Í Reykjavík búa 36 prósent landsmanna – Þar eru byggðar 71 prósent almennra íbúða
Frá árinu 2016 hefur ríkissjóður úthlutað 18 milljörðum króna í stofnframlög í almenna íbúðakerfið, sem er ætlað að sjá fólki með lægri tekjur fyrir öruggu húsnæði og er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Í fyrra fóru þrjár af hverjum fjórum krónum innan kerfisins í íbúðir sem voru keyptar, byggðar eða eru í byggingu í Reykjavík.
Alls hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) úthlutað 18 milljörðum króna fyrir hönd ríkissjóðs frá árinu 2016 til að kaupa eða byggja alls 2.981 íbúðir í almenna íbúðarkerfinu, sem eru leigðar til tekjulægri hópa á hagstæðum kjörum. Um tvö þúsund íbúðir af þeim sem hafa fengið fjárframlögin eru enn í byggingu eða á teikniborðinu en búið er að taka rúmlega eitt þúsund íbúðir í notkun.
Af því fjármagni hafa 13,2 milljarðar króna farið í kaup eða nýbyggingu á íbúðum í Reykjavík þar sem alls 2.123 íbúðir hafa verið keyptar, byggðar, eða eru í byggingu. Því munu alls 71,2 prósent allra hagkvæmra íbúða sem hafa annað hvort verið keyptar, byggðar eða eru í byggingu frá því að uppbygging almenna íbúðakerfisins hófst fyrir fimm árum síðan rísa í Reykjavík. Af því fé sem var úthlutað í fyrra fór 74 prósent til kaupa eða uppbyggingar á íbúðum í Reykjavík.
Alls voru íbúar Reykjavíkur 135.220 í lok september síðastliðins og því 36 prósent þeirra 374.830 manns sem bjuggu á Íslandi á þeim tíma. Því er ljóst að Reykjavík er að taka á sig næstum tvöfaldan hluta af uppbyggingu almenna íbúðakerfisins en hlutfall íbúa borgarinnar segir til um.
Þetta kemur fram í tölum frá HMS sem voru uppfærðar á vef stofnunarinnar í gær.
85 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu
Þar kemur enn fremur fram að nær öll uppbyggingin á almenna íbúðakerfinu á sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Alls hefur stofnframlögum vegna 2.525 íbúða verið úthlutað til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, eða 85 prósent allra framlaga. Þar af hefur 84 prósent framlaga sem ratað hafa inn á það svæði verið úthlutað vegna kaupa eða bygginga á íbúðum í Reykjavík, en íbúar borgarinnar eru 56 prósent þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Íbúðakerfið er fjármagnað þannig að ríkið veitir stofnframlag sem nemur 18 prósent af stofnvirði almennra íbúða. Stofnvirði er kostnaðarverð íbúðarinnar, sama hvort það er við byggingu hennar eða vegna kaupa á henni. Sveitarfélög veita svo 12 til 16 prósent stofnframlag til verkefnanna. Þau geta falist í beinu fjárframlagi en eru oftar en ekki í formi úthlutunar á lóðum eða lækkunar eða niðurfellingar á gjöldum sem þyrfti annars að greiða til sveitarfélagsins. Reykjavíkurborg hefur meðal annars úthlutað Bjargi íbúðarfélagi lóðir undir mörg hundruð íbúðir á stöðum eins í Úlfarsárdal, Bryggjuhverfinu og Hraunbæ, en líka á þéttingareitum í gamla hluta borgarinnar á borð við Kirkjusand, Vogabyggð og Skerjabyggð.
Heildarfjárfestingin í þessu nýja opinbera húsnæðiskerfi um allt land síðustu fimm árin nemur nú tæplega 93 milljörðum króna, þegar framlög ríkissjóðs, sveitarfélaga og lánsfjármögnun lánastofnana eru talin saman.
Markmiðið að bæta húsnæðisöryggi hinna tekjulægri
Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Hið nýja íbúðakerfi er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Lögin byggja á yfirlýsingu sem þáverandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gaf út í tengslum við kjarasamninga sem voru undirritaðir í maí 2015. Í henni var gert ráð fyrir að 2.300 íbúðir yrðu byggðar á árunum 2015 til 2018.
Borgin með 78 prósent félagslegra íbúða
Til viðbótar við almenna íbúðakerfið er umtalsvert framboð af félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til að mæta húsnæðisþörf fólks með lágar tekjur og litlar eignir. Þar dregur Reykjavík líka vagninn.
Kjarninn greindi frá því í nóvember að hlutdeild Reykjavíkurborgar í framboði félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafi vaxið frá árslokum 2017, er um 76 prósent af félagslegum leiguíbúðum voru í eigu eða umsjá borgarinnar. Hlutfallið nú er yfir 78 prósent.
Alls eru félagslegar íbúðir í eigu eða umsjá sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu 3.798 talsins, en þetta geta verið félagslegar leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.
Í Reykjavík eru 22 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa. Það sveitarfélag sem kemur næst er Kópavogur með tæplega 12 íbúðir á hverja þúsund íbúa en félagslegum íbúðum þar hefur fækkað á undanförnum árum þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað.
Garðabær (1,6 félagsleg íbúð á hverja þúsund íbúa), Seltjarnarnes (3,8 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa) og Mosfellsbær (3,9 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa) eru í sérflokki þegar það kemur að því að bjóða upp á lítið félagslegt húsnæði.
Lengri tíma tók hins vegar að klára lögin og fyrstu úthlutanir á grundvelli þeirra fóru ekki fram fyrr en á árinu 2016.
Greiðslbyrði margra íþyngjandi
Í árlegri leigukönnun sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent gerði fyrir (HMS 10. júní til 14. september síðastliðinn kom fram að 84 prósent þeirra sem leigja íbúð af óhagnaðardrifnum leigufélögum eru ánægðir með húsnæðið sem þeir leigja. Þeir eru ánægðastir allra á leigumarkaði og hjá þeim mælist mesta húsnæðisöryggið.
Í sömu könnun kom fram að hlutfall ráðstöfunartekna allra leigjenda sem fer í leigu er nú 45 prósent. Samkvæmt HMS gefur það hlutfall til kynna mjög mikla greiðslubyrði að meðaltali sem teljast megi íþyngjandi.
Þar sagði einnig að 44 prósent leigjenda hjá einkareknum leigufélögum greiddu yfir 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Til samanburðar greiddu 26 prósent þeirra sem leigðu af óhagnaðardrifnu leigufélagi meira en helming ráðstöfunartekna sinna í leigu.
Um 13 prósent leigjenda einkarekinna leigufélaga eða á almenna markaðnum greiða yfir 70 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu en átta prósent þeirra sem leigja af óhagnaðardrifnum félögum.
Lækkuðu leiguna
Íbúðirnar sem hafa fengið stofnframlög eru ætlaðar fyrir allskyns hópa sem eru með lágar tekjur. Þar ber fyrst að nefna þá félagshópa sem eru undir skilgreindum tekju- og eignarviðmiðum. Þau eru 554 þúsund krónur að meðaltali á mánuði fyrir einstakling og 776 þúsund krónur á mánuði fyrir hjón eða sambúðarfólk. Fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu bætast við 138.583 krónur á mánuði sem má hafa í tekjur. Heildareignir heimilisins mega þó ekki vera hærri en sem nemur 7.179.000 krónum. Stór hluti þessarar uppbyggingar, sem er afar umfangsmikil, er á vegum Bjargs íbúðafélags, sem var stofnað af ASÍ og BSRB fyrir nokkrum árum síðan, og er rekið án hagnaðarmarkmiða.
Í maí síðastliðnum tilkynnti Bjarg að það hygðist lækka leigu hjá um 190 leigutökum félagsins. Meðalleigugreiðslur leigutaka áttu samkvæmt þeirri ákvörðun að lækka um 14 prósent, úr um 180 þúsund krónum í 155 þúsund. Þetta var gert í kjölfar endurfjármögnunar og endurskoðunar rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík.
Lestu meira um húsnæðismál:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember