
Johnson er áhugamaður um tennis og hefur blaðamaður BBC vakið athygli á því að Johnson gefst nú kostur á að skella sér til Bandaríkjanna til að fylgjast með opna bandaríska mótinu í tennis sem nú stendur yfir. Johnson er sem stendur í Lundúnum, en þangað flaug hann eftir fund sinn með drottningu í dag.