Ástæða þess að kannanir í aðdraganda þingkosninganna í Bretlandi í maí voru svo á skjön við niðurstöður kosninganna sjálfra var kosningaþátttaka væntanlegra kjósenda Verkamannaflokksins. Þeir skiluðu sér illa á kjörstað.
Þetta er niðurstaða bresku kosningarannsóknarinnar sem birt var í gær. Þar er reynt að svara því hvers vegna kannanir sýndu fylgi Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins hnífjafnt síðustu mánuðina áður en talið var upp úr kjörkössunum. Verkamannaflokkurinn hafði jafnframt mælst stærstur nær allt kjörtímabilið frá 2010.
Íhaldsflokkurinn hlaut á endanum 36,1 prósent atkvæða en Verkamannaflokkurinn 29 prósent. David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, gat jafnframt myndað stjórn eins flokks stjórn að kosningum loknum því flokkurinn hlaut meira en helming þingsæta. Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, sagði af sér formennsku í flokknum í kjölfar kosninga.
Bresku kosningarannsókninni svipar til þeirrar íslensku og er gerð í beinu framhaldi af þingkosningum í Bretlandi. Kosningarannsóknin hefur verið framkvæmd síðan 1964 og miðar að því að kortleggja stjórnmálahegðun þjóðarinnar á hverjum tíma.
Fimm líklegar skýringar
Bresku stjórnmálarannsakendurnir lögðu til fimm líklegar skýringar sem voru prófaðar. Líklegasta skýringin á þessu mikla fylgistapi Verkamannaflokksins er léleg kjörsókn væntanlegra kjósenda flokksins. Jafnvel þó kjörsókn hafi verið 66,4 prósent í kosningunum segjast 91,6 prósent þátttakenda í rannsókninni hafa kosið.
Jafnvel þó þessi mikli munur gefi til kynna að úrtak svarenda sé skekkt, þannig að þeir sem eru í úrtakinu séu áhugasamari um kosningar en hinn almenni kjósandi, gefur þetta vísbendingu um tilhneigingu svarenda í könnunum til að segjast hafa kosið eða ætla að kjósa. Aðrar rannsóknir hafa bent til samskonar tilhneiginga.
Til dæmis sögðust 3-6 prósent svarenda í fylgiskönnun þegar hafa póstlagt atkvæði sitt, jafnvel þó póstseðlar hefðu ekki verið gefnir út. Þá sögðust 46 prósent þátttakenda hafa kosið í Evrópuþingskosningunum í fyrra, jafnvel þó þeir hafi ekki getað sýnt fram á að hafa mátt kjósa. Í þessum dæmum eru væntanlegir kjósendur Verkamannaflokksins í miklum meirihluta.
Stjórnmálafræðingar höfðu nokkrar tilgátur um hvað hafi valdið þessari skekkju milli fylgiskannana og niðurstaðna kosninga. Ástæðan var á endanum einföld: Fleiri sögðust ætla að kjósa en gerðu það.
Aðrar skýringar, sem þó þykja ekki jafn líklegar og sú sem hefur verið rakin, voru lagðar fram. Tvær skýringar voru strax hraktar við frumskoðun; en verulega ólíklegt er talið að óákveðnir kjósendur hafi haft nógu mikil áhrif á fylgi flokkana til að skýra niðurstöðurnar. Auk þess jókst fylgi Íhaldsflokksins ekki í kosningarannsókninni miðað við kannanir fyrir kosningar svo mjög ólíklegt er að síðbúin fylgissveifla hafi orðið.
Þriðja kenningin var að íhaldsmenn væru einfaldlega feimnir við að gefa upp stjórnmálahneigð sína í könnum og rannsóknum. Þar ræður búseta fólks miklu enda ólíklegra að íhaldsmenn séu feimnir við að gefa upp afstöðu sína í íhaldskjördæmum. Það er hins vegar líklegra að þeir forðist það í verkamannaborgum á borð við Sunderland. Vísbendingarnar um að þessi kenning sé röng eru nokkuð sannfærandi því, þvert á við það sem fyrirfram var haldið, voru íhaldsmenn feimnastir í íhaldskjördæmunum.
Síðasta kenningin er hins vegar af tæknilegra tagi. Þar var lagt upp með að könnunaraðferðir og -úrtök hefðu falið raunverulega afstöðu þýðisins.