Bókfært virði slitabús Kaupþings nam 837,7 milljörðum króna og jókst um tæplega 38 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Handbært fé nemur um 408 milljörðum króna og jókst um sjö milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi slitabús Kaupþings, fyrir fyrstu sex mánuði ársins, sem birtur var í dag. Árshlutareikningurinn er endurskoðaður af Ernst & Young ehf.
Slitastjórn Kaupþings hefur sent Seðlabanka Íslands formlega beiðni um undanþágu frá gjaldeyrishöftum, til þess að geta framfylgt því samkomulagi sem gert var milli hluta kröfuhafa og sérstaks framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Kröfuhafar Glitnis hafa samþykkt að greiða 200 milljarða í stöðugleikaframlag í ríkissjóð.
Umsóknin um undanþágu er byggð á tillögu kröfuhafa, og eru helstu atriði hennar, eins og þær birtust á vef fjármálaráðuneytisins í júní síðastliðnum, eftirfarandi:
„Kröfuhafar í slitabú Kaupþings myndu beita sér fyrir því að slitabúið leggi til stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda sem myndi felast í:
- útgáfu og afhendingu veðtryggðs skuldabréfs í íslenskum krónum að fjárhæð 84 milljarða króna að nafnvirði, sem myndi lækka árlega í samræmi við raunveruleg útgjöld (að undanskildum hvers konar hvatakerfum) Kaupþings árin 2015, 2016 og 2017 í íslenskum krónum, sem greidd væru innlendum íslenskum aðilum (þ.m.t. allar minniháttar greiðslur í íslenskum krónum til innlendra kröfuhafa í tengslum við nauðasamninginn) en samanlögð heildarfjárhæð allra slíkra lækkana yrði hámörkuð við 5 milljarða íslenskra króna,
- framsal eigna, réttinda og krafna búsins á hendur tilteknum innlendum íslenskum gagnaðilum (þ.m.t. öðrum íslenskum slitabúum) að nafnverði u.þ.b. 114,8 milljarða íslenskra króna (hér eftir nefnd „framseld réttindi“) og
- framsal allra fjárhæða í íslenskum krónum sem Kaupþing myndi endurheimta að því er varðar ágreiningskröfur á hendur innlendum aðilum og allar kröfur á hendur innlendum aðilum sem að öðrum kosti teljast til þeirra framseldu réttinda sem nefnd eru að ofan, en ekki var hægt að framselja með beinum hætti (þessi fjárhæð væri til greiðslu að frádregnum öllum fjárhæðum í íslenskum krónum sem Kaupþing greiddi innlendum aðilum í tengslum við kröfur á hendur Kaupþingi).
- Skilmálar veðtryggða skuldabréfsins myndu verða eftirfarandi:
- skal greiðast með tveimur jöfnum afborgunum annars vegar á þeim degi þegar liðin eru tvö ár og hins vegar á þeim degi þegar liðin eru þrjú ár frá útgáfu þess,
- 5.5% vextir og
- það skal tryggt með veði í skuldabréfum gefnum út í evrum til meðallangs tíma, svokölluðum EMTN-skuldabréfum sem mögulega Arion banki hf. gefur út til Kaupþings (verðmæti veðsins verður ekki lægra en sem nemur 115% af útistandandi höfuðstól veðtryggða skuldabréfsins).“
Í árshlutareikningnum nú sést að eignir í íslenskum krónum eru 173,9 milljarðar, en í evrum og öðrum erlendum myntum, 663,8 milljarðar króna. Kröfur á hendur Kaupþingi nema 2.806,3 milljörðum króna og lækkuð þær um tæplega 20 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins.
Um 87 prósent eignarhlutur slitabús Kaupþings í Arion banka, er stærsti hluti krónueigna bússins. Eitt af því sem til greina kemur, sem hluti af áætlun um losun fjármagnshaft, er að íslenska ríkið eignist að stóru leyti Arion banka og þar með krónueignir slitabús Kaupþings. Mynd: Anton.
Hrein virðisbreyting eigna nam rúmum 44 milljörðum
Bókfært virði eigna Kaupþings í lok júní 2015 nam 837,7 milljörðum króna og jókst um 37,9 milljarða eða um 4,7 prósent á fyrri helmingi ársins. Mælt í evrum jókst verðmæti eignasafnsins um 507 milljónir eða um 9,8 prósent. Hrein virðisbreyting eigna var jákvæð á tímabilinu og nam 44,4 milljörðum króna. Til viðbótar bókfærðum eignum voru í lok tímabilsins, 19,7 milljarðar króna geymdir á vörslureikning til að mæta umdeildum seint framkomnum forgangskröfum samanborið við 19,2 milljarða í lok árs 2014.
Handbært fé Kaupþings stóð í 408,8 milljörðum króna við lok tímabilsins og jókst um 7 milljarða eða um 1,8j prósent. Mælt í evrum, hækkaði handbært fé um 174 milljónir eða um 6,7 prósent. Af 837,7 milljarða króna heildareignum, eru eignir í erlendum gjaldmiðlum metnar á 663,8 milljarða króna en eignir í íslenskum krónum eru metnar á 173,9 milljarða.
Rekstrarkostnaður nemur 0,7% af bókfærðu virði eigna
Rekstrarkostnaður Kaupþings á fyrri helming ársins nam 2,8 milljörðum króna samanborið við 2,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Rúmlega helmingur rekstrarkostnaðarins, eða um 1,5 milljarður króna er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar. Rekstrarkostnaður Kaupþings á ársgrundvelli nam 0,7% af bókfærðu virði eigna og er hlutfallið óbreytt frá fyrra ári. Til viðbótar rekstrarkostnaði er gjaldfærður virðisaukaskattur vegna fyrri tímabila samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra að fjárhæð 1,7 milljarður, að því er segir í tilkynningu frá Kaupþingi.