Bára Huld Beck

Kjósendur, flokkarnir og fólk á flótta: Hverjir vilja hvað?

Nýleg könnun um afstöðu Íslendinga til móttöku flóttamanna leiðir í ljós að nokkur munur er á því á milli kjósendahópa flokkanna hvernig Ísland eigi að haga málum varðandi móttöku fólks sem er á flótta frá heimalandi sínu. Gjá er á milli kjósendahópa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, sem sitja saman í ríkisstjórn. En hvað boða flokkarnir?

Tæp 40 prósent landsmanna telja að hér á landi séu tekið á móti of fáum flóttamönnum, 35 prósent telja fjölda flóttafólks sem tekið er við hæfilegan og 26 prósent landsmanna telja að verið sé að taka á móti of miklum fjölda flóttamanna, samkvæmt könnun MMR sem birtist í vikunni.

Ísland tekur á móti flóttamönnum á tvenna vegu. Annars vegar bjóðum við fólk sérstaklega velkomið með því að taka pólitískar ákvarðanir um að taka á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum og hins vegar kemur fólk hingað til lands á eigin vegum og sækir eftir alþjóðlegri vernd, eða hæli, sem stjórnvöld taka svo afstöðu til hvort skuli veita eður ei.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett sér háleitari markmið varðandi móttöku kvótaflóttamanna en nokkru sinni hefur verið gert áður af hálfu íslenskrar ríkisstjórnar. Árið 2019 var sett Íslandsmet í móttöku kvótaflóttamanna, er tekið var á móti 74 einstaklingum til landsins.

Til viðbótar hefur ríkisstjórnin sett fram áætlanir um að taka á móti 100 manns á „kvóta ársins 2020“ og boðað þá stefnu að tekið verði á móti 100 manns til viðbótar á „kvóta ársins 2021“, ef svo má segja. Við þetta bætast allt að 120 manns sem íslensk stjórnvöld hafa boðað að tekið verði á móti frá Afganistan, í ljósi aðstæðna þar í landi.

Eins og Kjarninn hefur sagt frá hefur mótttaka kvótaflóttamanna tafist verulega sökum COVID-19 faraldursins og í reynd verið í nær algjöru frosti frá því faraldurinn hófst, en tugir flóttamanna eru þó væntanlegir til landsins núna í september og enn fleiri á næstu mánuðum, samkvæmt yfirlýsingum ráðamanna.

Mismunandi sýn meðal kjósenda stjórnarflokkanna

Áhugavert er að þrátt fyrir að hér hafi undanfarin fjögur ár setið ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna sem boðar stærri skref í móttöku flóttafólks en áður hafa verið stigin finnst 57 prósentum þeirra kjósenda Vinstri grænna sem tóku afstöðu í nýlegri könnun MMR að verið sé að taka á móti of fáum flóttamönnum hingað til lands.

Stuðningsmenn hinna ríkisstjórnarflokkana eru ekki alveg á sömu skoðun. Aðeins 18 prósent aðspurðra kjósenda Sjálfstæðisflokksins finnst að verið sé að taka á móti of fáum flóttamönnum, á meðan að 36 prósent þeirra finnst fjöldi flóttamanna hér á landi of mikill.

Auglýsing

Framsóknarflokkurinn er síðan, eins og í mörgum öðrum málum, mitt á milli samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn, en 32 prósentum þeirra sem sögðust ætla að kjósa flokkinn finnst tekið á móti of fáum flóttamönnum og 22 prósentum finnst tekið á móti of mörgum, samkvæmt könnun MMR.

En hvað segja stefnur ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál? Í þeim sérstöku kosningastefnum eða -áherslum sem lagðar hafa verið fram af hálfu flokkanna á undanförnum vikum eru Vinstri græn eini flokkurinn í stjórninni sem minnist á flóttafólk. Ekki stendur orð um málefni flóttamanna í kosningastefnum Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks, en þessir tveir flokkar hafa þó einmitt flóttamannamálin á sinni könnu fremur en Vinstri græn.

Í flóttamannanefnd, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið sem er í höndum ráðherra Framsóknar, sitja nú tveir fulltrúar sem vafalaust verða þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að morgni dags 26. september næstkomandi. Það eru þau Stefán Vagn Stefánsson oddviti Framsóknar í NV-kjördæmi og Diljá Mist Einarsdóttir sem er í 2. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík suður. Þriðji aðalmaðurinn í nefndinni er svo skipaður af dómsmálaráðuneytinu, sem er í höndum Sjálfstæðisflokksins.

Afstaða kjósenda til móttöku flóttafólks á Íslandi er ansi breytileg eftir stjórnmálaskoðunum.
MMR

Stefnur flokkanna eru þó marglaga og þrátt fyrir að hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkur setji málefni fólks á flótta á oddinn í aðdraganda þessara kosninga hafa þeir áður fjallað um þessi mál í stefnumarkandi ályktunum sínum.

Í umfjöllun um útlendingamál í ályktun frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2018 er ekki stafkrókur um hvort taka skuli á móti fleiri eða færri flóttamönnum en nú er gert. Þar er hins vegar talað um að taka skuli vel á móti þeim sem leita hælis og eigi rétt á að komast í skjól. Í sama plaggi segir að ekki megi láta „átölulaust að hingað komi fólk frá öruggum ríkjum í þeim tilgangi að misnota réttindi fólks sem er á flótta frá raunverulegri neyð.“

„Við móttöku flóttamanna og innflytjenda verður einnig að gera þá kröfu að innviðir samfélagsins svo sem heilbrigðis- og félagsþjónusta séu viðunandi svo veita megi þeim sem hingað leita úr erfiðum aðstæðum þá aðstoð sem þarf. Taka þarf búsetuúrræði og menntun barna á flótta ásamt annarri aðlögun að íslensku samfélagi fastari tökum. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi,“ segir einnig í ályktun flokksins.

Erfitt er að nálgast stefnu Framsóknar í málefnum flóttamanna. Hana er hvergi að finna á vef flokksins í dag þrátt fyrir að eitt sinn hafi þar verið hægt að nálgast nokkuð óljósa stefnumótun í málaflokknum frá landsþingi flokksins sem fram fór í mars árið 2018. Þar sagði ekkert um það hvort flokkurinn vildi taka á móti fleiri flóttamönnum hingað til lands eður ei. „Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins,“ sagði í plagginu, sem vísað var til í leiðara Kjarnans um málefni fólks á flótta árið 2019.

Vinstri græn hins vegar eru með áherslu á málefni fólks á flótta í kosningastefnuskrá sinni. „Tökum vel á móti fólki á flótta, bæði kvótaflóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd, enda aldrei fleira fólk verið á flótta vegna stríðsátaka og loftslagsbreytinga,“ segir þar, en ekki er tiltekið hvort taka skuli á móti fleiri flóttamönnum hingað til lands eða ekki.

Í ítarlegri stefnu Vinstri grænna um þessi mál segir að hreyfingin telji að „málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónusta við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi.“ Þessu segist flokkurinn vilja breyta og nefnir í því samhengi sérstaklega að skipta þurfi Útlendingastofnun upp og „skilja á milli þjónustu við fólk á flótta annars vegar og stjórnsýslu umsókna hins vegar.“

Auglýsing

„Efla þarf samvinnu á milli ráðuneyta; þjónusta við fólk á að vera á forræði félagsmálaráðuneytis en sá hluti sem snýr að umsóknum um landvistarleyfi á forræði dómsmálaráðuneytis. Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar þó svo að þau beri ekki ábyrgð á henni samkvæmt öðrum ákvæðum. Standa ber vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins, að aðildarríki deili ábyrgð vegna komu fólks á flótta til Evrópu en varpi henni ekki yfir á önnur ríki,“ segir einnig í stefnu Vinstri grænna í þessum málaflokki.

Vinstri græn segja einnig að skilvirkni kerfisins eigi aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða, að meta skuli aðstæður barna með sjálfstæðum hætti og tryggja skuli hinsegin fólki á flótta sérstaka vernd í lögum um útlendinga.

Stjórnarandstaðan sem vill taka á móti fleirum

Í könnun MMR eru nokkrir kjósendahópar flokkanna sem skera sig úr hvað varðar afstöðu til mótttöku flóttafólks. Auk kjósenda Vinstri grænna er meirihluti kjósenda Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Sósíalistaflokksins að meirihluta sammála því að taka ætti á móti fleiri flóttamönnum til Íslands.

Tæp 70 prósent kjósenda Samfylkingar eru á því máli að hér sé tekið á móti of fáum flóttamönnum, 65 prósent kjósenda Pírata og 57 prósent kjósenda Viðreisnar, eða sama hlutfall og mældist í kjósendahópi Vinstri grænna. Að baki þessum fjórum kjósendahópum kemur svo Sósíalistaflokkurinn, en 51 prósent flokksmanna segja of lítinn fjölda flóttafólks koma hingað til lands. Hins vegar segir rúmur fjórðungur kjósenda Sósíalista, eða 27 prósent, að of margir flóttamenn fái hæli á Íslandi í dag, sem er hærra hlutfall en hjá áðurnefndum fjórum flokkum.

En hvað vilja flokkarnir sem þetta fólk segist ætla að kjósa gera í málefnum fólks á flótta?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, tekur á móti hópi kvótaflóttamanna í Leifsstöð árið 2016.
Stjórnarráðið

Að mati Viðreisnar á Ísland að setja fordæmi í málefnum flóttafólks. „Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi,“ segir í stefnu Viðreisnar um fólk á flótta. Þar segir einnig að Ísland eigi að taka ábyrgð á afleiðingum loftslagsbreytinga. „Afleiðingar loftslagsbreytinga víða um heim hafa skapað hörmulegar aðstæður. Fjöldi fólks er á flótta af þeim völdum. Ísland þarf að axla ábyrgð í þeim málum og ætti að taka á móti fleira kvótaflóttafólki sem er á flótta vegna loftslagsbreytinga og þeim sem leita eftir alþjóðlegri vernd á þeim forsendum,“ segir í stefnuskrám Viðreisnar.

Samfylkingin boðar í kosningastefnu sinni að flokkurinn vilji mannúðlegri móttöku fólks á flótta, „móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leiðarljósi, og láta af þrengstu túlkunum á útlendingalögum við meðferð á umsóknum.“ Flokkurinn vill ennfremur að „hætt verði að vísa burt barnafjölskyldum sem fest hafa hér rætur og stöðva frávísanir til óöruggra ríkja.“

„Harka gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd stríðir gegn grunngildum okkar um samhygð og samstöðu. Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd með mannúð að leiðarljósi og hliðsjón af mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest,“ segir svo um málaflokkann íítarlegri stefnu Samfylkingarinnar, sem samþykkt var fyrr á árinu.

Í kosningastefnuskrá Pírata segir að Ísland verði að axla ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. „Bæði þarf að taka á móti fleiri einstaklingum og bæta móttökuferlið til muna. Taka þarf mið af aukinni mannúð, skilningi og virðingu fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd þegar beita á matskenndum ákvæðum útlendingalaga. Umsóknir eiga almennt að vera teknar til efnismeðferðar. Brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, eru ólíðandi og þær ber að stöðva án tafar,“ segir í stefnu Pírata, sem einnig vilja hætta öllum brottvísunum þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, þar sem þær séu ómannúðlegar.

„Við ætlum að leggja niður Útlendingastofnun og breyta lögum og allri nálgun í málaflokknum til að auka mannúð, skilning og virðingu fyrir umsækjendum um vernd,“ segir einnig í stefnu Pírata, sem sérstaklega segjast ætla að beita sér fyrir því að að verja flóttafólk í viðkvæmri stöðu, t.a.m. þeirra sem eru í hættu vegna kynhneigðar, kyneinkenna eða kynvitundar.

Frá mótmælum til stuðnings flóttamönnum á Íslandi árið 2019.
Bára Huld Beck

Sósíalistar segja, í stefnu sinni um utanríkismál, að Ísland ætti að vinna með „öðrum smáþjóðum að því að alþjóðasamfélagið standi saman að friðarsáttmála til að leita lausna á flóttamannavanda heimsins.“ í nánari umfjöllun um þennan málaflokk í stefnu Sósíalistaflokksins segir að heimsbyggðin standi frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafi ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta segir flokkurinn afleiðingar styrjalda og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytinga.

„Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldursamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð,“ segir í stefnu Sósíalistaflokksins.

Stjórnarandstaðan sem segir flóttamenn of marga

Kjósendahópar tveggja flokka skera sig úr, samkvæmt könnun MMR, og telja að meirihluta að of mikill fjöldi flóttafólks fái hæli á Íslandi í dag. Heil 87 prósent kjósenda Miðflokksins segja flóttamenn of marga á landinu og 59 prósent þeirra væntu kjósenda Flokks fólksins sem svöruðu könnuninni.

Auglýsing

Þessi viðhorf til móttöku flóttamanna endurspeglast nokkuð skýrt í stefnu Miðflokksins, sem vill endurhugsa alla mótttöku flóttamanna á Íslandi, segir að „kerfi hælisveitinga“ sé í „ólestri á Íslandi“ og þarfnist gagngerrar endurskoðunar. Flokkurinn setur fólk á flótta í samhengi við glæpastarfsemi í kosningastefnu sinni, sem er sett fram á vef flokksins.

„Ótækt er að Ísland verði í auknum mæli að áfangastað glæpagengja sem féfletta hælisleitendur og leggja þá í stórhættu þegar nágrannalöndin hafa mætt þessum veruleika og náð árangri,“ segir þar., en flokkurinn segist telja „rétt að líta til stefnu danskra jafnaðarmanna hvað varðar endurskoðun hælisleitendakerfisins“ og segir að þannig muni „það fjármagn sem er til ráðstöfunar nýtast sem best til að hjálpa þeim sem mest eru hjálpar þurfi“.

Flokkur fólksins skilar síðan svo gott sem auðu í flóttamannamálum. Ekkert má finna í þeirri stefnu flokksins sem birt er opinberlega á vefnum um hvernig skuli standa að móttöku fólks á flótta.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar