Halda má fram að loftslagsbreytingar ógni friði og öryggi í heiminum. Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að ógnir vegna loftslagsbreytinga séu að minnsta kosti jafnmiklar og ógnir vegna stríðsátaka. Þarna er vitanlega samhengi á milli eins og hér verður fjallað um. Breytingar á veðurfari og vistkerfi með hækkandi hitastigi og yfirborði sjávar, munu leiða af sér ógn af völdum fólksflótta og átaka vegna auðlinda, sem rekja má til loftslagsbreytinga.
Ætla mætti að þessar ógnir sem steðja að jarðarbúum þjöppuðu fólki saman en það er samt ekki svo einfalt. Skipta má umræðunni í tvennt. Annars vegar kalli loftslagsbreytingar á aukið samstarf ríkja og auki þannig samvinnu og gagnkvæman skilning, hins vegar geti þær haft „geópólitísk“ áhrif þegar tekist er á um hagsmuni sem kunna að raskast í kjölfarið.
Bráðnun íss á norðurskautinu hefur verið nefnt sem dæmi um slíkt. Á norðurskautinu, þar sem áður var ísbreiða og lítið til að takast á um, er nú útlit fyrir að breytingar verði á með hugsanlegri opnun siglingaleiða og möguleikum á jarðefnavinnslu á hafsbotni.
Einnig hefur verið bent á þá ógn við öryggi sem hlýst af ófyrirséðum afleiðingum loftslagsbreytinga, svo sem ef fjöldi fólks þarf að flytjast búferlum vegna náttúruhamfara, vegna aukinnar samkeppni um auðlindir sem spillast eða verða óaðgengilegar með yfirvofandi skorti. Slík samkeppni kann að kalla á átök milli fólks og hernaðarumsvif til að verja þessa hagsmuni - sem aftur eykur hættu á stríðsátökum sem sannarlega ógnar öryggi fólks.
Þau svæði sem helst munu verða fyrir barðinu á þessari þróun eru Afríka og Mið-Austurlönd. Þó er varasamst að líta á vandamálið staðbundið því flóttafólk vill komast þangað sem vænta má betra lífs og þá eru mörk á milli heimsálfa engin fyrirstaða.
Þurr árfarvegur í Kenya.
Nærtækt er að nefna hörmungarnar í Sýrlandi og flóttamannastrauminn þaðan, en rekja má hann að hluta til verstu þurrka í manna minnum á árunum 2007–2010. Þá leiddi vatnsskortur til uppskerubrests og þess að búpeningur féll. Ein og hálf milljón manna flosnaði upp af jörðum sínum, flykktist til borganna og bættist við þann flóttamannavanda sem Íraksstríðið hafði þegar skapað.
Við sjáum einnig afleiðingar loftslagsbreytinga í Bandaríkjunum þar sem gríðarlegir þurrkar ógna vatnsbúskap Kaliforníuríkis. Þarna skiptir meginmáli hvort um þróað samfélag sem hefur burði til að takast á við hættuna sé að ræða. Innviðir séu traustir og einstaklingar hafi möguleika á úrræðum til bóta, geti fluttst búferlum, séu tryggðir og svo framvegis. Sé hins vegar um að ræða vanþróað samfélag, sem ekki hefur nein úrræði gagnvart slíkum áföllum og íbúarnir fátækir, er mikil hætta á áhrifin stigmagnist yfir í stórfelldan fólksflótta, átök og jafnvel stríð.
Hinn óþægilegi sannleikur - er hægt að snúa við blaðinu?
Segja má að við stöndum frammi fyrir þeirri þversögn að um leið og hættan er yfirvofandi og ógnar allri tilvist jarðarbúa, virðist fólk ekki vera tilbúið að bregðast við henni - fyrr en það finnur afleiðingarnar á eigin skinni.
Til eru þeir sem halda því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu uppspuni, í besta falli stórlega ýktar. Þarna er þó mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að vísindamenn séu ekki sammála í einu og öllu þá telur yfirgnæfandi meirihluti þeirra að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd.
Ástæða þess hversu lífseig skoðun margra efasemdamanna er gæti verið hversu mikið pláss raddir þeirra hafa fengið í fjölmiðlum, t.d. í Bandaríkjunum. Vísindaleg rannsókn sem gerð var árið 2004 leiddi í ljós að af 934 ritrýndum greinum um loftslagsbreytingar studdu 75 prósent þeirra þær skoðanir að þær væru af manna völdum en engin hið gagnstæða. Á sama tíma fá bæði sjónarmið álíka mikla umfjöllun í fjölmiðlum sem hlýtur að gefa talsvert skakka mynd af ástandinu.
Af þessum sökum er gjarnan gripið til róttækra aðgerða þar sem reynt er að höfða til tilfinninga fólks og birtar ógnvænlegar myndir af bráðnandi jöklum og umflotnu fólki í neyð. Það getur hins vegar verið tvíeggja sverð því hugsanlegt er að of mikil tilfinningasemi kalli á þveröfug viðbrögð við það sem til var ætlast.
Þannig er að þegar tekst að sýna fram á hversu alvarlegt ástandið er þá er vitneskjan um það svo óþægileg að hugsanlega er auðveldara fyrir fólk að vísa henni á bug og grípa á lofti málflutning þeirra sem hafna þessum hugmyndum.
Lækkandi vatnsborð í uppistöðulóni í Kaliforníu.
Úrslitastundin framundan
Nú stendur fyrir dyrum loftslagsráðstefna í París sem af mörgum er talin mjög mikilvæg - þar geti ráðist hvort mannkyni takist að sameinast um aðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingunum sem ógna vistkerfi jarðar og afleiðingum þeirra, sem þegar eru byrjaðar að koma í ljós.
Til að einfalda málið má segja að við færumst sífellt nær þeim mörkum að of seint verði að snúa þróuninni við og jafnvel að loftslagsbreytingarnar komist á það stig að keðjuverkun fari í gang sem stigmagni þróunina.
Þeir sem vara við umræddri hættu hafa stundum verið gagnrýndir fyrir of mikla öryggisvæðingu, en með öryggisvæðingu er átt við að þær hugmyndir um ógn sem verið er að kynna séu teknar á dagskrá og nái fótfestu - að hugtakið öryggi verði þar með þynnt út og missi jafnvel marks fyrir vikið.
Þó er ákveðin öryggisvæðing hugsanlega nauðsynleg til að skapa nægan slagþunga í aðgerðum gagnvart loftslagsbreytingum. Til dæmis er hægt fullyrða að eftir að Al Gore fékk Nóbelsverðlaunin fyrir starf sitt í þágu málefnisins hafi orðið ákveðinn viðsnúningur og loftslagsbreytingar öðlast ákveðna „löggildingu“ - hafi hætt að vera eitthvert baráttumál sérviturra hippa heldur orðið alvörumál sem vert sé að gefa gaum.
Umflotin stræti eftir fellibylinn Sandy árið 2012.
Hafa margir sérfræðingar og stjórnmálamenn bent á að nú sé komið að skuldadögum og síðustu forvöð fyrir mannkynið að bregðast við. Þó gagnrýna megi Bandaríkin fyrir seinagang í loftslagsmálum má samt segja að talsverð hreyfing hafi komast á málin þar að undanförnu. M.a. hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti lagt áherslu á að nú verði þjóðir heims að taka höndum saman og að Parísarfundurinn ætti að marka þessi þáttaskil.
Það má lengi deila um hver sé sökudólgurinn en þó ætti öllum að vera ljóst að loftslagsbreytingar eru staðreynd sem bregðast verður við. Næðu verstu afleiðingar þeirra fram að ganga er á endanum öllum íbúum jarðar ógnað.
Mikilvægt er í því samhengi að áhrifin eru ekki einungis bundin við veðurfar og lífríki, heldur geta þau á augabragði snúið við þeirri þróun í heiminum sem verið hefur í átt til friðar og stöðugleika á undanförnum áratugum. Þá kann ástandið að verða svo slæmt að sterkir innviðir þróaðra lýðræðissamfélaga dugi ekki til að bregðast við og hver verði sjálfum sér næstur í baráttunni.