Bára Huld Beck

Kjósendur, flokkarnir og fólk á flótta: Hverjir vilja hvað?

Nýleg könnun um afstöðu Íslendinga til móttöku flóttamanna leiðir í ljós að nokkur munur er á því á milli kjósendahópa flokkanna hvernig Ísland eigi að haga málum varðandi móttöku fólks sem er á flótta frá heimalandi sínu. Gjá er á milli kjósendahópa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, sem sitja saman í ríkisstjórn. En hvað boða flokkarnir?

Tæp 40 pró­sent lands­manna telja að hér á landi séu tekið á móti of fáum flótta­mönn­um, 35 pró­sent telja fjölda flótta­fólks sem tekið er við hæfi­legan og 26 pró­sent lands­manna telja að verið sé að taka á móti of miklum fjölda flótta­manna, sam­kvæmt könnun MMR sem birt­ist í vik­unni.

Ísland tekur á móti flótta­mönnum á tvenna vegu. Ann­ars vegar bjóðum við fólk sér­stak­lega vel­komið með því að taka póli­tískar ákvarð­anir um að taka á móti svoköll­uðum kvótaflótta­mönnum og hins vegar kemur fólk hingað til lands á eigin vegum og sækir eftir alþjóð­legri vernd, eða hæli, sem stjórn­völd taka svo afstöðu til hvort skuli veita eður ei.

Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hefur sett sér háleit­ari mark­mið varð­andi mót­töku kvótaflótta­manna en nokkru sinni hefur verið gert áður af hálfu íslenskrar rík­is­stjórn­ar. Árið 2019 var sett Íslands­met í mót­töku kvótaflótta­manna, er tekið var á móti 74 ein­stak­lingum til lands­ins.

Til við­bótar hefur rík­is­stjórnin sett fram áætl­anir um að taka á móti 100 manns á „kvóta árs­ins 2020“ og boðað þá stefnu að tekið verði á móti 100 manns til við­bótar á „kvóta árs­ins 2021“, ef svo má segja. Við þetta bæt­ast allt að 120 manns sem íslensk stjórn­völd hafa boðað að tekið verði á móti frá Afganistan, í ljósi aðstæðna þar í landi.

Eins og Kjarn­inn hefur sagt frá hefur mót­t­taka kvótaflótta­manna taf­ist veru­lega sökum COVID-19 far­ald­urs­ins og í reynd verið í nær algjöru frosti frá því far­ald­ur­inn hóf­st, en tugir flótta­manna eru þó vænt­an­legir til lands­ins núna í sept­em­ber og enn fleiri á næstu mán­uð­um, sam­kvæmt yfir­lýs­ingum ráða­manna.

Mis­mun­andi sýn meðal kjós­enda stjórn­ar­flokk­anna

Áhuga­vert er að þrátt fyrir að hér hafi und­an­farin fjögur ár setið rík­is­stjórn undir for­ystu Vinstri grænna sem boðar stærri skref í mót­töku flótta­fólks en áður hafa verið stigin finnst 57 pró­sentum þeirra kjós­enda Vinstri grænna sem tóku afstöðu í nýlegri könnun MMR að verið sé að taka á móti of fáum flótta­mönnum hingað til lands.

Stuðn­ings­menn hinna rík­is­stjórn­ar­flokk­ana eru ekki alveg á sömu skoð­un. Aðeins 18 pró­sent aðspurðra kjós­enda Sjálf­stæð­is­flokks­ins finnst að verið sé að taka á móti of fáum flótta­mönn­um, á meðan að 36 pró­sent þeirra finnst fjöldi flótta­manna hér á landi of mik­ill.

Auglýsing

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er síð­an, eins og í mörgum öðrum mál­um, mitt á milli sam­starfs­flokka sinna í rík­is­stjórn, en 32 pró­sentum þeirra sem sögð­ust ætla að kjósa flokk­inn finnst tekið á móti of fáum flótta­mönnum og 22 pró­sentum finnst tekið á móti of mörg­um, sam­kvæmt könnun MMR.

En hvað segja stefnur rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um þessi mál? Í þeim sér­stöku kosn­inga­stefnum eða -áherslum sem lagðar hafa verið fram af hálfu flokk­anna á und­an­förnum vikum eru Vinstri græn eini flokk­ur­inn í stjórn­inni sem minn­ist á flótta­fólk. Ekki stendur orð um mál­efni flótta­manna í kosn­inga­stefnum Sjálf­stæð­is­flokks né Fram­sókn­ar­flokks, en þessir tveir flokkar hafa þó einmitt flótta­manna­málin á sinni könnu fremur en Vinstri græn.

Í flótta­manna­nefnd, sem heyrir undir félags­mála­ráðu­neytið sem er í höndum ráð­herra Fram­sókn­ar, sitja nú tveir full­trúar sem vafa­laust verða þing­menn Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks að morgni dags 26. sept­em­ber næst­kom­andi. Það eru þau Stefán Vagn Stef­áns­son odd­viti Fram­sóknar í NV-­kjör­dæmi og Diljá Mist Ein­ars­dóttir sem er í 2. sæti fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn í Reykja­vík suð­ur. Þriðji aðal­mað­ur­inn í nefnd­inni er svo skip­aður af dóms­mála­ráðu­neyt­inu, sem er í höndum Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

Afstaða kjósenda til móttöku flóttafólks á Íslandi er ansi breytileg eftir stjórnmálaskoðunum.
MMR

Stefnur flokk­anna eru þó marglaga og þrátt fyrir að hvorki Fram­sókn né Sjálf­stæð­is­flokkur setji mál­efni fólks á flótta á odd­inn í aðdrag­anda þess­ara kosn­inga hafa þeir áður fjallað um þessi mál í stefnu­mark­andi álykt­unum sín­um.

Í umfjöllun um útlend­inga­mál í ályktun frá lands­fundi Sjálf­stæð­is­flokks­ins árið 2018 er ekki staf­krókur um hvort taka skuli á móti fleiri eða færri flótta­mönnum en nú er gert. Þar er hins vegar talað um að taka skuli vel á móti þeim sem leita hælis og eigi rétt á að kom­ast í skjól. Í sama plaggi segir að ekki megi láta „átölu­laust að hingað komi fólk frá öruggum ríkjum í þeim til­gangi að mis­nota rétt­indi fólks sem er á flótta frá raun­veru­legri neyð.“

„Við mót­töku flótta­manna og inn­flytj­enda verður einnig að gera þá kröfu að inn­viðir sam­fé­lags­ins svo sem heil­brigð­is- og félags­þjón­usta séu við­un­andi svo veita megi þeim sem hingað leita úr erf­iðum aðstæðum þá aðstoð sem þarf. Taka þarf búsetu­úr­ræði og menntun barna á flótta ásamt annarri aðlögun að íslensku sam­fé­lagi fast­ari tök­um. Útlend­inga­lög­gjöf­ina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raun­sæ­i,“ segir einnig í ályktun flokks­ins.

Erfitt er að nálg­ast stefnu Fram­sóknar í mál­efnum flótta­manna. Hana er hvergi að finna á vef flokks­ins í dag þrátt fyrir að eitt sinn hafi þar verið hægt að nálg­ast nokkuð óljósa stefnu­mótun í mála­flokknum frá lands­þingi flokks­ins sem fram fór í mars árið 2018. Þar sagði ekk­ert um það hvort flokk­ur­inn vildi taka á móti fleiri flótta­mönnum hingað til lands eður ei. „Mik­il­vægt er að við mót­töku útlend­inga sé unnið með mann­rétt­indi að leið­ar­ljósi, að fram­kvæmd laga sé skil­virk og vel sé staðið að skipu­lagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnu­rétt­indi eða þjón­ustu sam­fé­lags­ins,“ sagði í plagg­inu, sem vísað var til í leið­ara Kjarn­ans um mál­efni fólks á flótta árið 2019.

Vinstri græn hins vegar eru með áherslu á mál­efni fólks á flótta í kosn­inga­stefnu­skrá sinni. „Tökum vel á móti fólki á flótta, bæði kvótaflótta­mönnum og umsækj­endum um alþjóð­lega vernd, enda aldrei fleira fólk verið á flótta vegna stríðs­á­taka og lofts­lags­breyt­inga,“ segir þar, en ekki er til­tekið hvort taka skuli á móti fleiri flótta­mönnum hingað til lands eða ekki.

Í ítar­legri stefnu Vinstri grænna um þessi mál segir að hreyf­ingin telji að „mál­efni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórn­sýslu­verk­efni frekar en þjón­usta við fólk með mannúð og virð­ingu að leið­ar­ljósi.“ Þessu seg­ist flokk­ur­inn vilja breyta og nefnir í því sam­hengi sér­stak­lega að skipta þurfi Útlend­inga­stofnun upp og „skilja á milli þjón­ustu við fólk á flótta ann­ars vegar og stjórn­sýslu umsókna hins veg­ar.“

Auglýsing

„Efla þarf sam­vinnu á milli ráðu­neyta; þjón­usta við fólk á að vera á for­ræði félags­mála­ráðu­neytis en sá hluti sem snýr að umsóknum um land­vist­ar­leyfi á for­ræði dóms­mála­ráðu­neyt­is. Mik­il­vægt er að taka undir ítrek­aðar ábend­ingar Flótta­manna­stofn­unar Sam­ein­uðu þjóð­anna um heim­ild ríkja til að taka umsóknir til efn­is­með­ferðar þó svo að þau beri ekki ábyrgð á henni sam­kvæmt öðrum ákvæð­um. Standa ber vörð um upp­haf­legan til­gang Dyfl­inn­ar­sam­starfs­ins, að aðild­ar­ríki deili ábyrgð vegna komu fólks á flótta til Evr­ópu en varpi henni ekki yfir á önnur rík­i,“ segir einnig í stefnu Vinstri grænna í þessum mála­flokki.

Vinstri græn segja einnig að skil­virkni kerf­is­ins eigi aldrei að vera á kostnað mann­úð­ar- og rétt­læt­is­sjón­ar­miða, að meta skuli aðstæður barna með sjálf­stæðum hætti og tryggja skuli hinsegin fólki á flótta sér­staka vernd í lögum um útlend­inga.

Stjórn­ar­and­staðan sem vill taka á móti fleirum

Í könnun MMR eru nokkrir kjós­enda­hópar flokk­anna sem skera sig úr hvað varðar afstöðu til mót­t­töku flótta­fólks. Auk kjós­enda Vinstri grænna er meiri­hluti kjós­enda Pírata, Sam­fylk­ing­ar, Við­reisnar og Sós­í­alista­flokks­ins að meiri­hluta sam­mála því að taka ætti á móti fleiri flótta­mönnum til Íslands.

Tæp 70 pró­sent kjós­enda Sam­fylk­ingar eru á því máli að hér sé tekið á móti of fáum flótta­mönn­um, 65 pró­sent kjós­enda Pírata og 57 pró­sent kjós­enda Við­reisn­ar, eða sama hlut­fall og mæld­ist í kjós­enda­hópi Vinstri grænna. Að baki þessum fjórum kjós­enda­hópum kemur svo Sós­í­alista­flokk­ur­inn, en 51 pró­sent flokks­manna segja of lít­inn fjölda flótta­fólks koma hingað til lands. Hins vegar segir rúmur fjórð­ungur kjós­enda Sós­í­alista, eða 27 pró­sent, að of margir flótta­menn fái hæli á Íslandi í dag, sem er hærra hlut­fall en hjá áður­nefndum fjórum flokk­um.

En hvað vilja flokk­arnir sem þetta fólk seg­ist ætla að kjósa gera í mál­efnum fólks á flótta?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, tekur á móti hópi kvótaflóttamanna í Leifsstöð árið 2016.
Stjórnarráðið

Að mati Við­reisnar á Ísland að setja for­dæmi í mál­efnum flótta­fólks. „Ís­land ætti að setja for­dæmi, með mannúð og mann­rétt­indi að leið­ar­ljósi, í mál­efnum flótta­manna- og far­and­fólks sem er í leit að betra lífi. Við­reisn vill auð­velda fólki utan EES að fá atvinnu­leyfi og leita tæki­færa á Ísland­i,“ segir í stefnu Við­reisnar um fólk á flótta. Þar segir einnig að Ísland eigi að taka ábyrgð á afleið­ingum lofts­lags­breyt­inga. „Af­leið­ingar lofts­lags­breyt­inga víða um heim hafa skapað hörmu­legar aðstæð­ur. Fjöldi fólks er á flótta af þeim völd­um. Ísland þarf að axla ábyrgð í þeim málum og ætti að taka á móti fleira kvótaflótta­fólki sem er á flótta vegna lofts­lags­breyt­inga og þeim sem leita eftir alþjóð­legri vernd á þeim for­send­um,“ segir í stefnu­skrám Við­reisn­ar.

Sam­fylk­ingin boðar í kosn­inga­stefnu sinni að flokk­ur­inn vilji mann­úð­legri mót­töku fólks á flótta, „móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leið­ar­ljósi, og láta af þrengstu túlk­unum á útlend­inga­lögum við með­ferð á umsókn­um.“ Flokk­ur­inn vill enn­fremur að „hætt verði að vísa burt barna­fjöl­skyldum sem fest hafa hér rætur og stöðva frá­vís­anir til óör­uggra ríkja.“

„Harka gagn­vart umsækj­endum um alþjóð­lega vernd stríðir gegn grunn­gildum okkar um sam­hygð og sam­stöðu. Sam­fylk­ingin vill ráð­ast í gagn­gera end­ur­skoðun á útlend­inga­lög­gjöf­inni og mót­töku­kerfi umsækj­enda um alþjóð­lega vernd með mannúð að leið­ar­ljósi og hlið­sjón af mann­rétt­inda­sátt­málum sem Ísland hefur stað­fest,“ segir svo um mála­flokk­ann íítar­legri stefnu Sam­fylk­ing­ar­innar, sem sam­þykkt var fyrr á árinu.

Í kosn­inga­stefnu­skrá Pírata segir að Ísland verði að axla rík­ari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. „Bæði þarf að taka á móti fleiri ein­stak­lingum og bæta mót­töku­ferlið til muna. Taka þarf mið af auk­inni mann­úð, skiln­ingi og virð­ingu fyrir umsækj­endum um alþjóð­lega vernd þegar beita á mats­kenndum ákvæðum útlend­inga­laga. Umsóknir eiga almennt að vera teknar til efn­is­með­ferð­ar. Brott­vís­anir til óör­uggra ríkja innan Evr­ópu, þar með talið Grikk­lands og Ung­verja­lands, eru ólíð­andi og þær ber að stöðva án taf­ar,“ segir í stefnu Pírata, sem einnig vilja hætta öllum brott­vís­unum þeirra sem hafa aðlag­ast hér á landi, sér­stak­lega barna, þar sem þær séu ómann­úð­leg­ar.

„Við ætlum að leggja niður Útlend­inga­stofnun og breyta lögum og allri nálgun í mála­flokknum til að auka mann­úð, skiln­ing og virð­ingu fyrir umsækj­endum um vernd,“ segir einnig í stefnu Pírata, sem sér­stak­lega segj­ast ætla að beita sér fyrir því að að verja flótta­fólk í við­kvæmri stöðu, t.a.m. þeirra sem eru í hættu vegna kyn­hneigð­ar, kynein­kenna eða kyn­vit­und­ar.

Frá mótmælum til stuðnings flóttamönnum á Íslandi árið 2019.
Bára Huld Beck

Sós­í­alistar segja, í stefnu sinni um utan­rík­is­mál, að Ísland ætti að vinna með „öðrum smá­þjóðum að því að alþjóða­sam­fé­lagið standi saman að frið­ar­sátt­mála til að leita lausna á flótta­manna­vanda heims­ins.“ í nán­ari umfjöllun um þennan mála­flokk í stefnu Sós­í­alista­flokks­ins segir að heims­byggðin standi frammi fyrir mestu fólks­flutn­ingum sög­unnar og flótta­menn hafi ekki verið fleiri síðan í seinni heims­styrj­öld­inni. Þetta segir flokk­ur­inn afleið­ingar styrj­alda og valda­bar­áttu, efna­hags­legs vanda veik­stæðra þjóða í alþjóða­væddum kap­ít­al­isma og lofts­lags­breyt­inga.

„Gera þarf ráð fyrir því að flótta­fólki muni fjölga veru­lega á næstu árum, ekki síst vegna lofts­lags­breyt­inga. Allar þjóðir heims­ins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að end­ur­skoða útlend­inga­lögin sem við störfum eftir í dag. Inn­flytj­endum mun fjölga á næstu ár og ára­tugi og styrkja íslenskt sam­fé­lag, rétta við óhag­stæða ald­ur­sam­setn­ingu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir vel­ferð og rétt­læti innan sam­fé­lags­ins. Hag­munir okkar fara því saman með fólk­inu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heim­ili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokka­lega afkomu. Taka verður á móti flótta­fólki með mannúð og mann­rétt­indi að leið­ar­ljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð,“ segir í stefnu Sós­í­alista­flokks­ins.

Stjórn­ar­and­staðan sem segir flótta­menn of marga

Kjós­enda­hópar tveggja flokka skera sig úr, sam­kvæmt könnun MMR, og telja að meiri­hluta að of mik­ill fjöldi flótta­fólks fái hæli á Íslandi í dag. Heil 87 pró­sent kjós­enda Mið­flokks­ins segja flótta­menn of marga á land­inu og 59 pró­sent þeirra væntu kjós­enda Flokks fólks­ins sem svör­uðu könn­un­inni.

Auglýsing

Þessi við­horf til mót­töku flótta­manna end­ur­spegl­ast nokkuð skýrt í stefnu Mið­flokks­ins, sem vill end­ur­hugsa alla mót­t­töku flótta­manna á Íslandi, segir að „kerfi hæl­isveit­inga“ sé í „ólestri á Íslandi“ og þarfn­ist gagn­gerrar end­ur­skoð­un­ar. Flokk­ur­inn setur fólk á flótta í sam­hengi við glæp­a­starf­semi í kosn­inga­stefnu sinni, sem er sett fram á vef flokks­ins.

„Ótækt er að Ísland verði í auknum mæli að áfanga­stað glæpa­gengja sem féfletta hæl­is­leit­endur og leggja þá í stór­hættu þegar nágranna­löndin hafa mætt þessum veru­leika og náð árangri,“ segir þar., en flokk­ur­inn seg­ist telja „rétt að líta til stefnu danskra jafn­að­ar­manna hvað varðar end­ur­skoðun hæl­is­leit­enda­kerf­is­ins“ og segir að þannig muni „það fjár­magn sem er til ráð­stöf­unar nýt­ast sem best til að hjálpa þeim sem mest eru hjálpar þurf­i“.

Flokkur fólks­ins skilar síðan svo gott sem auðu í flótta­manna­mál­um. Ekk­ert má finna í þeirri stefnu flokks­ins sem birt er opin­ber­lega á vefnum um hvernig skuli standa að mót­töku fólks á flótta.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar